Bækur, 7. desember 2018

Í síðasta Leslista nefndi ég að ég væri flytjast í nýtt húsnæði og þess vegna að taka upp úr bókakössum þessa dagana. Það minnti mig á grein sem fjallar einmitt um tilfinningarnar og minningarnar sem vakna við að taka upp úr gömlum bókakössum. Ég gerði hins vegar þau mistök að ég fór rangt með nafn höfundar þessarar ritgerðar. Ég sagði að hún væri eftir Stefan Zweig, þegar hið rétta er að hún er eftir Walter Benjamin. Enginn annar en ofannefndur Gyrðir Elíasson sendi okkur línu og leiðrétti misskilninginn og þakka ég honum kærlega fyrir ábendinguna. Svo fatta ég það þegar ég er búinn að taka megnið af bókunum mínum upp úr kössunum að þessi ritgerð er til í góðri íslenskri þýðingu Jóns Bjarna Atlasonar í bókinni Fagurfræði og miðlun þar sem safnað hefur verið saman úrvali greina eftir Benjamin undir ritstjórn Benedikts Hjartarsonar. Ég hef átt þessa bók í mörg ár og skil ekki af hverju ég gleymdi henni – og enn síður af hverju ég ruglaði þessum ágætu rithöfundum saman. Það er engum mönnum hollt að vera aðskilinn bókasafninu sínu í langan tíma. Nú finn ég loks að ég get andað léttar, lesið og lifað betur. Hér er ágæt lína úr þessari góðu grein Benjamin sem ég er nokkuð sammála:
„Til fallegustu minninga safnarans telst hins vegar það augnablik þegar hann kom bók til bjargar – sem hann hafði jafnvel aldrei hugsað um og hvað þá dreymt um að eignast – vegna þess að hún lá svo umkomulaus og yfirgefin á opnum markaði, og keypti hana til að veita henni frelsi, líkt og í ævintýrinu í Þúsund og einni nótt þegar prinsinn kemur fallegu ambáttinni til bjargar. Fyrir bókasafnarann er nefnilega hið sanna frelsi allra bóka einhver staðar á hillum hans.“ (KF.)

Ég er á ferðalagi um Mexíkó og seildist því eftir bókmenntum sem þaðan eru upprunnar – þannig lágu leiðir okkar Guadalupe Nettel saman. Það er alltaf jafn gaman að uppgötva nýjan höfund sem höfðar til manns. Skáldsaga Nettel, sem í enskri þýðingu nefnist After the Winter, fannst mér afar bitastæð. Ekki spillir að sögusviðið er einkum tvær borgir sem ég þekki vel: New York og París. Galdur Nettel er hversu rólyndislega hún vefur sögu sína, og það af fádæma öryggi og hlýju, og hversu flink hún er að lýsa sögusviði, magna upp stemningu og búa til persónur. Mikill happafundur.

Um leið og ég lauk við After the Winter kannaði ég hvort góðir menn hefðu ekki unnið það þjóðþrifaverk að þýða fleiri verk eftir Nettel yfir á ensku – og jú, ég hafði heppnina með mér. Smásagnasafnið Natural Histories stendur fyrrnefndri skáldsögu kannski ekki alveg á sporði, en er þó stórfínt. Sögurnar hverfast einkum um sambönd manna og dýra, og draga á lúmskan hátt fram líkindin á milli okkar og dýranna. Einkum finnst mér eftirminnileg önnur sagan, sem fjallar um glímu fjölskyldu einnar við kakkalakka sem gera innrás á heimilið. Næst hlakka ég til að lesa þriðju ensku þýðinguna á bók eftir Nettel, The Body Where I Was Born. Þangað til ég kemst yfir hana er ég (loksins) að lesa hina klassísku The House on Mango Street eftir hina mexíkósku/bandarísku Söndru Cisneros, bók sem fór víða á sínum tíma og er skrifuð í stuttum, ljóðrænum köflum.


 

Óskalisti Leslistans:

 

Ég sá auglýsta nýja bók um myndhöggvarann Einar Jónsson sem vekur áhuga minn. Hann er einn af mínum uppáhalds íslensku listamönnum og saga hans er alveg hreint ótrúleg. Ég mæli líka með sjálfsævisögu hans, Minningar/Skoðanir, sem er alveg hreint stórskemmtileg.

Bandaríski rithöfundurinn Cal Newport gefur á næstunni út bók sem nefnist Digital Minimalism og fjallar um það hvernig hægt er að lifa eðlilegu og uppbyggilegu lífi án þess að láta samfélagsmiðla og önnur stafræn tól stjórna manni. Eflaust holl lesning fyrir marga – mig með talinn. (KF.)

Í skemmtilegu litlu bókasafni í Mexíkóborg, Aeromotto, rak ég augun í verk sem ég verð að eignast – Wildwood Wisdom eftir Ellsworth Jaeger. Bókin kom fyrst út árið 1945 og geymir meðal annars leiðsögn í því hvernig best sé að tendra bálköst, sigla kanó, nota exi og hníf, og búa til skjólshús úr því sem hendi er næst hverju sinni. Ef ég fæ þessa í jólagjöf verð ég glaður og sæll. (SN.)

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s