Bækur, 31. ágúst 2018

Ég er búinn að vera með bókina Against the Gods – The Remarkable Story of Risk í Amazon körfunni minni í mörg ár en af einhverjum ástæðum hef ég aldrei látið verða af því að kaupa hana. Í vikunni rambaði ég inn í Góða hirðinn og, viti menn!, þarna lá hún neðst í einni bókahillunni. Ég keypti hana af sjálfsögðu (á 100 kr!) og hef verið að glugga í hana í vikunni. Þetta er ótrúlega gagnleg yfirferð yfir sögu áhættustýringar og líkindafræðinnar fyrir hvern þann sem hefur áhuga á slíku. Höfundur bókarinnar, Peter L. Bernstein, segir skemmtilega frá því hvernig m.a. Pascal og Fermat leggja grunninn af líkindafræði eins og við þekkjum hana, hvernig munkurinn Bayes lagði fram byltingarkennda kenningu um hvernig nýjar upplýsingar nýtast í líkindareikningi og hvernig þörfin fyrir slíka reikninga jókst eftir því sem heimurinn varð flóknari. Þótt ég viti mikið um þessi mál og hafi lesið mér talsvert til um þau þá fæ ég heilmikið úr því að lesa þessa bók. Allir sem hafa einhvern áhuga á líkindafræði og áhættustýringu ættu að gefa henni gaum. (KF.)

Las í vikunni þrjár bækur eftir sama höfund: Bill McKibben, einn helsta náttúruverndarsinna Bandaríkjanna, hæglyndan og viðkunnanlegan náunga sem hér má sjá í spjalli við nafna sinn, Bill Maher. Í Eaarth; making a life on a tough new planet fjallar McKibben um þau skaðvænlegu áhrif sem við mannkyn höfum haft á plánetuna og fullyrðir að við getum ekki lengur kallað hana sama nafni og áður: Jörðin verður því Jöörðin. We’re changing the most basic dynamics of the only world we’ve only known, ritar McKibben. Hann er afar rökfastur en um leið fyndinn og þægilegur félagsskapur. Þá er hann flinkur sögumaður, sem gerir honum kleift að slengja statistík framan í andlitið á lesandanum án þess að það verði of yfirþyrmandi. Ekki auðveld lesning, en um leið óumflýjanlegt að kynna sér og hugsa um þessi mál og (vonandi í kjölfarið) breyta því hvernig við högum tilveru okkar.

Í eldra verki, Long Distance; testing the limits of body and spirit in a year of living strenously, tekur McKibben sér ársfrí frá störfum sínum sem rithöfundur, fyrirlesari og aktívisti og helgar sig alfarið stífri líkamsþjálfun líkt og hann væri að þjálfa sig upp fyrir þátttöku á Ólympíuleikunum. Hann er þrjátíu og sjö ára gamall og langþreyttur eftir tíu ár af því að lesa lon og don yfir hausamótunum á fólki um hlýnun jarðar og þau katastrófísku áhrif sem af munu hljótast. (Fyrsta verk McKibbens, The End of Nature, kom út árið 1988 þegar hann var aðeins 28 ára að aldri.) Hann hefur lengi haft mikla unun af útivist, einkum skíðamennsku, og ræður til sín þekktan einkaþjálfara til að teikna upp prógram sem á að fleyta McKibben eins langt og mögulegt er í líkamsþoli og úthaldi. Í ár gerir hann ekkert nema hlaupa, skíða, borða, rækta líkamann. Það sem gerir verkefnið áhugavert er að hann hefur enga sérstaka hæfileika umfram aðra í íþróttum – hann er algjör meðalmaður – en langar engu að síður að sjá hversu langt hann getur komist í því að reyna á skrokk sinn og viljastyrk. Í verkinu leynast ýmsar áhugaverðar hugleiðingar um afreksíþróttafólk, líkamsrækt, hugræn og andleg efni. Frásögnin tekur svo kúvendingu þegar faðir McKibbens greinist með ólæknandi heilaæxli. Orðið „úthald“ öðlast nýjar víddir: eftir því sem McKibben vex þrek sem íþróttamaður, snarhnignar heilsu föður hans og þau fjölskyldan þurfa að sýna þolgæði og styrk meðan þau hjúkra gamla manninum og kveðja hann að lokum fyrir fullt og fast.

