Ráðunautur Leslistans: Tyrfingur Tyrfingsson

Tyrfingur.SH

Tyrfingur er eitt þekktasta leikskáld þjóðarinnar, hefur meðal annars skrifað leikritin Bláskjár og Auglýsing ársins, og nú nýlega Kartöfluæturnar. Hann er búsettur í Amsterdam. Við skrifuðumst á yfir tveggja vikna skeið, ég sendi honum fyrst skeyti frá Mexíkó, síðar frá Parísarborg, og þó að við værum staddir fjarri fósturjörðinni bar hana oft á góma. Svör Tyrfings brugðust ekki væntingum. — Sverrir Norland

Kæri Tyrfingur, hjartans þakkir fyrir að ganga í ráðuneyti Leslistans. Eins og þú sérð þá er hér vítt til veggja, hátt til lofts, góður hljómur. Við skulum setjast hér á mitt sviðið, þú krækir hljóðnemanum í hálsmálið. Það þarf engum að koma á óvart að áskrifendur Leslistans fylla upp í sérhvert áhorfendasæti, en við hunsum græðgisleg augnatillit þeirra, einbeitum okkur að fyrirliggjandi verkefni dagsins — vígslunni í ráðuneytið.

Manstu eftir sterkri reynslu af skáldverki — í hvaða formi sem er — sem fékk þig til að skilja lífið, og skynja, á einhvern alveg nýjan hátt, helst þegar þú varst ennþá ungur og óharðnaður, blautur á bak við eyrun? Eða ertu 100% sjálfsprottinn höfundur?

Ég man að ég var í flugvél á leið til Flórída þegar mamma gaf mér Músina sem læðist eftir Guðberg Bergsson og að ég fór fyrst undir teppi og síðan inn á bað því að mér leið eins og ég væri orðinn glær og fólk sæi inn í mig og í gegnum mig. Eins og einhver hefði sest niður og skrifað bók um það hvernig ég hugsaði. Bókin læknaði mig af tegund af einmanakennd sem hefur aldrei komið aftur síðan. Og þegar ég kláraði bókina þá kom bara til mín: „Bíddu, má þetta?“ Og síðan þá hef ég alltaf heillast af listaverkum sem veita mér þá tilfinningu, svona smita mig af hugrekki sínu.

Svo eru það ekki síst sýningar sem kveiktu í mér. Koddamaðurinn eftir Martin McDonagh og Rambó 7 eftir Jón Atla í Þjóðleikhúsinu. Kvetch sem Stefán Jónsson setti up var alveg svona „bíddu, má þetta?“ sýning og síðan stuttu síðar byrja ég að lesa verk Söruh Kane. Bókin Edlhús eftir Banana Yoshimoto breytti líka öllu en ég veit samt aldrei hverju hún breytti. Ég var bara svona 18 eða 19 ára þegar ég sá fyrstu Thomas Ostermeier sýninguna mína í Schaubühne en þar er hann leikstjóri og leikhússtjóri. Og Vigdís Gríms var líka alltaf að lækna eitthvað í mér. En kóngurinn er og verður Jean Genet. Hann setur mann svona í „bíddu, má þetta“ gírinn en undir loks verksins er það eiginlega orðið að „nei, þetta ekki bara má, þetta verður af því að annars verður þú aldrei frjáls“.

Ég var í Manchester klúbbnum í Kópavogi þegar ég var átta ára. Klúbburinn var undir súð fyrir ofan bakarí einhvers staðar hjá Smiðjuvegi í Kópavogi og ég elskaði hann. Ég hafði engan áhuga á fótbolta en dýrkaði þessa glæsilegu iðnarmenn alla og sígó-ið og Thule dósirnar og hvernig þeir töluðu. Þeir nefnilega töluðu eiginlega ekki heldur bara hrópuðu eða muldruðu. Stæll á þeim. Ég hafði svipaðan áhuga á keilu í Mjódd, var oft þar með vinum mínum. Það var annar svona hliðarheimur. Maður þurfti að leigja keiluskó og var eitthvað að hnusa af þeim og svo voru þarna spilakassar og alltaf einhver keilumót. Þetta fannst mér æðislegt og hafði góð áhrif á mig.

Ég heyri höfundum oft hrósað fyrir einlægni. Einkum eru ungir höfundar bendlaðir við þetta hugtak. Stundum er einlægni jafnað saman við það þegar fólk er opinskátt um persónulega hagi sína, svo sem kynlífsvenjur, kvíðaköst eða eiturlyfjanotkun, fjármál eða félagslega hegðun, sjálfsefa, áhyggjur af framtíðinni og svo framvegis. Sem sagt: Einlægni er samofin, og jafnvel órjúfanleg, hinu einkalega — persónulega.

