Ráðunautur Leslistans: Sjón

1_G39a6oSXfUoPpKVdS3MATA

Ég mælti mér mót við Sjón klukkan 16:03 á ónefndu kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur. Fyrst þurfti ég reyndar að ljúka erindi hjá bókaforlagi einu í grenndinni og sat þar góðan fund ásamt forleggjara. Að svo búnu yfirgaf ég bækistöðvar nefnds forlags og rölti sem leið lá að kaffihúsinu. Ég var þangað kominn klukkan 16:02. Mínútu síðar, eða á slaginu 16:03, birtist Sjón inn úr gættinni. Slík nákvæmni er til fyrirmyndar, en um leið nánast absúrd. Hann hafði þá einnig verið að sinna erindi hjá bókaforlagi í grenndinni — raunar hjá sama bókaforlagi og ég — og ekki nóg með það heldur hafði hann ætlað að hitta þar sömu manneskju og ég hafði hitt og fundað með. Því miður hefði sú manneskja hins vegar verið, af augljósum ástæðum, vant við látin, „á fundi með öðrum höfundi“. Ég ljóstraði því upp að sá höfundur hefði að líkindum verið ég. Sjón tók því vel. Upp úr dúrnum kom í kjölfarið að við hlytum að hafa yfirgefið bækistöðvar forlagsins um svipað leyti, eða klukkan 15:56 og 15:57, og svo að líkindum gengið samsíða götur áleiðis að kaffihúsinu — ég Vesturgötuna, Sjón Ránargötu. Klukkan var nú orðin 16:05. Sjón tók fram að fundur minn með forleggjaranum hefði sem betur fer ekki hindrað hann í að reka sitt erindi hjá sama forleggjara, sem var að skrifa undir pappíra, hann hefði gert það í góðu samstarfi við aðra góða manneskju innan vébanda sama forlags. Við ákváðum að fagna farsælum lyktum erinda okkar með því að panta okkur kaffi; ég ameríkanó, Sjón latte. En nefndur latte kemur einmitt við sögu síðar í viðtalinu, á leikrænasta augnabliki þess.

– Sverrir Norland

Sæll og blessaður, Sjón, velkominn í ráðuneyti Leslistans. Oftast byrja ég nú bara á að inna fólk eftir því hvað það sé að lesa í augnablikinu… Ertu að lesa eitthvað sem þér þætti gaman að spjalla um, benda á?

Já, ég er að lesa einhverja allra sérkennilegustu skáldsögu, eða skáldsagnaflokk, sem ég hef nokkurn tímann komist í. Það er þríleikur eftir Mariu Gabrielu Llansol, sem er portúgalskur höfundur, hún var í útlegð frá herforingjastjórninni og bjó í Belgíu held ég meira og minna öll sín fullorðinsár. Á ensku heitir þríleikurinn A Geography of Rebels, og er gefinn út af Deep Vellum-útgáfunni í Texas. Bókin kom út fyrir bara nokkrum vikum. Þetta er texti sem er staðsettur einhvers staðar við öll hugsanleg mörk, og fer yfir þau — mörk veruleika, ímyndunar, nútíma, fortíðar, hins mennska, hins dýrslega. Það er eitthvert flot þarna sem ég hef aldrei séð áður í texta. Þarna eru þekktar persónur úr heimspeki og bókmennta- og trúarsögu, og taka á sig ýmsar myndir í huga höfundar og helsta sögumanns verksins. Nietzsche er þarna og flæmskir sértrúarmenn frá tímum siðaskiptanna… og þetta er bara einhver mest spennandi og furðulegasti texti sem ég hef komist í lengi. Já, þetta er ég sem sagt að lesa núna.

Hljómar vel.

Já, og ég er nýbúinn að lesa aðra bók úr hinum latneska heimi, það er bók sem er einnig nýkomin út í Bandaríkjunum, sú er eftir mexíkanskan höfund og heitir The Taiga Syndrome — Taige-heilkennið — og er eftir höfund sem heitir Cristina Rivera Garza. Það er einnig með sérstakari bókum sem ég hef lesið lengi.

Og er einnig skáldsaga?

Það er líka skáldsaga, stutt skáldsaga. Í upphafi þykist hún vera einhvers konar spennusaga, eða saga með einkennum spæjarasögunnar. Kona fær það hlutverk að hafa uppi á annarri konu sem hefur stungið af frá eiginmanni sínum með öðrum manni og hefur flúið inn á svæði sem heitið Taiga, þaðan sem fæstir eiga afturkvæmt. Og það verður þarna einhvern ofboðslega sérkennilegur heimur til sem minnir í ýmsu á Stalker, kvikmyndina eftir Tarkovsky, þarna verður til svæði þar sem öll lögmál mannlegs samfélags og náttúru eru úr skorðum. Mjög heillandi bók.

