Ráðunautur Leslistans: Ragnar Jónasson

RJ0020.jpg

Ragnar Jónasson tók ungur að þýða Agöthu Christie af miklum móð, og virðist hafa lært vel til verka hjá mesta metsöluhöfundi 20. aldar, enda renna nýjustu glæpasögur Ragnars út eins og heitar lummur. Sú nýjasta kom út nú á dögunum og heitir „Þorpið“. Ég náði í skottið á Ragnar og lagði fyrir hann nokkrar spurningar.

– Sverrir Norland

Kæri Ragnar Jónasson, stígðu heill og upplitsbrattur inn í ráðuneyti Leslistans, við fögnum því að fá þig til liðs við okkur. Eins og þú sérð hangir hér uppi á vegg vatnslitamálverk af Agöthu Christie sem Kári málaði í frístundum, á kvöldnámskeiði, og mér datt í hug að þú hefðir gaman af því að fá þér sæti þar? Þú getur svo valið um snarpheitt súkkulaði, kaffibolla eða mjólkurglas með súkkulaðikökunni sem ég er að baka.

Fyrst langaði mig að forvitnast hvort þú værir að lesa eitthvað skemmtilegt þessa dagana?

Ég er með svona um það bil tuttugu bækur á borðinu, kominn mislangt með þær. Get nefnt nokkrar, ákveðið jólaþema í sumum þeirra: Ungfrú Ísland eftir Auði Övu, An English Murder eftir Cyril Hare, ABC-leyndarmálið eftir Agöthu Christie (sem ég hef reyndar lesið áður nokkrum sinnum, en BBC frumsýnir nýja seríu byggða á bókinni um jólin), The Mistletoe Murder eftir P.D. James (smásögur), Mr. Dickens and his Carol eftir Samönthu Silva, Bókasafn föður míns eftir frænda minn Ragnar Helga (bók um frænda minn og afa minn), Jólabækur Ísafoldar 1958–1974 (frábær rit!) og Conversations with Friends eftir Sally Rooney.

Áttu þér einhverja skemmtilega jólaminningu af bóklestri? Eru bækur nátengdar jólahaldinu í þínum huga?

Gæti ekki hugsað mér jól án bóka. Hef lesið bækur um jólin eins lengi og ég man eftir mér. Fyrst barna og unglingabækur, en held að fyrsta skáldsagan sem ég las um jól hafi verið Sniglaveislan hans Ólafs Jóhanns, frábær bók og eftir að ég las hana var ég eiginlega ákveðinn í að skrifa skáldsögur einn góðan veðurdag. Svo gerðist það einu sinni að ég hafði óskað mér ákveðinnar bókar í jólagjöf en enginn gaf mér hana. Það var hrikalegt og eftir það kaupi ég mér bækur sjálfur fyrir jólin til öryggis.

Áttu þér einhverja eftirlætis-jólasögu?

Fyrst við sitjum undir vatnslitamálverki af Agöthu Christie þá held ég að ég verði að nefna Jólaleyfi Poirots (Hercule Poirot’s Christmas). Verð eiginlega að nefna Jólaævintýri Dickens líka, bók sem ég á í ansi mörgum útgáfum. Besta útgáfan af henni er hins vegar í uppáhaldsbókasafninu mínu, Morgan Library í New York, þar sem er hægt að skoða upprunalega handritið hans. Mér finnst líka að allir rithöfundar ættu að skrifa eina skáldsögu, að minnsta kosti, sem gerist um jól. Langar að nefna tvær aðrar glæpasögur sem gerast um jól og eru frábærar, The Finishing Stroke eftir Ellery Queen og The Christmas Crimes at Puzzle Manor eftir Simon Brett. Og auðvitað Aðventaeftir Gunnar Gunnarsson. Fátt skemmtilegra en að hlusta á hana við arineld í Gunnarshúsi fyrir jólin.

En eftirlætis-höfund?

Mjög marga. Í glæpasögum þá nefni ég oftast P.D. James, Agöthu, Ellery Queen og S.S. Van Dine. Líka: Ian McEwan, Auður Ava, Þorsteinn frá Hamri, Sjón, Ólafur Jóhann, Jóhann Jónsson, fleiri og fleiri.

Hvað einkennir, að þínu viti, góða glæpasögu?

