Bækur, 30. nóvember 2018

Fullorðinsbækur:

Nú var ég loksins að flytjast í húsið mitt eftir að hafa dvalið hjá tengdaforeldrum mínum í átta mánuði. Ég mun verja helginni í að taka upp úr bókakössunum mínum sem ég hef saknað ógurlega síðustu mánuði. Mér var þá hugsað til þessarar fallegu greinar eftir Stefan Zweig sem fjallar einmitt um þetta, tilfinningarnar og minningarnar sem flæða um mann þegar maður tekur upp úr rykföllnum bókakössum. Þessa grein er að finna í enskri þýðingu í ritgerðarsafninu Illuminations sem ég mæli mikið með.

Ég rambaði í vikunni á fáránlega áhugaverða síðu á vegum CIA þar sem njósnadeildin bandaríska birtir ýmis upplýsingarit um njósnir og skilvirka upplýsingaöflun. Það sem mér fannst einna áhugaverðast að finna þar var bók um „njósnasálfræði“ eða Psychology of Intelligence Analysis. Ég hef aðeins blaðað í henni (enda leiðinlegt að lesa langan texta af síma eða tölvuskjá) en finnst hún bæði áhugaverð og gagnleg þrátt fyrir að ég starfi ekki sem njósnari (ennþá). Ég staldraði sérstaklega við fyrsta kaflann sem ber titilinn Thinking About Thinking og fjallar einmitt um hvernig maður á að fara af því að þroska og betrumbæta það hvernig maður hugsar.

Ég vil helst ekki dæma bækur áður en ég klára þær í heild sinni (fyrir utan að lýsa yfir áhuga mínum) en ég má til með að segja nokkur orð um bókina Factfulness eftir Hans Rosling sem ég byrjaði á fyrir nokkrum dögum. Hún hefur verið lofuð í hástert síðan hún kom út fyrr á árinu – áðurnefndur Bill Gates talaði t.d. um að hún væri ein besta bók sem hann hefði lesið. Markmið bókarinnar er fyrst og fremst að benda á nokkrar staðreyndir um stöðu heimsins sem sýna fram á að hann sé að þróast til betri vegar. Bókin er virkilega vönduð og vel skrifuð (byrjar þannig allavega) og fær mann svo sannarlega til að horfa bjartari augum á stöðu mála á heimsvísu. Mér finnst t.d. alveg sláandi að sjá hvað það hefur dregið mikið úr fátækt í heiminum á síðustu áratugum. Eftir sem áður er ég ekki sannfærður um að heimurinn sem slíkur sé að þróast í átt til betri vegar. Ég trúi því að maðurinn geti stuðlað að framförum á sviði tækni og vísinda en ég held að mannlegt eðli sé mjög torbreytanlegt – þ.e. að mannskepnan verði jafn grimm og jafn góð eftir 100 ár og hún var fyrir 100 árum síðan. Þannig eru allar framfarir í eðli sínu afturkræfar og ekki hægt að gera ráð fyrir að þær endist – en það er vissulega enn betri ástæða til að berjast fyrir þeim. Ég ætla að klára bókina áður en ég felli lokadóm um hana. Held því líka til haga að það er öllum mönnum hollt að lesa efni sem maður er ósammála. Mig grunar að ég komi klárari úr þessum lestri í hið minnsta. (KF.)

Út er komin snotur, lítil bók, eftir eftirlætishöfundinn minn, hinn argentíska Cesar Aira, og nefnist í enskri þýðingu On Contemporary Art, gefin út af David Zwirner Books. Aira lýsir dálæti sínu á list og liststefnum, og einkum listtímaritum, og veltir vöngum yfir stöðu listarinnar í samtímanum – á sinn einstaka hátt. (SN.)

 

 

Barnabækur:

Door eftir eftir suður-kóreska teiknarann og höfundinn Jihyeon Lee rataði á fjörur mínar í vikunni – og er algjörlega stórfengleg. Teiknistíllinn er mjög sérstakur, í senn aðlaðandi og framandi – og sagan, sem sögð er án (skiljanlegra) orða, heillandi. Bók í sérflokki.

