Bækur, 21. september 2018

Jæja. Stundum verður maður fyrir vonbrigðum með bækur. Ég las enska þýðingu á norskri skáldsögu eftir Geir Gulliksen, The Story of a Marriage. Utan heimalandsins er Gulliksen sjálfsagt þekktastur fyrir að vera ritstjóri Karl Ove Knausgaard; sjálfsagt skýra þau tengsl hvers vegna þessi skáldsaga kemur nú út á ensku, beint í kjölfarið á sigurgöngu KOK. Ef þú fílar að lesa tíðindalitlar frásagnir um norskt millistéttarfólk sem hugsar ekki um neitt annað en eigin starfsframa, kynlíf og íþróttaiðkun í frístundum … þá er þetta einmitt rétta bókin fyrir þig! Mér fannst hún byrja vel – sterkt hvernig höfundi tekst að fanga hlutskipti norræna heimavinnandi fyrirmyndarpabbans á svamli í óumflýjanlegri miðjumoðstilveru, á meðan hin framasækna eiginkona glansar á vinnustaðnum – en upp úr miðbikinu (þegar eiginkonan stofnar til ástarsambands með hörkulega skíðagarpinum) er eins og allan vind þverri úr seglunum og öfugsnúnar kynferðisfantasíur sögumannsins (sem eiga sjálfsagt að hrista upp upp í pjöttuðum norskum smáborgurum?) verða langdregnar og þreytandi. Og karakterarnir alltof narsissískir til að verða nokkurn tímann áhugaverðir. Jævel!

Hin umtalaða Fear, eftir Bob Woodward, hefði eins mátt nefna Gamlir hvítir valdamiklir karlar að rífast. Fyrir þá sem ekki vita, þá lýsir bókin fyrsta árinu í forsetatíð Trumps. Þetta er mikil nafnasúpa, sífellt dúkka upp nýir karakterar sem gegna hinum og þessum starfstitlum, og frásögnin stekkur út og suður – kjarnorkuvopn í Norður-Kóreu, stríð í Afganistan, fikt Rússa í kosningunum, Charlottesville – og nöfnin kunnuglegu streyma hjá: Bannon, Kushner, Ivanka Trump, Cohn, Comey … Stíll Woodward, sem er snarpur og að stóru leyti borinn upp af samtölum, leiðir til þess að frásögnin verður oft hálf teiknimyndaleg, útkoman sápuópera í Hvíta húsinu þar sem leikendurnir æra hverjir aðra og plottið er mjög á reiki. Trump hefur engan skýran verkefnalista, stýrist alfarið af eigin geðþótta. Uppljóstranir Woodward eru margar hverjar sláandi og færa heim sanninn um það sem maður vissi svo sem fyrir – að forsetinn er tilfinningalega óstabíll og algjörlega vanhæfur. Merkilegur minnisvarði um fáránlegt tímabil í sögu bandarísku þjóðarinnar og slær vonandi ekki tóninn fyrir það sem koma skal næstu árin. (SN.)

Því eldri sem ég verð, því íhaldssamari verð ég. Þetta er líklega nokkuð sem gildir um flesta en þessi þróun hefur samt komið sjálfum mér á óvart. En það er kannski vegna þessarar þróunar sem ég fór að hafa áhuga á írska hugsuðinum Edmund Burke og hef verið að lesa mér til um hann og verk hans síðustu vikur. Ég keypti á dögunum ævisögu hans eftir breska þingmanninn Jesse Norman. Sú ber titilinn Edmund Burke: The Visionary Who Invented Modern Politics. Þetta er alveg fantagóð bók – vel skrifuð og forvitnileg. Fyrri hluti hennar rekur ævi Burke en seinni hlutinn kafar í hugmyndafræði hans. Höfundurinn reynir að leggja mat á það hver arfleið Burke er og hvaða erindi hugmyndir hans eigi í dag. Mér finnst Burke aðdáunarverður karakter. Hann talaði bæði fyrir auknu frelsi Bandaríkjamanna fyrir Frelsisstríðið en varaði jafnframt við myrku hliðum frönsku byltingarinnar. Hann var greinilega rökfastur en varaði fólk á sama tíma við því að treysta um of á mátt rökhyggjunnar. Hér er ein góð lína sem kemst svolítið að kjarna hugmyndafræði hans: „Politics ought to be adjusted, not to human reasonings, but to human nature; of which the reason is but a part, and by no means the greatest part.“ (KF.)

 

Óskalisti Leslistans:

Dimma gefur út tvær bækur sem ég get ekki beðið eftir að komast yfir. Í fyrra lagi eru það nýjar ljóðaþýðingar eftir Magnús Sigurðsson, Að lesa ský – ljóð frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Í seinna lagi, splunkuný skáldsaga eftir Gyrði Elíasson, Sorgarmarsinn. Sú rekur lokahöggið á þríleik um einmana og útskúfaða listamenn (fyrri bækur eru Sandárbókin og Suðurglugginn). Gyrðir er einn fárra höfunda sem ég hef lesið hvert einasta útgefið pappírssnifsi eftir (þýðingar þar meðtaldar) og ég mæli auðvitað eindregið með því að áskrifendur Leslistans varpi öllum áformum sínum fyrir róða, geysist út úr húsi (helst með regnhlíf ef það tæki að rigna – aldrei of varlega farið) og tryggi sér eintak. Taki sér svo veikindafrí … og lesi bókina … tvisvar.

Komin er út íslensk þýðing á þekktri bók Naomi Klein um loftslagsmálin, Þetta breytir öllu. Þýðandi er Jóhannes Ólafsson. (Ég las hana á frummálinu á sínum tíma, en fagnaðarefni að hún sé nú fáanleg á íslensku.) Boðskapurinn er sá að við jarðarbúar þurfum endilega að fitja upp á nýju efnahagskerfi; það sem nú er við lýði sé komið langleiðina með að tortíma plánetunni okkar. Vúps.

Rúnar helgi Vignisson gefur út nýja skáldsögu með skemmtilegum titli – EftirbáturÚtgáfuhóf í Sjóminjasafninu á laugardaginn. Hlakka til að lesa þessa.

Loks bíð ég spenntur eftir að fá í hendurnar fyrsta sagnasafn Þórdísar Helgadóttur, Keisaramörgæsir. (SN.)

Ég er nánast fullviss um að ég kaupi mér prentað eintak af bókinni Big Debt Crises eftir fjárfestinn þekkta Ray Dalio. Hægt er að nálgast ókeypis eintak á pdf-formi hér. Síðasta bók hans, Principles, sló heldur betur í gegn og mér finnst þessi lofa góðu. Þetta er kannski mestmegnis miðað að fjármálanördum – en ég held að það sé öllum hollt að fræðast um skuldakrísur. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s