Ráðunautur Leslistans: Jónas Reynir Gunnarsson

jónas

Jónas Reynir hefur mokað út góðum skáldverkum síðustu tvö árin og sendi nú síðast frá stórfína skáldsögu, Krossfiska (Partus Press: 2018). Ég sat fyrir um Jónas í dimmu húsasundi, stökk út úr fylgsni mínu þegar hann uggði ekki að sér og náði að leggja fyrir hann nokkrar spurningar. — Sverrir Norland

Kæri Jónas Reynir, vertu hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans.

Ég las fyrir jól nýju bókina þína, Krossfiska, aðra skáldsöguna sem þú sendir frá þér. Ég á mjög erfitt með að lýsa efni hennar í stuttu máli (og ætla ekki að reyna). Mér fannst eins og lýsingarnar á umhverfi aðalsöguhetjunnar endurspegluðu fyrst og síðast hugar- og tilfinningaástand hennar frekar en veruleikann (ef við gefum okkur að það orð hafi einhverja merkingu, veruleikinn) — en um leið er frásögnin afar myndræn og rennur mjög skýrlega fyrir hugskotssjónum lesandans, hálfvegis „eins og kvikmynd“. Svo mig langar að spyrja: Ertu mikill áhugamaður um kvikmyndir? Mundirðu segja að þú eigir þér frekar áhrifavalda sem starfa á sviði sjöundu listgreinarinnar (ég held að kvikmyndagerð sé stundum kölluð „sjöunda listgreinin“) en í bókmenntunum?

Kærar þakkir fyrir að bjóða mér!

Ég er sammála þér með að veruleikinn sé erfitt hugtak. Stundum er hægt að tala um hlutlæga eða huglæga frásögn, og þar finnst mér óhætt að setja Krossfiska í seinni flokkinn. Tilfinningalegt ástand söguhetju, og hvernig það er sett fram, skiptir þarna máli, og svo er það líka hugar- og tilfinningaástand lesandans, því þetta þarf ekki endilega að haldast í hendur. Til dæmis gæti hugarástand aðalpersónu bókar verið mjög jákvætt og höfundurinn notað öll möguleg frásagnartól til að draga upp þetta jákvæða ástand í textanum, í gegnum lýsingar og annað, en samt líður lesandanum óþægilega. Kannski vegna þess að hann býr yfir upplýsingum eða reynslu sem gefa honum forskot á persónuna, eða bara vegna þess að hann er nýbúinn að lesa kaflann á undan, sem vakti upp allt önnur áhrif sem hafa ennþá ekki fjarað út.

(Smá útúrdúr: Þetta með tvo kafla í röð sem vekja upp ólík áhrif minnir mig á frábæra heimildamynd sem heitir á ensku Fire at Sea og sameinar tvö ólík sögusvið: Annars vegar hversdagslíf tólf ára drengs, sem er stórkostlega fyndinn og sjarmerandi, á eyjunni Lampedusa, sem tilheyrir Sikiley, og hins vegar flóttafólk sem neyðist að hætta lífi sínu á leiðinni yfir Miðjarðarhafið fram hjá þessari eyju. Þessi blanda, og lágstemmd og yfirveguð kvikmyndagerðin gera myndina mjög áhrifaríka, ég mæli eindregið með henni.)

En semsagt, ég myndi segja að umhverfislýsingar og annað í bókinni eigi fyrst og fremst að búa til ákveðið hugar- og tilfinningaástand hjá þeim sem les, frekar en endilega að endurspegla innra ástand söguhetju. Það mætti nýta umhverfislýsingar mjög fínlega á þennan hátt — að þær endurspegluðu innra ástand hetjunnar, og um leið og lesandinn er farinn að skynja það, sér samkennd hans með öðru fólki (eða persónum í bókum) um afganginn. Sem dæmi, ef maður byrjaði með að hafa það að leiðarljósi að lýsingar héldust í hendur við innra ástand söguhetjunnar, og hætti því svo, eða skipti markvisst um nálgun í miðri bók (færi til dæmis yfir í mun hlutlægari lýsingar) væri samkennd lesandans ennþá virk og í fullri vinnu við að tengja við söguhetjuna, reyna að skilja hvernig henni líður og af hverju. Mér finnst þetta mjög áhugavert: Hvað sá sem les gengur í gegnum, hvenær reynir á þolinmæði og samkennd og hvort sá sem les bókina upplifi jafnvel að þessir jákvæðu eiginleikar eflist á meðan á lestrinum stendur. Til dæmis þegar lesandinn lendir í því að líka illa við sögupersónu eða að verkið veiti honum mótstöðu með einhverjum öðrum hætti. Þannig að aðgreiningin sem ég vildi gera er þessi: Að lýsingarnar geti dregið upp innra ástand söguhetju, en herrann sem textinn þjónar er fyrst og fremst sá sem er að lesa.

