Ráðunautur Leslistans: Þórdís Helgadóttir

svikaskald_5

Þórdís Helgadóttir sendi á dögunum frá sér smásagnasafniðKeisaramörgæsir. Hún hefur áður birt smásögur, örsögur og aðra texta í ýmsum tímaritum, og gaf árið 2016 út litla og fallega bók, Út á milli rimlanna. Leikverk Þórdísar Þensla verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu í janúar 2019. Einnig er hún hluti af skáldahópnum Svikaskáld. Ég lagði nokkrar orðasnörur fyrir Þórdísi og útkoman fylgir hér að neðan. — Sverrir Norland

Stígðu hjartanlega velkomin hingað til okkar inn í ráðuneyti Leslistans, kæra Þórdís, það gleður okkur að fá þig til liðs við okkur. Gráupplagt að sitja á gólfinu í lótusstellingu eða þá þú getur lagt undir þig brúna sófann, þar er góð lesbirta og snarpheitt te innan seilingar. Gulrótarkakan er svo inni í ofninum, þetta er ný uppskrift sem ég er að prófa, nóg af engifer.

Fyrst langar mig að vita hvort þú sért að lesa eitthvað eftirminnilegt þessa dagana, bók eða annan texta sem þig langar að deila með fróðleiksfúsum áhangendum Leslistans?

Takk fyrir boðið! Kakan ilmar dásamlega!

Það minnir mig á það þegar ég var á Ítalíu fyrir stuttu og borðaði pistasíuís og ætiþistla og las einmitt svo stórkostlega bók: Ritgerðasafnið Litlu dyggðirnar — The Little Virtues / Le piccole virtú — eftir Nataliu Ginzburg. Ginzburg var virtur ítalskur höfundur, aktívisti og seinna þingmaður. Hún er hérna að skrifa um eigið líf, rithöfundarstarfið, móðurhlutverkið, barnauppeldi og hvernig manneskjur breytast við það lifa af stríð, en hún bjó ásamt eiginmanni sínum um tíma í útlegð áður en hann var pyntaður til dauða fyrir að taka þátt í andspyrnu gegn fasismanum. Titillinn vísar í það hvað við ættum að vera að kenna börnunum okkar, ekki litlu dyggðirnar heldur hinar stóru: Veglyndi fram yfir hagsýni, hugrekki fram yfir varkárni, mannkærleik fram yfir kurteisi. Þessi bók er bara algjör negla, atmósferísk en heiðskír, tímabær og tímalaus, hjartnæm, beitt og djúp. Á hverri blaðsíðu er eitthvað sem talar til mín og á einhvern undraverðan hátt er eins og textinn sé skrifaður í gær en ekki fyrir hálfri öld.

Þar er ég þér sammála, ég las þessa bók einmitt fyrir ekki svo ýkja löngu. Kápan er skemmtilega appelsínugul, ef ég man rétt. Og hvað fleira?

Uppgötvun ársins er kannski The Water Cure eftir Sophie Mackintosh, ungan höfund sem flaug beint inn á Man Booker longlistann með frumraunina. Óvenjuleg og einstök dystópía sem magnar upp stemningu sem lifði með mér vikum og mánuðum saman eftir lesturinn. Eiginlega langaði mig til að borða þessa bók, eins og drengurinn sem fékk bréf frá Maurice Sendak og var svo ánægður með það að hann át það.

Svo hef ég verið að lesa ógrynni af leikritum undanfarna mánuði og hef eignast mörg ný uppáhaldsleikskáld. Duncan Macmillan og Caryl Churchill standa upp úr.

Ég verð líka að fá að nefna eina ljóðabók en Calling a Wolf a Wolf eftir Kaveh Akhbar hafði djúp áhrif á mig þegar ég las hana í sumar. Stórfengleg bók. Lesið bara Orchids are sprouting from the Floorboards.

Þú varst að gefa út bók með smásögum, og þar sem ég er mikill aðdáandi og stuðningsmaður þess góða forms langar mig svolítið að vita hvort þú eigir þér einhverja eftirlætis-smásagnahöfunda og/eða -bækur?

Já! George Saunders!

