Af netinu, 14. desember 2018

Ég hafði til umfjöllunar á þessum vettvangi hina ágætu Factfulness eftir Hans Rosling um daginn. Þótti gaman að sjá að Viðskiptaráð hafði valið hana sem jólabók þeirra í ár. Hér er Hjálmar Gíslason að ræða bókina í skemmtilegu viðtali.

Nokkrum sinnum hef ég vísað á bandaríska sálfræðinginn Adam Grant og það sem hann skrifar. Hér er hann í viðtali um hvernig hann nálgast það að skrifa. Vek líka athygli á þessum miðli sem tekur hann í viðtal – Writing Routines. Þar eru ýmsir rithöfundar spurðir spjörunum úr um hvernig þeir vinna.

Hér er svo hinn sami Adam Grant með mjög góða grein um einkunnir og hvað þær skipta litlu máli í raunheimum.

Hér er ágæt grein þar sem vöngum er velt yfir stöðu bókaumfjöllunar og hvernig hún hefur breyst síðustu ár.

Ég hef lengi átt í ástar/haturssambandi við sjálfshjálparbækur. Finnst það vera miðill sem er í senn ótrúlega hallærislegur og undarlega aðlaðandi. Hér tekur hagfræðingurinn Tim Harford saman lista yfir sjálfshjálparbækur sem honum finnst virka.

Hér er mjög gagnrýninn og vandaður dómur um bókina The Undoing Project eftir stjörnurithöfundinn Michael Lewis sem fjallar um feður atferlishagfræðinnar, þá Daniel Kahneman og Amos Tversky. Þeir eru ákveðin átrúnaðargoð í mínum augum og þess vegna hollt og forvitnilegt fyrir mig að lesa þetta.

Dauða dagblaðsins hefur verið spáð í langan tíma og hann er greinilega orðinn raunverulegri erlendis en hér heima. Hér er ágæt grein sem fjallar um stöðu dagblaðanna í Bandaríkjunum.

Við hjá Leslistanum elskum alla leslista, sama hvaðan þeir koma. Hér er góður árslisti frá nokkrum vel völdum aðilum sem Bloomberg tekur saman yfir bestu bækur ársins. Nokkrar hafa verið til umfjöllunar á þessum vettvangi.

Mér fannst gaman að sjá að tveir ráðunautar Leslistans eru á langlista yfir þá sem eru tilnefndir til PEN verðlauna árið 2019. Þ.e. þýðingar á Sjón og Kristínu Svövu Tómasdóttur. (KF.)

Hér flytur fimmtán ára sænsk stúlka, Greta Thunberg, magnaða ræðu á COP24-ráðstefnunni í Póllandi. Hvers vegna ræða ekki fleiri um sjöttu útrýminguna, spyr Greta, og bætir því við að allt upp undir 200 dýrategundir deyi út á hverjum degi. Eins spyr hún hvers vegna henni beri að sækja nám í skóla til að búa sig undir framtíðina þegar enginn gerir nokkuð til að tryggja að hún eigi sér nokkra framtíð. Erfitt að hrífast ekki af svo skeleggri ungri stúlku.

Barnabækur – og skortur á umfjöllun um þær.

Snöfurmannlegur pabbi tekur til sinna ráða – og lýsir hér sex ára tímabili með „síma án truflana“.

Richard Brody, kvikmyndagagnrýnandi The New Yorker, velur bestu kvikmyndir ársins.

Ertu svartsýnn um framtíð mannsins á jörðinni, rotið eðli hans og ólæknandi sjálfelsku? Þá létta þessar rannsóknarniðurstöður sannarlega ekki lund þína. (Mest sláandi fannst mér að flestir karlmenn kjósa frekar að veita sjálfum sér rafstuð en að verja fimmtán mínútum í kyrrlátri íhugun!)

Afar nösk og áhugaverð greining á nýjustu bók Johns Gray, Sjö tegundir af trúleysi. Ég gríp niður í textann:
„Seduced by scientism, distracted by materialism, insulated, like no humans before us, from the vicissitudes of sickness and the ubiquity of early death, the post-Christian West believes instead in something we have called progress — a gradual ascent of mankind toward reason, peace, and prosperity — as a substitute in many ways for our previous monotheism. We have constructed a capitalist system that turns individual selfishness into a collective asset and showers us with earthly goods; we have leveraged science for our own health and comfort. Our ability to extend this material bonanza to more and more people is how we define progress; and progress is what we call meaning. In this respect, Steven Pinker is one of the most religious writers I’ve ever admired. His faith in reason is as complete as any fundamentalist’s belief in God.“

Gulu vestin í Frakklandi vilja sporna við loftslagsbreytingum. Þeim finnast frönsk stjórnvöld bara ekki setja fram nógu róttæka aðgerðaráætlun – og súrt í broti að það sé, líkt og endranær, almenningur (og hinir efnaminnstu) sem standa eiga straum af samfélagsbreytingunum, frekar en hinir auðugustu.

Jónas Reynir, rithöfundur, flutti skemmtilegt hátíðarávarp yfir menntskælingum á Egilstöðum.

Og svo eru það bóksalaverðlaunin 2018. (SN.)


Til að hlusta á:


Athyglisvert hlaðvarp hjá The Guardian. Heimspekingur rekur hugmyndir sem upprunnar eru í öðrum heimshlutum en Vesturlöndum.

Ragnar Helgi Ólafsson, höfundur Bókasafns föður míns, rabbar við Jórunni Sigurðardóttur í Orðum um bækur. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s