Það er spot on að tengja Krossfiska við kvikmyndir, því í upphafi ætlaði ég að gera þessa sögu að indie-kvikmynd sem ég myndi taka upp fyrir engan pening yfir nokkur ár með vinum mínum. Það var pælingin þegar ég skrifaði hugmyndina niður í fyrsta skiptið og hún spannaði bara tvö stílabókarblöð. Söguþráðurinn var ekki kominn nema í grófum dráttum, en tilfinningin, eða hugarástandið, sem verkið átti að búa til var orðið nógu skýrt til að ég gæti kallað þetta hugmynd. Svo breyttist verkið mjög fljótt í bók. Á upphafsstigum held ég að hugmyndirnar mínar séu bara hugmyndin um tilfinninguna sem verkið gæti búið til, frekar en endilega viðfangsefni þess, eða ákveðna list- eða bókmenntagrein (oft flakkar ein hugmynd á milli skáldsagna-, smásagna- og ljóðahandritaskjala, á meðan hún tekur á sig mynd). Svo eftir því sem hugarástandið, eða tilfinningin, sem verkinu er ætlað að búa til fer að skýrast, gerir verkið það líka, og þessi tvö fyrirbæri, verkið sjálft og tilfinningin sem verkið býr til, hafa gagnverkandi áhrif hvort á annað, mjakast áfram og loks verður eitthvað til.

Það er alveg óhætt að segja að ég eigi mér frekar áhrifavalda í kvikmyndum heldur en bókmenntum. Ég fékk áhuga á bókmenntum í gegnum kvikmyndir og finnst ég ennþá frekar illa lesinn. Að tala um áhrifavalda getur verið flókið, því yfirleitt er það algjör súpa hvað verður kveikja að verki, eða hefur áhrif á það, og svo getur eitthvað haft áhrif á mann í byrjun en algjörlega fjarað út þegar hugmyndin er farin að þróast. Byrjunin á einni Beethoven-sinfóníu sem ég rakst á hafði mikil áhrif á Krossfiska, allt frá byrjun ferlisins til loka. Hugarástandið sem tónlistin vakti upp í mér tengdist eitthvað áhrifunum sem ég vildi láta bókina búa til. Svefnhjólið eftir Gyrði Elíasson má líka nefna, eflaust Gangandi íkorna líka. Svo eru einhver málverk þarna líka og margt fleira, sumt sem er auðvelt að tengja við bókina og annað sem er líklega óljóst fyrir öllum nema mér. Mér finnst að Robert Bresson hljóti að hafa áhrif á mig, þótt ég viti ekki beinlínis hvernig. Alltaf þegar ég horfi á myndirnar hans finnst mér ég þurfa að hugsa allt upp á nýtt, nálgun mína við að búa eitthvað til. Snemma í ferlinu með Krossfiska hugsaði ég um Rainer Werner Fassbinder, hann er líka einn af mínum uppáhalds. Samt er ég heldur ekki viss um hvernig hann hefur áhrif á mig. Stundum er hann á einhverjum furðulegum landamærum húmors og ógnar og stundum er andrúmsloftið mjög nöturlegt. Mér dettur í hug þetta atriði hér.

En bara til að hnýta þessi tvö viðfangsefni saman, veruleika vs. huglægan veruleika og kvikmyndir, þá finnst mér við hæfi að grípa í leikstjórann Andrei Tarkovsky úr frábærri bók hans, Sculpting in Time. Hér tekur hann dæmi um atvik sem gerist í raunveruleikanum og vandamálið sem listamaðurinn stendur frammi fyrir þegar hann vill koma til skila þeim áhrifum sem hann varð fyrir:

You were walking along the street and your eyes met those of someone who went past you. There was something startling in his look, it gave you a feeling of apprehension. He influenced you psychologically, put you in a certain frame of mind.

