Bækur, 18. janúar 2019

Eftir því sem ég verð eldri skil ég betur og betur að sumt fólk hænist meira að burknum en öðrum manneskjum. Í Oaxaca Journal lýsir Oliver Sacks ævintýrum sínum með bandaríska burkna-samfélaginu (e. American Fern Society) í Oaxaca-héraði Mexíkó. Ég viðurkenni fúslega að ég er enginn sérstakur áhugamaður um burkna (hverjum líkar samt ekki vel við burkna?) en las bókina vegna þess að ég er aðdáandi Sacks og á ferðalagi um Oaxaca. Og viti menn, ég lærði ýmislegt um burkna (og Oaxaca).

Ennþá betri fannst mér Insomniac City eftir Bill Hayes, en þar kemur áðurnefndur Oliver Sacks einnig við sögu; þeir Hayes voru elskendur síðustu árin sem Sacks lifði. Andvökuborgin er alveg sín eigin bók, ólík öðru sem ég hef áður lesið. Hún fjallar einkum um sorg og ástvinamissi; fyrri elskhugi Hayes til margra ára deyr óvænt og í kjölfarið flyst Hayes frá San Fransisco til New York-borgar, þar sem hann verður ástfanginn á nýjan leik – annars vegar af borginni, hins vegar af Sacks. Fyndin, falleg, mannleg, einlæg, ljóðræn – og frábær lýsing á Sacks, þeim óendanlega heillandi og skrítna manni. 

Hér er brot úr kaflanum „Sumarið þegar Michael Jackson dó“ í fúskaralegri þýðingu minni:

„Ég man að O hafði enga hugmynd um hver Michael Jackson var. „Hvað er Michael Jackson?” spurði hann mig daginn eftir að fregnirnar [af andláti MJ] bárust – ekki hver heldur hvað – sem var í senn afar skrítin og um leið fullkomlega viðeigandi leið til að orða það, í ljósi þess hvernig söngvarinn hafði smátt og smátt breyst úr mannveru yfir í furðufyrirbæri. O kvaðst ekki hafa neina þekkingu á poppmenningu eftir árið 1955, og það voru engar ýkjur. Hann vissi ekkert um popptónlistt, horfði varla nokkurn tímann á annað sjónvarpsefni en fréttir, hafði ekki gaman af samtímaskáldskap og nákvæmlega engan áhuga á stórstjörnum eða frægð (þar með talið sinni eigin). Hann átti ekki tölvu, notaði aldrei tölvupóst eða sendi textaskilaboð; hann skrifaði með sjálfblekungi. Þetta voru alls engir stælar í honum; hann stærði sig ekki af þessu; þvert á móti var sú vissa hans að hann væri ekki alveg „með á nótunum“ vatn á myllu hinnar miklu hlédrægni hans. En smekkur hans var fastmótaður, venjur hans og hegðun – allt var það óumbreytanlegt, og tilheyrði ekki okkar tíma.“

Einmitt svona langar mig að verða þegar ég verð stór!

Andvökuborgin er falleg hugleiðing um söknuð og sorg, og um leið óður til lífsins. Bókina prýða ljósmyndir höfundar af mannlífi New York-borgar, og klæða textann afar vel. Mæli með. (SN.)

Af einhverjum ástæðum keypti ég bókina Stoner eftir bandaríska rithöfundinn John Williams (ekki kvikmyndatónskáldið) fyrir einhverjum árum og hef síðan geymt hana í bókahillunni minni. Ég byrjaði að lesa hana í vikunni og finnst hún rosaleg – þótt söguþráður hennar sé mjög óspennandi við fyrstu sýn. Bókin fjallar um ævi bókmenntaprófessorsins William Stoner, misheppnað hjónaband hans og akademíska vinnustaðapólitík. Ég furða mig enn á því að ég hafi keypt þessa bók – þetta er svakalega óáhugaverður söguþráður. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því almennilega af hverju hún er jafn góð og raun ber vitni. Það getur verið vegna þess að hún kafar svo djúpt í persónu þessa brjóstumkennanlega manns og kannski vegna þess að hún er líka einhvers konar ástaróður til bókmennta. Ég get í hið minnsta ekki fest fingur á það, en ég hvet alla til að lesa hana. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s