Bækur, 23. nóvember 2018

Í síðustu viku nefndi ég hina kraftmiklu King Kong Theory eftir vitsmunanaglann Virginie Despentes. Þegar ég hafði lokið lestri á þeirri bók, sem er löng ritgerð, seildist ég eftir skáldsögu úr ranni sama höfundar, sú ber þann töffaralega titil Apocalypse Baby. Flott bók. Leit einkaspæjara – tveggja afar ólíkra kvenna – að týndri stúlku veitir höfundinum færi á að grannskoða og krítísera ýmsa anga vestræns nútímasamfélags. Despentes er hin pönkaða systir Michel Houllebecq, frænka Charles Bukowski, og yrði flott á barnum með Simone de Beauvoir. Eiturklár, flink í að ögra á snjallan hátt – stundum fellur hún þó í gildru pönksins, sem er að ganga aðeins of langt í því að ögra og þá fær lesandinn á tilfinninguna að hún sé að rembast. Slíkt heyrir þó til undantekninga. Haganlega fléttuð skáldsaga og jafnframt góður þverskurður af frönsku samfélagi, París og Barselónu. Gef þessari bók 3,645 stjörnur.

Á sínum tíma las ég útgáfu Philips Pullman á Grímmsævintýrunum, það var ágæt bók. Sú kom síðar út í yndislegri þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur (mæli með því að lesendur verði sér úti um hana ef hún prýðir ekki nú þegar hillu). Ævintýrum þeirra Grímsbræðra fylgdu hugleiðingar Pullman um þessa tegund frásagnarlistar, og mér fundust þær settar fram af miklum skýrleika og greind. Ég sperrti því eyru þegar ég fregnaði að væntanlegt væri safn með úrvali af ritgerðum hans og fyrirlestrum, Daemon Voices: Essays on Storytelling, og ég verð að segja það nú, þegar ég hef lesið bókina, að þarna leynast einhverjar snjöllustu hugleiðingar sem ég hef lesið um sagnagerð. Pullman notar þekktasta verk sitt, His Dark Materials (sem til er á íslensku og ég hef NB ekki lesið), til að varpa ljósi á aðferðir sínar og hugmyndir, og fjallar einnig rækilega um hvaðan hann sótti innblástur við skrif sögunnar; í Paradísarheimt Miltons, í goðsögnina um Adam og Evu og brottrekstur þeirra úr Paradís, um tiltekna ritgerð eftir Heinrich von Kleist. (Þegar ég var að skrifa þessa klausu rifjaðist upp fyrir mér að eitt sérrita hins yndislega bókmenntatímarits Bjarts & frú Emilíu, sem kom út á árunum 1990-2001, var helgað nóvellu Kleists, Jarðskjálftanum í Síle. Eða dreymdi mig það bara? Rannsóknarvinna leiddi í ljós að allir árgangur Bjarts & frú Emilíu eru aðgengilegir hér á timarit.is – auðvitað eru þeir það! þetta gladdi mig mikið – en ég náði hins vegar ekki að grafa upp í hvaða tölublaði áðurnefnd nóvella leynist, þar sem ég var orðinn of seinn Þakkargjörðarmáltíð og fjölskylda mín tekin að reka á eftir mér. „Leggðu nú frá þér tölvuna, Sverrir!“) Og já. Sem sagt. Hvert var ég nú aftur kominn? Heinrick von Kleist … og Philip Pullman! Ég var afar ánægður með þetta ritgerðasafn hans. Mæli sérstaklega með því gagnvart þeim sem hafa áhuga á sagnalist og því hvernig sögur er skrúfaðar saman. (SN.)

 

Óskalisti Leslistans:

Ég tók eftir því að út er komin bók sem fjallar um speki Tómasar frá Akvínó og hagfræði, og heitir Aquinas and the Market: Toward a Humane Economy. Ég hef held ég aldrei áður heyrt um rit sem fjallar til jafns um guð- og hagfræði og þess vegna vekur þessi bók áhuga minn.

Ég fjallaði eitt sinn á þessum vettvangi um frábæra bók sagnfræðingsins Peter Frankopan – Silk Roads sem segir sögu Mið-Austurlanda frá skemmtilegum sjónarhóli. Hann var að gefa út framhald af þeirri bók sem nefnist einfaldlega New Silk Roads og lofar góðu.

Sá að það var komin út ný bók um Isaiah Berlin sem nefnist In Search of Isaiah Berlin: A Literary Adventure. Bókin er skrifuð af samstarfsmanni hans til margra ára sem hefur helgað líf sitt því að skrásetja og gefa út það sem Berlin hefur skrifað og sagt. Held að þetta sé helvíti áhugaverð bók. (KF.)

Og síðast en ekki síst: Hans Blær, ný skáldsaga eftir Eirík Örn Norðdahl, er komin út. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s