Annað dæmi: Kannski hlýst það af áralangri búsetu minni í Bandaríkjunum en það alsíðasta sem mig langar að heyra, þegar ég sný heim til Íslands, er einhver daufur endurómur af Atlanta-rappi sem krakkar í úthverfum Reykjavíkur hafa smyglað til landsins og baula yfir takta. Eins finnst mér ógnvænlegt þegar sömu krakkar — sem oftast eru á barnsaldri — hnoða saman byrjendalegum textum um djammið og uppskera samstundis hrós fyrir að „nota íslenskuna“ (eins og það eitt sér sé lofsvert). Auðvitað finnast undantekningar en mestanpartinn finnst mér þetta leiðinleg lágmenning. Börn að tala um óáhugaverða hluti á klaufalegan hátt. Einkum fer gauramenningin í taugarnar á mér. Karlrappari er einlægur með því að tala opinskátt um hvað hann sé mikill skíthæll. Og allur þessi kveðskapur um djammið (kannski eru fá yrkisefni ungum Reykvíkingum jafn nærtæk). En sem sagt: Orðið einlægni ber oft á góma í tengslum við þennan rappkveðskap íslenska ungmenna, og eins heyri ég börnin lýsa því yfir að þau séu einlæg (þegar þau rappa um líferni sitt sem t.d. menntskælingar).

En er þetta einlægni? Um daginn rakst ég á betri skilgreiningu á orðinu. Einlægni er fjarvera sjálfsins (e. absence of self-consciousness). Það finnst mér einmitt vera kjarni málsins. Það er fyrst þegar maður nær að ýta eigin áhyggjum og þráhyggjum út úr kollinum að maður nær að segja eitthvað satt — eitthvað einlægt. Alvöru. Unglingar og ungt fólk geta það að sjálfsögðu sjaldan — þau eru enn að finna út hver þau eru, og það er erfitt að slökkva á sjálfum sér ef maður veit ekki einu sinni hver maður er — og svo bætist við hið daglega skjáumhverfi okkar, allir einlægt skráðir inn undir nafni sem notendur í forritum. Það ýtir ekki beint undir fjarveru sjálfsins og sjálfhverfunnar. Hvað þá einlægni (að þurfa að safna lækum og hjörtum fyrir sínar einlægu yfirlýsingar).

Hvað finnst þér um þetta, hvað er einlægni? Þrífst hún í íslenskum samtímaskáldskap, á síðum bóka, á fjölum leikhúsanna, í íslenskri rapptónlist? Skiljum við hvað orðið þýðir? Dettur þér í hug einlægt bókmenntaverk? (Kannski Músin sem læðist — besta verk höfundar sem orkar sjaldan á mig sem einlægur í seinni tíð.)

Ég held að fólk rugli saman einlægni og væmni. Og gagnrýni og dómhörku (en það er annað mál). Einlægni er bara aðferð. Hún er kannski það að tjá sig án ásetnings, það er, án þess að ætla að ná einhverju fram. Það er ekki gott að hafa einlægni að markmiði.

Stundum er talað um einlægni og kaldhæðni sem andstæður en það er bull, þetta tvennt fer ákaflega vel saman, sérstaklega í leikhúsinu. Tjékov er einlægur og kaldhæðinn á sama tíma og fyrir vikið margræður. Þannig að maður þarf ekki að vera einlægur og svo þarf maður ekki að vera samkvæmur sjálfum sér í skáldskap eða eins og Walt Whitman lýsir í ljóðinu „Song of Myself“:

Do I contradict myself?
Very well then I contradict myself
(I am large, I contain multitudes).

Einlægur og kaldhæðinn á sama tíma.

En að baki allri einlægni og kaldhæðni og illsku og grimmd þarf að vera botnlaus ást. Ekki kærleikur heldur ást. Hrein ást án orða og tilfinningasemi. Og hún er auðvitað í öllum, svona að baki rembingi eða hvað sem maður kallar það. Hins vegar er það hlutverk áhorfandans eða lesandans að sjá ástina. Það er ekki höfundarins að sýna ástina, hann ætti frekar að reyna að fela hana ef eitthvað er. Að horfa í gegnum hrylling og sjá ástina honum að baki — það er ultimate kvíðalyfið.