Og svo er ég nú líka að lesa eitthvað íslenskt. Ég er akkúrat í þessu augnabliki að lesa Kjalnesinga sögu.

Ja-há?

Hún er ógurlega skemmtileg. Létt og skemmtileg. Stutt. Tuttugu blaðsíður, eitthvað svoleiðis. Maður bara klárar hana.

Og ertu að lesa hana þér til gamans eða er þetta hluti af einhvers konar rannsóknarvinnu?

Ég er fyrst og fremst að lesa hana mér til skemmtunar en líka sem undirbúning fyrir bók sem ég mun hugsanlega skrifa eftir þrjú ár og kannski aldrei.

Svo er ég líka nýbúinn að lesa Patrick Modiano, skáldsögu sem heitir á ensku Such Good Boys. Góðir strákar.

Já, þýðingu sem var að koma út?

Einmitt, var að koma út. Þar er Modiano á slóðum æsku sinnar. Bókin segir frá drengjum í heimavistarskóla og lýsir því hvað um þá verður, og er sögð með þessari sérstöku aðferð sem Modiano notar jafnan, þar sem minningar og tilbúningur eru á floti. Það má eiginlega segja að allar þessar bækur, sem ég er að lesa, séu þannig: það verður eitthvert veruleikarof í þeim…

Ertu aðdáandi Modiano?

Já, mikill aðdáandi. Ég hafði fyrst gríðarlega fordóma gagnvart honum. Þegar hann fékk Nóbelsverðlaunin rámaði mig eitthvað í nafnið. Það voru til í bókabúðum eftir hann verk á ensku, á milli ’85 og ’95 komu út nokkrir titlar. Og ég mundi eftir honum, hafði lesið mér eitthvað aðeins til um hann, og svo þegar hann fékk Nóbelsverðlaunin og rökstuðningurinn var gefinn — að þetta fjallaði um minnið og það að maður gæti ekki munað og væri að reyna að muna, og væri staðsett mjög nákvæmlega á tilteknum stöðum í París, og að höfundurinn sneri alltaf aftur og aftur til þessara staða, þessara minninga — þá fannst mér þetta hljóma eins og … eins og …

Þreytandi kokteill?

… já, svakalega þreytandi, franskur, heimspekilegur skáldskapur. En svo, á meðan ég var í þessu fordómakasti, þurfti ég fyrir tilviljun að tala við Sigurð Pálsson í síma og sagði við hann: Hvað geturðu sagt mér um þennan Modiano? Mikið svakalega hljómar þetta eitthvað óspennandi.

Uppáhaldshöfundur Sigga …

Já, þá fékk ég bara tuttugu mínútna fyrirlestur um Modiano. Dreif mig svo út samstundis og náði í bók sem heitir á frummálinu Dóra Bruder. Og heillaðist alveg.

Sú er einmitt komin út á íslensku.

Já, kom út nú fyrir skemmstu í þýðingu Sigurðar. Og ég las hana og gat ekki hætt, lauk henni klukkan fjögur um nóttina. Og hugsaði með mér að jafnvel þótt maðurinn hefði aldrei skrifað neitt annað en þessa bók ætti hann skilið að hljóta Nóbelsverðlaunin.

Og síðan hef ég haldið áfram að lesa hann. Í rauninni er ég orðinn einn af þessum Modiano-fíklum, sem hann heldur í sífelldri spennu, með loforði um að segja alla söguna … og svo gerir hann það aldrei.

Hann minnir mig mjög á film noir, það er andrúmsloft film noir í sögum hans. Og alveg eins og þar er hann alltaf með sitt fasta persónugallerí sem endurtekur sig. Og ég get horft endalaust á film noir… Vúps!

[Hér hellir sjón niður latte-num sínum. Uppi verður fótur og fit. Ég tel, eftir á að hyggja, líklegt að Sigurður Pálsson hafi hér verið kominn til okkar í anda, uppnuminn yfir fjörlegum samræðum um eftirlætishöfundinn hann. Hann hafi af glettnisskap staðfest nærveru sína með því að pota í Sjón, sem svo rak sig í kaffibollann.]

[Mínútu síðar, þegar menn hafa jafnað sig eftir óhappið.] Hvaða bók, eða höfundur, kveikti á þér sem höfundi, hjálpaði þér að finna leið til að skrifa bækur?

