Bækur, 7. september 2018

Ég las í vikunni ævisögu Sam Walton, stofnanda Wal-Mart keðjunnar – Sam Walton: Made in America. Hún var að einhverju leyti alveg eins og ég hafði ímyndað mér og að öðru leyti nokkuð óvænt. Þetta er rosalega amerísk frásögn af dugnaði og eljusemi – um mann sem ólst upp í kreppunni miklu, byrjaði með ekkert og endaði sem ríkasti maður Bandaríkjanna. Ég lærði sitthvað um viðskipti, fyrirtækjarekstur og hugvitssemi við lestur þessarar bókar. Walton var alveg ekta frumkvöðull – bæði tilraunagjarn og skapandi en að sama skapi ótrúlega drífandi og fylginn sér. Það er merkilegt að hugsa til þess hvað uppgötvanir hans hafa haft mikil áhrif á daglegt líf allra vesturlandabúa. Þróun matvöruverslana til hins betra (lægra verð, meira úrval) og hins verra (glötuð upplifun, útrýming lítilla verslana) hefur að miklu leyti litast af tilkomu Wal-Mart keðjunnar. Maður veit svosum ekki hvað hefði orðið ef hún hefði ekki komið til sögunnar en það er alveg ljóst að Sam Walton er meðal áhrifamestu kaupsýslumanna síðustu aldar. (KF.)

Ég er hálfnaður með Forest Dark, skáldsögu eftir Nicole Krauss. Rakst á viðtal við hana í einhverju frönsku tímariti og fannst hún virka heillandi. Bókin hefst afar vel, en er virkilega brokkgeng, á víxl grípandi og langdregin. Rithöfundur hverfur frá fjölskyldu sinni og heldur til Ísrael í von um að geta haldið áfram með skáldsöguna sína. Auðkýfingur tekur á efri árum að gefa frá sér eigur sínar og helga sig andlegri leit. Skarast leiðir þeirra? Kraus minnir mig á marga höfunda: Paul Auster, Jonathan Safran Foer, Sebald, Kafka (sem kemur raunar heilmikið við sögu).

Og svo er það örstutt bók, Inadvertent (Why I Write) eftir Karl Ove Knausgaard. Bókin byggist á Windham-Campbell fyrirlestri Knausgaard í Yales og er annað innlegg í þeirri seríu; það fyrsta kom frá Patti Smith. Svo sem ekkert möst að renna í gegnum bók Knausgaard, einkum ekki ef maður hefur áður lesið hann (satt að segja er þetta litla kver svo stutt að ég las það í bókabúðinni áður en ég vissi af, án þess að það væri ætlunin). Í stuttu máli á Knausgaard bágt með að svara því hvers vegna hann skrifar – og hvað hið ritaða orð, skrifaður texti, sé nákvæmlega. (SN.)


Bækur sem við höfum ekki lesið:

Lífið: notkunarreglur
Ég á mér mikla uppáhaldsbók,
 Lífið: notkunarregur (fr. La vie mode d’emploi) eftir George Perec. Rétt er þó að taka fram að ég hef ekki lesið bókina. Eða svo öllu sé nú haldið til haga: Ég hef lesið fystu sextíu blaðsíðurnar. Og það um það bil sex sinnum. Mér líka þær alltaf jafnvel vel, þessar fyrstu sextíu blaðsíður – en lengra hef ég þó aldrei komist. Með smá hártogunum mætti þó segja að ég sé hálfnaður gegnum verkið – 6 x 60 blaðsíður gerir 300 blaðsíður af 641 (veltur að vísu á við hvaða útgáfu er miðað). Annars er saga að segja frá glímu minni við þennan doðrant. Þetta hafa verið mikil átök í áranna rás. Ég man hvar ég komst fyrst yfir eintak af Lífið: notkunarreglur. Það var í fornbókabúð einni í Hampstead Heath í London, sennilega haustið 2010. Ég rambaði niður í kjallara, drekkhlaðinn bókum, og þar leyndist ensk þýðing Johns Bellos, í alveg átakanlega ljótri útgáfu. Ég er hins vegar – líkt og glöggir áskrifendur Leslistans hafa veitt eftirtekt – maður andans en ekki yfirborðsins. Smekkleysi í kápuhönnun aftraði mér því ekki frá því að festa kaup á bókinni! Við búðarborðið bograði afgamall karl sem var svo illa tenntur að brosið á honum hefur verið greypt í minnið á mér æ síðan og verður sjálfsagt meðal þess síðasta sem líður fyrir hugskotssjónum mér rétt fyrir andlátið. Nóg um það. Síðdegis sama dag las ég fyrstu sextíu blaðsíðurnar af Lífið: notkunarreglur á kaffihúsi í Camden Town og þótti mikið til þeirra koma. En lengra komst ég ekki að sinni. (Lífsstíll minn á þessum tíma var afar kaótískur.) Líður nú og bíður … og á vafri mínu um Internetið einn daginn, mörgum mánuðum síðar, sé ég að út er komin uppfærð útgáfu af enskri þýðingu Johns Bellos á Lífið: notkunarreglur – með svona líka fáránlega töff kápu! Ekki get ég farið að lesa einhverja gamla og úrelta útgáfu, hugsaði ég með mér, og það með ljótri kápu. Vafningalaust pantaði ég mér því eintak af nýju gerðinni með flottu kápunni. Um leið og bókin barst með pósti settist ég skyldurækinn út á svalir og las fyrstu sextíu blaðsíðurnar. Mikið er þetta góð bók! hugsaði ég með mér. Því miður komst ég þó ekki lengra að sinni; ég var á leiðinni í ferðalag. Hvað ætti ég að lesa á ferðalaginu? Ekki Lífið: notkunarreglur, ég nenni ekki að burðast með slíkan hlunk í töskunni. En hvað ef ég les hana bara á Kyndlinum? hugsaði ég með mér. Jú: Ég kaupi rafútgáfuna. Í flugferðinni – mig minnir að ég hafi verið á leiðinni til Vínarborgar – les ég svo fyrstu sextíu blaðsíðurnar og fundust þær afar áhugaverðar og hugljómandi. En þegar ég kem til Vínarborgar tóku við önnur ævintýri … Ævintýri sem ekki eru við hæfi viðkvæmra og fínt stilltra lesenda Leslistans! Þær lýsingar bíða betri tíma. Til að gera langa sögu stutta þjóta nú hjá nokkur ár. Mér að óvörum er ég skyndilega búsettur í París. Ég er meira að segja tekinn að læra frönsku. Og mér verður, líkt og svo oft, ratað inn í bókabúð. Nei, blasir þá ekki við mér eintak af Lífið: notkunarreglur! Og það á frummálinu auðvitað. Nei, sveiattan, ekki get ég farið að lesa þetta masterpís á ensku, hugsa ég og ákveð að gera atlögu við frumtextann. Já, ekki spurning! Án þess að hika slengdi ég eintaki á búðarborðið og segi: „Fæ þessa, takk,“ hugdjarfur á svip. Síðdegis sama dag les ég svo fyrstu sextíu blaðsíðurnar af La vie mode d’emploi á kaffihúsi í Belleville og nú kom sér vel að hafa áður lesið þær þrisvar sinnum á ensku. Og það var engum blöðum um það að fletta: bókin er náttúrlega miklu betri á frönskunni! Þvílík bók! Ekki kemst ég þó lengra með lesturinn í þetta skiptið og einhvern veginn hafnar þriðja fysíska eintakið af verkinu við hlið ensku þýðinganna tveggja uppi í bókaskáp. (Glöggir lesendur ættu að hafa veitt því gaum að ég hafði nú fjárfest fjórum sinnum í verkinu.) Nokkrum árum síðar er ég svo staddur á Íslandi. Ég er í heimsókn hjá foreldrum mínum og rek augun í eintak af Lífið: notkunarreglur í einum af fjölmörgum bókaskápum pabba. Þetta er franska útgáfan. Stal sá gamli eintakinu mínu? hugsa ég. Útsmoginn er hann! Ég blaða hratt í gegnum fyrstu sextíu blaðsíðurnar (þvílík leikgleði, þvílík stílsnilld!) og inni svo föður minn eftir skýringum. Upp úr dúrnum kemur að bókin er hans prívat eign, pöntuð af Internetinu. Ólesin, að sjálfsögðu. En væri ekki auðveldara fyrir þig að lesa hana á ensku? spyr ég. Heyrðu, ég á hana líka á ensku, segir pabbi – og leiðir mig að öðrum bókaskáp. Þar leynist þá hin uppfærða útgáfa Johns Bellos (NB: ólesin) … og það í tveimur útgáfum! Áttu þrjú eintök af bókinni? spyr ég undrandi og bæti því við að ég eigi fjögur: þrjú fysísk og eitt raf. Já, æ, ég pantaði óvart tvö eintök af ensku gerðinni, segir pabbi og brosir afsakandi. Síðan bætir hann því við að hann eigi raunar ekki þrjú eintök. Hann leiðir mig að enn öðrum bókaskáp. Ég á fjögur, segir hann og bendir mér á enn eina útgáfuna – í þetta skiptið á dönsku! Livet – en brugsanvisning. Ég tylli mér með hana í hægindastólinn – helli upp á kaffi – og skauta gegnum fyrstu sextíu blaðsíðurnar. Æ, alltaf svo notalegt tungumál, danskan! Kannski ég ætti bara að lesa Lífið: notkunarreglur á dönsku? En lengra kemst ég því miður ekki að sinni: daginn eftir á ég bókað flug til Frakklands og ekki get ég farið að rogast með þennan doðrant með mér. Svo að ég hala henni niður á nýja Kyndilinn minn ef vera kynni að mig langaði að glugga í hana í flugvélinni … Það geri ég reyndar ekki. En þegar kem á ákvörðunarstað, í gamalt hús frá nítjándu öld í litla smábænum Tauves, í Mið-Frakklandi, hegg ég eftir því að á litlu borði í svefnherberginu mínu liggur eintak af Lífið: notkunarreglur. Fyrsta útgáfa, frá 1978! Ég kippi bókinni með mér út í garð. Veðrið er frábært. Sólskin og skafheiður himinn! Dóttir mín er sofnuð í barnavagninum. Aðrir húsgestir eru farnir út í göngutúr. Algjör kyrrð. Næði. Friður.
Og ég tek að lesa …
(SN.)

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s