Bækur, 4. janúar 2019

Ég naut lífsins á ströndu við Kyrrahafið yfir jól og áramót, og las nokkrar bækur á milli þess sem ég svamlaði í söltum sjó og át entomatadas.

En finir avec Eddy Bellegueule eftir Édouard Louis lýsir uppvexti höfundar í Hallencourt í Norður-Frakklandi. (Á ensku: The End of Eddy.) Bókin geymir sárar lýsingar á fátækt, ofbeldi, grimmd og angist, og vakti mikla athygli þegar hún kom út í Frakklandi, seldist í hundruðum þúsunda eintaka og hlaut prís og lof. Við vitum hins vegar, kæri lesandi, að fjölmiðlafár og hrós gagnrýnanda er ekki endilega ávísun á gott bókmenntaverk, og þó að umrædd bók sé vissulega lipurlega skrifuð fannst mér fátt við hana sérstaklega eftirtektarvert: Söguefnið – viðkvæmur, listrænn, samkynhneigður strákur í litlu þorpi á undir högg að sækja því allir hinir þorpsbúa eru vondir og hata háleit hugðarefni – er afar kunnuglegt, og úrvinnslan (stíll og frásagnaraðferð) nokkuð dæmigerð. Þarna leynast þó eftirminnilegar senur, til að mynda þegar móðir Eddys missir sér að óvörum fóstur í klósettið og reynir í fáti að sturta því niður og út í sjó. Stutt og fljótlesin skáldsaga/minningabók, en alls engin skyldulesning. Franska útgáfan af annarri metsölubók, Hillbilly Elegy eftir J.D. Vance, sem mér fannst skárri.

Öllu meira bragð var af Kitchen Confidential eftir einn ritfærasta kokk í heimi, Anthony Bourdain; það er raunar ein skemmtilegasta bók sem ég hef lesið lengi. Þarna bullsýður í hverjum potti, sósurnar malla, kaffið er sterkt og hressandi. Bourdain sló í gegn með nefndri minningabók og stjórnaði í kjölfarið árum saman vinsælum sjónvarpsþætti, No Reservations, þar sem hann ferðaðist vítt og breitt um jarðarkringluna og kynnti sér matarmenningu framandi þjóða. Bourdain stytti sér aldur á árinu sem er að líða og var fjöldamörgum aðdáendum sínum mikill harmdauði; eftir lestur þessarar sprellfjörugu og litríku bókar skil ég betur hvers vegna. Mæli mikið með henni; ég hló oft upphátt. Frábær bók fyrir þá sem þekkja vel til New York-borgar (eða hafa aldrei komið þangað); stórgóð lesning fyrir þá sem hafa áhuga á mat (eða alls engan áhuga á mat – en hvaða vítamínlausa vampíra væri það annars?). Bókin spannar allt frá æsku Bourdain – hann fær hugljómun í sumarfríi í Frakklandi, landi forfeðra sinna, þegar hann bragðar hráa ostru beint upp úr sjónum – og brokkgengan feril í eldhúsinu sem hefst með starfi fyrir skrautlegt sjávarveitingahús á Cape Cod og vafasömum vímuefnaknúnum veisluþjónusturekstri, og svo liggur leiðin til New York-borgar þar sem hæðir og lægðir á starfsferlinum eru býsna margar og sögurnar óborganlegar. Mikið smjör, mikið vín, mikið af eiturlyfjum, margar steikur, og stór skammtur af hvínandi blótsyrðum: eldhús undir stjórn Bourdain virðist raunar helst draga dám af þilfarinu á sjóræningjaskipi. Bókin minnti mig aðeins, í krafti orðkynngi sinnar og myndrænna lýsinga, á tvær frábærar (og alls kostar óskyldar) bækur: annars vegar hina frábæru A Fan’s Notes, eftir Frederick Exley, og hins vegar skemmtilegustu sjálfsævisögu poppstjörnu sem ég hef nokkru sinni lesið, Lifeeftir Keith Richards.