Ég hef haldið mig við það síðustu þrjátíu og fimm árin að sú bók sem skipt mig hefur mestu sé Meistarinn og margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov. Ég las hana fyrst í enskri þýðingu, þá var hún ekki komin út á íslensku. Það var bók sem Alfreð Flóki lánaði mér og krafðist þess að ég læsi svo ég yrði viðræðuhæfur. Það voru þrjár bækur sem ég þurfti að lesa til að hægt yrði að tala við mig. Meistarinn og margarítaGólem eftir Gustav Meyrink og og Krókódílastrætið eftir Bruno Schulz.

Það er góð bók…

Sem er ein af mínum uppáhaldsbókum, já, líka. En Meistarinn og margarítaer sennilega sú bók sem hefur haft mest áhrif á mig og skipt mig mestu máli. Hún sýndi mér að það væri hægt að vinna með ólíka þræði, ólíkar aðferðir, innan sömu skáldsögunnar. Þarna ertu með þrjár sögur undir; söguna af djöflinum, eða Lúsífer, sem kemur til Moskvu og setur allt á annan endann, afhjúpar alla veikleika mannsins; svo er það saga meistarans og margarítu, sem er saga hins ofsótta höfundar og þeirrar manneskju sem veitir honum von í hinum harða heimi ofsókna Stalíntímans; og svo ertu með söguna af fundi frelsarans og Pontíusar Pílatusar. Og að hægt sé að vinna með þessa þrjá þræði í einu og sama verkinu er alveg með ólíkindum. Þarna ertu með harmleikinn, dramað, eina stærstu sögu vestrænnar menningar, og svo sögu sem er sögð af satanískri gleði — ærslasögu. Þetta er bókin sem í rauninni gerði það að verkum að mig langaði til að takast á við skáldsagnaformið. Fram að því fannst mér allar skáldsögur svolítið eins.

Auðvitað höfðu þó fleiri höfundar áhrif á mig: Guðbergur Bergsson, með bæði Tómasi Jónssyni: metsölubók og Ástum samlyndra hjóna og Thor Vilhjálmsson með Fljótt, fljótt sagði fuglinn og Turnleikhúsinu. Það eru skáldsögur sem sýna manni að það er hægt að gera hvað sem er.

Á sama tíma var ég líka að uppgötva höfunda eins og William Burroughs, sem hafði heilmikil áhrif á mig og mikla þýðingu fyrir mig. Úrvinnsla hans á alls konar reyfaraefni; glæpasögum, vísindaskáldsögum, samsærisbókum, manúölum um samsetningu á skammbyssum … hvernig hann gat steypt öllu þessu saman.

Þannig að þú heyrir að allir þessir höfundar eiga það sameiginlegt að þeir eru að steypa hlutum saman. Það er einhver ofgnótt í verkum þeirra. Og þó að ég hafi nú stundum getið haldið mig frá ofgnóttinni og skrifað svona frekar mínímalískar skáldsögur, þá hef ég ofboðslega gaman af því að reyna að hafa allan heiminn undir í einu og sama verkinu.

Hefurðu þá ekki lesið Lífið: notkunarreglur eftir Georges Perec?

Jú, jú, ég las hana á sínum tíma. Fyrir hundrað árum. Þá var það ein af þessum bókum sem allir urðu að lesa. Það er annar svona hvalur.

Annar nýrri hvalur, sem hafði mikil áhrif á mig á sínum tíma, er Infinite Jest eftir David Foster Wallace, tæpar tólf hundruð blaðsíður. Ég veit ekki hvort þú þekkir hana?

Ég þekki bara þetta nafn, kannast auðvitað við bókina og hef lesið mikið um hann. Hann höfðaði samt aldrei til mín. Það gerði hins vegar annar bandarískur höfundur, sem er á svipuðum aldri, William T. Vollmann. Hann er einn af þessum höfundum sem eru af einhverri stærð sem stendur fyrir utan okkar tíma.

Vollmann var einmitt að gefa út langt og þunglyndislegt verk um loftslagsbreytingarnar, Carbon Ideologies, í tveimur bindum — No Immediate Danger og No Good Alternative. (Sjá Leslista 14. september 2018.) En einhvern veginn hefur hann aldrei náð að snerta mig á jafn persónulegan, eða tilfinningalegan, hátt og Wallace.

Nei, nei, ég skil það mjög vel. Hjá Vollmann eru þetta svo stór prójekt. Hvalir.

