Ráðunautur Leslistans: María Elísabet Bragadóttir

 

 

MaríaElísabet (1).png

María Elísabet Bragadóttir er heimspekingur og hefur birt skrif sín hér og þar, meðal annars Bakþanka í Fréttablaðinu. Eins les hún hálfsmánaðarlega smásögur og aðra texta í Morgunþættinum Múslí. Ég settist niður með henni fyrir hönd Leslistans og lagði fyrir hana nokkrar krefjandi spurningar.

-Sverrir Norland

Velkomin í ráðuneyti Leslistans, kæra María Elísabet, endilega fáðu þér sæti á þægilegum stað og mundu að hér má setja fætur upp á borð. Ég vona að þú drekkir kaffi og sért ekki með glútenóþol því ég var að taka nýbakaða kanilsnúða út úr ofninum.

Fyrsta spurning er einföld: Ertu að lesa eitthvað áhugavert, jafnvel skemmtilegt, þessa dagana, bók eða bækur sem þig langar að deila með samfélagi Leslistans?

Takk fyrir að bjóða mér, Sverrir. Kaffi er uppáhaldsorkudrykkurinn minn (ég vil helst þamba það brennheitt) og kanilsnúður er næstuppáhaldsmaturinn minn. Bara fullkomið!

Ég hef ekki undan við að lesa góðar bækur þessa dagana enda voru þetta frábær bókajól, svo margar góðar íslenskar sem ég las í einum rykk yfir hátíðirnar.

Í augnablikinu er ég annars að lesa Hefnd grasflatarinnar, nýþýtt smásagnasafn eftir Richard Brautigan. Þetta er í fyrsta skipti sem ég les eitthvað eftir hann og það var greinilega tími til kominn, yndislegur, djúpfyndinn.

Fyrir svefninn er ég svo með aðra nýþýdda bók, Saga tveggja borga eftir Charles Dickens. Hún er staðgott nesti fyrir ferðalag inn í draumalandið (viðeigandi að koma með rómantíska lýsingu þegar Dickens á í hlut). Ég hef elskað Dickens síðan ég var lítið og hræðilega tilfinningasamt barn. Komst nýlega að því að hann var víst skíthæll í lifanda lífi. Glataðar fréttir.

Í gær las ég Sálumessu eftir Gerði Kristnýju. Ég held að ljóðabækur þurfi að vera lesnar hægt og varlega. Mér finnst ég allavega ekki hafa lokið við ljóðabók þó ég lesi hana frá upphafi til enda einu sinni. Ef ljóðin eru góð les ég þau mjög oft.

Gaman að heyra með Brautigan. Þýðandinn, Þórður Sævar, gekk einmitt í ráðuneytið fyrir ekki svo löngu.

En nú stenst ég ekki mátið að spyrja: Skiptir máli, fyrir okkur sem lesum bækur, hvernig manneskjur höfundar þeirra voru? Breytir það einhverju fyrir upplifun okkar á verkum Dickens hvort hann var góð eða vond manneskja? (Og svo er raunar erfitt að fá afdráttarlaust úr því skorið, enda getur hann víst ekki lengur svarað fyrir sig, blessaður.) Hann var greinilega mikil manneskja — annars hefði hann varla getað samið annað eins höfundarverk — en kannski ekki barnanna bestur, að öllu leyti — mig minnir reyndar líka að hann hafi eignast alveg hreint heilan sæg af börnum. En sem sagt: Er æskilegt að listamenn séu englar? Er ekki hætt við því að sómasamt og prútt fólk, með flekklausa ferilskrá sem manneskjur, sé ekki endilega alltaf áhugaverðasta fólkið? Þurfa ekki að vera átök á milli engla og djöfla innra með listamanninum? (Ætti hann kannski að losa um öll slík átök í listsköpunni og spara þau í einkalífinu? Er það kollgátan?)

Kannski þekking á höfundi geti í tilvikum dýpkað lesturinn eða gert hann gagnrýnni og þá skipt máli og verið dýrmæt. Kannski er það óhjákvæmilegt að það hafi áhrif á lestur og tilfinningar lesandans? Að lesa er skapandi iðja. Tilfinningarík iðja.

Standa verk einhvern tímann óháð höfundum sínum? Stamandi manngúrka sem hefur aldrei yfirgefið botnlangann sem hún býr í getur skrifað ljóð á stærð við alheiminn (en hvað veit kona um næstu konu, kannski erum við allar á stærð við alheiminn) og ljóðið lifir hana í þokkabót (ég trúi stundum á líf eftir dauðann svo kannski er þetta ekki sannleikanum samkvæmt).

Þú spyrð hvort það sé æskilegt að listamenn séu englar. Ljóðræn spurning. Ég væri til í að lesa bók eftir engil. En við værum í vondum málum ef þú þyrftir að vera engill til að mega vera listamaður. Ég hef aldrei hitt engil.

Þú spyrð hvort það þurfi ekki að vera átök engla og djöfla innra með listamönnum.

Manneskjan er í eilífri mótsögn, svo ef átök engla og djöfla lýsa mótsögnum í innra lífi fólks held ég þú hittir naglann á höfuðið. Átökin eru til staðar hjá öllum alltaf, í einhverjum mæli. Ég veit samt ekki hvað gerir listamann áhugaverðan eða manneskju áhugaverða yfirhöfuð.

Þá held ég reyndar að það búi listamaður í öllum manneskjum. Og kannski erum við öll áhugaverð undir smásjá?

