Bækur, 28. september 2018

Ég hnuplaði forvitnilegri bók hjá foreldrum mínum um helgina. Sú heitir Kynlegir kvistir og er eftir Maxím Gorkí. Þetta eru brot úr dagbók hans í þýðingu Kjartans Ólafssonar og voru þau upphaflega gefin út árið 1925, en íslenska þýðingin sem ég fann var gefin út 1975. Ég hafði ekki hugmynd um við hverju ég átti að búast en þurfti ekki að lesa lengi til að verða hugfangin. Fyrir utan það hvað hún er listilega vel skrifuð þá eru frásagnirnar í bókinni magnaðar. Gorkí hefur greinilega verið ótrúlegur mannþekkjari, sem er náttúrulega skilyrði til að vera góður skáldsagnahöfundur. Mannlýsingarnar eru svo ljóslifandi að mér líður á köflum eins og ég sé að lesa um gamla fjölskyldumeðlimi. Mæli sérstaklega með kaflanum „Eldsvoðar“, þar sem hann rekur ýmsar óskyldar sögur um … eldsvoða. Bókina er að öllum líkindum ekki hægt að finna í bókaverslunum í þessari þýðingu en mér sýnist hún vera til á nokkrum bókasöfnum. (KF.)

Sarah Bakewell er ótrúlega flinkur höfundur, með lag á að matreiða flóknar hugmyndir með einföldum hætti ofan í fáfróða lesendur á borð við … mig. Mér fannst How to Live: A Life of Montaigne in One Question and Twenty Attempts at an Answer algjör himnasending, og svo hefur Bakewell víst einnig ritað bók um Jörund hundadagakonung, þann erkitöffara, verk sem til er í íslenskri þýðingu. Nú síðast las ég The Existensialist Café og bjóst af einhverjum ástæðum, þrátt fyrir dálæti mitt á Bakewell, við að verða fyrir vonbrigðum … sem gerðist ekki. Bakewell rekur með líflegum hætti ofan af franska (og þýska) existensíalismanum, útlistar hugmyndir (og stormasama ævi) Þjóðverjanna Husserl og Heidegger, og svo stíga erkitöffaranir Sartre og Simone de Beauvoir inn á sviðið og fleiri góðir spekingar. Þessi lestur endurvakti áhuga minn á tilvistarspekinni (mig minnir að ég hafi skrifað heimspekiritgerð um Tilvistarstefnan er mannúðarstefna í menntó) og svo er svo hressandi að verja tíma með listamönnum frá skeiði í mannkynssögunni þegar menn lifðu virkilega fyrir list sína og voru trúir hugsjónum sínum – Sartre fúlsaði til að mynda við Nóbelsverðlaununum og fjöldamörgum öðrum stöðluðum orðuveitingum sem eru svo svæfandi og leiðinlega alltumlykjandi í samtímanum. Mæli með!

Joshua Cohen sendir frá sér hnausþykkt ritgerðasafn, sem ber þann knýjandi  titil Attention; dispatches from a land of distraction. Þetta er svona doðrantur sem hentar vel til að bægja burt innbrotsþjófum eða ráða niðurlögum flóðhesta með. Ég kann vel að meta hvað hatur Cohens á samtímanum og lífsvenjum okkar nútildags er ódulið og glóandi; um leið er hann greinilega ljúf og hlý manneskja, samanber nýlegt viðtal við hann í Bookforum. Maður að mínu skapi. Í formálanum skilgreinir Cohen orðið „distracted“, sem þýðir meðal annars að vera beside oneself, og ekki langt að sækja sambærilegt orðalag á íslensku; að vera utan við sig. Truflunin leiðir til þess að við erum utangátta, ekki samferða sjálfum okkur, á flökti, ekki í flútti. Eyðum við dögunum í síauknum mæli í slíku ástandi? Þrátt fyrir fjöldamargar tímabærar og góðar vangaveltur heillar Cohen mig ekki sérstaklega sem penni, eins leiftrandi klár og iðinn sem hann greinilega er; ég stóð mig til dæmis ítrekað að því, meðan á lestri fyrstu ritgerðarinnar í safninu stóð, sem fjallar um hinstu daga bandarísks sirkús (allt er í heimi hér hverfult), að óska þess að samlandi hans heitinn, David Foster Wallace, héldi frekar um pennann, maðurinn sem masteraði þá vandmeðförnu kúnst að flétta í krafti hárrar greindarvísitölu saman poppvísunum, hámenningu og nostalgíu. Þó leynist þarna margt gott, til að mynda hugleiðingar Cohens um eina mergjuðustu útgefnu bók síðustu ára, enska þýðingu á Zibaldone eftir ítalska skáldið Leopardi, bók sem er gígantísk að vöxtum, skagar upp í 2.600 blaðsíður; það er tilvalin afþreying að seilast í á sunnudagseftirmiðdegi þegar maður liggur undir teppi með tebolla, eða þegar maður kemur heim klukkan fimm að morgni eftir sturluð partíhöld og þarfnast vitsmunalegs veruleikatékks sem kippir manni aftur niður á jörðina.