Loks endurlas ég hina meitluðu The Tale of the Unknown Island eftir uppáhaldshöfundinn José Saramago, portúgalska Nóbelsverðlaunaskáldið. Maður einn gengur fyrir konung í ónefndu konungsríki og biður hann um að gefa sér bát svo að hann geti lagt úr vör í leit að „óþekktu eyjunni“. Konungurinn fullyrðir að allur heimurinn hafi verið kortlagður; sérhverja eyju megi nú finna á landakorti. Nei, á landakortinu eru aðeins þekktar eyjur, segir maðurinn; ég er í leit að óþekktri eyju. Sögulokin eru óvænt – og falleg. Kjörinn inngangsreitur fyrir þá sem aldrei hafa lesið Saramago. (SN.)

Það er mikill misskilningur að maður þurfi að hafa lesið allar bækur sem eru í bókasafni manns. Margir hafa vísað í ítalska rithöfundinn Umberto Eco í þessu ljósi og minnst á að jafnvel þótt hann hafi verið gríðarlegur lestrarhestur hafði hann ekki lesið nema um helming þeirra bóka sem voru í bókasafni hans. Bókasafnið er, að hans mati, rannsóknartól – ekki minnisvarði um áður lesnar bækur. Ég hugsa mitt bókasafn með svipuðum hætti – í því liggja bækur sem mér áskotnaðust fyrir mörgum árum og ég hef ekki enn lesið. Ein þeirra er ágætt safn móralskra hugleiðinga grísk/rómverska sagnfræðingsins Plútark sem ég byrjaði að lesa nú á milli jóla og nýárs. Plútark þessi var uppi á fyrstu öld eftir að okkar tímatal hefst og er einna þekktastur fyrir að hafa skrásett ævisögur grískra og rómverskra keisara. Ritgerðirnar í þessu safni eru í enskri þýðingu og nefnist samantektin einfaldlega Essays. Þetta er í raun réttnefni, enda hafði Plútark gríðarleg áhrif á hinn franska Michel Montaigne sem er jafnan talinn faðir ritgerðarinnar (eða essegjunnar líkt og sumir vilja segja) eins og við þekkjum hana í dag. Ritgerðir þessar fjalla um allt milli himins og jarðar – ein þeirra um listina við að hlusta betur, önnur um hvernig maður á að greina raunverulega vini og enn önnur um hvernig maður á að byrgja inni reiði. Þetta eru sígild skrif í orðsins fyllstu merkingu og eiga alveg jafn mikið erindi við okkar samtíma og fyrir 1.000 árum síðan. Ég hlakka til að kafa í ævisögurnar eftir hann, en þær bíða mín þolinmóðar í bókasafninu mínu. Veit einhver glöggur lesandi og áhugamaður um fornfræði til þess að Plútark hafi verið þýddur yfir á íslensku? Ef svo er má sá hinn sami endilega senda mér línu. (KF.)


 

Óskalisti Leslistans:

 

Út er komin skáldsagan Rauður maður/Svartur maður eftir Kim Leine, í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar. Glæsileg þýðing Jóns Halls á fyrri skáldsögu Leine, Spámennirnir í Botnleysufirði, vakti mikla lukku á Íslandi, seldist vel og fór víða. (SN.)

Ég hef margoft vísað í greinar eftir hinn stórskemmtilega auglýsingamógul Rory Sutherland. Það gladdi mig mjög þegar ég sá að væntanleg væri ný bók í vor þar sem hann tekur saman speki sína um auglýsingabransann og hvernig hann hefur beitt atferlishagfræði í starfi sínu. Svo gladdi það mig jafnvel enn meira að sjá að hann er væntanlegur til landsins í febrúar með fyrirlestur.

Konseptlistamaðurinn Lawrence Weiner er einn af mínum eftirlætis listamönnum. Ég held að ég hafi sjaldan verið jafn star-strucked og þegar ég fékk þann heiður að taka viðtal við hann þegar ég vann sem blaðamaður hjá Viðskiptablaðinu. Eitt skemmtilegasta viðtal sem ég hef tekið. Ég sá nýlega að væntanleg er ný bók eftir hann sem hann vinnur í samstarfi við hönnuð sem hann hitti einu sinni á bar fyrir tilviljun. Hér er áhugavert spjall þeirra á milli um bókina. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s