Ráðunautur Leslistans: Ana Stanićević

ana-stanicevic_mynd.jpg

Önu Stanićević er margt til lista lagt. Hún er, að því er virðist, flugmælt á sérhvert tungumál sem talað er á vesturhveli jarðar, og er auk þess norðurlandafræðingur, fagurbókmenntaþýðandi og doktorsnemi. Um þessar mundir er Ana búsett í Kóngsins Köbenhavn, en Leslistinn ritaði henni línu frá New York og reisti þannig streng þvert um haf í því markmiði að bjóða henni sæti í ráðuneyti Leslistans. Ana þáði boðið og er nú sérlegur erindreki Leslistans í Danmörku. Á eftir fer stutt spjall við Önu um frumuppsprettu lífsins: lestur.

– Sverrir Norland.

Sæl, Ana, og velkomin í ráðuneytið! Hvaða bók, ef nokkra, ertu að lesa þessa dagana?

Ég var einmitt á útgáfuhófi nýju bókar Madame Nielsen, The Monster. Náði mér í eintak og hlustaði á Madame lesa upp úr henni, tvisvar! Það er af því að hún las byrjunina aftur í höfundaspjalli við höfundinn Theis Ørntoft rétt eftir bókahófið. Ég mun lesa hlutann aftur, því þrír er góð tala. Get varla beðið eftir að byrja á bókinni, af því að síðustu tvær bækur sem ég las eftir Madame, Det Højeste Væsen og Den Endeløse Sommer, gleypti ég í mig. Þær fjölluðu báðar um ást að einhverju tagi og voru skrifaðar með einstakri gáfu og í smitandi vímu. Auk þess hefur hinn umdeildi einleikur eftir Madame, White N*****/Black Madonna, heillað mig upp úr skónum! Ég þori að segja að mér finnist Madame Nielsen ein mest spennandi lifandi listakona í heiminum. Ég er líka mikill aðdáandi Claus Beck-Nielsen sem skapaði og skrifaði áður en Madame varð til, en mér finnst hún vera með ómótstæðilegan glæsileika og aðlaðandi höfundarrödd. The Monster er svokölluð New York-hrollvekja og fylgir ungum Evrópubúa sem í 1993 kemur til Nýju-Jórvíkur og langar til að taka yfir sviðið og verða nýi Willem Dafoe.

Annars hef ég verið að njóta þess að lesa í litlum skömmtum nýjustu bók Peter Adolphsen, Jeg kan ikke huske. Hún er skrifuð með klifun í stuttum köplum sem (næstum því!) allir byrja á þessari setningu og segja sjálfsævisögu höfundarins í samtali við verk Joe Brainards, I remember, og Martin Larsens, Hvis jeg var kunstner. Þessi bók er tilvalinn upplestur t.d. fyrir elskendur eða maður getur lesið upp hana með einhverjum öðrum sem manni þykir vænt um og sem er með áhuga á lestri!

Ég hef nýlega einnig byrjað á langtímaverkefni að lesa Þúsund og eina nóttfyrir svefn. Stundum svindla ég og les fleiri en eina sögu á nótt! Sjerasade er efnilegur sagnaþulur og það er stundum heilmikil vinna að fylgjast með í öllum rammafrásögnum.

Síðast, en ekki síst hef ég líka verið að dekra við sjálfa mig með ljóðum Gerðar Kristnýjar, því hvað er lífið án fagurrar ljóðlistar!

Og fræða. Það eru heldur betur alltaf einhverjar fræðibækur liggjandi í kringum mig.

Já, margt spennandi þarna, takk.

Og skemmtilegur útúrsnúningur á „Ég man“-bókunum hjá Adolphsen. Ef ég teygi mig upp í hillu, leynist hér einmitt I Remember eftir Joe Brainard (og dagbækurnar hans) og einnig Je me souviens eftir George Perec … og gott ef Þórarinn Eldjárn gaf ekki einu sinni líka út bók sem hét Ég man? Það minnir mig.

Ég öfunda þig annars af því að liggja í allri þessari dönsku. Danska er svo vanmetið tungumál. Ég fyllist oft knýjandi þörf til að lesa eitthvað bitastætt á Norðurlandamálunum þegar ég hef verið of lengi í enskumælandi umhverfi (eða frönskumælandi), en vandinn er bara sá að slíkar bækur eru oftar en ekki langt utan seilingar; þó ég sé þrjóskur, þá á ég til dæmis erfitt með að teygja arminn alla leið yfir Atlantshafið. En ætla að reyna að verða mér úti um þær sem þú nefnir.

Segðu mér nú, lestu einnig vefsíður, dagblöð, tímarit? Og ef svo er, værirðu þá til í að uppljóstra um hver þau eru?

Þessa dagana hef ég einmitt haft gaman af að lesa Leslistann!

Uppáhaldsdagblaðið mitt er Københavnske Istidende, svo ég vanræki ekki dönskuna mína! Þetta er fagurbókmenntalegt dagblað sem kemur út tvisvar á ári á örforlagi Det københavnske forlag Cris & Guldmann. Það er dagblað að mínu skapi.

