Bækur, 16. nóvember 2018

Ég las loks King Kong Theory, eftir hina frönsku Virginie Despentes, sem gert hefur það gott að undanförnu með þríleiknum um Vernon Subutex. Despentes er magnaður höfundur, rödd hennar eins og elding. Í King Kong-kenningunni fjallar hún meðal annars um það þegar henni var nauðgað og skefur ekki utan af hlutunum. Mér finnst stimpillinn „skyldulesning“ oft kjánalegur, en set hann engu að síður á þessa bók. Eitt kraftmesta femínista-manífestó sem ég hef lesið. Fyrir þá sem ekki lesa frönsku: Bókin er til í vandaðri enskri þýðingu, sem gefin var út af The Feminist Press í New York, og hér má svo hlýða á Despentes í ágætu spjalli á alheimstungunni.

Dagur Hjartarson hefur gefið út nýja ljóðabók, Því miður. Þar snýr hann skemmtilega upp á kunnuglegar setningar sem iðulega óma í símsvörum fyrirtækja: Því miður eru allir þjónustufulltrúar okkar uppteknir… Höfundur hefur margt til síns máls um samskipti (eða samskiptaleysi) okkar í samtímanum, því miður.

Jón Ólafsson, tónlistarmaðurinn knái, hefur sent frá sér tvær sniðugar bækur, Sönglögin okkar og Vögguvísurnar okkar. Þar leynast laga- og vísnatextar, ásamt spilara með undirleik við lögin. Ég hef nýtt mér þennan spilara óspart og farið á kostum ásamt dóttur minni. Brjálað stuð, og stundum verið hringt á lögregluna í Queens. Bækurnar eru myndskreyttar á skemmtilega galgopalegan hátt af Úlfi Logason. Mæli mikið með þessum bókum fyrir söngelska foreldra sem vilja kenna börnunum sínum íslenska texta og halda uppi fjöri á síðkvöldum. (SN.)

Óskalisti Leslistans:

Hinn knái þýðandi, Sigurjón Björnsson, hefur sent frá sér aðra þýðingu á skáldsögu eftir franska meistarann Honoré de Balzak; Evgeníu Grandet. Ég las fyrri þýðingu Sigurjóns á annarri þekktri skáldsögu eftir Balzac, Föður Goríot, og einnig íslenskun hans á ævisögu Stefans Zweig um höfundinn franska. Báðar voru þær stórvel unnar, á ríku og auðugu máli. Hlakka til að næla mér í þessa. (SN.)

Ég hef séð mikið fjallað um nýja bók um Kaupþing eftir Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans. Bókin heitir Kaupthinking: Bankinn sem átti sjálfan sig og lofar ansi góðu miðað við það sem ég hef lesið og heyrt um hana. Hér er höfundurinn í viðtali í Silfrinu síðastliðna helgi.

Svo sá ég í Bókatíðindum minnst á þýðingu á bók eftir Arthur Koestler, Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki. Eftir smá gúggl sé ég reyndar að hún kom út í fyrra og skil ekki alveg hvernig sú útgáfa gat farið fram hjá mér. Koestler er einn af þessum höfundum sem maður hefur eins konar samviskubit yfir að hafa ánægju af, vegna þess hversu mikill hrotti hann var í daglegu lífi. Hann skrifaði tvær bækur sem eru á meðal bestu bóka sem ég hef lesið: Scum of the Earth og Darkness at Noon, sem er líklega hans þekktasta verk. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s