Óvænt (en rökrétt) sögulok, áhugaverðar sögupersónur, góð flétta og áhugavert sögusvið.

Hvernig lestu helst; af pappír, símaskjá, lesblysi? Og í hvaða stellingu; með fótleggi krosslagða í hægindastól, liggjandi út af uppi í rúmi, eða jafnvel hangandi niður úr loftinu eins og leðurblaka?

Nánast undantekningarlaust af pappír, helst gömlum pappír, bækur eldast almennt mjög vel, og ýmist liggjandi uppi í sofa eða í hægindastól. Annars las ég margar glæpasögur á gamla Landsbókasafninu á Hverfisgötu sem strákur, svo mér líður vel að lesa í því húsi.

Hefurðu fengið bók í möndlugjöf? (Og er rík möndluhefð hjá þér?)

Möndlugrautur er ómissandi, en ég held að ég hafi aldrei fengið bók í möndlugjöf, enda á ég allt of margar bækur til að nokkur nenni lengur að gefa mér bók.

Nú sýnist mér að það sé orðið algjörlega samfélagslega viðurkennt að vera í símanum á meðan maður ekur bíl — í gær sá ég til dæmis mann á hraðbraut í Mexíkó horfa á myndband meðan hann tók fram úr okkur fjölskyldunni á ógnvænlegum hraða — en telurðu að viðurkennt sé að lesa bækur undir stýri? Væri það skárra?

Ég held að það sé réttlætanlegt, og nánast siðferðileg skylda, að lesa bækur undir stýri, með eyrunum þó. Góður lesari í hljóðbók getur nefnilega gert góða bók enn betri.

Hvaða bók hefurðu oftast gefið öðrum? Finnast þér bækur henta vel til gjafa, eða er þreytandi að fá bók í gjöf, líkt og einn vinur minn heldur fram — ég er reyndar ekki sammála honum — því að þá er eins og maður sé að setja þiggjandanum fyrir heimaverkefni?

Ég gef bækur alveg óspart og reyni að koma mínum smekk yfir á vini mina. Gef samt oftast mínar eigin bækur, veit ekki alveg hvað það segir um mig. Gef líka oft Afleggjarann hennar Auðar Övu, það er eiginlega uppáhaldsbókin mín.

Þú ert ekki einn um það. En að lokum, langar þig að benda vöskum áskrifendum Leslistans á einhvern fjársjóð sem njóta mætti meiri hylli, og þá á ég við skáldsögu eða annað ritverk, jafnvel gleymdan rithöfund?

Hmm. Nefndi Ellery Queen og S.S. Van Dine hér að ofan, endilega lesa þá félaga. P.D. James er líka að miklu leyti gleymd hér heima, einn besti glæpasagnahöfundur síðari ára. Josephine Tey átti nokkrar klassískar glæpasögur í gamla daga, en fáir lesa hana í dag. Nýjustu bækur Anthony Horowitz, frábærar sakamálasögur. Vidar Sundstol frá Noregi, Minnesota-þríleikurinn. Og svo ættu allir að lesa Elías Mar, hann var frábær. Ég safna tveimur höfundum, Elíasi og Agöthu. Dálítið ólík — en tenging samt. Elías viðurkenndi það fyrir mér tveimur árum áður en hann dó að hann hefði þýtt bók eftir Agöthu (Hús leyndardómanna, 1963). Elías sagðist hafa þýtt söguna að undirlagi þáverandi dagskrárstjóra Útvarpsins, en var ekki nafngreindur sem þýðandi þegar bókin kom út. Jón Leifs, tónskáld sagði víst við Elías af þessu tilefni, eða svo sagði Elías mér, að Jóni þætti fyrir neðan virðingu Elíasar að lesa í útvarpi bók eftir Agöthu Christie. Elías nefndi þá að sjálfur hefði Jón líklega þurft að stjórna hljómsveitum í Þýskalandi sem léku verk sem honum höfðu væntanlega þótt misgóð. (Þessi bók eftir Agöthu er hins vegar frábær, og eftir að Elías lést sannfærði ég vin minn Jakob Ásgeirsson um að endurútgefa þýðinguna og þá var Elíasar loks getið sem þýðanda verksins).

Það var vel af sér vikið hjá þér — takk fyrir spjallið, og gleðileg jól!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s