Bækur, 24. ágúst 2018

Stundum les ég bækur án þess að skilja þær fyllilega en hef engu að síður ánægju af þeim. Fyrir viku las ég í þrúgandi hita og stórborgarmengun heimspekirit eftir mannfræðinginn Marc Augé, The Future, sem einn ráðunauta Leslistans, Fríða Björk Ingvarsdóttir, minntist á í viðtali við okkur nýlega. Hmm, forvitnilegt, hugsaði ég, og tók svo til minna ráða: varð mér úti um eintak. Bókin fjallar meðal annars um áhrif kapítalismans á plánetuna – framtíðarhorfur mannkyns, sem eru bágar – og alþjóðavæðinguna og mikilvægi menntunar í framtíðinni, þörfina á því að komandi kynslóðir sé uppfræddar og meðvitaðar um þau skaðvænlegu áhrif sem við höfum haft á lífkerfi jarðarinnar og að menntakerfið sé starfrækt óháð „kröfum atvinnulífsins“ (að peningahugsun mái ekki endanlega út húmanismann). Augé málar upp allmyrka mynd af samfélögum manna í dag: lýðræði er að mestu einungis við lýði að nafninu til og hin sönnu valdaöfl eru fjárhagsleg; lítil peningaelíta heldur utan um stjórnartaumana og hefur í raun meiri völd en ríkisstjórnir einstakra landa. Og svo framvegis – þetta er sem sagt lauflétt sólstrandarlesning. Annars á ég afar bágt með að súmmera upp efni þessarar bókar í stuttu máli (ég veit ekki einu sinni hvort mér líkaði hún vel eða illa). Víkjum því að öðru áður en þetta verður vandræðalegt.

Guy Delisle vann að S’enfuir; récit d’un otage (Flóttinn; frásögn manns í gíslingu) yfir fimmtán ára tímabil. Bókin er byggð á sannri frásögn Christophe André, sem var rænt við mannúðarstörf í Kákasusfjöllum árið 1997. Farið var með hann til Tsjetseníu og honum haldið í gíslingu í 111 daga. Ég las bókina, sem er líkt og önnur verk Delisle grafísk skáldsaga, í einni striklotu – allir aðrir í húsinu voru sofnaðir svo að ég fékk frið og næði – og mér fannst hún afar sterk. Við dúsum með Christophe í prísundinni ýmist hlekkjuð við miðstöðvarofn eða þá að okkur er troðið inn í kústaskáp; við borðum sömu máltíðina aftur og aftur (þurrt brauð, súpu); við reynum í angist að upphugsa flóttaleiðir. Lesandinn öðlast mikla samúð með gíslinum, sem hefur ekki hugmynd um hvers vegna honum var rænt eða hvað mannræningjarnir hafa í hyggju – tungumálaörðugleikar – alveg þangað til þeir ná loks sambandi við fjölskyldu hans og atvinnuveitendur og krefjast þess að fá eina milljón dollara í lausnargjald. Þetta er bók sem minnir okkur á undur og galdra einfaldra hversdagsnautna. Christophe lætur sig dreyma um að komast aftur heim til Parísar og sitja á kaffihúsi, lesa bók, hlusta á plötu, fara í bíó eða göngutúr, og þegar mannræningjarnir gera vel við hann – gefa honum sígarettu eða kjötbita – er nautnin nær takmarkalaus. Einu hjó ég eftir í þessu samhengi. Allan þann tíma sem Christophe hinn ungi dúsir í gíslingu, leitar hugur hans ekki einu sinni (samkvæmt frásögninni) á kynferðisleg mið. Hátt í fjórir mánuðir í einangrun: ekki einn blautur draumur. Svei mér þá. Nei, hann saknar bara kaffihúsa, bóka, tónlistar. Höfundur verksins, Guy Delisle, er lofaður myndskreytir og höfundur fjölmargra bóka sem oftar en ekki fjalla um ferðalög og búsetu á framandi stöðum (í hugum vestræns fólks) á borð við Jerúsalem og Búrma. Þá hefur hann ritað um ævintýri sín sem (vondur) pabbi. Ég mæli með verkum hans; sumar bókanna hafa verið þýddar yfir á ensku og svo er líka kjörið fyrir þá sem vilja æfa sig í frönskunni að lesa vandaðar teiknibækur.

