Bækur, 12. október 2018

Heimsveldi rísa og hníga og nú virðist sem Bandaríkin séu að liðast í sundur. Sú er í hið minnsta tilfinning mín – hefur aukist mikið eftir að Trump komst til valda – og ég veit að ekki er ég einn um það. Í America: The Farewell Tour færir Chris Hedges rök fyrir því að Bandaríkin beri nú öll helstu einkenni deyjandi heimsveldis. Idíótarnir taka við stjórnartaumunum á lokadögum deyjandi siðmenningar, ritar hann. Fólk flýi í síauknum mæli inn í ímyndaða heima til að forðast að horfast í augu við veruleikann – símaskjái, kvalalosta, stríðsbrölt, haturskölt, vímuefni, klám. Höfundur skiptir bók sinni upp í sjö kafla: Hnignun, Heróín, Vinna, Sadismi, Hatur, Fjárhættuspil og Frelsi. Í þeim fyrsta vitnar hann í ýmsa góða menn, meðal annars Karl Marx, sem kannski hefur fengið uppreist æru á síðustu árum og reynst sannspár, eftir allt saman. Kapítalisminn er eldur: einn daginn hefur allt breyst í ösku. (Bókstaflega: Það er 11. október og ég hef aldrei upplifað jafn heitt haust í New York.) Kaflarnir, sem fjalla um vímuefnafaraldurinn, sem nú rænir hundruð Bandaríkjamanna lífinu daglega, og sadismann, meðal annars klámiðnaðinn, eru vægast sagt lýjandi lesning, og ég þurfti margsinnis að líta upp úr bókinni og taka mér hvíld. Undangengin sex þúsund ár hafa siðmenntuð samfélög í fyllingu tímans varpað velmegun sinni á glæ með geypilegri heimsku og drambi, ritar Hedges. Trump er aðeins andlit þess sem er að gerast: viðeigandi leiðtogi þessa fyrrum heimsveldis.

Hvað er ljóðlist? Því er vandsvarað, en ég ber kennsl á hana þegar hún ratar til mín. What Is Poetry? (Just Kidding, I Know You Know): Interviews from the Poetry Project Newsletter (1983-2009) er bók sem ég hef verið að lesa í smáskömmtum undanfarið árið. The Poetry Project hefur verið starfrækt í hálfa öld í St. Mark’s-kirkju á The Bowery, í New York, og tórir enn í miðri tortímingunni á Manhattan, starfsemi sem gægist eins og agnarlítið blóm upp úr sprengjurústunum. Í bókinni, sem gefin er út af hinu fína forlagi Wave Books, eru tekin saman viðtöl við fjöldamörg skáld sem viðriðin hafa verið The Poetry Project, meðal annars þekktustu nöfn New York-skólans svokallaða, svo sem Allen Ginsberg og Kenneth Koch, og einnig við yngri höfunda, svo sem Maggie Nelson og Eileen Myles. Góð bók til að grípa í yfir morgunkaffinu, á klósettinu eða í Greyhound-rútu sem stefnir inn í sólarlagið.

Las svo einnig Sorgarmarsinn eftir Gyrði Elíasson. Mjög fín. (Mun birta ritdóm um hana á Starafugli – meira síðar.) Höfundurinn ræddi um verk sitt í nýjustu Kiljunni. (SN.)
 

Óskalisti Leslistans:

Sá nýlega að Háskólaútgáfan var að að gefa út bók um hönnun Gísa B. Björnssonar sem er þekktur fyrir að hafa hannað mörg af flottustu lógó-um Íslands. Gaman að þetta sé til. (KF.)

Sögurnar berast enn heimshorna á milli, og nú er komið út safn með nokkrum vel völdum frá Asíu og Eyjaálfu.

Ég er mjög spenntur fyrir Dansað í Odessa eftir rússnesk-bandaríska skáldið Ilya Kaminsky. Sigurður heitinn Pálsson hóf þýðingarstarfið, og Sölvi Björn Sigurðsson lauk verkinu.

Rebecca Traister gefur út Good and Bad: The Revolutionary Power of Women’s Anger. Fjallar að stóru leyti um #MeToo-hreyfinguna. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s