Ráðunautur Leslistans: Þorgeir Tryggvason

4688945349_a2c03662e3_b

Þorgeir Tryggvason ætti að vera samfélagi Leslistans að góðu kunnur, bæði sem gagnrýnandi bókmennta og leiksýninga í sjónvarpi og ritmiðlum og eins sem einn liðsmanna hljómsveitarinnar Ljótu hálfvitanna. Við gómuðum Þorgeir á förnum vegi og lögðum fyrir hann nokkrar krefjandi spurningar.

Hjartanlega margblessaður og sæll, Þorgeir! Og velkominn í ráðuneyti Leslistans. Mætti ég inna þig eftir því hvaða bók/bækur þú ert að lesa þessa dagana?

Mín er ánægjan!

Ég er allajafnan með tvær bækur í gangi á hverjum tíma. Þrjár þegar Kiljan er í gangi, eða einhver önnur menningarstofnun hefur beðið mig um álit á einhverju. Önnur bókanna er alltaf á Kindlinum, og fylgir mér hvert sem ég fer. Þar er ég núna að lesa The Speakers eftir Heathcote Williams, sem fjallar um nokkrar af helstu stjörnum Speaker’s Corner í Hyde Park í byrjun sjöunda áratugarins. Mikil tíðarandabók auðvitað, og þættir af einkennilegum mönnum er ein af mínum eftirlætisbókmenntagreinum. Svo er líka mjög gaman að spegla nútímann í henni, núna þegar heimurinn er allur orðinn að slíku horni og við öll kallar á kassanum.

Ástæða þess að ég er að lesa þessa gömlu og mikið til gleymdu bók tengist hinni bókinni sem ég er með fyrir framan mig í þessum skrifuðum orðum. Heathcote Williams leikur nefnilega Prospero í mynd Dereks Jarman upp úr Ofviðri Shakespeares. Hana horfði ég á um daginn og gúggl leiddi mig til The Speakers. Ég er semsagt að klára stórt lesverkefni sem ég bjó mér til. Undanfarin tvö ár hef ég verið að lesa verk Shakespeares á frummálinu í (líklegri) tímaröð og skrifa um þau stuttar ritgerðir sem vefritið Starafugl birtir. Nú er það Henry VIII, sem er næstsíðasta leikrit skáldsins og skrifað í samvinnu við arftaka hans sem aðalskríbent Globe-leikhússins, John Fletcher. Alls ekki með betri verkum Shakespeares, en mikið er þetta nú búið að vera skemmtilegur tími í kompaníi við höfuðskáld heimsins. Já ég sagði höfuðskáld.

Lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð?

Tímarit varla, fyrir utan TMM. Dagblöðum fletti ég og les menningarumfjöllun og álitsgreinar eftir fólk sem mér þykir skrifa vel. Fréttir sæki ég nánast eingöngu í sjónvarp og á netið. Ég er ekkert rosalega víðförull í leit að „efnismeira“ lesefni á netinu, kíki reglulega á hvað New York Review of Books er með í opinni dagskrá, og það sem flýtur með af ritgerðum, bóka- og leikdómum og slíku efni í fréttamiðlunum sem ég heimsæki daglega. Reglulega dett ég svo í grúsk á timarit.is og jafnvel í landsaðgangi Landsbókasafnsins að misfurðulegum fræðitímaritum.

Það er annars merkilegt hvað ég er latur við tímaritin, þegar ritgerðasöfn í bókaformi eru meðal þess sem ég hef mest dálæti á, og ritgerðirnar nánast undantekningarlaust úr þessum sömu tímaritum og ég nenni ekki að lesa. Nýleg dæmi eru Jon Ronson, Zadie Smith, Charles Nicholl og Halldór Laxness.