Ég eyði annars miklum tíma í að lesa orðabækur. Islex.is er t.d. ekki bara fögur sjón að sjá með næstum öllum norrænum tungumálum á einum stað, en líka skemmtilegur lestur með oft einstaklega fyndnum dæmum sem einnig eru fróðleg og hagnýt.

Ég mæli líka með málið.isordnet.dkordbok.uib.nosprotin.fo svo dæmi séu nefnd, en þar er mikla visku og skemmtun að finna. Af og til les ég líka Tímarit máls og menningar, The Reykjavík GrapevineStarafuglInformationVagantog Facebook. Ég er nefnilega svo heppin að eiga marga áhugaverða (Facebook)vini, svo það er þvílík ánægja að lesa Facebookfærslur þeirra daglega. Skyndibókmenntir!

Glæsilegt. Orðabækur eru auðvitað bestu bækurnar, frumuppsprettan. Ég þekki mann sem lesið hefur íslensku orðabókina sjö sinnum, nýtt eintak í hvert skipti, og hver yfirferð getur af sér nýjar undirstrikanir, nýtt spássíukrot. (Íslenska orðabókin er hans golfvöllur, undirstrikunarpenninn hans pútter.) Sami maður hefur svo lesið gamla þýsk-íslenska orðabók álíka oft, hún er öll trosnuð um kilinn og dottin í sundur — ákaflega fallegur gripur.

En mér leikur hugur á að vita, kæra Ana, hver er fyrsta minning þín af lestri? Byrjaðirðu snemma að lesa? Áttu þér minningar af fyrstu bókunum sem heilluðu þig?

Fyrsta minning mín af eigin lestri hlýtur að vera þessi — heitur sumardagur, allir krakkar úti í garði að leika sér, en ég að fela mig fyrir þeim og sólinni, liggjandi í skugganum í svefnherberginu og alveg niðursokkin í persnesk ævintýri. Ég var annars mjög félagslyndur krakki og kannski einmitt þess vegna man ég svo vel eftir þessum viðburði. Ég elskaði að lesa ævintýri svo mikið að ég skrifaði þau líka sjálf!

Annað sem ég man frá þessum tíma er að mér fannst mjög gaman að læra ljóð utan að og sérstaklega eftir eitt helstu serbnesku skáldanna, Desanku Maksimović, sem hugsanlega gæti hafa verið pínu óvenjulegt fyrir barn á mínum aldri. Bókin sem mér þótti mjög vænt um þá og sem ég las mörgum sinnum var Hajduci eftir Branislav Nušić, en ég gat hlegið á meðan ég las hana svo ég grét.

Ég man ekki hversu gömul ég var þegar ég byrjaði sjálf að lesa, það var fyrst lesið mikið fyrir mig, en ég man að það vildi svo til að ég byrjaði að læra ensku þriggja ára gömul. Það er kannski þess vegna að einir af fyrstu rithöfundum sem heilluðu mig snemma á aldri voru William Shakespeare og Edgar Allan Poe, sem ég las á þeim tíma á frummálinu þegar maður ætti að vera að lesa Harry Potter, en þær bækur náði ég aldrei að lesa. Einhverra hluta vegna get ég ennþá farið með brot úr Hamlet eða Romeo and Juliet og ljóð eftir Poe sem einfaldlega festust í minni.

Mér finnst sanngjarnt að nefna í þessu samhengi aðra höfunda sem voru meðal hinna fyrstu til að heilla mig á hverju nýju tungumáli sem ég fór að lesa á. Að lesa bókmenntir á nýju tungumáli í fyrsta skipti er svolítið eins og að lesa bókmenntir í fyrsta skipti. Henrik Ibsen og hans síðustu tólf samtímaleikrit höfðu mikið áhrif á mig. H.C. Andersen og ævintýri hans gerðu það einnig. Gæludýrin eftir Braga Ólafsson, sem var ein af fyrstu skáldsögum sem ég las á íslensku, hefur heillað mig mikið. Þar sem vindarnir hvílast — og fleiri einlæg ljóð eftir Dag Hjartarson var ein af fyrstu ljóðlistarupplifunum mínum á þessu eftirlætistungumáli mínu og hefur snert mig svo með einfaldleika sínum og einlægni (!) sinni. Sjón setti líka með skáldskap sínum mark sitt á mig snemma á íslenskuferli mínum.

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Ég les helst á íslensku, dönsku, norsku, sænsku, færeysku, ensku, (mætti vera duglegri að lesa á móðurmálinu) serbnesku. Stundum les ég innihaldslýsingar á finnsku.

Já, alltaf til dæmis gaman að lesa á sultukrukkur. En áttu þér eftirlætisbókmenntaverk eða -höfund sem þig langar að deila með fróðleiksþyrstu samfélagi Leslistans?

Það er eins og að biðja mig um að velja uppáhaldsbókstaf minn. Þó að hver og einn sé að einhverju leyti fagur í sjálfu sér og með ákveðinn lit, þá eru þeir fyrst í samspili hver við annan að búa til dásamleg orð, tungumál og litaróf!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s