Svo ég bakki um einn þá hef ég smám saman orðið hrifnari af knöppum formum. Kannski tengist það því að ég á tvö lítil börn svo tíminn er dálítið tvístraður núna, en svo er það líka bara glíman við hömlurnar sem getur oft orðið svo frjó. Góð smásaga (eða góð stuttmynd ef út í það er farið) er svona eins og vel heppnað popplag. Eða vel heppnuð máltíð. Frekar en heilt ferðalag. Fullkomin lítil heild með sína eigin laglínu og stemningu, heill heimur teiknaður upp með nokkrum strikum.

Ég les smásögur skelfilega ómarkvisst. Skemmtilegast finnst mér að fá tímarit inn um lúguna og lesa sögurnar án þess að vita einu sinni deili á höfundunum. Reyndar vil ég yfirleitt vita sem minnst og les t.d. aldrei aftan á bækur. Smásagnahöfundar sem ég er skotin í eru til dæmis Julio Cortázar, áðurnefnd Sophie Mackintosh, Joyce Carol Oates, Roxane Gay og James Salter. En mest er ég samt skotin í George Saunders. Lesið þið bara Sea Oak og reynið að skemmta ykkur ekki! Kannski er ég bara svona barnalegur lesandi en ég heimta að mér sé skemmt. Og Saunders, ofan á það að vera frumlegur, fyndinn, skarpur og með risastórt hjarta, er bara svo fáránlega skemmtilegur höfundur.

Akkúrat núna er ég svo einmitt með þrjú girnileg smásagnasöfn úr jólabókaflóðinu á náttborðinu: Ástin Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Ég hef séð svona áður eftir Friðgeir Einarsson og Kláði eftir Fríðu Ísberg.

Aldeilis fínt. Og ekkert að því að láta skemmta sér, mér finnst George Saunders líka mjög skemmtilegur, en þó eru sögurnar hans oft svolítið ógnvekjandi líka, eða finnst þér það ekki? Einkum til að mynda fyrsta bókin hans, CivilWarLand in Bad Decline? Það er alltaf broddur í sögunum hjá honum, mér finnst hann ná að sameina ádeilu, jafnvel heimsósóma-predikanir, og skemmtun, grín — og svo áminningu um að við séum ennþá (og verðum alltaf) manneskjur, að við þörfnumst nándar og innileika í heimi sem verður sífellt tæknivæddari og eftir því stundum kaldranalegri, ópersónulegri. Er það ekki svolítið galdurinn hjá honum?

Jú! Ekki spurning. Hann er flugbeittur satíristi og stórkostlegur húmanisti. Fólk er gjarnt á að líkja honum við Vonnegut, sem mér finnst að mörgu leyti vel til fundið.

Já, eflaust nokkuð til í því, þó mér finnist Saunders reyndar talsvert fjölhæfari höfundur en Vonnegut (að honum ólöstuðum), fleiri litir í pallettunni…

Sjálfum finnst mér smásagnaformið — eða jafnvel „skáldsögur í hæfilegri lengd,“ eins og ég hef aðeins verið að skrifa upp á síðkastið — tilvalið form handa tættum foreldrum, og raunar almennt séð handa slæptu nútímafólki. Getur verið að smásagan (og nóvellan) sé í sókn á Íslandi? Fullt af smásgnasöfnum að koma út …

Já, klárlega. Og kominn tími til. Smásögur eru kúl! Eins og bæði Suður-Ameríka og Norður-Ameríka hafa til dæmis vitað lengi. Nóvellur líka. Eiginlega finnst mér bara frekar skrýtið að skáldsagan sé eins ráðandi form og raun ber vitni. Ég elska skáldsögur en þær eru svo langt frá því að vera endilega aðgengilegasta eða skemmtilegasta formið fyrir lesendur, að mínu mati. En jú, það er gróska í íslenskum smásögum og það er gaman. Þegar ég var að byrja að skrifa fyrstu sögurnar í Keisaramörgæsum bauðst mér að birta sögur annars vegar í ritröðinni Meðgöngumál frá Partus Press og hins vegar í vefritinu Skíðblaðni á vegum Tunglsins (þar sem þú komst sjálfur við sögu sem ritstjóri og höfundur!) — hvorttveggja verkefni með þann yfirlýsta tilgang að rækta og lyfta smásögunni. Það var bæði hvetjandi og inspírerandi.

Já, sællar minningar — gaman að heyra það.

Hvenær vaknaði hjá þér áhugi á að skrifa? Manstu eftir að hafa uppgötvað einhvern söguheim, eða annan höfund, sem kveikti á slíkri löngun?

