Ráðunautur Leslistans: Þórður Sævar Jónsson

ego

Þórður Sævar Jónsson gerir sér lítið fyrir og sendir frá sér tvær þýðingar á verkum eftir Richard Brautigan þetta haustið, annars vegar smásagnasafnið Hefnd grasflatarinnar — sem er reyndar ein af mínum uppáhaldsbókum — og hins vegar skáldsöguna Hawkline-skrímslið. Brautigan hefur fylgt mér lengi, ferðast með mér út um allan heim, bæði bókstaflega og í huganum, og því fagna ég mjög þessum nýju þýðingum. Mér tókst meira að segja að ná í skottið á þýðandanum.

– Sverrir Norland

Sæll og blessaður, Þórður, og mikið gleður það okkur að fá þig, og raunar einnig Richard Brautigan, sem fylgir þér í anda, hingað til okkar í ráðuneyti Leslistans. Hvenær kynntistu Brautigan fyrst, hefur hann fylgt þér lengi?

Blessaður, Sverrir, og takk fyrir að bjóða mér í ráðuneytið! Satt best að segja man ég ekki almennilega hvenær leiðir okkar lágu fyrst saman. Mig minnir að ég hafi verið átján eða nítján, ég er allavega nokkuð viss um að ég hafi verið í MR. Ég byrjaði að lesa Gyrði af einhverri alvöru í menntó (ég veit það að minnsta kosti fyrir víst!) og fyrstu kynni mín af Brautigan voru í gegnum þýðingarnar hans.

Já, Gyrðir hefur verið iðinn við kolann og þýtt fjórar bækur eftir Brautigan, ef ég man rétt: Svo berist ekki burt með vindum,VatnsmelónusykurSilungsveiði í Ameríku, og Ógæfusömu konuna, auk þess sem hann lét nokkur ljóð eftir Brautigan fljóta með í þýðingasafninuAð snúa aftur og gott ef það leyndust ekki einnig nokkur í Flautuleikur álengdar. Óskar Árni hefur svo þýtt brot úr verkum Brautigan og Hörður Kristjánsson íslenskað heila bók, sem hann nefnir Heljarslóðarhattinn (e.Sombrero Fallout). Og ég sé það nú, þegar ég slæ þessu upp á Gegni, að ég sjálfur þýddi meira að segja ljóð eftir Brautigan á sínum tíma og birti í annarri ljóðabókinni minni, Með mínum grænu augum. (Hafði steingleymt því! Það var hið ómótstæðilega ljóð „Nefið á mér er að verða gamalt“.) Hvað er það sem gerir verk Brautigan svona heillandi, heldurðu?

Í fyrsta lagi er Brautigan bara svo brjálæðislega fyndinn og skemmtilegur. Sumar sögurnar hans eru eintómur galsi og skemmtilegheit frá upphafi til enda. Ég var til að mynda með strengi í kviðnum í þrjá sólarhringa eftir Sombrero Fallout. Ef ekki lengur. WillardDreaming of Babylon og seinni hluti Hawkline-skrímslisins eru sama marki brenndar, finnst mér. Þar eru ærslagangur og sprell í algjöru fyrirrúmi. Svo er framvindan í þeim svo yndislega furðuleg, það fer einhver atburðarás í gang sem vindur hægt og bítandi upp á sig þar til hún nær hámarki í einhverri allsherjar-pandemonumringulreið.

