Af netinu, 14. september 2018

Bandaríkjamenn, einkum pólítíkusar og atvinnurekendur, hamra á því að fleiri störf séu lausnin á fátæktarvanda þjóðarinnar og leiði til velsældar og aukinnar hamingju. Samkvæmt þessari grein í The New York Times er sú alls ekki raunin. Atvinnuleysi í landinu er lítið og nóg af störfum í boði, en vandinn sá að flest starfanna eru svo illa launuð og tryggingar lélegar. Jafnvel þó að fólk vinni myrkranna á milli nær það ekki endum saman og hefur jafnvel ekki efni á að leigja sér þak yfir höfuðið. Hið heimilislausa vinnuafl er nýtt hugtak í Bandaríkjunum. (SN.)

Hér er ágætis greining á þróun sem hefur því miður átt sér stað of lengi í listheimum. Auðmenn þrýsta upp verðinu á listaverkum sem gerir það að verkum að miðstéttinni er bolað út af markaðnum.

Grein um hættur þess að verðleggja bækur of lágt. Góðar pælingar fyrir þá sem eru að skrifa og/eða gefa út rafbækur. (KF.)

Hér skrifar pabbi sem fílar ekki pabbahlutverkið. Ég fíla reyndar ekki þennan pabba og þann tón sem hann slær í greininni, en hugleiðingin er áhugaverð. Nútímapabbinn fær sjokk þegar það rennur upp fyrir honum að barnauppeldi er ekki einungis skemmtilegur leikur – fótbolti eða stangveiði með lotningarfullum syni – heldur oft einhæft og krefjandi og langdregið. Þá kveinkar hann sér undan þeirri staðreynd að barnið geti ekki enn myndað flóknar og greindarlegar málsgreinar og, að því er virðist, rabbað við sig um vísindaleg álitaefni.

Þorgeir Tryggvason, ráðunautur Leslistans þessa vikuna, las Biblíuna og staldraði við eftir hvern kafla/bók og skrifaði vangaveltur. Lesverkefni þetta stóð í nokkur ár. Auðvelt að gleyma sér við að kafa í þessa síðu.

Elisa Gabbert segir að uppáhaldsstaðurinn hennar á bókasafninu sé hillan með nýlega skiluðum bókum. Þar sé að finna eins konar hlutlaust rými, ekki kyrfilega skipulagt af neinum, heldur ráði hendingin – og raunverulegur lestraráhugi bókasafnsgesta – ferðinni. Skemmtileg pæling. (SN.)

Paul Holdengraber ræðir hér við Sjón í skemmtilegu viðtali.

Hér er píanistinn frábæri Víkingur Heiðar Ólafsson í viðtal við Morgunblaðið. Nýjasta platan hans er algjörlega tryllt.

Nú á ég tvö börn á grunnskólaaldri og hef átt í vandræðum með að finna áhugavert lesefni sem hentar þeim. Svo rambaði ég á þessa ágætu samantekt á vefsíðunni Lestrarklefinn. Gaman af þessu.

Áhugaverð hugleiðing um listina frá Ólafi Elíassyni. (KF.)

Umhverfisvænu götumálin þín munu ekki bjarga plánetunni, nei, ekki að mati George Monbiot, greinarhöfundar The Guardian. Götumálin séu aðeins enn ein birtingarmynd klækja stórfyrirtækjanna sem vilja að við höldum óuppteknum hætti í heilalausri neyslu okkar.

Jóhann Helgi Heiðdal skrifar um nýja þýðingu á verki eftir Dostojevskí, Hinum smánuðu og svívirtu, skáldsögu sem Kári hefur áður minnst á hér á þessum vettvangi.

“How much was the direction of the internet influenced by the perspective of nineteen-, twenty-, twenty-one-year-old well-off white boys?’ That’s a real question that sociologists will be studying forever.” Úr The New Yorker. Um Mark Zuckerberg og Facebook. (SN.)

Til að hlusta á:

Sodajerker on Songwriting nefnist hlaðvarp sem ég hef hlustað á í mörg ár, næstum frá því að þeir Simon Barber og Brian O’Connor sendu út fyrsta þáttinn. Í hverjum þætti rabba þeir við nýtt söngvaskáld og fara í saumana á listinni að semja lög. Þeir félagar eru gamlir vinir og hafa afslappaða nærveru – eða fjarveru, þar sem þetta er útvarpssþáttur – og ekki spillir fyrir að þeir eru fyndnir, leiftrandi klárir og ótrúlega vel að sér í músík. Nú eru þættirnir orðnir hundrað tuttugu og tveir og það hefur verið gaman að fylgjast með því hvernig hróður þeirra hefur smám saman breiðst út. Árum saman börðust þeir við að fá til sín þekkta lagahöfunda en nú er svo komið að stórstjörnur virðast keppast við að komast í þáttinn. Síðast var það sjálfur Paul McCartney sem mætti til leiks – en hann var það söngvaskáld sem þá drengi dreymdi helst um að fá til sín í spjall þegar þeir ýttu úr vör með þættina fyrir mörgum árum. Svona rætast draumarnir. Ég mæli með því að kafa í ríkulegt úrval fyrri gesta hjá þeim. Þættirnir ættu ekki aðeins að hugnast þeim sem spila tónlist eða hafa áhuga á lagasmíðum, heldur öllum þeim sem velta fyrir sér hvernig sköpunarkrafturinn virkar og listamenn starfa.

Fyrst ætlaði ég að skrifa að nýjasta bók David Sedaris, Calypso, væri myrkari en mörg fyrri verka hans. En svo rifjast upp fyrir mér að í þeim öllum suðar reyndar undir niðri í bland við húmorinn nokkuð drungalegur undirtónn. Að því sögðu, þá er David Sedaris einn fyndnasti rithöfundur sem nú lifir og starfar. (Ef þið vitið um einhvern sem skákar honum, endilega bendið mér á viðkomandi.) Sá sem einhvern tímann hefur hlustað á Sedaris lesa sögurnar sínar, veit að þar standast honum fáir snúning; gallinn er sá að í kjölfarið á maður bágt með að lesa bækurnar sjálfur (ég heyri allavega bara fyrir mér einhverja lélega eftirhermu af David Sedaris í kollinum) og vill heldur hlusta á höfundinn lesa þær. Ég hlustaði á þessa sem hljóðbók og hún stóð undir væntingum. Sedaris fjallar um líf sitt á Englandi, þráhyggju sína gagnvart fitbit-úrinu sínu og göngutúrafíkn, samband sitt við kærastann sinn, hinn dularfulla Hugh, réttindabaráttu samkynhneigða og skrautlega fjölskyldu sína, og vinnur jafnframt úr þungbærri reynslu svo sem sjálfsvígi systur sinnar og eigin veikindum. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s