Bækur, 11. janúar 2019

Þann 23. júní 1802 gerði prússneski náttúruvísindamaðurinn og landkönnuðurinn Alexander von Humboldt sér lítið fyrir og kleif ásamt fylgdarliði sínu upp Chimborazo, óvirkt eldfjall sem tilheyrir Andes-fjallgarðinum og var á þeim tíma talið hæsta fjall í heimi, tæpur sex og hálfur kílómetri. Aldrei fyrr hafði nokkur lifandi maður komist svo hátt til himna, andað að sér svo þunnu lofti. „Sem hann stóð á tindi veraldarinnar og virti fyrir sér fjallgarðinn sem teygði úr sér fyrir neðan hann, tók Humboldt að líta heiminn nýjum augum. Hann skildi að jörðin er ein stór lífvera þar sem allt tengist innbyrðis, og sló þar með tóninn fyrir nýja náttúrusýn sem mótar enn þann dag í dag hvernig við skynjum hinn náttúrulega heim.“

Þessi orð, hér í frekar lélegri þýðingu minni, eru tekin úr The Invention of Nature: Alexander von Humboldt’s New World eftir Andreu Wulf. Humboldt var af samferðamönnum sínum lýst sem frægasta manni í heimi á eftir Napóleon. Hann fæddist árið 1769 inn í prússneska aristókratafjölskyldu, en gaf forréttindalífið upp á bátinn og lagðist í flakk til að læra hvernig heimurinn virkaði. Ungur að árum hélt hann í fimm ára rannsóknarleiðangur um Suður-Ameríku og lenti oft í bráðum lífsháska, en uppskar fyrir vikið dýpri skilning á náttúrunni og í kaupbæti frægð um víða veröld. Hann var í miðpunkti vísindastarfs síns tíma, mikilsvirkur bréfritari og afkastamikill höfundur, og leit svo á að þekking ætti að vera öllum aðgengileg. Bækur Humboldts komu út á fjölmörgum tungumálum og voru svo vinsælar að ákafir lesendur mútuðu bóksölum til að tryggja sér fyrstu eintök; engu að síður dó Humboldt bláfátækur maður. Hann var annálaður fyrir þekkingu sína og vísindaleg vinnubrögð, en hélst þó sjaldan lengi við í vinnustofu sinni innan um bækur, vildi heldur þeysast um fjöll og firnindi, láta reyna á líkamlega getu sína. Vitaskuld mætti greina og analýsera fyrirbæri í náttúrunni, sagði hann, en ekki væri þó síður mikilvægt að kynnast náttúrunni milliliðalaust með skynfærum sínum og tilfinningum. Markmið Humboldts var að vekja með fólki ást á náttúrunni – nokkuð sem ekki er vanþörf á í samtímanum.  

Humboldt kemur einnig við sögu í einni af betri skáldsögum úr penna mikils eftirlætishöfundar hjá mér, hins argentíska César Aira: An Episode in the Life of a Landscape Painter. Þar sendir Alexander von Humboldt landslagsmálarann Johann Moritz Rugendas (1802-1858) í leiðangur um Suður-Ameríku, tilgangurinn að fanga stórbrotið landslagið þar á mynd. Á ferðum sínum um Argentínu verður Rugendas fyrir eldingu og kemst við illan leik aftur til byggða; slysið gerbreytir því hvernig hann man landslagið sem hann hefur verið að skoða. Aira hrærir saman sagnfræði, heimspeki og skáldskap í afar sérkennilegri, ljóðrænni og eftirminnilegri bók. (SN.)