Þetta á nota bene ekki við um allar bækurnar, þær eru síður en svo allar steyptar í sama mótið. Bækurnar, sem Gyrðir hefur þýtt, eru til að mynda töluvert dramatískari en þær sem ég nefndi hér að ofan, þar er harmrænni undirtónn, ef þannig má að orði komast. Svo er leitun að frumlegra skáldi. Líkinga- og myndmálið hjá Brautigan er svo ferskt, óvænt og skemmtilegt að það er engu líkt. Svo er hann aldrei klisjukenndur. Aldrei nokkurntímann. Hvað get ég talið fleira til … samræðurnar hjá honum er sérkapítuli fyrir sig. Þær geta verið mjög sérkennilegar. Svo er formið á bókunum frekar óhefðbundið. Nýir lesendur gætu hnotið um það, ímynda ég mér. Kaflarnir eru mjög mergjaðir, þeir stystu ekki nema ein setning. Fyrir vikið fá sögurnar á sig dálítið mósaíklegan blæ, en það er ekki þar með sagt að þær séu sundarlausar, heldur mynda þessir örkaflar afar sterka heild. Svo svífa einhverjir naívískir andar yfir vötnum hjá honum, textinn er mjög ljóðrænn, tær og blátt áfram. Enginn óþarfa orðavaðall eða rembingur á þeim bænum.

Það er satt: Brautigan gefur manni leyfi til að ærslast, til að vera óhóflega ljóðrænn, til að leika sér. Og bókmenntirnar eru auðvitað, fyrst og síðast, leikur.

Ég man vel þegar ég las fyrst A Confederate General from Big Sur. Lokasíðurnar sprengdu algjörlega hausinn á mér. Ég las sögulokin, og svo kemur annar örstuttur kafli sem nefndist „Önnur sögulok“ og svo „Þriðju sögulok“, „Fjórðu sögulok“, „Fimmtu sögulok“ … Hann stingur sem sagt upp á nokkrum leiðum til að reka lokahöggið á bókina. Síðasti kaflinn nefnist svo „186.000 sögulok á sekúndu“ og hljóðar svo (í lélegri þýðingu minni):

Síðan koma fleiri og fleiri sögulok: þau sjöttu, þau fimmtugustu og þriðju, þau hundrað þrítugustu og fyrstu, þau fjögur hundruð þrítugustu og fimmtu, sögulok sem þjóta hjá hraðar og hraðar, fleiri og fleiri sögulok, hraðar og hraðar allt þar til þessi bók er komin með 186.000 sögulok á sekúndu.

Þessi kafli bæði eyðilagði og bjargaði lífi mínu. Ég man að ég hugsaði um þetta í marga daga á eftir — vikur — mánuði. Mátti virkilega skrifa svona?

Ég held að Brautigan hreiðri um sig í hjörtum lesenda sinna og yfirgefi mann aldrei, ef honum þá á annað borð tekst að skríða þangað inn. Svo er saga hans svo hrífandi og sorgleg: hvernig hann strögglaði við að fá bækur sínar útgefnar, hvernig hann sló í gegn og varð einn þekktasti rithöfundur hippatímans, og svo hvernig hann gleymdist og hætti að seljast — og endaði á því að fremja sjálfsmorð. Einhvern veginn er saga hans eins og tekin beint út úr einni bókanna hans. Gætirðu hugsað þér að skrifa ævisögu hans, á íslensku?

Ég treysti mér ekki til ráðast í ævisögu Brautigans, áreiðanlega fullt af fólki betur til þess fallið en ég. Svo fyndist mér ég vera að bera í bakkafullan lækinn, það hafa verið skrifaðir heilu doðrantanir um hann. Bókin hennar Ianthe er t.a.m. mjög fín. Væri kannski nærtækara að snara henni yfir á íslensku, hver veit?

Kannski, hún [You Can’t Catch Death eftir Ianthe Brautigan, dóttur Richards] er fín. En hvernig finnast þér textar Brautigan henta íslenskunni? Hefurðu rekið þig á einhver sérstök vandamál við að þýða hann?

Ég held að íslenskan klæði Brautigan bara nokkuð vel. (Vissirðu, Sverrir, að barnabarn Brautigans, eina barnabarnið hans vel að merkja, er að einhverjum hluta íslensk. Eiginmaður Ianthe er nefnilega Vestur-Íslendingur!)

Nei, það vissi ég ekki.

