Ráðunautur Leslistans: Bubbi Morthens

bubbi-morthens

Bubbi Morthens er listamaður fram í fingurgóma, einn afkastamesti og dáðasti tónlistarmaður okkar, og hefur nú á síðustu árum einnig haslað sér völl sem eitt kraftmesta ljóðskáld þjóðarinnar. Fyrsta ljóðabók hans nefndist Öskraðu gat á myrkrið, næst kom Hreistur og nú hefur sú þriðja litið dagsins ljós og nefnist Rof. Leslistinn settist niður með Bubba til að ræða um þennan vistvænasta orkugjafa samtímans: ljóðlistina.

– Sverrir Norland

Sæll og blessaður, kæri Bubbi, og stígðu fagnandi inn í ráðuneyti Leslistans. Ég hellti upp á kaffi, hér er bolli — gjörðu svo vel. Einnig sykurmolar eins og þú getur í þig látið.

Mér leikur hugur á að vita hvaða ljóðskáld hafa skipt þig mestu máli. Áttu þér eftirlætisljóðskáld? Uppáhaldsljóðabók? Og ef svo er, vildirðu þá vera svo höfðinglegur að deila því með okkur hver skáldin eru, hvað bækurnar heita?

Ég á mér mörg eftirlætis ljóðskáld. Það skáld, sem ég hef verið að lesa þessa dagana og er því í uppáhaldi, heitir Maram al-Masri og hafa ljóð hennar íBarefooot Souls verið mér ofarlega í huga. Hún er fædd í Latakia í Sýrlandi og þessi ljóðaflokkur hennar er mjög flottur. Hann fjallar um ofbeldi gegn konum og börnum, ofbeldi sem þrífst í öllum borgum og þorpum jarðar að einhverju leyti, og beinist sérstaklega gagnvart flóttafólki og börnum á vegum úti og heima fyrir.

„Ég sem fæ ekki sofið,“ upphafslínur Dymbilvöku eftir Hannes Sigfússon, eru þesslegar að það er engin leið til baka. Sem sagt, Dymbilvaka er sú ljóðabók sem ég leita í aftur og aftur. Það er galdur ofin í ljóð Hannesar í þeirri bók og fyrir mér eru þetta jafn kröftug upphafsorð og í öðru verki sem byrjar á þessum línum: „Kallið mig Ishmael.“ Mörg íslensk skáld eiga í vitund minni sína hillu, ég gæti talið upp í dágóða stund þau skáld sem hafa snert mig þannig að maður verður ríkari við hvern lestur. Ég ætla að nefna skáld sem höfðu áhrif á mig ungan. Hannes Sigfússon sló mig kaldan og einnig til dæmis Leonard Cohen, hann hafði gríðarleg áhrif á mig og ég tel hann með betri skáldum. Hann á svo mörg ljóð og eftirminnilegar línur að það hálfa væri nóg. Þessi eru sleggja, þau er að finna í ljóði hans um um pókerspilarann í The Stranger Song: „His golden arm dispatching cards, but now it’s rusted from the elbows to the finger.“ Síðan er það Einar Ben. Hrannir — í hana kíki ég oft. Þar er ljóð sem orkaði sterkt á mig þegar ég var ungur maður og heitir „Líkskurður“. Fyrsta erindinu lýkur á þessum línum:

Nýfreðinn maður, meðalhár,
mátulega horaður nár,
aumingi ofan af Skaga.

Önnur bók, sem ég eignaðist 1981, er með ljóðum eftir Vilborgu Dagbjartsdóttir og heitir Ljóð. Ég veit ekki hvað það er en ég finn fyrir eins konar tengingu við ljóðin hennar. Ég man hvað mér fannst ljóðið hennar „Skref“ fínt og það má finna línu á milli þess og ljóðs sem er að finna í nýju ljóðabókinni minni, Rof.

Já, bókmenntirnar eru samvinnuverkefni, ljóðskáld ræðast við í verkum sínum.

Í ritgerð einni segir Borges eitthvað í líkingu við þetta (ég umorða eftir minni): „Ég fullyrði að byggingareiningar lífsins eru ljóðlist. Ljóðlist er okkur ekki framandi — hún situr ævinlega um okkur á næsta götuhorni. Hún stekkur beint í flasið á okkur þá síst varir.“ Hvernig myndir þú skilgreina ljóðlist? Hvers vegna sækja menn eins og við í ljóðlistina, hvað finnum við þar sem er svona magnað, orkuríkt og lífsnauðsynlegt? Ég veit að þetta er stór og flókin spurning, en mig grunar að þú lumir á svari …

Ljóð sýna okkur heiminn ekki sem heild heldur sem marga heima, allskonar heima þar sem hvert orð er stjarna á festingu vitundarinnar. Að yrkja er frávik, einskonar dásamleg fötlun. Samskynjun. Ljóðið er lykill sem opnar skáldinu heim þar sem öll flóra orðanna hefur sína liti og hver stafur sinn lit. Að vera skáld er hinn fullkomni flótti frá dauðanum. Að vera ljóðskáld er farmiði á fyrsta farrými hjartans. Öll skáld yrkja gegnum hjartað. Vitsmunir eru verkamenn hjartans. Ljóðið býr í öllum mönnum. Þessi forni seiður að klæða orðin í ljóð er í raun andardráttur lífsins.

Takk kærlega fyrir þetta, Bubbi. „Þessi forni seiður að klæða orðin í ljóð er í raun andardráttur lífsins“ — þessi orð munu fylgja mér út í daginn, reynast drjúgt veganesti …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s