Mér finnst samt skipta höfuðmáli að reyna að vera almennileg manneskja. Hvort sem þú ert listamaður eða tannlæknir (kannski sérstaklega ef þú ert bæði, einhver óþægileg hugrenningartengsl þarna). Þess vegna er leitt að komast að því að Dickens hafi kannski ekki verið skemmtilegur við fólkið sitt milli þess sem hann skrifaði yndislegar bókmenntir.

Seinasta pælingin þín: (Ætti hann kannski að losa um öll slík átök í listsköpunni og spara þau í einkalífinu? Er það kollgátan?) Heldur pétur. Ef til mín kemur listamaður með kvalalosta en sömuleiðis hjarta sem er lítið óútsprungið blóm segi ég: Fremdu morðin í word skjali en ekki prófa þig áfram með alvöru fólk.

Já, sannarlega nóg af snillum sem fremja morð í Word-skjölum þessa dagana, sem skrifa glæpasögurnar sínar á snotrar fartölvur, syplandi flosmjúkt kaffi. Hvernig mundi slíkt fólk hegða sér ef það fengi ekki útrás í sakamálafléttunum sínum? Mér óar við svarinu.

En þá að að einhverju léttara: Á hvaða tungumáli lestu helst?

Mest á íslensku undanfarið, en alltaf ensku inná milli.

Áttu þér minningu af því að lesa sem barn, af því að uppgötva einhvern höfund eða bók sem orkaði sterkt á þig og hafði áhrif á þig sem manneskju, breytti þér jafnvel í skáld og fékk þig til að vilja skrifa?

Ég las mjög mikið sem barn, ég var alltaf andvaka og neyddist til að lesa svo nóttin liði hraðar. Allar bækur sem mér fannst skemmtilegar fengu mig til að vilja skrifa sjálf og ég gerði líka mikið af því. Erfitt að nefna bara einn höfund eða bók. Svo margar bækur eiga alveg sérstakan sess í hjarta mér. Börn eru fordómalausir lesendur og finna innblástur alls staðar.

Allt frá lýsingum á niðursoðnum mat hjá Enid Blyton til ævintýralegs hryllings í Abarat eftir Clive Barker hafði djúpstæð áhrif á mig. Svo las ég fullorðinsbækur samhliða barnabókunum, eins og flest börn, enda bannaðar bækur ekki til.

Lestu líka einhver skemmtileg/áhugaverð tímarit eða vefmiðla?

Nei, því miður ekki. Ég fékk einu sinni áskrift að mjög fínu bókmenntatímariti í afmælisgjöf, hún entist í hálft ár og það var gaman. Ég nota internetið bara í einhverja vitleysu.

Í hvaða stellingu finnst þér best að lesa — sitjandi, liggjandi, standandi á haus, hangandi niður úr loftinu eins og leðurblaka — og í hvers konar aðstæðum, svo sem í flugvél, á kaffihúsi, undir rúmi fyrrverandi kærasta, í fallhlíf, uppi í sófa, og hvernig ertu helst á svipinn á meðan þú lest, yggld, reið, hlæjandi, óttaslegin, gnístirðu tönnum?

Mér finnst best að lesa samanhringuð í sófanum mínum, eitt sælubros.

Ég myndi aldrei lesa undir rúmi fyrrverandi kærasta, með smáköflótt teppi yfir mér, við vasaljós með áföstum segli sem ég fann í náttborðsskúffunni hans. Hann myndi reka mig undan rúminu um leið og hann heyrði gnístranina.

Hefurðu grátið yfir bók? Ef svo er: Manstu hvenær það gerðist síðast, hvernig veðrið var, hvar þú varst stödd, jafnvel um hvaða bók var að ræða?

Ég hef oft grátið yfir bók. Mig minnir að ég hafi tárast í ljóðahorninu í Mál & menningu um daginn. Ég var að lesa ljóð eftir Gregory Orr. Það hefur örugglega verið dumbungur úti og 6 stiga hiti eins og allt árið um kring.

Nei, veistu, ég man núna — það var ekki dumbungur heldur hellidemba þegar ég var að lesa Greogory Orr (það hefur líka verið rigning allt árið um kring).

Þá er gott að skýla sér fyrir regninu undir góðri ljóðabók.

En áttu þér uppáhaldshöfund — eða er kannski hættulegt að eiga sér uppáhalds hitt og þetta?

Þetta er erfið og persónuleg spurning.

Eðli málsins samkvæmt detta mér strax í hug höfundar sem voru í uppáhaldi hjá mér þegar ég var barn og sérstaklega unglingur. Börn og unglingar eru þjálfuð í uppáhaldsspurningum, enda meira í því að spyrja hvort annað hvað sé í uppáhaldi frekar en hvort þau séu með mörg járn í eldinum. Fullorðnir virðast í minni æfingu þegar kemur að svona einlægum og erfiðum spurningum.

Við og við les ég bækur sem breyta heimsmynd minni og þá komast höfundarnir í uppáhald.

Í augnablikinu dettur mér Stefan Zweig í hug. Hann var yndislegur höfundur og hann var í uppáhaldi hjá ömmu minni sem benti mér á að lesa hann á sínum tíma. Þessa stundina vel ég hann. Þetta er svo gildishlaðin spurning og þá er eins gott að ákveða það bara út frá því hvernig þér líður á því andartaki og án þess að hugsa það til hlítar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s