Bækur, 17. ágúst 2018

„I am a survivor from the golden age of journalism, when reporters for daily newspapers did not have to compete with the twenty-four-hour cable news cycle, when newspapers were flush with cash from display advertisements and want ads, and when I was free to travel anywhere, anytime, for any reason, with company credit cards.“ 

Svo hefst Reporter, ævisaga Seymours M. Hersch, eða Sy, eins og hann er jafnan kallaður, og kannski væri réttara að tala um starfssögu hans frekar en ævisögu, einkalífið er ævinlega í bakgrunni og eflaust má setja samasemmerki þar á milli, maðurinn virðist ævinlega hafa lifað fyrir starf sitt sem blaðamaður. Hersch er sennilega einhver áhrifamesti og öflugasti blaðamaður Bandaríkjanna á síðari hluta tuttugustu aldar (í hið minnsta að eigin mati, en hann státar augljóslega af tröllvöxnu egói) og hefur ýmist skúbbað eða fjallað rækilega um flest stærstu mál samtímans. Hann skrifaði einna fyrstur manna gagnrýnar greinar (og síðan bók) um tilraunir bandaríska hersins með efnavopn, barðist ötullega gegn Víetnam-stríðinu og afhjúpaði My Lai-fjöldamorðið – ég þurfti stundum að leggja bókina frá mér í þeim kafla – og svona mætti áfram telja. Ekkert hefur verið honum óviðkomandi, hvort sem um ræðir Watergate (hann spilaði þar lykilhlutverk sem blaðamaður NYT), Henry Kissinger, innanlandsnjósnir CIA, Jack Kennedy, 11. september, morðið á Osama bin Laden, Abu Ghraib og pyntingar Bandaríkjahers í Íraksstríðinu, Assad og Sýrland … Bakgrunnur hans er hógværðarlegur. Faðirinn rak lítið þvottahús og drengurinn fór ekki í Ivy League-skóla, gafst upp á námi í Chicago og vann sig svo smám saman upp metorðastigann. Hann starfaði á litlu héraðsblaði, stofnaði annað slíkt sjálfur, landaði síðan starfi hjá Associated Press og endaði á að skrifa fyrir Harper’s, The New York Times, The New Yorker og nú síðast The London Review of Books. Þá hefur hann skrifað í samstarfi við marga af þekktustu ritstjórum bandarískrar blaðamennsku, meðal annars Abe Rosenthal hjá NYT og Tinu Brown og David Remnick hjá The New Yorker. Ég brenndi í gegnum þessa bók á tveimur sólríkum sumardögum og þótti hún stórskemmtileg. Stíllinn ber með sér að Hersch hefur varið ævinni í að fullkomna list sína og hann er naskur sögumaður, hefur geðþekka og notalega nærveru á bókarsíðunni. Afar fróðleg bók fyrir þá sem hafa áhuga á blaðamennsku, skrifum, sögu Bandaríkja á seinni hluta 20. aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu og fyrstu. (SN.)

Ég er kominn langt með virkilega áhugaverða bók sem heitir Tyranny of Metrics og er eftir sagnfræðinginn Jerry Z. Muller. Bókin tekur á málefni sem ég hugsa mjög mikið um – þ.e. hvenær mælingar og gagnagreiningar á öllum andskotanum hætta að gera gagn og fara jafnvel að valda skaða. Skýrasta dæmið um þetta, sem allir þekkja, er þegar kennarar einblína um of á að nemendur nái árangri í samræmdum prófum vegna þess að sá mælikvarði er farinn að skipta meira máli en raunverulegur námsárangur barna. En dæmin eru mun fleiri og ná inn á nánast öll svið samfélagsins. Svo spillir ekki fyrir að Muller dregur fram gátlista undir lok bókarinnar um hvernig maður á að nota mælikvarða við ákvarðanatöku. (KF.)