If all you do is reproduce the conditions of that meeting with mechanical accuracy, dressing the actors and choosing the spot for shooting with documentary precision, you still won‘t achieve the same sensation from the film sequence as you had from the meeting itself. For when you filmed the scene of the meeting you ignored the psychological factor, your own mental state which caused the stranger‘s look to affect you with that particular emotion. And so for the stranger‘s look to startle the audience as it did you at the time, you have to prepare for it by building up a mood similar to your own at the moment of the actual meeting.

Þarna leynist sannarlega margt umhugsunarvert. Takk.

Sjálfur er ég með skæðan athyglisbrest sem lýsir sér einkum þannig að ég get ekki horft á sjónvarpsefni nema ég hafi, á einn eða annan hátt, verið sviptur ferðafrelsi mínu. Tilhugsun um að halda athygli við sjónvarpsþátt eða kvikmynd í tölvunni minni lengur en í átta mínútur er til dæmis afar fjarstæðukennd; ég tók mér minnst fimm pásur til að gera eitthvað annað einungis á meðan ég rembdist við að slá inn þessa spurningu til þín — spilaði á gítarinn, opnaði ísskápinn til að sækja mér meiri ost, dansaði við dóttur mína (hennar hugmynd), svaraði í símann (skakkt númer), skipti um sokka (þeir voru blautir, það er rigning úti). Mér finnst hins vegar mjög gaman að fara í bíó. Eina leiðin til að ég haldi athygli lengur en í tíu mínútur er ef ég er teymdur inn í sal, dyrunum lokað, ljósin slökkt. Þannig á þetta að vera, finnst mér: samverustund í draumnum, nokkrir inni í sal. Þegar ég bjó í París fyrir nokkrum árum og átti ekki barn fór ég oft í viku í bíó (geggjað að geta séð sígildar gamlar kvikmyndir fyrir 350 kall í bíósal). Hvernig finnst þér best að horfa á bíómyndir?

Mér finnst best að horfa á kvikmyndir á stórum skjá. Bíó er frábært. Einu sinni var á heimili mínu skjávarpi sem ég nýtti til hins ýtrasta til að horfa á myndir, stofan var eiginlega ekkert síðri en salur 4 í Bíó Paradís. Nú er ég bara með sjónvarp, og ég nenni aldrei að horfa af fartölvu. Ég glími sem betur fer ekki við þennan athyglisbrest varðandi það að horfa á myndir. Kannski byggði ég upp þol í kvikmyndafræðinni í Háskólanum þar sem ég sat gjarnan ósofinn inni í hlýjum og dimmum bíósal og þurfti að halda athygli yfir alls konar myndum sem nútímaáhorfanda gæti fundist erfiðar, í nokkra klukkutíma í senn. Ég finn til með þér.