Haruki Murakami var í miklu uppáhaldi hjá mér á táningsárunum. Gott ef ég las ekki hverja einustu bók eftir hann og komst að þeirri niðurstöðu að hæst rysi snilldin í smásagnasöfnunum tveimur, The Elephant Vanishes og Blind Willow, Sleeping Woman. Nýjasta safn Murakamis á ensku nefnist Men Without Women, og ég verð að viðurkenna að mér finnst komin viss þreyta í karlinn. Allar kvenpersónurnar „eru ekki beinlínis fallegar“ og allir karlmennirnir, oftar en ekki sögumenn, „eru ákaflega venjulegir menn“. Bestu sögur Murakamis eru knappar og dularfullar, erfitt að skýra hvar galdurinn liggur, og svo skilja þær eftir sig sterkar og eftirminnilegar myndir í huga lesandans, líkt og um gott ljóð væri að ræða; prýðisdæmi væri „Birthday Girl“. Þessu er því miður sjaldan að heilsa hér. Sterkustu sögurnar fundust mér vera sú fyrsta, „Drive My Car“, og „Scheherazade“ (sem er skemmtilega skrítin), en hinar liðu hjá hægt og dauflega, og stundum engu líkara en að Murakami væri að herma eftir Murakami. Sama fannst mér gilda um síðustu útgefnu skáldsögu hans, sem til er á íslensku undir því viðeigandi heiti Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans, sú var hvorki fugl né fiskur í samanburði við fyrri verk þessa gamla vinar míns. En gott og vel, það er nú allt í lagi; öll sláum við stundum vindhögg. Nú er væntanleg enn ein skáldsagan, Killing Commendatore, í þetta skiptið verk af sömu stærðargráðu og Króníkan um upptrekkta fuglinn (í hið minnsta hvað lengd snertir), og mér finnst lýsingin á henni raunar lofa nokkuð góðu. (SN.)
 

Dæmi um bækur sem Leslistinn gefur vinum sínum í tækifærisgjafir:


