Bækur, 8. febrúar 2019

Fyrirfram hefði ég talið að Vernon Subutex, eftir Virginie Despentes, væri ansi ólíkleg metsölubók. Titilpersónan er 46 ára gamall náungi sem áður rak vinsæla plötubúð skammt frá Bastillunni í Parísarborg. Nú er plötubúðin (vitaskuld) löngu farin á hausinn og okkar maður búinn að selja allt frá sér til að eiga í sig og á, plötusafnið, myndasögur, plaköt, boli, hljóðfæri, íbúðin hans er tóm. Gamall vinur hans, rokkstjarnan Alex Breach, kemur Vernon til bjargar þegar plötusalinn heillum horfni getur ekki lengur staðið straum af húsaleigunni. En svo deyr Alex sviplega – og þar með hefur Vernon ekki lengur aðgang að digrum sjóðum rokkstjörnunnar. Brátt knýja harðsvíraðir innheimtumenn dyra og henda Vernon öfugum út af heimili sínu, og í kjölfarið flakkar hann á milli sófa hjá gömlum vinum (deilir meðal annars rúmi með nokkrum skrautlegum konum) en endar svo á götunni. Heimilislaus í París. Sá kvittur kemst á kreik að hann hafi undir höndum verðmæta þriggja klukkustunda upptöku sem Alex gerði eitt sinn heima hjá honum, uppskrúfaður á heróini, og ýmsir útsendarar eru því gerðir út af örkinni til að hafa hendur í hári Vernons. Persónugalleríið í bókunum (þetta er þríleikur) er ansi skrautlegt: háværar klámstjörnur, forhertir kvikmyndaframleiðendur, útbrunnir rokkararar, ofbeldisfullir eiginmenn, móðursjúkir áhættufjárfestar. Þá skjóta persónur úr fyrri verkum Despentes upp kollinum, svo sem Hýenan, sem áður starfaði sem einkaspæjari en er nú „internet-böðull“, þ.e. mannorðsmorðingi sem ráða má til að sverta stafræna ímynd óvina sinna á netinu. Despentes tekur á ýmsum brýnum samtímaþemum – „stingur á kaunum“ – og notar rokktónlistarþemað meðal annars til að benda á hversu kaldrifjaður og hugsjónalaus helvítis samtíminn er. Rokkið var hugsjón, leið til að gefa skít í stofnanir og staðlaða samfélagsgerð – en nú eru ekki til neinir rokkarar lengur. Allt er ímynd, dauðhreinsað útlit undir stjórn geldra aumingja í jakkafötum. Þá veitir hún merkilega naska innsýn i líf og huga heimilisleysingja og dregur fram í dagsljósið hversu fáir staðir finnast núorðið í stórborg á borð við París þar sem auralaust fólk má halda til án þess að neyðast til að kaupa eitthvað. Ég gæti skrifað langa ritgerð um þessar bækur en þarf núna að steikja pönnukökur handa eiginkonu minni og dóttur. Ég er ekki heimilislaus, hvað þá rokkstjarna – ég er það sem á frönsku kallast „un bobo“, þ.e. bourgeois-bohème, bóhem af burgeisastétt sem syplar vandað kaffi og borðar pönnukökur með lífrænni sultu. Tvær fyrstu bækurnar eru komnar út á ensku fyrir þá sem ekki lesa frönsku. Þessu ætti að snara yfir á íslensku, heyrið þið það, útgefendur? Gott dót. Mæli með. (SN.)

Sverrir sendi mér skeyti fyrir nokkrum dögum síðan þar sem hann sagði mér frá því að hann væri byrjaður að lesa bókina Straw Dogs eftir John Gray, uppáhalds hugsuðinn minn. Ég er ekki frá því að þetta sé ein besta bók sem ég hef lesið. Ég las hana fyrst, rétt rúmlega tvítugur, og minnist þess að hafa fengið nístandi höfuðverk þegar ég kláraði hana. Hún gjörsamlega umbylti heimsmynd minni og fékk mig til að hugsa margt, sem ég tók áður sem sjálfsögðum hlut, algjörlega upp á nýtt. Ég ákvað þess vegna að byrja að lesa hana aftur í vikunni, líklega í sjötta skiptið, og þótt áhrifin séu ekki alveg jafn sterk og í fyrsta skiptið kann ég að meta hana með öðruvísi hætti í dag. Ég var kominn nokkra kafla inn í bókina þegar ég sá hann vitna í taóisma, en þá sérstaklega í eitt af þremur höfuðpaurum þeirrar heimspekistefnu, Chuang Tzu. Þá mundi ég allt í einu að ég hafði keypt Bók Chuang Tzu, fyrir slysni, þegar ég ætlaði mér að kaupa enska útgáfu af Bókinni um veginn, sem er þekktasta rit taóismans. Ég varð eiginlega hálf svekktur þegar hún barst síðan til mín og ég lét hana safna ryki á bókahillunni minni þar til núna. Skil satt að segja ekki hvernig ég gat látið þetta meistaraverk í friði í öll þessi ár! Hún er djúp, skemmtileg, fyndin, alvarleg og einhvern veginn ótrúleg á sama tíma. Þetta er samansafn frásagna þessa skemmtilega manns og lærisveina hans um allt milli himins og jarðar. Enda þótt hann hafi verið uppi nokkur hundruð árum fyrir Krist eru hugmyndir hans merkilega viðeigandi í nútímalífi. Gott dæmi er t.d. þessi dæmisaga úr bókinni (sem er ensk þýðing á frumtextanum):
„Someone offered Chuang Tzu a court post. Chuang Tzu answered the messenger. ‘Sir, have you ever seen a sacrificial ox? It is decked in fine garments and fed on fresh grass and beans. However, when it is led into the Great Temple, even though it most earnestly might wish to be a simple calf again, it’s now impossible´.” Gott að hafa þetta viskukorn hugfast næst þegar manni er boðin stöðuhækkun.


Óskalistinn:

Komin er út á ensku ný bók eftir Roberto Bolaño – ég rak fyrir tilviljun augun í hana í bókabúð og undraðist mjög: The Spirit of Science Fiction. Bolaño ku hafa skrifað hana 31 árs gamall (hún er fyrst gefin út núna) og er þarna um að ræða eins konar prótótýpu Villingslegu spæjaranna, einnar þekktustu bókar Bolaño. Hér er gömul grein sem ég skrifaði á sínum tíma um Bolaño í tilefni þess að Ófeigur Sigurðsson gerði okkur þann greiða að þýða Amulet, aðra stutta skáldsögu eftir hann.

Þóra Hjörleifsddótir sendir frá sér sína fyrstu skáldsögu, Kviku. Kemur út 13. Feb. Hlakka til að lesa hana.

Þá sendir fyrrum ráðunautur Leslistans, Þorvaldur Sigurbjörn Helgason, frá sér fyrstu ljóðabók sína, Gangverk. Sú kemur (held ég) í búðir 14. feb. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s