Tja, ég ýki nú aðeins — og var kannski ekki nógu nákvæmur í orðavali. Ég á ekki í neinum vandræðum með að halda athygli við kvikmyndir í bíóhúsum (nema um sé að ræða nýlegar Hollywood-blokkböstera svo sem Sjóræningja Karíbahafsins eða síðustu Hringadrottinssögu-myndina; ég man enn hvað mig dreymdi meðan ég svaf í salnum) og ég hef setið í gegnum ólíklegustu verk án þess að mér leiðist, sjaldnast samt að mínu frumkvæði enda er ég frekar illa menntaður í góðri menningu, barnæska mín löðrandi í Arnold Schwarzenegger-myndum og Andrés Andar-syrpum (það hjálpaði í mínu tilviki að giftast inn í franska fjölskyldu; ég hefði til dæmis líklega ekki farið á fimm og hálfs tíma leiksýningu á kambódísku ef ástalíf mitt hefði þróast með öðrum hætti). En sem sagt: Vandinn tengist frekar kaótísku vinnulífi og foreldrahlutverkinu — allur „frítími“ hjá mér fer í lestur og skrif (samanber núna) plús að ég á ekki sjónvarp (ég þekki afar fáa undir fertugu sem eiga sjónvarpstæki; mér finnast sjónvörp núorðið skipa svolítið svipaðan sess og heimasími með snúru) og mér grútleiðist að horfa á meistaraverk kvikmyndasögunnar á litlum tölvuskjá og nota þá sama tæki og ég nota við vinnu yfir daginn. Það er eitthvað dapurlegt við að góna á sama tækið allar sínar vökustundir, jafnt í starfi sem leik; einu sinni reyndi ég að hysja upp um mig buxurnar og fjárfesti úti í New York í glæsilegum skjávarpa, en hann suðaði svo hátt og hitnaði svo mikið að ég heyrði ekki tal persónanna á skjánum og svo svitnaði ég eins og í gufubaði, og neyddist því að lokum til að selja hann aftur. Og því er niðurstaðan nú þessi — síðustu tvö árin, eða frá því að ég gerði veröldinni þann greiða að fjölga mér, hef ég einungis séð tvær kvikmyndir (báðar í bíó: Call Me by Your Name og The Old Man & the Gun, flottar) and that’s it. Frekar grátleg staðreynd. Ekki hjálpar til að í augnablikinu búum við fjölskyldan hvergi og verðum á faraldsfæti næstu mánuðina; og því sé ég ekki fyrir mér að sjá bíómynd aftur fyrr en … tja, árið 2021, ef ég er raunsær. En sem sagt: Mér finnast kvikmyndir deyja á tölvuskjánum (og athyglin).

Kannski er vandamálið eins og þú segir tölvan, því í henni fer athyglin oftar en ekki á flakk. Kannski er það að horfa á kvikmynd í tölvu eins og að elda inni á klósetti.

Já, það er ein besta samlíking sem ég hef heyrt hvað þetta snertir.

Ef fólk hefur áhuga á að horfa á kvikmyndir en á erfitt með að beita sig aga gæti hjálpað að læsa truflunarvalda eins og hljóðfæri, snjallsíma, fartölvu og ósjálfbjarga afkvæmi, inni í herbergi á meðan.

Hefurðu grátið í bíó, og ef svo er, hvaða mynd spilaðist á tjaldinu? (Játning til að brjóta ísinn: Ég hef grátið í bíó, oftar en einu sinni, en ég græt reyndar mjög mikið.)

Ég græt örugglega meira en flestir bældir karlmenn, en sjaldan á almannafæri. Ég grét t.d. ekki þegar ég fæddist. Ég fór á Konung ljónanna þegar ég var sjö ára og man að ég fékk kökk í hálsinn yfir henni. Ekki þó þegar [SPOILER ALERT] Múfasa dó, mér var alveg sama um hann, heldur þegar Tímon og Púmba voru leiðir yfir því að vinátta þeirra og Simba myndi enda. Ég táraðist yfir byrjuninni á Up, þá var ég orðinn fullorðinn. Ég horfði á Synecdoche, New York, einn heima hjá mér, kannski einu sinni á ári í þrjú ár, og hágrét. Ég horfði á hana aftur um daginn, þá var langt síðan ég sá hana síðast, en upplifði ekki það sama. Líklega hef ég alveg tæmt þann catharsis-brunn.

En ljóð, lestu líka ljóð?

Já, ég er til dæmis með á náttborðinu hjá mér núna Að lesa ský, frábærar ljóðaþýðingar Magnúsar Sigurðssonar sem komu út í fyrra. Ég er enn að fara í gegnum nokkur heildarsöfn skálda sem ég pantaði mér fyrir nokkru: Elizabeth Bishop, Fernando Pessoa, Jack Gilbert, Wisława Szymborska og Zbigniew Herbert. Það tekur sinn tíma og ekki hjálpar að ég fer gífurlega hægt í gegnum ljóðabækur. Ef ljóð hreyfir djúpt við mér þarf ég að loka bókinni og taka pásu, eins og bragðið sé enn í munninum og ég tími ekki að skemma það.

Ég veit að Sigurður Pálsson hafði mikil áhrif á þig sem höfund. Geturðu lýst hvernig, í hverju lá galdurinn hjá honum sem skáldi, manneskju?

