Bækur, 5. október 2018

Í ofannefndri bók Jill Lepore, These Truths, er að finna ýmislegt sem lesandinn staldrar við. Bókin, sem fjallar um sögu Bandaríkjanna, leyfir röddum, sem sjaldan fengu að heyrast í sagnfræðiritum fyrri tíma, að óma; undirokuðum hópum, svo sem innfæddum, Afríkubúum sem píndir voru í þrældóm, konum. Lýsingarnar eru átakanlegar; einkum þegar fjallað er um fólk sem slitið er upp frá heimkynnum sínum, læst niðri í skipslest og flutt þvert yfir hafið til annarrar heimsálfu. Margir misstu vitið, létust á leiðinni. Framarlega í bókinni ritar Lepore að á milli 1500-1800 hafi rúmlega tvær og hálf milljón Evrópubúa flust til Ameríku; landnemarnir fluttu með sér tólf milljón Afríkubúa í ánauð. Á sama tímabili dóu um það bil fimmtíu milljónir innfæddra (Native Americans), mest af völdum sjúkdóma sem innflytjendurnir fluttu með sér. Maður á erfitt með að ná utan um aðrar eins tölur.

Ljóðabækur vikunnar hjá mér eru því miður á ensku (ég hlakka til að komast yfir allar íslensku bækurnar sem eru að koma út): The Latest Winter og Something BrightThen Holes eftir Maggie Nelson. Ég hef áður fjallað um bók eftir hana, sannsöguna The Last Parts, en hafði ekki lesið ljóðin hennar fyrr. Hún hefur sterka og grípandi rödd og maður veit aldrei hvert förinni er heitið næst. Hér fjallar Hilton Als um höfundarverk hennar í The New Yorker.

Hakaði við klausu úr ritgerðasafninu Attention eftir Joshua Cohen (sem ég nefndi í síðustu viku): “If one of the barest necessities of fiction is keeping two characters apart for enough time for a misunderstanding to ensue–a misunderstanding that can be resolved only by the protagonists individually moving toward each other, and toward the book’s conclusion–cellphones, now “smartphones,” have become the chief antagonists of fiction.” Þetta rifjaði upp fyrir mér nokkuð sem Bret Easton Ellis lét hafa eftir sér í viðtali við The Paris Review; að ef fyrsta skáldsagan hans, Less Than Zero, hefði verið rituð eftir að allir eignuðust farsíma, hefði sagan varla slefað upp í tuttugu blaðsíður. “There’s a long stretch in the book where Clay is driving around looking for Julian, stopping off at friends’ houses to use their phones. He even stops in at a McDonald’s to use a pay phone. But people can find each other very easily now. A single text—‘Dude, where the f–k are you? I want my money’—would take care of three-fourths of the action in the book.”

Að lokum – heimspeki. Það liggur í hlutarins eðli að bók sem þessi á sér enga von, ritar Eugene Thacker í inngangsorðum að Infinite Resignation(Takmarkalaus undirgefni), bók sem fjallar um pessímisma sem heimspekistefnu. Thacker virðist finna vissa hugsvölun í því að gefa sig bölsýninni algjörlega á vald – hann hefur einnig sent frá sér bækur um loftslagsbreytingar, útrýmingu dýra, hryllingssögur (sem sagt eldhress gaur) – og reyna, eða reyna ekki, að klæða bölsýnina í búning heilsteyptrar heimspekistefnu. En svartsýnn maður veit að það verkefni að rita bók um svartsýni er dauðadæmt frá fyrstu stundu. Bókin er skrifuð í stuttum brotum, sumar hugleiðinganna aðeins ein setning, og fyrir vikið hefur bókin yfir sér svipbragð dagbókar. Mér þykir afar vænt um að þessi bók sé til, og gríp reglulega niður í hana. Thacker vitnar í þekkta heimspekinga (Nietsche, Kierkegaard, Pascal) en notar einnig brot úr eigin hversdagslífi. Til að slá tóninn: Í einni dagbókarfærslunni situr hann á kaffihúsi með espressó og minnisbók. Loksins, loksins, friður til að hugsa! Nema hvað, um leið og rósemdarstundin mikla er runnin upp (sem hann hefur hlakkað til alla vikuna), tekur hann að harma að nú sé hún brátt á enda. Kaffið, svo sjóðheitt og hressandi, er strax tekið að kólna. Hann skrifar nokkrar línur í minnisbókina sína … og hvað svo? Þarf hann nú að skrifa fleiri línur? Og svo ennþá fleiri línur? Til hvers? Að lokum getur hann ekki hætt að hugsa um allt hitt sem hann þarf að gera – kaupa í matinn, svara tölvupóstum, sækja föt í hreinsun – og stundin dýrmæta er ónýt. Kaffið er orðið kalt, og í minnisbókinni bara eitthvert illa skrifað krot. Allt er vonlaust. Ef þér hugnast að lesa bók um svartsýni – og finnst slíkt jafnvel uppörvandi og skemmtilegt – þá mæli ég eindregið með þessari. (SN.)

 

Óskalisti Leslistans:

Michael Lewis, höfundur Moneyball, Big Short, Liars Poker og fleiri góðra bóka var að gefa út nýja bók í vikunni. Mér hafa fundist allar bækur sem ég hef lesið eftir hann skemmtilegar þannig að ég geri ráð fyrir að þessi verði góð. Í henni fjallar hann um stjórnarskiptin frá Obama til Trump og ýjar greinilega að því að ýmislegt hefði mátt betur fara. Hér er nýlegt viðtal við hann þar sem hann ræðir bókina.

Stjörnufjárfestirinn Howard Marks var að senda frá sér nýja bók á dögunum þar sem hann ræðir leyndardóminn á bak við fjárfestingarspeki sína. Bókin heitirMastering the Market Cycles og lofar góðu. Ég hef lengi fylgst með minnispunktum sem hann sendir reglulega út þar sem hann fjallar um viðskipti og fjárfestingar á mannamáli. Allir sem hafa áhuga á slíku ættu að gerast áskrifendur að fréttabréfinu hans.

Mér finnst ný bók Guðrúnar Nordal, Skiptidagar, virka mjög spennandi og er vís til að lesa hana. Hér er brot úr kynningartexta: „Skiptidagar er persónulegt ferðalag höfundar um sögu Íslands og bókmenntir allt frá landnámi til okkar daga. Þar er spurt hvaða lærdóm við getum dregið af frásögnum aldanna um okkur sjálf og hvernig við getum miðlað þeim á nýrri öld. Höfundur leggur áherslu á sögur kvenna á öllum tímum og sækir alltaf samanburð til nútímans til að sýna að sagan er ein og allt tengist.“

Robert Greene, höfundur 48 Laws of Power var að klára nýja bók sem er væntanleg í verslanir hvað úr hverju. Hún lítur út fyrir að vera mjög forvitnileg. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s