Bækur, 26. október 2018

Mér barst í pósti Kambsmálið; engu gleymt, ekkert fyrirgefið eftir Jón Hjartarson, örstutt verk og fljótlesið, um hundrað síður. Efniviðurinn er dramatískur. Þann 4. Júní 1953 kemur hreppstjóri Árneshreps að bænum Kambi til að bjóða upp dánarbú föðurins, sem látist hafði fyrr á árinu. Húsmóðirin var þá á berklahælinu á Vífilsstöðum en heima fyrir aðeins börnin átta sem þar bjuggu, sjö til átján ára gömul. Framganga yfirvalda er kuldaleg. Hæstbjóðendum er selt allt sem nýtilegt þykir af búsmunum, og svo á að ráðstafa barnaskaranum á heimili í sveitinni eftir fornum reglum um sveitarómaga. Nema hvað, elsta barnið, átján ára heimasæta, stillir sér upp í útidyrunum og fyrirbýður að nokkurt systkina hennar verði tekið burt af heimilinu. Loks hunskast yfirvöld burt af bænum. Þau skilja börnin eftir í reiðileysi, bláfátæk og bjargarlaus. Höfundur hefur hér ratað á gott söguefni. Hann vísar í ýmsar heimildir og ræðir við eftirlifandi systkini til að grafa upp sannleikann að baki kaldlyndi fólksins í hreppnum gagnvart þessari ólánsömu fjölskyldu. Bókin er ágætlega rituð. Ljóður er þó hversu illa hún er prófarkalesin. Sumar villurnar eru afar einkennilegar; á blaðsíðum 25 og 26 kemur orðasambandið „að bjóða einhverjum birginn“ fyrir í tvígang – sem er, stíllega séð, kannski ekki til fyrirmyndar – og í fyrra skiptið er ritað „birginn“, en í það seinna „byrginn“. Svona mætti áfram telja. Þá er greinamerkjasetning í dálitlum ólestri. Mér finnst synd og skömm að ekki sé hægt að ganga betur frá jafn stuttri bók, ritstýra henni betur og prófarkalesa – það er lágmarksvirðing við lesandann – því að efniviðurinn er ágætur og ég þykist viss um að sagan hreyfi við mörgum. (SN.)

Ég fann á tilboði um daginn safn Italo Calvino af Ítölskum þjóðsögum í enskri þýðingu fyrir Kindilinn minn. Það er búið að vera frábært að grípa í þessar sögur við og við í símanum í stað þess að hanga á Twitter síðustu daga. Inngangur Calvino, sem fjallar að mörgu leyti almennt um þjóðsögur sem listform, er frábær. Hér er ein góð klausa úr honum sem ég staldraði við: “[F]olktales are real. Taken all together, they offer, in their oft-repeated and constantly varying examinations of human vicissitudes, a general explanation of life preserved in the slow ripening of rustic consciences; these folk stories are the catalog of the potential destinies of men and women, especially for that stage in life when destiny is formed, i.e., youth, beginning with birth, which itself often foreshadows the future; then the departure from home, and, finally, through the trials of growing up, the attainment of maturity and the proof of one’s humanity.”

Ég átti afmæli í síðustu viku og er svo heppinn að vera svo vel giftur að ég fékk þrjár bækur í afmælisgjöf frá eiginkonu minni. Ein þeirra heitir The Man who Created the Middle East  eftir Christopher Simon Sykes. Í henni fjallar Sykes um afa sinn, Sir Mark Sykes, sem undirritaði Sykes-Picot samkomulagið svokallaða sem margir telja sem upphafið að öllum vandræðum Mið-Austurlanda. Samkomulagið var á milli Breta og Frakka í kjölfar falls Ottóman-veldisins og snerist í stuttu máli um að skipta upp landssvæðum í Mið-Austurlöndum að því er virðist af hendingu og án aðkomu heimamanna. Í bókinni er dregin fram töluvert dýpri mynd af Sykes en flestir þekkja og persónu hans gerð mjög góð skil. Hann var mikill ævintýramaður og heimshornaflakkari sem hafði mikla þekkingu á og ástríðu fyrir Mið-Austurlöndum, þótt samkomulagið sem ber nafn hans gefi aðra mynd. Bókin er að mestu unnin upp úr bréfasafni Sykes og sýnir m.a. hvað hann var liðtækur teiknari, en bókin er skemmtilega myndskreytt. (KF.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

Kristín Svava Tómasdóttir, ljóðskáld og sagnfræðingur, sendir frá sér Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingar. Leslistinn hlakkar til að halla sér aftur í sófanum með þessa.

Eitt mesta núlifandi skáld okkar Íslendinga, Hannes Pétursson, sendir frá sér nýja ljóðabók, Haustsaugu. Það heyrir aldeilis til tíðinda. Síðasta útgefna ljóðabók Hannesar, Fyrir kvölddyrum, kom út árið 2006 og er að mínu viti á meðal betri verka skáldsins.

Haukur Ingvarsson hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár fyrir ljóðabókina Vistarverur. Í Bókaskápi Ástu birtist sýnishorn úr bókinni og ef marka má það er aldeilis um fínt verk hér að ræða. Og umfjöllunarefnið tímabært.

Hvert öndvegisskáldið á fætur öðru sendir frá sér ljóðabók um þessar mundir: Frá Sigurbjörgu Þrastardóttur er væntanleg ein sem nefnist Hryggdýr. (SN.)

Ég tók eftir því á Facebook að það er væntanleg útgáfa á ritsafni Dags Sigurðarsonar, ljóðskálds. Ég hef í sjálfu sér engar frekari upplýsingar um útgáfuna, en þekki vel til hans verka og er því spenntur fyrir henni. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s