Ég treysti mér alls ekki til að súmmera upp galdur nokkurs, hvað þá Sigurðar, en það er rétt að hann hafði mikil áhrif á mig. Hann kenndi mér að lesa og skrifa ljóð. Ég var áhugasamur og lærdómsfús nemandi og SP hafði þann frábæra eiginleika að geta alltaf mætt manni með metnaði og áhuga, og aukið hvorttveggja. Hann var ótrúlega hvetjandi kennari og upptendrunarmeistari. Hann var mjög gjafmildur á allt sem hann vissi um ljóðlist og skáldskap, það var ekki til í honum að halda einhverju út af fyrir sig. Það er ríkt í svo mörgum að hræðast að svipta hulunni af því hvað þeir eru að hugsa, hvað þeir hafa fundið út fyrir sjálfum sér, kannski vegna þess að þeir tími því ekki — þeim líður eins og þeir gefi frá sér eitthvað forskot — eða óttast að útskýringar sínar á einhverju jafn flóknu og listsköpun hljómi barnalegar eða ómerkilegar, eða jafnvel að þær séu í alvöru ómerkilegar, og þeir hrökkvi úr eigin dáleiðslu á sjálfum sér við að orða þær upphátt. Þannig var Siggi ekki og gjafmildi hans situr sterkt í mér. Það er uppörvandi viðhorf til lífsins sem ég held að sé hollt að temja sér.

Það gagnaðist Sigurði líka vel sem kennari hvað hann var með greinandi huga. Mér fannst vera svo ríkt í honum að vilja átta sig á virkni hluta, að skilja, og tólið sem hann hafði á valdi sínu til þess var ljóðlistin. Hann leiðbeindi mér með lokaverkefni í náminu og þegar við hittumst á fundum og hann var að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð, var hann ennþá að greina fyrir sér reynsluna með ljóðlist, með myndlíkingum. Ég man eftir líkingunni hans með lyfjameðferðina — að lyfin væru eins og klaufskur danspartner á skólaballi sem þyrfti að sýna þolinmæði, og reyna bara að njóta tónlistarinnar. Mér virtist sem ljóðlistin væri fyrir honum lífsviðhorf, sem vildi svo heppilega til fyrir hann (og okkur) að er líka til sem starfsgrein. Þess vegna fannst mér hann miðla einhverju til okkar nemenda hans sem var langt umfram bókmenntir. Eða þá að þessi mörk sem gerð eru á milli lífsins og bókmennta eða lista séu alls ekki til. Ég er mjög glaður að hafa kynnst SP. Ég sakna hans og hugsa oft til hans.

Sama hér, ég fæ enn orku bara við að hugsa til hans. Hvernig bók langar þig að skrifa næst (ef nokkra?)

Það er of mikið sem mig langar til að skrifa. Ef þú sæir bara Dropboxið mitt, Sverrir.

Það kann að vekja hjá þér skelfingu — en ég  Dropboxið hjá þér. (Sem betur fer sérðu mitt samt ekki!)

Áttu þér eftirlætis-höfund eða bók?

Höllin eftir Kafka. Það væri margt hægt að segja bæði um hana og höfundinn. Mér finnst Kafka stundum vera eins og að skákmeistari að lýsa því hversu flóknir útreikningar og afleiðingar liggja að baki einfaldri hreyfingu taflmanns — nema hvað varðar mannleg samskipti. Þó að aðstæður persónanna geti verið furðulegar gera innsýn höfundarins í sálfræði og samskipti þær sannar. Þessar aðstæður bjóða þó líka upp á miklar túlkanir, fólk er sífellt að greina Kafka frá alls konar vinklum. Það getur verið gagnlegt og áhugavert, en við fyrsta lestur þessar bókar mæli ég með því að lesa hana án þess að reyna að átta sig á neinu, setja neitt í samhengi eða tengja við veruleikann utan bókarinnar. Bara njóta hennar eins og máltíðar, skynja frekar en skilja, það er að minnsta kosti þannig sem hún verkar á mig.

Lestu líka grafískar skáldsögur, myndasögur? (Ég dýrka sjálfur franska myndasöguhefð — þar sem höfundar skrifa teiknaðar sögur sem njóta alveg jafn mikillar virðingar og hefðbundnar skáldsögur — og dettur þetta í hug vegna þess sem við sögðum um samband þitt við kvikmyndir hér að ofan.)