Ég skrifaði alltaf frá unga aldri, eða ölllu heldur var ég alltaf að byrja á sögum sem ég kláraði svo aldrei. Einhvers staðar á ég í stílabókum hálfkláraða en afar metnaðarfulla glæpasögu í anda Agöthu Christie, sem var uppáhaldshöfundurinn minn þegar ég var 11 ára. Fljótlega upp úr því kynntist ég Stephen King og gleypti hann í mig. Á einhverjum tímapunkti uppgötvaði ég svo töfraraunsæi, valdi Hús andanna úr bókasafnshillu út af kápunni og skildi reyndar lítið í bókinni en hún kveikti samt á einhverju í kollinum á mér. Fyrst bækur gátu verið svona þá fannst mér að þær ættu klárlega að vera svona. Og fann að svona langaði mig að búa til.

Síðan kláraði ég ekki að skrifa heila sögu fyrr en einhvern tíma um eða eftir þrítugt. En það er önnur saga.

Hvaða bók hefurðu oftast gefið öðrum?

Tiny Beautiful Things eftir Cheryl Strayed. Áður en hún meikaði það með sannsögunni Villt var þessi dásamlegi höfundur með vandamáladálk sem hét Dear Sugar. Í þessari bók er bestu bréfunum safnað saman og Cheryl leysir öll vandamál heimsins. Hún er svo vitur og heiðarleg að ég grét margsinnis í strætó og keypti síðan lager af bókinni til að gefa.

Ég hef líka stundum gefið Department of Speculation eftir Jenny Offill: „Ég ætlaði aldrei að giftast. Ég vildi frekar verða listaskrímsli. Konur verða næstum aldrei listaskrímsli vegna þess að listaskrímsli sinna engu nema listinni, aldrei hversdagslegum hlutum. Nabokov gekk ekki einu sinni frá sinni eigin regnhlíf. Vera sleikti fyrir hann frímerkin.“

Ég þekki ekki þá Tiny Beautiful Things — mun bæta úr því — enDepartment of Speculation er frábær og þessi tilvitnun hjá þér … einmitt! Ég á meira að segja ókláruð drög að skáldsögu þar sem þessi orð eru „inngangsmottó“. Og mig langaði alltaf svo að þýða hana … nema kannski þú verðir fyrri til?

En gaman! Ég er líka alveg til í að gera það í samstarfi, þá verðum við helmingi fljótari!

Áttu þér uppáhaldsskáldsögu?

Jesús! Uppáhalds getur merkt svo margt ólíkt, veistu hvað ég meina? Í einhverjum skilningi er það Meistarinn og Margaríta, í einhverjum skilningi Söngvar SatansCloud Atlas eftir David Mitchell eða The White Hotel eftir D.M. Thomas. Það koma samt ótalmargar aðrar til greina, sumar bækur eru kannski greinilega meingallaðar en standa hjarta manns á einhvern hátt nærri. Það er gaman að spá í þetta.

Einmitt — ég held að mér hafi aldrei líkað bók nema hún sé meingölluð.Hlustarðu líka á hljóðbækur?

Nei, ég á óskaplega erfitt með að halda þræði í gegnum heila hljóðbók. Ég þarf helst að hafa prentgrip í höndunum til að horfa á, eða í versta falli raftæki. Aftur á móti nýt ég þess að hlusta á útvarpsþætti og podköst. Ég held t.d. mikið upp á Í ljósi sögunnarS-town og The New Yorker Fiction Podcast, sem er frábært prógramm helgað smásögum.

Já, ég hlustaði afturábak á allt New Yorker-hlaðvarpið nokkrum árum, þegar ég bjó í París og eigraði þar angistarfullur um göturnar, drakk tólf espressóa á dag og borðaði ekkert nema dísætar eplamuðlur — upprennandi smásagnahöfundar gætu sjálfsagt gert margt vitlausara (þ.e. en að hlusta á hlaðvarpið; ég mæli frekar með öðru mataræði).

Tólf! Ég var mest í svona 7–8 espressóum þegar ég bjó í Bologna og var ung með sterkan maga. En ekki lengur.

En í hvers konar umhverfi finnst þér best að lesa, Þórdís? Í strætó, í sundlaug, uppi í sófa, við stýrið á rauðu ljósi?

Strætó fyrir allan peninginn!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s