Ég sé að margir heteró karlar og sumir hommar reyna að vera einlægir, setja upp svona einlægan svip og tala í einlægum tón og verða klígjulegir fyrir vikið. En ástæðan er samt sem áður skiljanleg. Þeir vilja líta út fyrir að vera hættulausir. Sumsé ekki hættulegir, það megi treysta þeim, ekki vondir heldur góðir vegna þess að þeir eru hræddir margir við myrkrið í sér. En það er auðvitað fátt óhuggulegra en dúllulegur strákur. Agalegt. En þeir eru að reyna að sannfæra sjálfan sig um að þeir séu ekki svona hrikalegir. Og þeir eru ekkert hrikalegir. Þeim bara líður þannig. Það er mikil sektarkennd í strákum. Sumir hafa kannski eitthvað potað í pjölluna á frænku sinni þegar þeir voru tíu ára og eru innst inni í rusli yfir því.

En ef ég ætti að nefna góðan íslenskan texta sem er einlægur þá myndi ég nefna höfundaverk Mikaels Torfasonar. Kannski af því að hann ætlar sér að vera heiðarlegur og þarf til þess að nota einlægni. Einlægni er því ekki markmið hjá Mikael heldur svona aukaafurð (e. byproduct).

Varðandi rappið. Ég veit ekkert um rapp en mér skilst að íslenskt rapp sé af frekar miklum gæðum. Mér finnst þeir einmitt ná því að vera einlægir og kaldhæðnir á sama tíma. En leikhúslistafólk hefur líka mikið umburðarlyndi gagnvart „vondum“ texta. Að baki mörgum af bestu sýningum sem ég hef séð liggja agalegir textar. Textar í mörgum ítölskum óperum eru skelfilegir (Tosca til dæmis). Librettóið af Tristan & Isolde á köflum mjög fallegt en aðallega heimskulegt. Ég finn yfirleitt fallegustu textana í 20. aldar óperum eins og (Ödipus eftir Enescu, Wozzeck eftir Alban Berg, Salóme eftir Strauss o.fl.)

Mér finnst íslenskt rapp kannski svolítið camp. Camp og þá meina ég skilgreininguna að camp sé þegar einhverjum mistekst að vera alvarlegur (e. failed seriousness). Og þau hafa hellings húmor fyrir sér. En textarnir hjá t.d. Rottweiler hundum voru mjög flottir og allt það gigg alveg til fyrirmyndar.

Ég, ólíkt þér, elska gauramenningu. Hún er erótísk og á hreyfingu. Síðustu ár hef ég fundið breytingu þar sem verið er að fella menningu homma inn í karlmennskuna — karlmenn eru að koma aftur saman með bromance og samtali um vináttu karla og bræðralag (mér finnst fólk ekki tala um annað). Síðan hefur verið góssentíð hjá mörgum hommum eftir Metoo þar sem heteró karlmenn hafa látið sig gossa í aðra herramenn í einhverri paranoju gagnvart kvenfólki. Þetta hefur verið veisla, sérstaklega fyrir kvenlegu strákana sem er oft strítt í hommaheimum. Og mínum gagnkynhneigðu karkyns vinum fjölgar og mér finnst karlmennskan vera að breytast og mildast.

En guð forði okkur frá væmninni!

Heyr, heyr. Ég strengdi þess áramótaheit að byrja aftur að borða kjöt. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að ég er orðinn svo þreyttur á þessari vegan-möndlumjólkur-ég-er-viðkvæmur-ungur-listamaður-í-stórborg-menningu sem virðist elta mig á röndum hvert sem ég er fer (New York, Reykjavík, París). Ofverndað hugsjónafólk breytir heiminum á kaffihúsum, með fartölvur, syplar haframjólkur-kaffi og maular kínóa. Ég held það sé vistvænna og áhugaverðara að borða það sem meikar sens á hverjum stað hverju sinni — og langa stundum í blóð. Hefurðu skoðun á því? Eiga allir listamenn að vera góðhjartaðar grænmetisætur? Eða ætti þá stundum að þyrsta í blóð?

Ég borða kjöt á hverjum einasta degi, stundum oft á dag. Það eykur serotóninframleiðslu og minnir mig á það að ég er, sama hvernig mér líður, efstur í fæðukeðjunni. Ofar hundum. Ofar dolphins.

Það er algengt að fólk rugli saman einstaklingsábyrgð og samfélagslegri ábyrgð. Samfélagið leysir stór vandamál. Ég leysi kannski eitthvað vandamál með teppið á stigaganginum. Ég sá einhvers staðar að nú er hægt að rækta steikina — það þarf sumsé ekki að drepa naut til þess að borða naut lengur. Svona nokkuð á háskólasamfélagið að græja með því að dæla peningum í vísindi sem minnka kjötframleiðslu. Og ég ætlast til þess. Því ég er bara einstaklingur, ekki heilt samfélag. Það er eiginlega botninn á einstaklingshyggjunni að gera sjálfan sig ábyrgan fyrir stöðu heimsins. „Það er svo mikil mengun að ég verð að flokka rusl og borða vegan“. Fólk fróar sér oft á því að taka ábyrgð á hlutum sem það ber enga ábyrgð á. Það beinir athyglinni frá þeim sjálfum og að öðrum.