Ekki mikið, en ég væri alveg til í að bæta úr því. Ég glugga stundum í grafískar skáldsögur í hillunum í Nexus og finn oft bækur sem vekja áhuga minn. Ég hef bara því miður, eða sem betur fer kannski, ekki efni á öllu sem mig langar í.

Ein besta íslenska bók síðustu ára sem ég hef lesið er reyndar grafísk skáldsaga. Það er Gombri eftir Elínu Eddu. Rödd textans og teiknistíllinn mætir manni skýrt frá byrjun, það er einhver einkennileg ró og teikningarnar einfaldar en ítarlegar, þó að það hljómi kannski eins og þversögn. Áferð söguheimsins verkar sterkt á mann, hún felst m.a. í litapallettu og þróun hennar í gegnum söguna, einföldum uppstillingum persóna við blæbrigðaríka bakgrunni, þöglum römmum o.fl.

En takturinn í samtölum, og framvindunni í heild, er kannski eitt það magnaðasta við bókina. Tilfinning fyrir tíma er mjög sérstök, til dæmis gæti komið heil blaðsíða með nokkra ramma sem sýnir persónu fara þegjandi um borð í bát, með völdum nærmyndum, eitthvað sem maður býst kannski ekki við, áður en maður fletti, að myndi taka svona mikið rými. Svo springur sagan einstöku sinnum út í tjáningarríkum opnum þar sem veruleikinn leysist upp. Við lestur þessa bókar finnur maður fyrir því að höfundurinn óttist ekki áhættur og hafi gífurlegt vald á frásögninni. Það er svo yndisleg tilfinning við að lesa bækur að geta treyst höfundi fullkomlega til að fara með sig á áhugaverða staði. Frábær bók.

Já, ég hef heyrt um hana áður en ekki lesið. Bæti úr því. Á hvaða tungumáli lestu helst (ef nokkru)?

Helst les ég bækur á tungumáli og þá íslensku. Ég hef einmitt verið að bölva mér fyrir að kunna ekki sænsku. Ég las þýðingu á bók eftir Söru Lidman, Sonur minn og ég, og varð mjög hrifinn, en því miður hafa ekki fleiri bækur eftir hana verið þýddar á íslensku. Ég leitaði þá til enskunnar og þar fann bara tvær bækur sem búið er að þýða. Ég var að byrja á annarri þeirra í fyrradag, sem heitir í þýðingunni The Rain Bird. Bókarhönnun og frágangur er skelfilegur á þessari útgáfu, sem ýtir undir þessa sjálfsbölvun mína fyrir að geta ekki lesið á frummálinu.

Gefurðu bækur?

Já, stundum geri ég það. Hjúskaparmiðlun milli fólks og bóka er skemmtileg. Ég er alltaf að reyna að mana mig til að gefa bara bækur úr bókahillunum mínum sem mig langar til að eiga sjálfur, bækur sem ég myndi sakna.

Áttu þér sterka minningu af því að uppgötva töfra frásagnarlistarinnar? Ef svo er, hvar varstu staddur, hvernig varstu klæddur, hver var lyktin, varstu einn eða með öðrum, glaður eða hræddur, barn, táningur, fullvaxta? Og á hvaða formi var sögunni miðlað, manstu það?

Þær eru margar. Alltaf þegar ég uppgötva nýjan höfund eða leikstjóra finnst mér ég verða fyrir einhverjum göldrum. Mamma hefur sagt mér sögu af því þegar hún las fyrir mig Tótu tætubusku þegar ég var lítill. Þegar hún kom að martraðarkaflanum, þar sem Tótu dreymir að foreldrar hennar komi inn í herbergið hennar og rífi öll leikföngin í tætlur, fylltist ég skelfingu og fór að gráta. Ég bað mömmu að lesa þessa bók fyrir mig aftur og aftur, og þegar hún reyndi að hlaupa yfir martröðina, til að skelfa mig ekki og eyðileggja ekki fyrir mér daginn, bannaði ég henni það og heimtaði þennan hrylling aftur, og fór aftur að grenja og varð skelfingu lostinn. Líklega segir það eitthvað um samband mitt við frásagnarlistina, að verða fyrir töfrunum trompar löngunina til að viðhalda andlegu jafnvægi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s