Og fyrst þú nefnir lofslagsbreytingarnar — ég hét vinkonu minni, henni Laurie Anderson, sem ég kom fram með nýlega í New York, að beina talinu framvegis, í hverju einasta viðtali, aðeins að loftslagsbreytingunum. Getum við haft það með?

Við skulum hafa það með.

En hvenær uppgötvaðirðu galdur ímyndunaraflsins, gleðina að lesa? Byrjaðirðu að skrifa ljóð af því bara, eða tendraði eitthvað neistann?

Ég byrjaði að skrifa ljóð þegar ég uppgötvaði atómskáldin. Þá var ég fimmtán. Það var þannig, á þeim tíma, að það var staðnæmst við Stein Steinarr í íslenskri bókmenntasögu. Við fengum að lesa einhver þrjú, fjögur erindi úr Tímanum og vatninu. Og það var haft með sem eitthvað svona skringilegt í lokin. Skólaljóðabókin minnir mig að hafi endað á nokkrum erindum úr Tímanum og vatninu. Í rauninni vissi raunverulegur íslenskur krakki ekkert að til væri eitthvað sem hét nútímaljóð.

Ég hafði reyndar gluggað öðru hverju í bók sem var til heima hjá mér, hið fræga safn Erlend nútímaljóð, sem er þýðingar mest Birtingsmanna. Þessi bók var til heima, móðir mín átti hana. Og af því að ég var lesandi krakki var ég alltaf að athuga hvað væri í hillunum. Þarna voru nokkur ljóð sem snertu við mér. „Blökkumaður talar við fljót“ eftir Langston Hughes, svo var þarna ljóð eftir Nazik Hikmet, tyrkneska ljóðskáldið, einnig eftir Vítězslav Nezval, tékkneska ljóðskáldið, svo að ég á sterkar minningar um að þessi ljóð snertu við mér.

En svo var ég svo heppinn að vera einn af þeim sem voru í Háskólabíói þegar Listaskáldin vondu lásu upp. Ég var þrettán ára gamall. Við bjuggum uppi í Breiðholti, við móðir mín, og það hefur sjálfsagt verið sagt frá þessu undir lok fréttatíma eða verið lesin einhver tilkynning um þetta eftir fréttir, eða hvort það leyndist ekki lítil fréttatilkynning í Þjóðviljanum? Allavega, við mamma drifum okkur. Við fórum í bæinn og komum tímanlega, fengum góð sæti. Og ég varð þarna fyrir mjög mikilli upplifun, held ég að ég geti fullyrt. Þarna var stigið fram í nafni ljóðsins, í nafni skáldskaparins, og þetta var skemmtilegt.

Og margt fólk líka.

Fullt af fólki! Og svo var þetta bara svo skemmtilegt. Og skrítið á sama tíma. Ég held að það hafi setið í mér.

Sem sagt: Lesturinn á erlendu nútímaljóðunum. Og að hafa séð listaskáldin vondu. Og síðan, þegar ég er fimmtán ára, þá var ég sem sagt í Hólabrekkuskóla og var þar í nemendaráði, sem þýddi að maður hafði ákveðna aðstöðu í kjallaranum, þar voru geymslur, fjölritunarvélar og fleira sem nemendaráð þurfti að nota — og þar ofan í geymslu fann ég bók sem gefin hafði verið út af Bókaútgáfu námsbóka, eða hét það Íslenskar námsbækur? — — það var svona námsbókafélag ríkisins, sem gaf út allar skólabækur á Íslandi á þeim tíma — og þar leyndist bók sem var safnrit með nútímaljóðum. Og sjálfsagt hefur meiningin verið sú að maður lyki við að lesa Skólaljóðin, bláu bókina sem margir minnast með mikilli nostalgíu.

Og var endurútgefin nýlega.

Einmitt. Og þegar henni lyki — þá er maður kannski tólf, þrettán ára — þá fengi maður þessa sem viðauka. Nema að ég veit ekki til þess að hún hafi nokkru sinni verið kennd, eða nokkur hafi séð þessa bók. Þarna fann ég í geymslu bunka af þessum bókum. Og fékk að taka eina með mér, það átti ekkert að nota þetta hvort sem er. Ég tók þetta heim með mér og heillaðist algjörlega, einn, tveir og þrír, af Hannesi Sigfússyni. Upphafi Dymbilvöku. Bifreiðinni sem hemlar í rjóðrinu eftir Stefán Hörð.

Og fyrr en ég vissi var ég byrjaður að svara þessu.

Skrifa sjálfur…

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s