Ráðunautur Leslistans: Ævar Þór Benediktsson

Aevar_kynningarmynd.jpg

Ævar Þór Benediktsson hefur sent frá sér fjöldamargar vinsælar barnabækur á síðustu árum og skipað sér sess sem einn helsti baráttumaður þjóðarinnar fyrir auknum lestri barna og unglinga. Hann hefur haldið úti lestrarátaki Ævars og var árið 2017 tilnefndur til ALMA-verðlaunanna (Astrid Lindgren Memorial Award), sem ,,promoter of reading”, eða ,,lestrarhvetjari”. Og er þá fátt eitt talið.

Heill og sæll, kæri Ævar, og hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans. Þú mátt annaðhvort hlamma þér þarna á grjónasekkinn — alveg óþarfi að fara úr skónum — eða þá þú mátt leka dæsandi niður í þennan flosmjúka, forláta hægindastól hér við gluggann. Heitt á könnunni og kleinur eins og þú getur í þig látið.

En við erum ekki hingað komnir til að ræða bakkelsi. Ertu að lesa eitthvað gott þessa dagana?

Ég er að reyna að lesa sem mest af nýjum íslenskum barnabókum til þess að sjá hvað kollegarnir eru að skrifa. Ég er til dæmis nýbúinn að klára Nærbuxnaverksmiðjuna eftir Arndísi Þórarinsdóttur og sem unnandi orðagríns (og auðvitað nærbróka) hafði ég mjög gaman af. Ég er reglulegur gestur í Nexus, sem þýðir að teiknimyndasögur er eitthvað sem ég les líka mikið af. Í síðustu viku var ég til dæmis að lesa fyrstu tvö safnritin af Sweet Tooth, einstaklega grimmri og um leið fallegri distópíu sem er eins og blanda af Mad Max og Bamba. Þá var ég sömuleiðis að endurlesa Wytches eftir Scott Snyder sem er ein besta hrollvekja sem ég hef nokkurn tímann lesið. Þá var ég líka að fá einstaklega fallegt bókaknippi í póstinum eftir Sverri nokkurn Norland og bíð kátur eftir að ráðast á það.

Já, líst vel á nærbuxurnar og knippið. Lestu einnig tímarit eða vefsíður?

Ég er mikill áhugamaður um kvikmyndir og glugga reglulega í Empire-tímaritið. Það er nýkomið út aukablað frá þeim sem fókustar bara á sögu Alien-myndanna og ég er að lesa það þessa dagana. Annars les ég mest greinar í gegnum netið, oftar en ekki tengdar kvikmyndum eða viðtöl við höfunda, leikstjóra eða leikara. Hér er síða sem ég kíki reglulega á.

Notarðu jafnvel einhverjar vefsíður til að leita uppi áhugaverðar bókatillögur, annað þess háttar?

Ég nota goodreads til að fá hugmyndir að bókum og höfundum og kíki oft á amazon og skoða hvað er nýtt á ferðinni. Ég er einnig að „elta“ fjölmarga útgefendur og höfunda á twitter og þeir eru duglegir að mæla með bókum, sem ég bæti svo á “Want to read” listann á goodreads og hef þá næst bak við eyrað þegar ég kíki í bókabúð.

Einu sinni, endur fyrir löngu — eða reyndar kannski ekki fyrir svo ýkja löngu — varstu ungur drengur, og þá velti ég fyrir mér hvort þú hafir átt þér einhverja uppáhaldshöfunda? Eða varstu forfallinn tölvuleikjaspilari eins og ég? Varstu jafnvel bæði tölvuleikja- og bókaunnandi? Eða eyddirðu æskunni úti í sveit á hestbaki? Það sem ég er að reyna að fiska eftir: Hvaða rullu spiluðu bækur í uppvexti þínum?

Ég drakk í mig Stephen King þegar ég var yngri, ásamt Roald Dahl og Don Rosa. Ég var aðeins í tölvuleikjum, en litli bróðir minn, barnabókahöfundurinn Guðni Líndal, var alltaf mun betri í þeim heldur en ég, þannig að ég gaf honum oftast tölvutímann minn svo við kæmumst lengra í leiknum — enda ekki alltaf hægt að vista hvert maður var kominn í þá daga. Bækur spiluðu stóra rullu og það var farið oft í mánuði á bókasafnið til að skila og fá fleiri bækur. Ég held að þá hafi líkað kviknað árátta mín til að safna bókum, sem er eitthvað sem ég mun þurfa að lifa með alla ævi. Lúxusvandamál samt, svona ef við erum alveg hreinskilnir.

Áttu þér einhvern eftirlætishöfund, sem hefur verið þér leiðarstjarna, fyrirmynd, sem opnaði fyrir þér leiðir til að skrifa eða semja?

Kurt Vonnegut og Lemony Snicket kenndu mér að leika mér með texta, bæði í orðum og uppsetningu. Þeir kenndu mér líka að endurtekningar geta verið óvæntar og skemmtilegar, að orðagrín getur tekið margar blaðsíður og að endurtekningar geta verið óvæntar og skemmtilegar.

Í hvaða stellingu finnst þér best að lesa og í hvers kyns umhverfi? Viltu hafa einhvers konar snarl innan seilingar og þá hvernig (salt? sætt? beiskt?) eða jafnvel drykkjarföng (heitt? kalt? kolsýrt?).

Ég skrifa allar mínar bækur á kaffihúsum. Ég set risastór heyrnartól á höfuðið, hlusta á kvikmyndatónlist eða söngleiki, sötra kaffi og maula ristað brauð. Mér finnst erillinn þægilegur.

Einmitt, sama hér — svona skapandi áreiti. Hvaða bók hefurðu oftast gefið öðrum?

Bókaþjófinn eftir Markus Zusak. Frábær bók sem ég þori ekki að lesa aftur vegna þess að mér fannst hún svo góð.

Þú getur þá kannski lesið nýju bókina sem Zusak var að gefa út í staðinn? Hvaða bók hefur haft mest áhrif á líf þitt til þessa? Áttu þér slíka bók, eða eru þær kannski fleiri en ein?

Nornirnar eftir Roald Dahl, vegna þess að þar lærði ég að stundum enda barnabækur illa og að bók getur bæði verið smásögur og ein stór saga í einu. I Am Legend eftir Richard Matheson hafði líka áhrif á mig, vegna þess að það er eina bókin sem ég hef lesið sem hefur náð að bregða mér. Afrek sem ég stefni að — en mun líklega aldrei ná.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s