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Einu sinni ofbauð mér hvað enskan var fyrirferðarmikil í lesefninu og hélt mig alfarið við íslenskuna í heilt ár. Eftir að Kindillinn kom til sögunnar er næstum ófrávíkjanleg regla að prentefnið er á íslensku en rafefnið á ensku. Nema þegar ég „verð“ að lesa eitthvað enskt sem er ófáanlegt fyrir lesbrettið. Það er allavega sæmilegt jafnvægi í dag. Ég les norrænar bókmenntir gjarnan á dönsku, en er reyndar nýbúinn að rekast á vegg þar: fann að ég myndi ekki njóta Kongens Fald eftir Johannes V. Jensen sem bókmennta með því að brjótast í gegnum hana á frummálinu og fannst ótækt að nota svona öndvegisverk eins og hverja aðra dönsku-crossfitþraut. Svo ég skipti yfir í Atla Magnússon.

Og talandi um að ofbjóða: Innra með mér blundar lítill kverúlant sem finnst skáldskapur ofmetinn á kostnað „Non-fiction“ (óþýðanleg hugtak). Þessi kverúlant hneykslast til dæmis á fólki sem notar orðið „bækur“ sem samheiti við „skáldsögur“. Einu sinni benti hann mér á að ég hafði um langa hríð lesið nánast eingöngu skáldskap og í framhaldinu ákvað ég að lesa ekkert nema fræði og sannsögur í heilt ár. Það var fínt ár. Mér finnst líka stundum gleymast hvað sumt fólk sem skrifar aðallega NF er stórkostlegir pennar. Will og Ariel Durant, Halldóra B. Björnsson, Theodór Friðriksson og Magnús Björnsson frá Syðra-Hóli eru meðal hæst skrifuðu rithöfunda hjá mér.

Hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp hlustarðu mest á?

Þegar ég er ekki að gera eitthvað annað er ég að lesa. Fyrir vikið hlusta ég nánast aldrei á útvarp nema í bíl. Það sama gildir um hlaðvörp og hljóðbækur. Ef ég reyni að hlusta á svoleiðis heima er ég fljótlega búinn að seilast í bók og farinn að heyra malið í heyrnartólunum sem truflun. Reyni samt að hlusta á Dómsdag af því að vinir mínir sem standa fyrir honum eru svo fyndnir, og nýlega bættist Dead Rock Stars hlaðvarpið á listann af því að dauðar rokkstjörnur.

Áttu þér eftirlætisbók- eða höfund?

Stephen King. Það þýðir ekki að mér þyki hann afbragð annarra höfunda. Ég held með honum eins og ég held með Arsenal, þó Henry sé löngu farinn og liðið komist ekki í meistaradeildina, og sé í eigu tveggja moldríkra skíthæla. Myndi hætta að horfa ef það félli, en halda með því sem aldrei fyrr. Eins er með King, en þess ber að geta að ég les enn allt sem hann skrifar og það eru ekki nema sjö ár síðan hann sendi frá sér topp-fimm-bók: 11.22.63.

En Shakespeare er auðvitað mestur og bestur. Leikritin sem komu mest á óvart í þessari yfirstandandi yfirferð eru Julius CaesarHenry VThe Merchant of Venice og Timon of Athens. Meistaraverkin eru öll enn í meistaradeildinni.

Hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera einn eða innan um aðra?

Fyrir nokkrum árum fékk ég brjósklos og átti mjög bágt með að sitja og vandi mig á að vinna (og lesa) standandi. Verkirnir vöktu mig gjarnan milli fjögur og fimm á morgnana. Á þessum tíma var ég að lesa Biblíuna með sömu formerkjum og Shakespeare nú: skrifa hugleiðingaritgerðir eftir hverja bók. Svo ef einhver hefði horft inn um stofugluggann hjá mér síðla nætur hefði sá séð miðaldra karl á náttslopp stika fram og til baka, niðursokkinn í heilaga ritningu. Sem er fögur sjón.

