Ráðunautur Leslistans: Júlía Margrét Einarsdóttir

40567827_1685434948252188_1964132284407742464_n

Júlía Margrét Einarsdóttir lauk nýlega námi í kvikmyndahandritaskrifum í Bandaríkjunum og stökk svo rakleitt í kjölfarið heim til Íslands til að gefa út fyrstu skáldsögu sína, Drottninguna á Júpíter, sem fengið hefur góðar viðtökur. Júlía settist niður með Leslistanum og ræddi stéttarfélagssumarbústaði og vangetu sína til að brjóta saman klæði, skrif, Múmínbolla og góðar bækur.

– Sverrir Norland

Hæ, Júlía. Fyrst langar mig að vita hvaða bók hafði síðast mikil áhrif á þig? Breytti til dæmis heimssýn þinni til hins betra og styrkti trú þína á fegurðina? Eða … dró þig síðast niður í svaðið og fyllti þig örvæntingu, murrkaði út trú þína á mannkynið, fyllti þig bölmóð og svartsýni? Þú mátt velja hvorri spurningunni þú svarar …

Kærastinn minn skrifaði smásögubók og gaf mér í afmælisgjöf. Hún var mögnuð. Ég las hana full á klósettinu á Pablo Discobar og grét. Það var flottasta afmælisgjöf sem ég hef fengið.

Annars má segja að ný skáldsaga systur minnar, Kópavogskrónika, hafi breytt heimssýn minni. Ég sé Kópavog í glænýju ljósi og átta mig á því núna að íbúar hans eru með lykilinn að leyndamáli sem okkur hinum er hulið, eða hefur verið þangað til Kamilla leiddi okkur í ljósið. Svo er það líklega fyndnasta skáldsaga sem hefur verið skrifuð, ískalt mat.

Já, þið fjölskyldan eruð býsna iðin við kolann í skáldskaparskrifum. Ég fagna því — og eins að höfundar séu loksins teknir að hasla Kópavogi völl í íslenskum bókmenntum.

En segðu mér nú, heldurðu þig alfarið innan nánasta hrings þegar þú lest bækur eða lestu einnig verk eftir höfunda sem ekki eru skyldir þér blóðböndum? (Eða vonbiðlum sem hafa hafa sérskrifað handa þér meistaraverk í því skyni að fanga hjarta þitt í orðanet?) Áttu þér til að mynda eftirlætishöfund — á þessu tungumáli eða öðru — sem einkum er gott að lesa á haustin, til dæmis í október 2018, og vildirðu vera svo höfðingleg að deila nafni viðkomandi með hnýsnu samfélagi Leslistans, ef svarið er já?

Já tvímælalaust. En ég get ómögulega gert upp á milli nokkurra skáldkvenna svo ég nefni þær allar á nafn. Ég hef komist að því að ég nýt þess mest að lesa töfrabækur, svona bækur sem opna fyrir konu einhverjar óvæntar víddir og lýsa tilverunni á draumkenndan hátt. Svona bækur sem nauðsynlegt er að leggja frá sér þunnur því þær eru svo yfirþyrmandi fallegar og kona of viðkvæm og nálægt því að brotna saman — og neyðist þá til að panta pizzu, finna raunveruleikaþátt og bíða eftir næsta degi. Þær konur sem skrifa á þennan hátt og eru í algjöru uppáhaldi eru (í engri sérstakri röð) Kristín Ómars, Steinunn Sig, Vigdís Gríms og Elísabet Jökuls. Ég hef hitt þær allar og verð alltaf eins og kleina þegar það gerist.

Einu sinni spurði Steinunn mig á bókmenntahátíð hvort ég væri ekki besti lesandinn hennar og ég hugsaði að það væri sá titill sem ég vildi helst af öllu hafa. Hún spurði mig líka hvort ég væri ekki kartöfluprinsessan þegar ég var barn — en það er önnur saga.

Ég fór líka með bókina mína heim til Elísabetar Jökuls um daginn, og varð svo feimin að ég sendi kærastann minn inn. Hún bauð honum upp á lifur.

Besti lesandinn — það finnst mér vera vera frábær einkunn, og ennþá flottara en að vera besti rithöfundurinn.

Ég staldraði annars við þetta sem þú segir um „að lýsa veröldinni á draumkenndan hátt“. Er það ekki einmitt mesta raunsæisnálgunin? Eru það ekki mestu skáldin sem átta sig á því að draumurinn er óaðskiljanlegur hluti af veruleikanum?

Mér finnst það annars mjög draumkennd — og raunar martraðakennd — aðstaða að þurfa að borða lifur. Mig langar að kíkja í kaffi til Elísabetar sem fyrst, en þá ætla ég að reyna að koma til öryggis með vínarbrauð.

