Ráðunautur Leslistans: Rán Flygenring

42862325_2534442676784016_3721192405790097408_n

Rán Flygenring þarf vart að kynna fyrir samfélagi Leslistans, hún er einn dáðasti teiknari þjóðarinnar og verk hennar hafa ratað víða. Við Rán skrifuðumst á yfir nokkurra mánaða skeið, með löngum hléum, ýmsu raski og alls kyns flakki um veröldina; oft þegar ég settist niður til að slá inn skeyti til hennar trufluðu klístraðir barnafingur mig og kröfðust þess að slá „sdfkldsjfsdlfje“ á lyklaborðið — sem var raunar viðeigandi þar sem umræðuefni okkar Ránar voru frjáls leikgleði og barnabækur; klassískar, vanmetnar, vöntun á umfjöllun um þær og einnig sú spurning hvort sjálft hugtakið barnabókmenntir sé kjánalegt, og raunar óþarft. Hér á eftir fer sýnishorn af því sem fór okkar á milli.

– Sverrir Norland

Velkomin í ráðuneyti Leslistans, kæra Rán Fygenring! Það gleður mig að fá þig hingað til okkar. Viltu ekki setjast þarna við Kjarvalsmálverkið, þar sem ég lagði nýbakaðar múffur á disk og kaffibolla. Fáðu þér. Endilega svo teikna á veggina og gólfið og kaffibollann þinn. Hér er allt leyfilegt.

Ég veit að þú hefur, eins og vera ber, sterkar skoðanir á barnabókum. Ég, sem faðir fróðleiksfúsrar lítillar stúlku, sem er þegar afar hænd að bókum, er stöðugt á hnotskóg eftir góðum barnabókum, einkum á íslensku — það verður þreytandi til lengdar að lesa sömu bókina um Einar Áskel tólf sinnum á kvöldi — og því dettur mér í hug hvort þú lumir á góðum ábendingum um skemmtilegar sögur á íslensku?

Það er af miklu af taka (barnabækur er víðfemt hugtak á sama hátt og það er sjaldan talað um fullorðinsbækur). Ég gef mér það að dóttir þín sé ekki læs og þið lesið saman bækur þar sem hlutfall mynda er meira en texta?

Jú, stendur heima. Hún rífur reyndar stundum af mér bókina og les fyrir mig, en ég skil oftast ekki ekki alveg túlkun hennar á textanum … Oftast er það sem betur fer ég sem les.

Gott. Það er nefnilega ágætur rammi sem ég held ég haldi mig við hér eftir, til að einfalda aðeins málið.

Ég á mínar uppáhalds myndabækur, bæði úr æsku og bækur sem ég hef kynnst síðar. Tveggja ára sonur minn er hinsvegar ekkert endilega sammála mér um afþreyingargildi þessara bóka, sumt sem má eflaust skrifa á aldurinn en annað á sögurnar sjálfar. Meðal þeirra íslensku bóka sem við mæðgin getum sammælst um að þykja skemmtilegar er Vísnabókin gamla með teikningum Halldórs Baldurssonar, Konan sem kyssti of mikið eftir Hallgrím Helgason, Stína stórasæng eftir Lani Yamamoto (ok, það er reyndar ennþá mest ég sem fíla hana), Maxímús Músíkús eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson og Enginn sá hundinn eftir Hafstein Hafsteinsson. Svo einhverjar séu nefndar. Þessi listi er síður en svo tæmandi.

Fyrirtak, takk. Ekkert og enginn pínir okkur þó til að að einskorða okkur við eyjuna okkar eldsorfnu, fögru, og mig grunar raunar að þú horfir stundum líka til Norðurlandanna í leit að góðum barnabókum. Er það rétt hjá mér eða er ég úti að aka?

Heldur betur! Almennt þá sæki ég helst í norskar og sænskar myndabækur. Gróskan er svo mikil, ekkert er tabú og alltaf einhver bullandi húmor og kaldhæðni undirliggjandi. Serían um Max eftir Barbro Lindgren með myndum eftir Evu Eriksson er í miklu uppáhaldi, þetta eru stuttar bendibækur fyrir allra yngstu lesendurna en fá foreldra (a.m.k. mig) til að grenja úr hlátri (Barbro skrifaði svo fullorðinsbarnabókina Titta Max grav! þar sem Max vex úr grasi, eldist og deyr og núna hefur hún gefið út aðra álíka í samstarfi við Önnu Höglund, en sú er endursögn á Hamlet í bendibókaformi fyrir fullorðna — bók sem ég bilast úr gleði yfir). Astrid Lindgren þarf auðvitað ekki að nefna, en hálf fáránlegt að gera það samt ekki. Af nýrri demöntum verð ég að nefna Dumma teckning! eftir Jóhönnu Thydell og Emma Adbåge, brilliant teikningar og bilaðslega sniðugt plott. Sögurnar Bárðar Oskarssonar eru líka skemmtilegar. Svo eru allar bækurnar eftir Fam Ekman listaverk sem og bækur Øyvind Torseter. Því miður eru fáar af þessum bókum fáanlegar á íslensku.

Já, það er synd og skömm. Þyrfti ekki að stofna sérstakan barnabókasjóð til að efla útgáfu á íslenskum barnabókum og aðgengi foreldra að þeim? Eða taka upp sömu aðferð og Norðmenn og láta ríkið kaupa visst lágmarksupplag útgefinna bóka, sem þar með nýtist öllum; höfundum, útgefendum, lesendum. Hvað finnst þér, ef nokkuð?

