Bækur, 2. nóvember 2018

Ég sá alveg frábæra sýningu um Bangsímon, merkilegt nokk, í The Museum of Fine Arts í Boston síðustu helgi. Þar var fjallað af næmi um dýpt um sköpunarstarf bæði rithöfundarins A.A. Milne og teiknarans E.H. Shephard – og einkum samstarf þeirra. Gömlu myndirnar eru einstakar (útþynnt útgáfa Disney fölnar í samanburði við upprunalegu teikningarnar) og í kjölfarið minntist ég hinna fínu þýðinga Guðmundar Andra Thorssonar á sögunum um Bangsímon. Þær komu út á afar vandaðri bók, með upprunalegu teikningunum, fyrir ekki svo ýkja löngu. Frábært lesefni fyrir þá sem vilja t.d. hafa gaman af því að lesa fyrir börnin sín.

Skömmu áður en ég yfirgaf Boston og hélt til Íslands, fékk ég bók að gjöf – frá höfundi verksins. Það er alltaf hættulegt að lesa bók eftir höfund sem maður hefur nú þegar í hávegum sem manneskju. Ég komst þó að raun um að slíkar áhyggjur voru óþarfar strax og ég opnaði The Animal Girl, eftir fjölskylduvin minn, John Fulton. Að gleyma sér í bók á meðan ferðast er um háloftin er alltaf yndislegt, og sögurnar í þessu safni eru skrifaðar af næmni, dýpt og tilfinningu, og sögupersónurnar sátu ljóslifandi við hliðina á mér í flugvélinni.

Þegar komið var til Reykjavíkur þyrsti mig auðvitað í að lesa nýjar bækur á íslensku. Ég varð mér úti um tvær splunkunýjar frá Partus Press. Sú fyrri, Krossfiskar, er önnur skáldsaga Jónas Reynis. Þar magnar höfundur upp afar sérstaka og svolítið drungalega stemningu, og ég leit ekki upp úr bókinni fyrr en tveimur klukkustundum síðar – hún er fljótlesin en sterk, og situr enn í mér.

Næst seildist ég í Kláða eftir Fríðu Ísberg. Það er smásagnasafn eftir höfund sem hefur afar mótaða og flotta rödd, og jafnframt einstakt lag á því að smjúga milli hugsanaheima ólíkra persóna. Það úir og grúir á svona Einmitt!-augnablikum í Kláða. Fríða fangar svo oft í orðanet einhverja stemningu eða einkenni á tíðarandandum sem maður kannast vel við en hefur kannski aldrei fært í orð sjálfur (eða að minnsta kosti ekki jafn vel). Þá hefur hún einstakt lag á að bregða upp eftirminnilegu myndmáli:

Esjan stóð hvít og róleg hinum megin við flóann. Með ljósbrúna flekki hér og þar. Eins og trygg og góð kýr. Einn stór vöðvi. Þung, sliguð belja. Þreytt til augnanna. Gott að faðma hana, leggja allan sinn þunga á hana. Láta hana bera sig hægt yfir gult engi. (137.)

Og ekki þarf að fletta lengi í bókinni til að finna aðra skemmtilega lýsingu:

Ég lá í sófanum og vandaði mig við að hugsa ekki um hluti sem létu mér líða illa. Það var svolítið eins og að halda kúlu inni á keilubraut. Ég var ekki góð í því. Þurfti alltaf hjálparvegg(138.)

Ekki get ég hins vegar mælt jafn mikið með Killing Commendatore, nýjustu skáldsögu Harukis Murakami. Mér hafa ekki fundist síðustu fjórar, fimm bækur hans skrifaðar af jafn miklum sjálfsaga og gömlu meistaraverkin – þessi er til dæmis alltof löng. Þrjátíu og sex ára listmálari, sem sérhæfir sig í portrettmyndum, flosnar upp úr hjónabandi sínu og lokar sig af í fjallasal á heimili frægs listamanns, Tomohiko Amada. Þar uppgötvar hann óþekkt málverk eftir Amada og hleypir af stað dularfullri atburðarás. Efniviðurinn er nokkuð skemmtilegur, en úrvinnslan hálf-kæruleysisleg. Til að mynda úir og grúir af endurtekningum. Hverri einustu kvenpersónu sem stígur til leiks er lýst samkvæmt sömu kunnuglegu Murakami-formúlunni: Flestir hefðu hikað við að lýsa henni sem beinlínis fallegri, andlitsdrættir hennar drógu alls ekki að sér athygli. Bókin byrjar skemmtilega, en um miðbikið verður frásögnin hálf-kjánaleg og svo heldur hún áfram út í hið óendanlega – rúmar sjö hundruð blaðsíður af endurunnum Murakami. Mér finnst svo sem alltaf gaman að lesa þennan frægasta samtímahöfund Japans, en gagnvart nýgræðingum mæli ég heldur með gömlu verkunum – nú, eða þessum fínu, nýju íslensku skáldsögum sem ég nefndi hér að ofan. (SN.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

Ég hlakka mikið til að lesa safnbók með úrvali úr bókum Óskars Árna, sem ber þann lýsandi titil Reykjavíkurmyndir.

David Zwirner galleríið gefur út litla bók eftir eftirlætishöfund minn, hinn argentíska Cesar Aira – sú fjallar um nútímalist.

Hægara pælt en kýlt eftir Magneu J. Matthíasdóttur er fjörutíu ára gömul skáldsaga sem ég hef aldrei lesið – og bók vikunnar á Rás 1 um þessar mundir. (SN.)

Ég sá að það er komin út ný þýðing á Víti eftir Dante, sem er myndskreytt af Ragnari Kjartanssyni. Virðist vera jólagjöfin í ár.

Fannst þessi umfjöllun hér um nýja bók um ris nýfrjálshyggjunnar býsna áhugaverð.

Svo rambaði ég á þessa nýju bók um trúarlegt ofstæki sem lítur út fyrir að vera djúpstæð lesning. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s