En áfram með smjörið: Má ég gerast svo nærgöngull að spyrja þig hvernig texta þú lest helst? Eru það ljóðabækur, skáldsögur, ritgerðir, sjálfshjálparbækur? Trúarlegir textar? Smásögur, kvikmyndahandrit, innihaldslýsingar á kexpökkum? Sjónvarpshandbókin? Eða ægir kannski öllu saman?

Vá. Heilinn í mér sprakk nánast þegar þú talaðir um raunsæið og draumana. Mér leið eins og ég væri upptendruð í tíma hjá Páli Skúla þar sem hann benti á allar mublurnar í kringum sig og sagði okkur glottandi að líklegast væri ekkert af þessu til. En já, varðandi smjörið. Sko, ég les helst skáldsögur, svona ef ég sest niður með bók og sökkvi mér í hana. Og ég er algjör gunga, það er ömurlegt, en ég bíð oft eftir að einhver segi mér að bókin sé góð áður en ég byrja að lesa hana. Að þessu leyti var ég svo þakklát þeim fyrstu sem sendu mér viðbrögð sín við minni bók, þeim sem dýfðu sér í hana áður en hún fékk dóma og umfjöllun. Mér fannst þau vera að veðja á mig djarflega, eyða tíma sínum í mig án þess að vita hvort það myndi þýða þjáningin ein.

Hvað suma höfunda snertir þarfnast kona reyndar ekkert neinna ábendinga, ef ég finn til dæmis bók eftir Kristínu Ómars þá les ég hana. En ég les alveg stundum annað, Vikuna á tannlæknastofum, Ikeabæklinginn á klósettinu og svo stundum ljóð. Einu sinni þegar ég hitti Sigga Páls vin minn sagði hann mér að lesa Lastafans og lausar skrúfur eftir Diddu. Það var svona trúarupplifun, eins og að sjá myndbandið og heyra lagið Wannabe með Spicegirls í fyrsta sinn. Mig langaði að hrópa þau af húsþökum, skrifa í skýin og fá mér stuttermabol með áletruninni: „Didda is my homegirl.“

Lastafans og lausar skrúfur, það er svo frábær titill! Takk fyrir að benda mér á þá bók.

Mér finnst annars líka gott að fá ábendingar og heyra meðmæli … en um leið er ég svolítið uggandi gagnvart þeim. Ég til dæmis þoli ekki þá venju í bókaútgáfu að þrykkja nöfnum gagnrýnenda utan á bókakápur ásamt skoðunum þeirra á bókinni (sem ég er að kaupa, fá að láni — lesa). Mega lesendur ekki bara ákveða sjálfir hvað þeim finnst um bækurnar? Á tímabili fór þetta svo í taugarnar á mér að ég henti kápunum utan af íslenskum bókum í ruslið til að losna við nöfn þessa agnarsmáa hóps fólks á sama aldri — NB: allt leiftrandi snjallt fólk (og upp til hópa gagnrýnendur í Kiljunni) — sem hafði tekist að klína nafni sínu utan á aðra hverja bók uppi í hillu hjá mér (og það án þess að hafa skrifað bækurnar!). Til að ég taki gagnrýnanda alvarlega þarf hann að setjast niður og skrifa vel ígrundaðan ritdóm (minnst 2.000 orð, helst 5.000) — og síðan bjóða mér í mat (þriggja rétta) og ræða við mig um verkið samfellt í þrjár klukkustundir yfir rauðvíni. Annars er bara verið að krafsa í eitthvert yfirborð.

Til að undirstrika hvað þetta er kjánalegt með nöfn gagnrýnenda utan á bókum: Ímyndaðu þér til dæmis ef á kaffibollunum þínum væru meðmæli frá unnendum kaffibolla. Þú kaupir þér enn einn Múmínbollann og á honum stendur: Langbesti Múmínbollinn. Gat ekki hætt að drekka úr honum! — Sverrir Norland. Hvað þetta snertir sé ég engan mun á bókum og Múmínbollum. Það er alveg nóg að nafn höfundarins sé á bókinni.

En fyrirgefðu: ég fékk munnræpu! Nú laukstu nýlega kvikmyndagerðarnámi, og mér finnst þú einmitt hafa mjög myndrænan stíl. Er það eitthvað sem kemur af sjálfu sér, eða er það stílbragð sem þú sækist meðvitað eftir? Og hvernig verða sögurnar til? Hefjast þær til dæmis á mynd, einhverri hugsýn, eða eru það frekar persónur, jafnvel söguþráður, sem ýtir þeim úr vör?

