Ráðunautur Leslistans: Ármann Jakobsson

Ármann Jak sept 2018

Ármann Jakobsson er prófessor í íslensku og rithöfundur. Hann hefur sent frá sér fjöldamargar bækur, bæði fræðirit og skáldverk, nú síðast Brotamynd (2017) og Útlagamorðin (væntanleg). Ármann gaf sér tíma til að skiptast á nokkrum skeytum við Leslistann.

– Sverrir Norland

Sæll og blessaður, Ármann, og hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans! Mér skilst á áreiðanlegum heimildarmanni að þú sért á faraldsfæti innanlands. Lestu bækur á ferðalögum? Ertu jafnvel að lesa eitthvað í augnablikinu og ef svo skyldi vera, tímirðu að deila því með samfélagi Leslistans?

Á ferðalaginu sjálfu les ég yfirleitt ekki nema ég sé í strætisvagni, ef ég er með öðrum í bíl finnst mér það of útilokandi. En annars er ég skorpumaður í lestri, les mikið þegar ég er hvorki að kenna tiltekna bók né að skrifa bók. Í seinasta jólafríi las ég heilu bókaflokkana og eins þegar ég skilaði seinasta handriti, þá las ég bók á dag í hálfan mánuð. En núna er ég að kenna og þá eru bóklestri mikil takmörk sett því að athyglin er annarstaðar. Þessa dagana er ég að kenna Gísla sögu Súrssonar þrisvar í viku og hún er þá bókin í lífi mínu og raunar hef ég komist í nýtt og betra samband við söguna með því að kenna hana. Fram að því hefði ég líklega ekki talið hana til fimm fremstu Íslendingasagna, en núna finnst mér hún snilldarverk og engum öðru texta lík. Í gær datt mér í hug að höfundur Gísla sögu hafi örugglega átt systkini því að óvíða er systkinasambandi lýst jafn fjölbreytilega satt. Þar fyrir utan er Gísli sjálfur persóna sem smám saman opnast fyrir lesandanum og reynist hafa ótrúlega margar hliðar.

En vegna umfangs Gísla sögu í hversdagslífinu hef ég í raun og veru ekki næga orku til að setja mig inn í aðrar bækur og þess á milli les ég einkum blöðin og þá mest The Times Literary SupplementThe London Review of Books og The New York Review of Books sem ég reyni að lesa fyrsta klukkutíma hvers dags. Það er alltaf a.m.k. ein grein í hverju blaði sem ég get horfið inn í dágóða stund. Það væri gaman ef til væru blöð á íslensku af þessu tagi. Oft les ég líka skáldsögur á morgnana en ekki í miðri kennslutörn, en fyrir svefninn er ég núna að lesa bók sem ég hef lesið tvisvar áður, Shroud for a Nightingale eftir P.D. James. Hún er góð kvöldlesning og raunar er þetta rannsóknarvinna því að P.D. James er dæmi um höfund sem nýtti sér afþreyingarform glæpasögunnar og gerði að sínu. Í raun er P.D. James ekki sérlega áhugasöm um glæpi heldur nýtir þá til að lýsa tilteknu umhverfi, svipað og 19. aldar höfundar gátu nýtt sér ástarævintýri og brúðkaup. Henni tókst einna best upp í þessari bók og þess vegna heillar hún mig. Þegar ég les hana í þriðja sinn sé ég að allar senurnar eru styttri en mig minnti, þær hafa lengst í huganum. Býsna vel gert.

Áttu þér eftirlætishöfund eða -texta sem þú kippir niður úr hillu ef þú ert strand í eigin skrifum, einhverja æð sem alltaf veitir innblástur og sköpunarkraft?

Það þýðir eiginlega ekkert að spyrja mig um eftirlætisrithöfund, þeir eru svo margir og ég finn nýja á hverja ári. En ef ég á að gefa empírískt svar, þá skoðaði ég bókaskápana mína og sá að þegar kemur að íslenskum höfundum, þá á ég allar bækur Svövu Jakobsdóttur og það er engin tilviljun, Svava var frábær höfundur og ég var svo lánsamur að kynnast henni og hún var dásamleg manneskja og engum öðrum lík að andlegri spekt. Ég sá líka mjög margar bækur eftir Guðberg Bergsson og Gyrði Elíasson og ekki annað hægt en að játa að bækur þeirra tveggja höfða mjög til mín. Af erlendum höfundum nefni ég Alice Munro, allar hennar bækur eru í skápnum. Ég þarf varla að kynna hana en sama gildir um Alan Hollinghurst, enskan höfund sem hefur raunar ekki skrifað margar bækur. Báðir þessir höfundar hafa kennt mér mikið, þau eru bæði með afar látlausan stíl (eins og raunar Svava) en setningar sem í senn koma á óvart og gleðja með smekkvísi sinni. Þau eru líka bæði fyrirmyndir mínar á þann hátt að þau hafa gefið mér markmið að stefna að þó að ekki þykist ég eiga skammt í land.

Sá höfundur sem ég á líklega flestar bækur eftir er Agatha Christie, af henni á ég heilan bókaskáp. P. G. Wodehouse, ein hilla. Þetta eru höfundarnir sem ég lærði ensku af. Það hefur örugglega ekki liðið neitt ár síðan 1983 að ég hafi ekki lesið bók eftir annað þeirra.

Allt góðir höfundar, og margir sem lýstu allólíku þjóðfélagi en því sem rithöfundar þurfa að glíma við í dag. Það hafa sjálfsagt aldrei verið til fleiri skríbentar í heiminum (enska orðið writer hentar hér betur en hið íslenska rithöfundur); flest okkar eru sískrifandi og sílesandi (hraðsoðna) smátexta og skilaboð. Finnst þér það vera frjó og skemmtileg þróun og búa til gott umhverfi fyrir rithöfund og lesanda? Eða telurðu að við á Vesturlöndum lifum nú mikla vitsmunalega lægð? Þú þarft ekki að svara þessari spurningu frekar en þú vilt.