Þá keypti ég aðra barnabók, sem ég hafði fyrst tekið á bókasafninu en vildi eignast: Extra Yarn eftir Mac Barnett, með teikningum eftir Jon Klassen. Þeir félagar hafa unnið að nokkrum bókum í samstarfi og hlotið fyrir lófatak og viðurkenningar. Í Extra Yarn finnur Annabelle litla öskju með lopa í öllum regnbogans litum og tekur að sauma peysur á alla í þorpinu sínu – og síðan einnig á dýrin þar, húsin, trén. Lopinn virðist aldrei þrjóta. Þetta er afar falleg og eftirminnileg bók, með fléttu sem gengur upp á órökrænan hátt, eins og svo margt í góðum skáldskap. (SN.)

 

 

Óskalisti Leslistans:

 

Ég hef haft gaman af því að lesa það sem stærðfræðingurinn Steven Strogatz hefur frá að segja. Þess vegna fannst mér gaman að sjá að það er væntanleg bók eftir hann sem nefnist Infinite Powers og fjallar um undraheima stærðfræðinnar.

Ég minntist á tvær greinar eftir vísindamanninn Laslo Barabasi í síðasta lista. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig ég fór að því að uppgötva þennan áhugaverða mann. Upp úr þurru byrjaði hann að elta mig á Twitter fyrir nokkrum mánuðum síðan og ég hef í kjölfarið farið að lesa mér til um ýmislegt sem hann hefur gert. M.a. tók ég eftir því að hann gaf nýlega út bók sem nefnist Formula – Universal Laws of Success sem lítur út fyrir að vera helvíti áhugaverð.

Talandi um flókin kerfi, stærðfræði og tölur. Miðað við Amazon körfuna mína þessa dagana virðist það vera það eina sem mér er hugleikið. Ég hnaut t.d. um þessa bók hér sem er nýútkomin og er kennslurit um „flókin kerfi“ (e. complex systems). Ég er alveg viss um að ég muni ekki skilja neitt í henni ef ég fæ hana í hendurnar – en mér finnst hún samt fjári áhugaverð. (KF.)

Titillinn á The New Dark Age: Technology and the End of the Future, nýrri bók eftir James Bridle, höfðar afar sterkt til mín. Eitthvað handa öllum þeim sem óttast að tæknin muni hugsanlega með tímanum gera – eða hafi jafnvel nú þegar gert – okkur að einsleitari og glámskyggnari dýrategund. Úr lýsingu frá Verso-útgáfunni: „As the world around us increases in technological complexity, our understanding of it diminishes. Underlying this trend is a single idea: the belief that our existence is understandable through computation, and more data is enough to help us build a better world.“ Í myndböndunum, sem fylgja hlekknum hér fyrir ofan, ræðir Bridle meðal annars á afar næman hátt um hvernig tölvukerfi og forrit eru ekki hlutlaus heldur oft t.d. afar rasísk – enda byggist ákvarðanir þeirra alfarið á því sem þau hafa úr að moða, þ.e. gögnum um sögu/skoðanir/kreddur okkar, mannkynsins. Ef við ætlum að treysta tölvum til að hugsa fyrir okkur, á hvaða upplýsingum mötum við þá tölvukerfin? Eins lýsir hann því hvernig infrastrúktúr internetsins mótast af heimsvaldastefnu fyrri tíma, og minnir okkur á að internetið er ekki einhver svífandi og óefnislegur undraheimur í skýi fyrir ofan kollinn á okkur, heldur knúinn áfram í risastórum byggingum við útjaðar borga og í sæstrengjum, mannvirkjum sem senda frá sér mikinn hita og krefjast gríðarlegs rafmagns. (SN.)

Út er komin bók um hvernig nýta má gagnavísindin til góðs sem heitir Model Thinker: What you Need to Know to Make Data Work for You. Þar sem ég lifi og hrærist í þessum heimi í starfi mínu er ég nokkuð öruggur með að ég kaupi þessa bók. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s