Ég hló yfir þessu með múmínbollann. Úff þetta er svo mikil hjarðhegðun sem ég var að viðurkenna hérna. Það er eitt sem er svo fallegt við að eyða tíma í stéttarfélagssumarbústöðum til dæmis, í minningunni allavega. Það voru alltaf bara svona fjórar bækur í boði, eitthvað sem fólk hafði skilið eftir og engir sem á eftir þeim komu hugnaðist að stela. Og það var ekkert í boði að lesa nema þessar, og ein bókin var kannski endurminningar afdalabónda, ein þeirra skoskur krimmi og svo bara eitthvað bull (aldrei ljóðabækur nota bene, þær eru ekki skildar eftir í félagsbústöðum) og maður þurfti bara að lesa það sem í boði var. Og oft datt kona á algjöra perlu. Svona eins og þegar einu bíómyndirnar sem hægt var að horfa á var það sem Bíórásinni hugnaðist að sýna því vídjóspólur kostuðu of mikið, og þá sá maður kannski bara heimsendamynd sem breytti algjörlega heimssýn manns.

Kannski ætti ég að gera meira af því að úllen dúllen doffa bara í bókahillunni hjá pabba og lesa það sem ég lendi á. Ekki alltaf að bíða eftir að einhver segi: hey þessi er æði. Eða að gagnrýnendur í Kiljunni lofi bókina í hástert.

Nú er þetta orðið svo flókið líka því það er orðið persónulegt, ég bíð eftir hinum mikla dómi gagnrýnendanna eins og unglingur eftir lækum á forsíðumynd. Er ég ágæt eða bara alveg glötuð?

En kvikmyndanámið já. Sko, ég er svo mikill slúbbert að ég kann voðalega lítið að undirbúa mig, kortleggja, tileinka mér stíl. Ég kann til dæmis ekki að brjóta saman, bara krumpa saman því ég á svo erfitt með að læra eitthvað sem mér er alls ekki eiginlegt. Og ég skrifa bara einhvernveginn, ég sviðset rosalega mikið til þess að skreyta eftir mínu höfði og líka kannski til að hjálpa sjálfri mér að komast nær sviðsmyndinni. En já, kvikmyndanámið hafði ábyggilega þessi áhrif á mig. Eða sko hænan og eggið þarna, ég byrjaði að skrifa handrit því það lá vel fyrir mér að skrifa sjónrænt. En svo bara byrjaði ég að espast í sviðsetningunum, nota meira glimmer og stjörnur.

Krumpa saman!

Það hljómar eins og nafn á búddískum hugleiðslumeistara:

Krumpa Saman flytur fyrirlestur á Hotel Nordica um innhverfa íhugun og kennir þér að brjóta saman sokkana þína.

Ég er mjög nostalgískur. Ég held að siðmenning mannkyns hafi náð hæstu hæðum árið 1993. Síðan þá hefur allt — nei, kannski ekki allt: flest — legið niður á við í menningunni. Ég sakna myndbandaleiga. Ég sakna þess að framboð afþreyingar sé takmarkað. Ég sakna slembilánsins: að lesa til dæmis bók af því að maður hefur ekkert annað að gera. Ég sakna þess að hringja í heimasíma vina sinna. Ýta á dyrabjöllu og spyrja: Er Siggi heima?

Að lokum: Hvaða bók langar þig að lesa næst?

Ég þurfti að hugsa mig lengi um, en svo mundi ég að á náttborðinu mínu er stafli af bókum sem eru á dagskrá hjá mér. Ég kláraði nýlega Stormfugla eftir pabba minn (hér hefur mér tekist að troða inn þriðju bókinni eftir fjölskyldumeðlim) og þegar ég kláraði síðasta kaflann (stórhrifin) þá tók ég hana úr bunkanum og færði hana yfir á kommóðuna.

Næstu bók á listanum keypti ég á bókamarkaðnum á Fiskislóð nýverið. Það var hægt að fá allskonar titla eftir allskonar höfunda á eitthvað blandípoka klink, og ég keypti mér bókina Hjá brúnni eftir Kristínu Ómars. Hún leit út fyrir að vera draumkennd og dularfull, en svo var hún líka um einhvern dans og einhverja töfra og kápan eitthvað svo leyndardómsfull. Ég hlakka til að lesa hana, helst með pizzu uppi í rúmi því heima hjá mér má mylja.

Já, krumpa saman og mylja.

Það er annars eitthvað mjög fallegt við fjölskyldu sem er svona sjálfri sér næg í skáldskapnum: framleiðslan er svo mikil að fjölskyldufólk hefur ekki undan við að lesa ritverk hvert annars.

Takk fyrir spjallið, Júlía — og velkomin í ráðuneytið!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s