Og enn um franska teiknara: Ég hef áður lýst hrifningu minni á verkum Joanns Sfar, sem er eitthvert magnaðasta framleiðsluhross á Vesturlöndum hvað snertir listrænar afurðir. Hann hefur sent frá sér ótal (og ótrúlega jafngóðar) myndasögur, en einnig kvikmyndir og skáldsögur. Í Comment tu parles de ton père (Hvernig maður talar um pabba sinn), sannsögu sem einungis geymir ritaðan texta, lýsir hann sambandi sínu við skrautlegan og krefjandi föður, gyðing sem upprunninn var í Alsír og starfaði sem lögfræðingur (og mikill kvennabósi) í Nice. Allir höfundar virðast, fyrr eða síðar, rita bók um föður sinn – ég hef, án þess að það hafi verið markviss stefna, af einhverjum ástæðum lesið aragrúa slíkra bóka upp á síðkastið – og þessi er góð þó hún sé hvorki meðal eftirminnilegustu uppgjöra af slíkum toga né meðal bestu verka Sfar. Betri upphafspunktur af verkum hans væri, að mínu viti, Les carnets de Joann Sfar, einkum ein hinna fyrstu, eða þá kvikmyndin sem hann gerði um ævi Sergé Gainsbourg.

Af ýmsum ástæðum finnst mér alltaf jafn gaman að koma í bókabúðir í Frakklandi (og jafnvel kaupa nokkar vel valdar bækur sem þar eru til sölu). Síðustu daga hef ég keypt allnokkrar – fleiri en tíu en færri en tuttugu – og kemst ekki hjá því að taka eftir verðmuninum á íslenskum og frönskum bókum. Í Les cahiers de Colette, gamalli eftirlætisbúð, keypti ég fimm bækur, tvær nýlegar, þrjár eldri, og samanlagt kostuðu þær minna en ein ný íslensk skáldsaga gerir að jafnaði. Að kaupa franska bók er því ekki stór fjárhagsleg ákvörðun. Dæmi: vinkona okkar eignaðist barn fyrir nokkrum dögum og við keyptum handa henni fjórar skáldsögur sem samanlagt kostuðu helmingi minna en ein ný íslensk skáldsaga. (Að gefa einhverjum fjórar íslenskar skáldsögur kostar álíka mikið og nýtt reiðhjól – eða utanlandsferð.) Þá eru frönsku bækurnar oftar en ekki meðfærilegar og henta vel í vasa; allt er þetta kaup- og leshvetjandi og bendir til þess að bækurnar séu hugsaðar til lestrar frekar en sem stofustáss. Fyrir þá sem eru að deyja úr forvitni, þá eru bækurnar fimm sem ég keypti hjá henni Colette bóksala þessar: Þrjár eftir hina frábæru Maylis de Kerangal (Dans les rapides, Naissance d’un pont (sú er til á ensku sem The Birth of a Bridge) og Tangente vers l’est), Poétique de l’emploi eftir Noémi Lefebvre og Vernon Subutex eftir Virginie Despentes. Eigandi búðarinnar, sjálf Colette, sat við afgreiðsluborðið og spjallaði af innfjálgi við kúnnana. Hún var – að sjálfsögðu – með stóran doðrant, hálf-lesinn, fyrir framan sig. Hún hrósaði mér sérstaklega fyrir að kaupa svona margar bækur eftir „hæfileikaríkar konur“. (Ég hafði ekki áttað mig á því að ég væri einungis að kaupa bækur eftir konur, en varð auðvitað afar upp með mér – og ákvað að minnast sérstaklega á þetta í Leslistanum.) Að svo búnu lýsti Colette því yfir að þrátt fyrir að hún væri eitilharður femínisti, þá þætti henni fáránleg barátta margra femínista fyrir því að nútralísera málfræðilegt kyn í tungumálinu. Í frönsku er karlkyn mjög ríkjandi, rétt eins og gildir – en þó í minna mæli – um íslenskuna. („Hann rignir“ og svo framvegis.) Colette finnst engin þörf á að reka upp herör gegn málfræðilegum hefðum; hér sé um að ræða málfræði, ekki kynjamismunun. Hún bankaði í doðrantinn sem lá opinn fyrir framan hana og sagði að bókin væri eftir unga (og bráðsnjalla) konu sem skrifaði af ástríðu og tilfinningahita um mikilvægi þess að hnekkja málfræðikerfi frönskunnar og velta karlmyndinni úr sessi og hleypa kvenkyninu að í ríkara mæli – og að útkoman væri yfirmáta heimskuleg. Já, þetta fannst Colette út í hött. Hvað þá um gamla klassíska texta? spurði hún. Þarf nú að breyta þeim? Hvað finnst þér? spurði hún og starði á mig, krefjandi á svip. Ég veit svei mér ekki hvað mér finnst, sagði ég. Mér finnst nógu erfitt að mynda óbrogaðar setningar án þess að þurfa í ofanálag að hafa jafn stór og svimandi álitaefni bak við eyrað í hvert skipti sem ég skrifa innkaupalista eða tölvuskeyti. Svipuð umræða hefur auðvitað einnig verið uppi um íslenskuna. Hvað finnst þér, kæri lesandi? Ég er ekki nógu klár til að svara þessu. En hitt veit ég: að ég hlakka til að lesa allar bækurnar sem ég keypti. Sjáumst í næstu viku! (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s