Í vikunni hlustaði ég á magnað viðtal við stríðsfréttaritarann og rithöfundinn Sebastian Junger í uppáhalds hlaðvarpinu mínu, Econtalk. Viðtalið fjallaði um stutta bók sem hann hafði skrifað um áfallastreituröskun (e. PTSD) sem hann þjáðist sjálfur af eftir að hafa skrifað um stríðið í Afganistan. Bókin, sem heitir Tribe: On Homecoming and Belonging, fjallar samt í raun og veru um hvað nútímasamfélag hefur einangrað fólk í hinum vestræna heimi og hvað það er hægt að rekja mörg vandamál til þessarar einangrunar. Ég ákvað í kjölfarið að lesa þessa bók og var býsna hrifinn af henni. Að mörgu leyti kallast hún á við bjartsýnispostulana sem ég nefndi í hlekkjahlutanum hér að ofan. Á alla mögulega mælikvarða virðist heimurinn vera snúast til betri vegar, við erum ríkari, þjáumst af færri sjúkdómum og ofbeldi virðist vera á undanhaldi. Þrátt fyrir þetta erum við þunglyndari og sjálfsmorðstíðni hefur aukist. Mér finnst þessi bók komast ansi nærri því að útskýra þessa skrítnu þversögn. (KF.)

Ég er að fara í gegnum skeið þar sem ég fæ ekki nóg af verkum Patriciu Highsmith, þess fáláta sénís. Í ævisögu um hana, Beautiful Shadow: A Life of Patricia Highsmith eftir Andrew Wilson, er lýst atviki sem varð henni efniviður í skáldsögu um lesbískar ástir, The Price of Salt (1952, undir dulnefni), endurútgefinni árið 1990 undir réttu nafni höfundarins, sem Carol (nýlega var gerð eftir bókinni ágæt kvikmynd). Highsmith starfaði um skeið sem sölustúlka í Bloomingdale’s, og í desember 1948 kemur inn í búðina heillandi og fáguð ljóshærð kona í minkapels og kaupir handa dóttur sinni snotra dúkku, skráir niður heimsendingarupplýsingar. Highsmith fellur kylliflöt fyrir konunni við fyrstu sýn, og einu og hálfu ári síðar, að sumarlagi 1950, tekur hún meira að segja lest frá Penn Station, í New York, að heimili konunnar í New Jersey, þar sem hún sér henni aftur bregða fyrir. Í kjölfarið ritar höfundurinn ungi í dagbók sína: „Það var einkennilegt, en í gær fannst mér ég vera fær um að fremja morð, þegar ég fór að sjá konuna sem fangaði næstum hjarta mitt þegar ég sá henni bregða fyrir í desember, 1948. Morð felur í sér eins konar ástaratlot, yfirtöku. (Nær morðinginn ekki, í eitt augnablik, fullkominni og ástríðufullri athygli viðfangs síns?) Að þrífa skyndilega til hennar, hendur mínar grípa um hálsinn (sem ég þrái í raun að kyssa) og það er eins og ég sé að taka ljósmynd, geri konuna samstundis nákalda og stjarfa sem styttu.“

Þessi hugmynd – að morð sé náskylt ástaratlotum og feli yfir sér eins konar yfirtöku á líkama og sál fórnarlambsins – gengur eins og rauður þráður í gegnum eitt þekktasta verk Highsmith, skáldsöguna The Talented Mr. Ripley. Hinn ungi og munaðarlausi Tom Ripley myrðir ungan og efnaðan félaga sinn og (til skamms tíma) sambýling, Dickie, sem nýtur fjárstuðnings úr foreldrahúsum og hefur sest að á Ítalíu, þar sem hann dundar sér við að mála landslagsmyndir, án þess þó að státa af sérstökum hæfileikum á því sviði, og í framhaldinu tekur Ripley svo yfir persónu Dickeys, bregður sér í gervi hins látna og teymir alla á asnaeyrum. Fáir eru jafn flinkir í að magna upp draumkennda ógn, ávanabindandi spennu og Highsmith, og ég mæli sannarlega með þessari skáldsögu. Bækurnar um Tom Ripley eru samtals fimm talsins: lestu þær allar. (SN.)


 

Óskalisti Leslistans:

  

Ég sá nýlega mælt með bókinni Mannlíf milli húsa eftir danska arkitektinn Jan Gehl í nýrri þýðingu Steinunnar Stefánsdóttur. Lítur út fyrir að vera forvitnileg umfjöllun um arkitektúr og borgarskipulag sem mér finnst líklegt að ég lesi. (KF.)

Og svo er komin út ný skáldsaga eftir vitsmunaprakkarann Michel Houllebecq: Sérotonine. Hlakka til að lesa hana. (SN.)

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s