Satt að segja veit ég ekki hve miklu máli textar og skilaboð skipta máli því að þetta er svo hraðsoðið að minnir mest á símtöl fyrir hálfri öld, mikilvægt fyrir samskipti og boðskipti og allt er þetta tjáning og málbeiting en sá sem skrifar netskilaboð er ekki höfundur nema í þeim skilningi að vera upphafsmaður orða. Bókmenntir þrífast auðvitað á óformlegum boðskiptum, hvort sem eru samræður í hestvagni eða símtal eða netspjall. En sjálfar bókmenntirnar eru alvarleg vinna og allt annars eðlis. Hvort þessi tækni muni draga mannlega greind niður í svaðið, um það er of snemmt að spá. Ekki held ég þó að það þurfi endilega að verða svo; ég leyfi mér að vera bjartsýnn.

Hvaða bók hefurðu oftast gefið öðrum?

Örugglega Brennu-Njáls sögu. Ég held raunar að ég hafi aðeins gefið hana tvisvar en ég man ekki eftir að hafa gefið aðra bók tvisvar.

Hvaða íslenski höfundur er vanmetinn, lítið lesinn í dag og mörgum gleymdur, en mætti hefja aftur til vegs og virðingar?

Mér dettur í hug Indriði G. Þorsteinsson, raunar er hann ekki öllum gleymdur en mér finnst margir af minni kynslóð vanmeta hann. Sumar íslenskar hálfrar aldar gamlar bækur hafa ekki elst vel en sumar hans bækur hafa komið mér á óvart, ekki síst Þjófur í Paradís.

Já, hér upp í bókaskáp hjá mér leynist einmitt Þjófur í Paradís, kápan sterkgræn og æpandi. En hefurðu lesið — og nú skima ég yfir hilluna og toga loks út — Móbý Dick?

Það er varla hægt að viðurkenna að ég hafi ekki lesið hana og allra síst þar sem ég vísa í hana í bók sem ég gaf út í fyrra. En sem betur fer þarf ég ekki að ljúga, ég raunar las hana fyrir rúmum áratug eða svo. Það var talsverð fyrirhöfn en gefandi. Ég veit ekki hvort ég á eftir að leggja í hana aftur.

Gott að heyra, þá hætti ég við að senda þér eintakið mitt í pósti og leyfi því að standa hér í hillunni enn um sinn. En hvaða bók/bækur langar þig að lesa næst, þegar þú kemst í hlé frá kennslu og hefur frið til þess?

Ég er kominn með þrjár bækur á borðið eftir N.K. Jemisin. Ég er ekki iðinn fantasíulesandi en bækur hennar eru sagðar sérstakar og ég keypti því allar þrjár í Nexus og hlakka mikið til. Ég hef stundum keypt heilu ritraðirnar um jólin til að hafa nóg að lesa og vorið 2012 entist A Song of Ice and Fire mér fram í mars! Penelope Fitzgerald og Barbara Kingsolver eiga líka bækur sem hafa verið lengi á borðinu hjá mér en fara ekki þaðan fyrr en ég hef lesið þær.

Að lokum: Værirðu til í að segja mér aðeins frá Útlagamorðunum, nýju skáldsögunni þinni?

Útlagamorðin er fyrsta tilraun mín til að skrifa sakamálasögu og afþreyingarbók fyrir fullorðna. Það eru ein sjö ár sem mér kom fyrst í hug að reyna mig við formið og þá hafði ég mikinn metnað, einum of því að sagan kiknaði undan því fargi en eftir stóðu nokkrar persónur sem birtast svo í Útlagamorðunum. Þær hafa sem sagt verið með mér lengi en ég áttaði mig fyrst á því núna hvers konar ráðgátu þær ættu að glíma við. Sagan gerist í litlum bæ sem átti upphaflega að vera tiltekinn bær á Íslandi en smám saman tók hann á sig eigin mynd og ég ákvað að leyfa honum að vera skáldaður líka. Ef til vill er samfélagið í bænum dæmigert fyrir Ísland nútímans. Morðið er hins vegar óvenjulegt að því leyti að ástæður þess eru óljósar og morðinginn virðist fyrst og fremst stjórnast af eigin fýsnum. Ég held að það sé frekar sjaldgæft í íslenskum spennusögum en játa þó að ég hef ekki lesið þær allar. Það er líka óvenjulegt að fórnarlambið er karlmaður en ekki kona og það virðast einkum vera karlmenn sem eru í lífshættu í sögunni sem merkir að sagan fer á einhvern hátt að snúast um stöðu kynjanna, þó ekki á yfirborðinu.

Ég neita því ekki að ég er mikill spennusagnaaðdáandi og fyrir utan P.D. James sem ég nefndi áðan þá held ég mikið upp á John Le Carré og áhrif hans sjást í sögunni þó að þau séu eflaust ekki augljós neinum öðrum en mér. Áhrifin frá glæpasagnaparinu Sjöwall og Wahlöö eru væntanlega skýrari en ég held líka talsvert upp á þau og eins hinn sænska Håkan Nesser og svo Ira Levin sem var bæði mikill samfélagsrýnir og fer flestum öðrum betur með spennu. — Mér finnst raunar ólíklegt að mér hafi takist jafn vel til og þessum meisturum en ef sagan heldur vöku fyrir einhverjum lesendum, þá gleðst ég. Og enn meira ef einhverjum finnst jafn skemmtilegt að lesa hana og mér fannst að skrifa hana.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s