Mér finnst enn gott að lesa standandi. Sitjandi og liggjandi heilla líka. Og í baðinu. Bara alltaf þegar færi gefst. Ágætt að hafa næði, en ekki nauðsynlegt.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Ég var meiri Jansonmaður en Lindgren, en engin barnabók breytti lífi mínu eins róttækt og Gúmmí-Tarsan. Ég var semsagt settur í það á unglingsaldri að leika titilhlutverkið í leikgerð á þeirri bók hjá leikfélaginu heima á Húsavík, eiginlega gegn vilja mínum. Síðan hefur leikhúsið verið fyrirferðarmikill hluti af tilveru minni. Hinsvegar finnst mér Ottó nashyrningur betri saga. Ég verð líka að nefna Galdramanninn hennar Ursulu Le Guin. Stórkostleg bók og það var mikil gleðistund þegar ég komst að því í menntaskóla að til voru fleiri sögur um galdrastrákinn Ged og vinur minn átti þær.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Undanfarin ár hafa Síðustu dagar Sókratesar farið í alla fermingargjafapakka frá mér. Talsvert léttara aflestrar en Passíusálmarnir, mögulega hollara fóður, og líkt og kvæði Hallgríms um andóf gegn valdinu í nafni sannleikans, píslarvættisdauða og ódauðleika sálarinnar. Hef ekki fengið neinar kvartanir.

Lestu bækur öðruvísi sem gagnrýnandi en sem venjulegur, óbreyttur lesandi? Eða ætti kannski ekki að vera nokkur munur þar á?

Nú hef ég í nokkur ár skrifað gagnorðar umsagnir um allar bækur sem ég les, sett þær á Facebook og kallað „lesskýrslur“. Mögulega hefur þetta haft áhrif á hvernig ég les bækur, breytt mér sem lesanda almennt. Held samt ekki, allavega nýt ég þess í botn að lesa (flestar) bækur eins og áður, hverf inn í þær þegar best lætur. Það er svo aukakikk ef ég næ að orða það hvað mér finnst sæmilega.

Þegar ég les eitthvað og veit að fyrir mér liggur að skrifa lengra mál um það þá punkta ég hjá mér hugleiðingar jafnóðum, Jafnvel minnispunkta um eftir hverju ég vill horfa í lestrinum. En mér finnst ég betri í að miðla upplifun en að setja fram greiningu, svo sennilega eru lestrarhesturinn og gagnrýnandinn að mestu samferða í mér.

Stærsti munurinn er kannski sá að gagnrýnandinn ég ræður ekki hvað hann les. Sem er frábært. Mér finnst alger snilld að smekkvíst fólk setji mér fyrir. Eins og að hafa bókmenntalegan markþjálfa.

Er einhver bók sem þú skammast þín fyrir að hafa ekki lesið?

Skömm er stórt orð, en vissulega er ég meðvitaður um skörðin í mínum innri bókaskáp, og hvað þau eru mörg og stór og ljót. Stundum reyni ég að fylla í þau meðvitað, jafnvel kerfisbundið, eins og þegar ég einsetti mér að lesa eitthvað eftir öll sem fengið hafa Nóbelinn síðan ég fæddist. Svo hafði ég um tíma augun á 200 efstu sætunum á „Kanónunni“ sem var tekin saman fyrir Kiljuna fyrir nokkrum árum. Þar er orðið frekar fátt um eyður hjá mér. Þó á ég eftir að lesa Ævisögu Árna Þórarinssonar eftir Þórberg, og hef reyndar lýst því yfir að hana ætli ég aldrei að lesa, þverhausinn sem ég er. Skammast mín ekkert.

Finnst þér þú þurfa að klára bækur?

Stutta svarið: Já. Langa svarið: Já, því miður. Mikið hefði nú verið gott að leggja sumar langlokur frá sér þegar ljóst var á blaðsíðu 50 (eða 5) að þetta væri hreinræktuð tímasóun eða sálardrepandi leiðindi. En nei, það er mér lífsins ómögulegt.

Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

The Two Noble Kinsmen er hinn kvíðvænlegi lokapunktur Shakespearelestursins. Á Kindlinum verður það How to live? — bók Söruh Bakewell um Montaigne. Sem er auðvitað bein afleiðing af þessu Shakespearegrúski öllu. Annars hefur Sarah þessi skrifað stórfína bók um sjálfan Jörund hundadagakonung sem er til á íslensku og allir ættu að lesa. Þvílíkt lífshlaup! Það má auðvitað halda því fram að valdatími hans á Íslandi sé hápunktur þess, en það er nú bara með herkjum.

Svo er Egill niðri í vélarrúmi að ræsa Kiljuna. Hvað það verður veit nú enginn …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s