Bækur, 25. janúar 2019

Sverrir hefur talað um bókina Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson allavega þrisvar sinnum á þessum vettvangi. Ég hugleiddi hana ekkert sérstaklega fyrr en móðir mín lánaði mér hana um helgina og ég byrjaði aðeins að glugga í hana í kjölfarið. Svo einhvern veginn gat ég ekki hætt að lesa fyrr en ég hafði rokið í gegnum hana í einum rykk – sem gerist býsna sjaldan. Það situr í mér hvað Ragnari tekst að fjalla vel um tvö aðskilin fyrirbæri á ótrúlega vandaðan hátt – annars vegar andlát föður síns og hins vegar dvínandi mikilvægi bókarinnar fyrir samfélagið. Yfirleitt þegar menn ætla sér að gera tvennt í einu verður útkoman býsna misheppnuð (sporkurinn er t.d. bæði léleg skeið og lélegur gaffall) en honum tekst að skrifa um þetta í einni samfelldri og skemmtilegri frásögn. Bókin er virkilega falleg – bæði að innan og að utan – og skilur mjög mikið eftir sig. Ég þarf greinilega að fara að lesa meira af því sem Sverrir mælir með. (KF.)

Ég er orðinn háður Patriciu Highsmith. Spændi í gegnum þrjár skáldsögur eftir hana í vikunni: bækur #2, #3 og #4 í syrpunni um Tom Ripley. Ég segi það hreint út: Tom Ripley er nýja uppáhalds-skáldsagnapersónan mín. Hann skiptist á að fremja harðsvíruð morð, tárast yfir fegurð klassískrar tónlistar, lesa ódauðlegar bókmenntir, neyta lostætrar fæðu, ljúga að konunni sinni og sinna garðrækt. Er það ekki draumalífið? Leikar berast vítt og breitt um Evrópu: sveitir Frakklands, París, Hamborg, Róm, Berlín… Að mínu viti er Patricia Highsmith mun merkilegri höfundur en margir samtímamanna hennar og samlanda frá Bandaríkjunum sem nutu meiri hylli og voru í tísku: Philip Roth, John Updike. Frábærar spennusögur sem eru í senn rökrænar og órökrænar – eins og ívið óþægilegir draumar, sem maður vill ekki vakna upp af. 

Juan Rulfo (1917 – 1986) var einn virtasti rithöfundur Mexíkó á tuttugustu öld. Venjulega léti ég það stoppa mig – ég er með ofnæmi fyrir mjög virtum rithöfundum – en ég hafði lesið annað þekktasta verk hans, nóvelluna ágætu Pedro Páramo (1955), og líkað vel, og greip því í vikunni með mér þýðingu á hinu meginverki hans, The Plain in Flames (El Ilano en Ilamas, 1953), í enskri bókabúð í Oaxaca. Smásögur, afar knappar. Þungar. Ég les eina eða tvær, verð að leggja bókina frá mér, þamba helst áfengan drykk. Carlos Fuentes, Julio Cortazar, allir þessir karlar, voru eins konar lærisveinar Rulfo, dáðu hann og dýrkuðu, og Borges lofaði hann í hástert. Maðurinn sendi ekki frá sér nema um 300 blaðsíður yfir ævina. Góður, en – líkt og svo margt í mexíkóskum bókmenntum – aðeins of þunglyndislegur fyrir mig.

Annar stór höfundur, sem ég hef verið að glugga í, er Machado de Assis (1839 – 1908), einn virtasti höfundur Brasilíu. Ó, allir þessir virtu spekingar! Nýlega kom út doðrantur með enskum þýðingum Margaret Jull Costa á smásögum hans. Í formála er honum líkt við Chekhov – ég er ekki enn tilbúinn að setja hann í slíkan þungavigtarflokk. (Það jafnast reyndar enginn á við Chekhov.) Segi frekar: Ef Woody Allen hefði búið í Rio de Janeiro á seinni hluta 19. aldar hefði hann kannski skrifað sögur í þessum dúr. Bókin er falleg. „Eiguleg“, eins og stundum er sagt. Það mun taka mig dágóðan tíma að renna í gegnum allar sögurnar – ef ég geri það mun ég skýra samviskusamlega frá því hér. En nú þarf ég að ná flugvél til Parísar! Sjáumst í næstu viku. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s