En aftur að efninu … Ég held að það sé ekkert við enskuna sem slíka sem standi þýðandanum fyrir þrifum, þannig lagað, miklu frekar einhverjir sérviskulegir tilburðir í Brautigan. Hann á það til að framandgera hversdagslegustu hluti, stundum að því er virðist að ástæðulausu, það olli mér ponsu heilabrotum. Eins geta líkingarnar hans verið mjög loðnar (ef ég man rétt stendur einhversstaðar í Hawkline-skrímslinu að Greer „renni af hestinum einsog vínviður“ sem þýðir einfaldlega að hann steig af baki!). Hann á það líka til að skrifa mjög langar málsgreinar, með ótal útúrdúrum og U-beygjum, en best af öllu er þegar hann blandar þessu tvennu saman, þ.e.a.s, hnoðar saman löngum og nett ruglingslegum líkingum. Í Hawkline-skrímslinu er til að mynda að finna mjög skemmtilega lýsingu á hrægömmum:

„Urmull af hrægömmum að hætti Gamla testamentsins hnitaði hringi, lenti og hóf sig til flugs á enginu. Þeir voru einsog holdi klæddir englar, boðaðir til helgiathafnar í stóru víðáttumiklu hofi margra lítilla hluta sem enn voru lifandi.“

Textin hjá Brautigan er oft og tíðum ansi talmálslegur, það er töluvert um slangur og blótsyrði og annað slíkt, það gat verið krefjandi gera því almennileg skil á íslensku, en vonandi hefur það sloppið fyrir horn.

Hvers vegna valdirðu Hefnd grasflatarinnar og Hawkline-skrímslið til þýðingar, frekar en önnur verk?

Sannast sagna byrjaði ég að þýða grasflötina svona af því bara. Ég hafði aldrei þýtt úr ensku áður, og datt í hug að þýða eina eða tvær sögur bara í gamni, það stóð aldrei til að þýða hana í heild sinni. Síðan vatt þetta bara uppá sig! Ég lenti bara í því að þýða hana. Ég þýddi stærstan hluta flatarinnar sumarið 2016, þá var ég með voða fínt vaktaplan, vann í viku og fékk svo vikufrí, sem ég nýtti mér til að dytta að Flötinni.

Ég las Skrímslið nokkrum mánuðum eftir að ég kláraði Flötina. (Ég reyndi að treina mér bækurnar hans eins mikið og ég mögulega gat, tilhugsunin um að vera búinn með Brautigan var skelfileg!) Mér fannst hún bara svo skemmtileg að ég hugsaði með mér að ég yrði að þýða hana. Flóknara var það nú ekki. Síðan var líka fínt að hamra járnið meðan það var heitt, Brautigan var ennþá sveimandi í kollinum á mér eftir Flötina. Þegar hér var komið sögu var ég byrjaður í meistaranámi í ritlist, þannig að mér fannst liggja beinast við að gera skrímslið að lokaverkefninu mínu. Sem varð svo raunin.

Já. Ertu jafnvel með fleiri þýðingar í bígerð? (Gaman væri að fá ljóðasafn …)

Ég hef augastað á tveimur-þremur bókum í viðbót eftir Brautigan. Ég las Willard (and His Bowling Trophies) þegar ég var búinn að leiða Flötina og Skrímslið til lykta. Ef ég hefði lesið Willard og skrímslið á sama tíma hefði ég átt mjög erfitt með að gera upp á milli þeirra, ég held sveimérþá að Willard hefði orðið fyrir valinu. (Kannski er ástæðan sú að mér finnst ég vera ískyggilega líkur einni aðalsöguhetjunni, klunnalegum sveimhuga sem hefur mikið dálæti á forngrískum bókmenntum!) Mér finnst hún allavega alveg kostuleg. Langar að spreyta mig á henni. Síðan er ég byrjaður að þýða ljóðabók eftir Brautigan.

Leslistinn lýsir yfir eindregnum stuðningi við þessi áform þín. Takk fyrir spjallið, Þórður. Og fyrir þýðingarnar …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s