Af netinu, 5. október 2018

Langar þig að vita sannleikann að baki því hvernig Donald Trump varð ríkur? Í meira en ár hafa blaðamenn The New York Times legið yfir skattskýrslum föður hans og öðrum gögnum sem tengjast Trump-fjölskyldunni. Eitt er ljóst: Trump er sannarlega ekki sá „self-made man “ sem hann kveðst vera.

Frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Er þetta nógu vel hugsað? Kannski væri nær að taka Norðmenn sér til fyrirmyndar? Stofna sjóð sem kaupir bækur í vissu magni af útgefendum og tryggir að þær séu aðgengilegar lesendum, jafnt börnum sem fullorðnum? Þannig bera allir sigur úr býtum: útgefendur, rithöfundar, lesendur – þjóðin. (SN.)

Hér er mjög fín hugvekja frá rithöfundinum unga Ryan Holiday um mikilvægi þess að einblína á gæði þess sem maður skapar, frekar en á leiðir til að efla starfsframann.

Egill Helga bloggaði nýlega um ljóðabók sem er væntanleg frá Leonard Cohen þar sem hægt er að finna ljóð um Ísland. Ekki kannski hans besta kvæði en skemmtilegt þó.

Þetta er æðislega fyndið og kannski smá sorglegt líka. Hópur fólks hefur verið að senda frá sér gerviritgerðir í félagsvísindatímarit með það fyrir augum að ljóstra upp hversu mikið sorp er gefið út í slíkum tímaritum um þessar mundir. Meðal þess sem hópurinn hefur náð að birta er ritgerð um femímisma þar sem þrjár síður úr Mein Kampf eftir Hitler fengu að fljóta með. (KF.)

Dagar mínir eru ekki sjónvarpsþáttur, / vinir og grannar ekki persónur / í Seinfeld eða Friends, / enginn æðir inn án þess að banka, / segir eitthvað óviðeigandi / opnar ísskápinn/ og drekkur beint úr fernu / í leyfisleysi.
Hver hefur ekki sungið svipaðan harmasöng? Línur úr ljóði eftir Þórdísi Gísladóttur.

Tónlistarkonan Joan Armatrading, 67 ára, er enn í fullu fjöri. Hér er fjallað um splunkunýja plötu frá henni. Ég staldraði við þessar línur: „Being recognizably queer is a way to escape what time traditionally does to women, forcing them from maiden to mother to crone along the grand old heteronormative timeline.“ (SN.)

Út er komið nýtt hefti af Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra. Þar er að finna safarík gögn úr skattframtali einstaklinga árið 2018 auk fleira góðgætis. Alveg er ég viss um að það leynast jafn miklir furðufuglar og ég á meðal áskrifenda Leslistans sem hafa gaman af svona efni. Ef ekki þá biðst ég fyrirfram afsökunar á þessari uppástungu.

Nýr aðalhönnuður Louis Vuitton, Virgil Abloh, spjallar hér við stjörnuarkitektinn Rem Koolhaas um allt milli himins og jarðar. Virkilega forvitnilegt samtal.

Tók eftir skemmtilegum nýjum dagskrárlið í útvarpsþættinum Lestinni þar sem umsjónarmenn þáttarins fá til sín vel valda gesti til að spjalla um áhugaverðar bækur. Fyrsti viðmælandinn er Kristrún Heimisdóttir en hún ræðir um bókina Weapons of Math Destruction eftir bandaríska stærðfræðinginn Cathy O’Neil. (KF.)

„[Þ]að er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að á vorum byltingarkenndu tímum felist mesta andófið í þeirri gamalgrónu hefð að sitja einhvers staðar og lesa bók. Já, það eru nefnilega bókaunnendur sem eru hinir einu sönnu radíkalar í dag vegna þess að þeir neita að láta fylgjast með sér. Þeir hafna eftirlitinu.“Halldór Armand skrifar fínan pistil.

Grein fyrir þá sem fylgst hafa með fjaðrafokinu í kringum skipun Bretts Kavanaugh til hæstaréttardómara í Bandaríkjunum. Höfundurinn, lögfræðingur sem þekkt hefur Kavanaugh lengi, skrifar af yfirvegun, rökfestu og (alltof sjaldgæfum) hæfileika til að grunda málið af mörgum ólíkum sjónarhólum. Hann kveðst ekki mundu treysta sér til að mæla með Kavanaugh. (SN.)

Til að hlusta á:

Brad Mehldau gefur út plötuna After Bach. Tilvalið til að hlusta á hana fyrir svefninn eða á meðan maður les vandaðar bókmenntir, skrifar í dagbókina sína eða japlar á ostum og sötrar rauðvínstár.

Mads Mikkelsen, danskur leikari, spjallaði við Guðrúnu Sóley Gestsdóttur í Menningunni. Mér fannst Mads svo sem ekki hafa neitt áhugavert að segja. Það sem aðdáun vakti var vald Guðrúnar Sóleyjar á danskri tungu. Vel gert!

Jill Lepore, höfundur These Truths, doðrants sem fjallar um sögu Bandaríkjanna og ég hef verið að lesa að undanförnu (af veikum mætti), gerði víðreist í vikunni og spjallaði við gáfumenni í þremur hlaðvörpum sem ég hlusta jafnan á; Open SourceThe New Yorker Radio Hour og The New York Times Book Review. Lepore er eldklár og alltaf gaman að hlusta á hana; ef þér, kæri lesandi, nægir hins vegar að heyra aðeins eitt spjall við hana, mundi ég velja Open Source (elsta hlaðvarp í heiminum, hvorki meira né minna), þar sem hún rabbar við séníið Christopher Lydon.

The Daily, hið daglega hlaðvarp The New York Times, gerði þátt sem helgaður var sannleikanum um hvernig Trump komst í raun og veru í álnir. Þáttur sem kallast á við grein sem ég hlekkjaði á hér efst.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s