Þriðja bókin eftir McKibben er skáldsaga, nýjasta verk hans: Radio Free Vermont; a fable of resistance. Sú kom mér skemmtilega á óvart. Hinn 72 ára gamli útvarpsmaður Vern Barclay stofnar ásamt ungum tölvunörd á Asperger-rófi hreyfingu sem hefur að keppikefli að Vermont-fylki skilji sig frá Bandaríkjunum og lýsi yfir sjálfstæði. Bókin gerist í samtímanum (Trump er forseti) og tekur á ýmsum pólitískum málefnum með gamansömum hætti, einkum þó (að sjálfsögðu) loftslagsmálum. Í dæmigerðum bandarískum bókarviðauka þakka McKibben tugum ef ekki hundruðum manns fyrir aðstoðina við smíði verksins og tekur fram að eiginkona sín, Sue Halpern, sé „alvöru skáldsagnahöfundur“ og hafi aðstoðað hann mikið. En það er enginn viðvaningsbragur á þessu hraða og fyndna verki og reynsluminni höfundar gætu raunar lært margt af lestrinum. Persónur eru skýrar og sympatískar og dregnar upp með snörpum en eftirminnilegum strokum. Höfundinum brennur ýmislegt fyrir brjósti, en hann notar kímni og hraða atburðarás til að miðla boðskapnum, og beitir jafnframt nytsamri brellu: Roskni útvarpsmaðurinn sendir út nokkra hlaðvarpsþætti sem sumir hverjir birtast í bókinni og þar gefst höfundi tækifæri á að láta gamminn geysa og koma frá sér með hressandi og skilvirkum hætti – í grípandi rödd útvarpsmannsins – hugleiðingum sem sliga kynnu bókina ef þær væru settar fram í predikunarstíl alviturs sögumanns. McKibben kallar skáldsöguna sjálfur „fabúlu“, eða dæmisögu, og kveður kostinn við slíkt söguform að þá leyfist manni að læða inn móralskri predikun aftast. Boðskapur verksins sé ekki sá að öll fylki Bandaríkjanna ættu að lýsa yfir sjálfstæði heldur frekar frekar sá að þegar lítilsverðir menn (s.s. Trump og kónar hans) ráðast í stóra og heimskulegar framkvæmdir, þá þurfum við hin að streitast á móti og gera það á eins skapandi og snjallan hátt og okkur frekast er unnt og það án þess að glopra niður þeirri borgaralegu tillitssemi sem gerir lífið í samfélagi við aðra ánægjulegt og gott.

Og viti menn, fjórða bókin. (Ég er í fríi án Internets og hef því nógan tíma til lesturs.) Sú nefnist How Should a Person Be? og er eftir Sheilu Heti, annan Bandaríkjamann. Ég hafði lengi haft í hyggju að lesa Heti – hún gaf fyrir ekki svo ýkja löngu út aðra bók sem mig langar að komast yfir: Motherhood – og upplifunin var nokkurn veginn eins og ég hafði búist við. Heti er eitursnjall og sniðugur – og á köflum ákaflega pirrandi – höfundur. Hér fylgjumst við með söguhetju (samnefndri höfundinum) og nokkrum vinum hennar í Toronto, upprennandi listamönnum sem velta því fyrir sér hvernig manneskju beri að hegða sér, hugsa, líta út – vera. Ýmislegt í strúktur bókarinnar er áhugavert, til að mynda uppskriftir að hljóðrituðum samtölum sem Heti hefur átt við (raunverulega?) vini sína og fléttar svo inn í frásögnina. Ég heyrði í viðtali við Heti að hún hefði tekið að hljóðrita samtöl við vini sína fyrir mörgum árum og að samtölin hefðu svo tekið að lauma sér inn í skrif hennar. Oft eru þetta skemmtilegustu kaflarnir. Ég mæli alveg með þessari bók, en hún er þó sama marki brennd og margar (bandarískar, evrópskar) skáldsögur eftir fólk sem er á aldur við mig (aðeins eldra, jafngamalt, yngra): maður fær stundum á tilfinninguna að aðalpersónurnar séu ekki alveg nógu áhugavert fólk til að verðskulda um sig heila bók. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s