Æ, veistu. Mér finnst ýmislegt og segi hiklaust já við þessu hvoru tveggja, en hvað er ráðlegast og líklegast til árangurs hef ég ekki forsendur til að meta.

Án þess að draga nokkuð úr mikilvægi þess að þýða bækur, þá eru góðu fréttirnar þær að myndabókin hefur þann kost að vera aðgengileg langflestum, sér í lagi þeim sem kunna smá hrafl í viðkomandi tungumáli.

Og svo ef við leggjum allan heiminn undir, Evrópu í heild sinni og slengjum hinum heimsálfunum með, hvaða barnabókahöfundar, lífs eða liðnir, hafa helst heillað þig, jafnvel verið þér innblástur? Þá er ég bæði að hugsa um teiknara og höfunda — eða jafnvel þá sem eru svo hæfileikaríkir að þeir ná að sameina þetta tvennt …?

Quintin Blake er í uppáhaldi og teikningarnar hans gefa mér alltaf innblástur eins áreynslulausar og fullar af lífi þær eru. Samstarf hans og Roald Dahl er eins vel heppnað og samband teiknara og höfundar getur verið. Þó Carl Barks og Don Rosa séu ekki beinlínis barnabókahöfundar þá eru þeir sagnahöfundar og teiknarar sem hafa haft gífurleg áhrif á mig og gera enn, hver á sinn hátt. Hin ítalska Beatrice Alemagna bæði skrifar og teiknar sínar bækur, margverðlaunuð og bækurnar hennar bæði gullfallegar og góðar. Hinumegin á hnettinum má finna Shaun Tan, allt öðruvísi, en algjörlega á heimsklassa.

Svo verð ég líka að nefna Finn-Ole Heinrich, samstarfsmann minn til margra ára. Hann er orðagaldramaður.

Hvað einkennir góða barnabók, er hægt að svara því?

Mér finnst góðar barnabækur yfirleitt eiga það sameiginlegt að þær ná yfir öll landamæri og aldursmæri og segja lesendum eitthvað nýtt við hvern lestur. Á það ekki annars við um bækur almennt?

Jú, það held ég. Eftirlætis-„barnabókahöfundurinn“ minn, Tomi Ungerer, skrifar til að mynda bækur sem höfða til allra óháð aldri. Þekkirðu hann?

Ég þekki helst Tomi Ungerer af teikningunum hans, en verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið neina bóka hans mjög lengi. Hver þeirra er í mestu uppáhaldi hjá þér?

Hann hefur, held ég, gefið út um það bil 140 bækur, svo það er af nógu af taka. En ef ég yrði að velja eina, þá er The Autobiography of a Teddy Bearalgjört meistaraverk.

Áttu þér uppáhaldshöfund sem hefur fylgt þér lengi?

Astrid Lindgren er einfaldlega sú sem hefur fylgt mér hvað lengst og haft sem mest áhrif á mig. Það er bara ekkert flóknara en það. Ég ætlaði alltaf að verða rithöfundur eins og hún — þangað til ég uppgötvaði að það væri einhver sem faktískt starfaði við að teikna í bækurnar hennar, þá bættist það við listann.

Hvað finnst þér að mætti gera til að efla íslenska barnabókamenningu, hefurðu einhverjar skoðanir á því?

Ég myndi vilja sjá meiri faglega umfjöllun um barnabækur. Það er tvískinnungur í því að tala um „bara barnabækur“ og hafa svo áhyggjur af dvínandi lestri barna. Ég spyr mig hvort það sé almennt einhver feimni við að gagnrýna barnabækur, eins og höfundar þeirra séu börn sem ekki má særa. Eða að umfjöllun um barnabækur eigi bara heima í miðlum fyrir börn.

Manstu hvaða bók — fyrir börn óháð aldri þeirra — heillaði þig fyrst, og hvar þú varst stödd, hvernig þér leið, hvernig veðrið var, lyktin í kringum þig, árstíðin, hvort það skrjáfaði í síðunum, hvort þú last jafnvel í leyfisleysi langt fram yfir settan háttatíma?

Ronja ræningjadóttir er biblía barnæsku minnar og ég á óteljandi margar minningar tengdar þeirri bók. Ekki endilega með hana í kjöltunni heldur teygði hún sig langt út fyrir spjöld bókarinnar. Við æskuvinkonurnar neituðum að hlýða öðrum nöfnum en Ronja, fengum okkur Ronjuskó (leðurskó með kögri) og lékum okkur svo tímunum saman niðrí móa að stökkva yfir helvítisgjánna (milli tveggja stóra steina) og tína animónur (holtasóley). Ég man eftir að hafa gjörsamlega tryllst af hræðslu yfir ímynduðum skógarnornum og verið húðskömmuð fyrir að hafa leikið rassálf úti í garði.

Áttu þér eftirlætisfullorðinsbók? Eða er kannski, þegar öllu er á botninn hvolft, ómögulegt að flokka bækur með þessum hætti, eftir aldri viðtakandans?

Eftirlætisfullorðinsbók, því er alveg vita ómögulegt að svara. Ronja? Er það ekki ágætis yfirlýsing og svarar síðari spurningunni um leið?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s