Vinkona mín ritaði nýlega mér bréf og sagði að maðurinn hennar – sem er líka, merkilegt nokk, góður vinur minn – hefði að undanförnu ítrekað lýst yfir áhuga sínum á ljóðlist, en að hann væri ráðvilltur, svolítið eins og vegvilltur ferðalangur í skógi, hvarvetna blasa við stígar og slóðir, en hann veit ekki hvern skal velja. Og þar kæmi ég inn í myndina. Nefndur vinur ætti nefnilega bráðum afmæli og nú skyldu vinir hans, að uppástungu eiginkonunnar, færa honum vel valin ljóð að gjöf; heimagerðar upptökur, frumsamin kvæði, útprent af netinu, nú, eða bækur. Þetta leist mér vel á. Ég vissi líka strax hvaða bækur mig langaði að gefa honum. (Það takmarkaði möguleikana talsvert að títtnefndur vinur les ekki íslensku, Norðurlandamálin, frönsku, heldur aðeins lingua franca samtímans, ensku, og hrafl í japönsku (það er tungumál sem ég kann hins vegar því miður ekki)). Fyrst valdi ég Madness, Rack, and Honey eftir Mary Ruefle. Ég hef áður auglýst yfirburði þeirrar yndislegu bókar hér; að vísu er ekki um ljóðasafn að ræða, heldur safn ritgerða, sem flestar fjalla um ljóðlist, minnið, hlutskipti ljóðskáldsins, nauðsyn þess að fúlsa við vissum kröfum (og leiðindum) umheimsins – frábær bók sem lesa má aftur og aftur. Næst valdi ég bók eftir heimsmeistarann í ljóðlist, hinn sænska Tomas Tranströmer. Það er skáld sem heillar alla, hugsaði ég, jafnt djúpt sokkna ljóðalesendur sem nýgræðinga. Tranströmer er að auki eitt þeirra örfáu skálda sem „auðvelt“ er að þýða milli tungumála og menningarheima. Að því sögðu, þá finnast mér reyndar íslenskar þýðingar Njarðar P. Njarðvík taka flestum enskum þýðingum, sem ég hef lesið, fram. (Uppheimar gáfu um árið út Ljóð 1954-2004, bók sem ég hef lesið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.) Eftir því sem ég kemst næst er lunknasti enski þýðandinn einnig ljóðskáld sjálfur, Robert Bly, en þeir Tranströmer voru góðir félagar og skrifuðust löngum á – Airmail, safn bréfaskrifa þeirra, er skemmtileg lesning fyrir aðdáendur T.T. – og því hreppti ég The Half-Finished Heaven; selected poems úr hillu í The Strand. Rúsínan í pylsuendanum er svo safn sem spannar allan feril Wislöwu Szymborska, Poems; new and collected. Szymborska hefur talsvert verið þýdd á íslensku; gott dæmi væri Upphaf og endir, afar fínt þýðingasafn sem Geirlaugur Magnússon sendi frá sér árið 1999 (og þýddi þar beint úr pólsku). Þar er einmitt að finna sterkt ljóð um konurnar sem hreinsa til eftir stríðsbrölt karlanna;  pólska ljóðskáldið kallast skemmtilega á við íslenska skáldsystur sína sem orti um konurnar sem hleypa út vindlareyknum. Þetta eru sem sagt bækurnar þrjár … og bannað að segja vini mínum hvað er í pakkanum. (SN.)

Óskalisti Leslistans:

Þórdís Gísladóttir, ljóðskáld, þýðandi og barnabókahöfundur, gefur út sína fyrstu skáldsögu, Horfið ekki í ljósið. Þórdís er frábært ljóðskáld og þessi tíðindi fagnaðarefni.

Kamilla Einarsdóttir gefur einnig út sína fyrstu skáldsögu, Kópavogskróníku. Kamilla er fyndinn og hress penni og spennandi að sjá hvort það skili sér ekki út í skáldskapinn.

Guðrún Eva Mínervudóttir sendir frá sér smásagnasafn með þeim skemmtilega titli Ástin, Texas.

Og svo er komin út Saga tveggja borga eftir Charles Dickens, í þýðingu Þórdísar Bachmann. Leslistinn fagnar því – alltaf fáar bækur eftir Dickens til á íslensku.

Önnur stórtíðindi: Ellefti snertur af yfirsýn, splunkuný ljóðabók eftir Ísak Harðarson var að rata í bókabúðir. Hann á sér marga, og góða, aðdáendur. (SN.)

Ég minntist á það á dögunum að greiðslumiðlunarfyrirtækið Stripe hefur stofnað bókaútgáfu. Frábært framtak sem fleiri fyrirtæki mættu tileinka sér. Ég rak sérstaklega augun í tvær bækur úr þeirri útgáfu. Annars vegar bókina Stubborn Attachments eftir Tyler Cowen sem heldur úti uppáhalds blogginumínu og hins vegar bókina Dream Machine eftir M. Mitchell Waldrop, sem fjallar um frumkvöðul í tölvuheiminum sem ég hafði aldrei áður heyrt um. (KF.)

Síðast en ekki síst: These Truths eftir Jill Lepore. Þar rekur Lepore sögu Bandaríkjanna frá stofnun landsins – rúmlega fimm hundruð ára sögu. Ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur þar. Hún spjallaði nýlega við David Remnick, ritstjóra The New Yorker, um tilurð bókarinnar og nálgun sína gagnvart viðfangsefninu. Ég hlakka mikið til að festast á eyðieyju og fá tóm og næði til að sökkva mér í þessa, á meðan öldurnar gjálfra við tærnar, í fjöruborðinu. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s