Bjartur gefur út frábæra bókaröð sem ýmsir góðir þýðendur og ritstjórar eiga hlut í að setja saman: Smásögur heimsins. Fyrst kom út úrval sagna frá Norður-Ameríka og nú síðast sögur frá Rómönsku-Ameríku – þá síðarnefndu hef ég verið að glugga í að undanförnu. (Smásagnasöfn eru stundum eins og ljóðabækur: maður les þær í smáskömmtum yfir langt tímabil.) Bestu sögurnar eru ekki eftir þekktustu nöfnin – Borges, Marquez, Cortázar – heldur höfunda sem ég kunni lítil deili á fyrir lesturinn. „Tréð“ eftir Maríu Luisa Bombal er til dæmis eftirminnileg og annar góður höfundur, brasílískur, er einnig farþegi um borð, sjálf Clarice Lispector. New Directions gaf fyrir ekki svo ýkja löngu út heildarsafn á smásögum hennar – það er önnur bók sem ég hef verið að lesa í smáskömmtum yfir langt tímabil: frábær – en fyrir nokkrum dögum tók ég mig til og las einnig fyrstu skáldsöguna hennar (á ensku, því miður, ef ég aðeins kynni spænsku); Near to the Wild Heart nefnist sú. Sú kom út þegar Clarice var aðeins 23 ára gömul og hlaut hún mikið lof fyrir frumraunina. Sumpart ber skáldsagan ungum aldri höfundarins merki – svolítið brokkgeng: sumir kaflar frábærir, aðrir þannig að maður flettir hratt yfir þá og roðnar svolítið – en um leið leiftrar bókin af snilld og andagift höfundarins: það er langt síðan mér hefur fundist ég þurfa að strika undir heilu málsgreinarnar í skáldsögu. Ég mun lesa fleiri bækur eftir Clarice og langar einnig að lesa ævisögu um þessa heillandi konu, sem mér finnst ekki síðri höfundur en Borges. En aftur að Smásögum heimsins; mér skilst á áreiðanlegum heimildarmanni að þriðja safnið sé væntanlegt, að þessu sinni með þýðingum á sögum frá Asíu. Það er tilhlökkunarefni.

Ég er annars staddur yfir nótt í íbúð í París þar sem ég á stundum leið um og þá skil ég oft við mig nýlesnar bækur til að létta farangurinn. Nú rek ég augun í tvær kiljur hér í hillu við höfðalagið (ég er á leiðinni í háttinn). Fyrsta ber að nefna The Unwinding eftir George Packer. Það er aldeilis prýðileg bók. Ég hef mælt með henni við ófáa vini og vandamenn og oft gefið hana í gjafir. Góð lesning fyrir þá sem vilja fá innsýn í hvernig bandarískt samfélag hefur þróast á síðustu áratugum. Packer er frábær sögumaður og í bókinni rekur hann ævihlaup nokkurra bandaríkjamanna, bæði þekktra auðmanna á borð við peninga-illmennið Peter Thiel, stofnanda PayPal, og (stuttlega) peningarapparans Jay Z, en einnig fólks af minni efnum, svo sem Tammy Thomas, afrísk-amerískrar konu frá Youngstown, Ohio, sem ekki hefur átt sjö dagana sæla, og Dean Price, sem kemur af fjölskyldu tóbaksbænda í Norður-Karólínu. Þannig fæst smátt og smátt merkilega góður þverskurður af bandarísku samfélagi. Hin bókin, sem leynist hér í hillunni, er Literature Class eftir Julio Cortazar. Ég man ekki alveg hvernig hún rataði á fjörur mínar; mig minnir að ég hafi keypt hana á einhverri agnarlítilli bókamessu í New York. Þetta eru enskar þýðingar á fyrirlestrum sem Cortazar flutti á spænsku í Berkeley árið 1980. Höfundurinn fjallar um eigin bækur, suður-amerískar bókmenntir og pólitík, tuttugustu öldina. Ég man að mér þótti þetta skemmtileg lesning þó að inntakið sitji svo sem ekki mjög sterkt í mér. En ég er líka orðinn svo gleyminn og gamall – komið mál að slökkva ljósin. Góða nótt! (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s