Bækur, 9. nóvember 2018

„Viltu láta karlmann í bókinni þinni segja: Að vera faðir og eiginmaður mótaði mig og gaf lífi mínu tilgang og merkingu. Gerðu það fyrir mig, Hekla.“

Svo mælir Ísey, besta vinkona aðalpersónu Ungfrú Íslands, sem er nýjasta skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur. Ísey elur, rétt eins og Hekla, með sér skáldlega drauma en vegna barneigna og hversdagsanna gefst henni ekki færi á að þroska hæfileika sína. Hekla er á hinn bóginn staðráðin í að verða skáld, sama þótt samfélagið kæri sig ekki hætishót um gáfu hennar á því sviði. Hún flyst til Reykjavíkur í því skyni að verða rithöfundur – í rútunni bögglast hún við að lesa eitt samþykktasta meistaraverk tuttugustu aldar, Ulysses eftir einn samþykktasta karlsnilling 20. aldar, James Joyce, með stóra orðabók sér til handargagns – og síðar út í heim, til Danmerkur og loks suður á bóginn. Auður Ava hefur hér skrifað sitt Heimsljós. Hún snýr upp á dæmigerðar hugmyndir um kynin í bók sem er í senn léttleikandi og læsileg, en um leið full af áleitnum spurningum og hugmyndum.

Góður maður færði mér bók sem var utan seilingar minnar þegar hún kom út fyrir ári: Öfugsnáða eftir Braga Ólafsson. Ég las hana á flugvelli og svo aftur í flugvél. Þetta er ljóðabók, og ég var í skýjunum, bókstaflega, en einnig í óeiginlegri merkingu. Það er erfitt að umorða yrkisefni Braga – og kannski ekki hægt – en að vanda kemur þó Reykjavík fyrir og það hvernig við erum aldrei fyllilega ánægð með eigið hlutskipti. Ég tek sem dæmi ljóðið „Þögnina“. Þar hafa byggingarframkvæmdir aftrað ljóðmælanda (og fjölskyldu hans?) frá því að njóta útiveru í garðinum hjá sér sumarlangt, og svo þegar framkvæmdunum er loks lokið og hægt er að una sér að nýju í ró og næði úti í garði, er sumarið á enda. Sólin er ekki lengur eins hátt á lofti og tekið að glitta í haustið.

Önnur hrífandi ljóðabók: Nýlega komu út Reykjavíkurmyndir eftir Óskar Árna, safn ljóða hans og örsagna, og spannar þrjá áratugi. Ég hef lesið flestar bóka Óskars Árna sem dagsins litu ljós á 21. öldinni, en hreifst nú sérstaklega af fyrri hluta ferilsins, einkum og sér í lagi ljóðagerð hans frá níunda áratuginum. Í inngangsorðum að bókinni spyr Jón Kalman: „Ef Óskar væri tónlistarmaður … væri hann þá ekki munnhörpuleikari í blúshljómsveit, sem ætti það til að breytast í dreymna djasssveit?“

Og svo rúsínan í pylsuendanum. Nýlega barst mér í hendur jólagjöf sem lenti á vergangi – gríðarmikill doðrantur sem ég fékk að gjöf jólin 2016, en varð svo viðskila við á snotru kaffihúsi eða sóðalegum bar í miðbæ Reykjavíkur. Þetta er Jón lærði & náttúrurur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson, og hefur nú loks borist mér eftir miklum krókaleiðum; ég vafði hana strax úr gjafapappírnum, las hana í háloftunum – að vísu ekki alla; til þess hefði ég þurft að ferðast hringinn í kringum jörðina; bókin er um sjö hundruð síður – og ég finn að hún snertir einhvern streng í brjósti mér á hárréttum tíma. Verkið rekur ævi Jóns Guðmundssonar lærða (1574-1658), en höfundur heldur mörgum boltum á lofti og talar beint inn í samtíma okkar hvað snertir hugmyndir og samband okkar um og við náttúruna – og heimkynni okkar, jörðina. Dregin er upp mynd af hugmyndaheimi miðalda skömmu áður en heimssýn manna gjörbreytist:. „Leit að algildum lögmálum fyrir gangverk [náttúrunnar] varð til þess að vélræn hugsun náði yfirhöndinni. Hún bægði frá þeirri virðingu fyrir sköpunarverkinu sem fólst í lífrænni hugsun um náttúruna sem skynræna heild. Það gerðist samhliða upplýsingu, kapítalisma og iðnbyltingu. Náttúran varð smátt og smátt að hlutgerðu viðfangsefni, „auðlind“ sem mönnunum þótti óhætt að ráðskast með að vild.“ (25.) Í eftirspili segir Viðar svo: „Aldrei hefur velmegun manna verið meiri en nú, en sá árangur hefur náðst í krafti drottnunar á kostnað náttúrunnar. Hún slær til baka, vistkerfum hennra hefur verið raskað ótæpilega og loftslagsbreytingar, súrnun sjávar, mengun og ofnýting auðlinda ógna mannkyni.“ (661.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

Og bækurnar streyma í búðir; væntanlegar eru meðal annars þrjár frá Benedikt bókaútgáfu sem ég mun lesa; Ritgerð mín um sársaukann eftir Eirík Guðmundsson; Hið heilaga orð eftir Sigríði Hagalín; og svo eftir Ég hef séð svona áður eftir Friðgeir Einarsson, einn skemmtilegasta smásagnasmið landsins.

Þá hlakka ég til að lesa Hasim – götustrákur í Kalkútta og Reykjavík eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, sem vikið var að hér að ofan. Auglýsi eftir eyðieyju og nokkurra mánaða frítíma. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s