Hlekkir, 10. ágúst 2018

Guardian tók saman myndasafn af fallegum bókasöfnum víðs vegar um heiminn. Fíla alltaf svona samantektir.

Vanity Fair birti nýlega kafla úr endurminningum dóttur Steve Jobs, en kaflinn gefur til kynna að Jobs hafi verið umtalsvert betri frumkvöðull en faðir. Við þökkum Hallgrími Oddsyni kærlega fyrir ábendinguna.

Heldurðu að þú sért ekki góð/ur í stærðfræði? Þessi fína grein í Atlantic gæti talið þér hughvarf.

Í tilefni þess að bandaríski rithöfundurinn James Baldwin hefði orðið 94 í síðustu viku tók Literary Hub saman nokkur viskukorn frá honum um hvernig maður á að skrifa.

Ég skrifaði í þarsíðustu viku um bókina Conspiracy eftir Ryan Holiday sem ég mæli mikið með. Hann skrifaði nýlega góða grein sem er eins konar óður til bókaverslana. Tek mikið undir það sem hann hefur að segja. (KF.)

Lorrie Moore (frábær smásagnahöfundur) ritar greinarkorn um kollega sinn Rachel Cusk í NYRB. Cusk er höfundur lofaðs skáldsagnaþríleiks sem áður hefur verið tekinn til umfjöllunar í Leslistanum. Í sem stystu máli er Moore afar hrifin af Cusk og kallar hana „drottningu iðrunarinnar“.

Alia Ghanem, móðir Osama bin Laden, tjáir sig í fyrsta skipti opinberlega um son sinn. (SN.)

Uppgötvaði frábært blogg sem heitir Slate Star Codex og fjallar um vísindi, tölfræði, rannsóknir og margt fleira skemmtilegt. Hér kafar höfundur bloggsins í nýjustu rannsóknir um krabbamein og reynir að leggja mat á hvort krabbameinstilvikum hafi farið fækkandi. Ótrúlega vönduð og vel rannsökuð grein.

Yuval Noah Harari var til umfjöllunar í síðasta lista en hann er orðin eins konar ofurstjarna eftir að hann gaf út bókina Sapiens fyrir nokkrum árum. Ég mæli persónulega mikið með henni en þó síður með Homo Deus, sem fylgdi Sapiens eftir. Nú er væntanleg ný bók eftir hann, sem mun eflaust slá í gegn. Hér er hann í viðtali vegna bókarinnar við Guardian og hér er nýja bókin tekin í bakaríið af gagnrýnanda Literary Review. (KF.)

Freyr Rögnvaldsson tekur óvenju langt og vandað viðtal (miðað við íslenskan samtímastandard) við Ragnar Aðalsteinsson, lögfræðing. „Skoðun Ragnars er því sú að á sviði efnahagslegra og félagslegra mannréttinda færumst við Íslendingar aftur á bak og að það sé túlkun dómara sem þar ráði mestu.“

Í helgartímariti The New York Times var að þessu sinni aðeins ein löng og ýtarleg grein. Sú fjallaði um vangetu bandarískra valdamanna til að bregðast við loftslagsbreytingum á níunda áratugnum og afstýra hörmungum meðan enn var kannski mögulegt. Greinin hefur sætt mikilli gagnrýni af hálfu vísindamannarithöfunda á borð við Naomi Klein og aktívista, enda byggist útleggið í henni á miklum einföldunum: ástæða þess að við brugðumst ekki við ógnvænlegum teiknum á sínum tíma, samkvæmt Nathaniel Rich, greinarhöfundi, skrifast á „mannlegt eðli“ frekar en ákvarðanir örsmárrar valdaelítu og kapítísks tangarhalds hennar á heimsbyggðinni. Þessi útgangspunktur Rich finnst mér minna á eitthvað sem greindur og dekraður menntaskólanemandi kynni að halda fram í samræðu við foreldra sína í fyrsta skipti sem þau drekka öll saman bjór, og því er þetta heldur brothætt burðarstoð í langri úttekt hjá einu þekktasta dagblaði heims. Frásögnin er engu að síður vel rituð og lestursins virði (sumum kann þó að finnast þreytandi hvernig greinarhöfundur lýsir nær alfarið kjörkuðum körlum sem vinna náttmyrkranna á milli meðan þolinmæðar eiginkonur bíða skilningsfúsar heima).

Jón Karl Helgason fjallar um Íslendingasögur og Manga.

Nafni Jóns Karls, Kalman, birti greinarstúf á dönsku í Information um Piu Kjærsgaard-málið. Læði þessu með aðallega vegna þess að danskan er svo notalegt tungumál.

Hér er svo önnur grein úr Stundinni um breska auðkýfinginn James Ratcliffe sem stundar um þessar mundir að eigin sögn mikið góðgerðarstarf með því að kaupa upp stór landsvæði á Íslandi í því skyni að vernda fiskistofna. Ég kann Ratcliffe miklar þakkir fyrir þetta fórnfúsa starf hans og vona að fleiri góðhjartaðir auðmenn taki sig til og kaupi upp allt Ísland á næstu árum. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s