Eitthvað hefur þetta líka að gera með forréttindi. Fólk er að reyna að minnka forréttindi sín, taka meira tillt til annarra. Dr. Cornel West, guðfræðingur sem lýsir sjálfur sér sem tjekóvskum, kristnum uppreisnarmanni, fékk ansi góða spurningu á fyrirlestri um daginn. Hvítur sláni spurði West hvernig maður gæti komist undan forréttindunum, hvernig maður skerðir eigin forréttindi? West var fljótur til svars. Maður gerir það ekki. Maður notar forréttindi sín til þess að beina hlutum áfram, í átt að hinu réttmæta. West marseraði við hlið Martin Luther King svo hann veit um hvað hann syngur. Ég tók þetta til mín.

En vegan fólkinu til varnar. Þarna hefur skapast samfélag sem vill heiminum gott og gagnrýnir ríkjandi kerfi. Eftir einhver árhundruð mun það þykja barbarískt að hafa borðað kjöt af lifandi skepnum. Hins vegar þurfa Íslendingar eins og annað lútherskt fólk alltaf að fara varlega. Trúarbrögðin sem samfélagið okkar byggir á sér eina aðalsögu. Hún er sú að Lúther neglir þarna á kaþólsku dyrnar einhverju plaggi og lýsir frati yfir kaþólska trú. Hann segir: „Þið haldið að þið séuð trúuð og góð, en þið eruð spillt og ógeðsleg, þið eruð bara svo siðlaus að þið sjáið það ekki“. Þetta er narratíva sem bergmálar gjarnan á íslandi: Þú heldur að þú sért góður gæi, en kemur í ljós að þú ert bara algjört ógeð. Og núna er fólk byrjað að beina þessari sögu inn á við: „Ég held að ég sé góður mömmustrákur, en innst inni er ég vondur“.

Ég tek stundum viðtöl við fólk þegar ég er að skrifa og mér brá rosalega í fyrra. Ég er að vinna verk núna, Helgi Þór rofnar, eftir að hafa talað við unga stráka. Og þeir lýsa þessu allir. Óttanum um að það komi í ljós að þeir séu ógeðsleg svín og allir fatti það. Og allir hræddir um að hafa óvart nauðgað.

Ég finn svo mikinn mun því ég hef búið í sex ár með kaþólikka. Og honum finnst allt svona bara uppnám og móðursýki. Hugsunin í kaþólskunni er stærri og hverfist um það að fólk geti fyrirgefið öðrum og sér. Eitt finnst mér segja svo mikið um þau trúarbrögð: Francis Bacon málaði stórkostlegar myndir af kardinálum sem líta út eins og djöfullinn. Málverkin eru óhugguleg og manni líður eins og kardinálinn á myndinni sé í raun og veru anti-kristur. Og maður spyr sig, hvers konar safn vogar að sýna mynd sem lætur kardinála líta út eins og andskotinn? Jú, listasafnið í Vatikaninu.

Í lútherskunni safnar maður upp synd og skömm — svona í einfölduðu máli. Hér í Amsterdam býr fólk við Kalvinisma sem er líka mótmælendatrú (hugsa sér að trúa á það að mótmæla öðrum trúarbrögðum). En hér hafa menn gert upp Kalvinismann betur og skynja hann í sér, sjá dómhörkuna sem bergmál af gömlum trúarbrögðum. Auðvitað er ég að einfalda og ég er hlynntur þjóðkirkjunni á Íslandi. Starfið er merkilegt og það veit allt fólk sem hefur gengið í gegnum sorg og leitað til kirkjunnar. Yngstu prestarnir gera held ég best. Og guðfræðin á Íslandi er ekki eins kreddufull og margt annað því að hún þarf alltaf að lifa með syndum kirkjunnar. Og það er kannski lykillinn hérna (margir hafa áður bent á þetta). Íslendingar elska sakleysi því Ísland er saklaus þjóð. Við kunnum ekki eins og t.d. Þjóðverjar að lifa með synd. Af því hlýst þessi botnlausa dómharka og hneykslunargirni. Það er alltaf verið að vernda sakleysið, hreinleikann eða sveindóminn/meydóminn.

Fólk skynjar líka landið núna alltaf utan frá. Ég hef aldrei séð í fréttum í Hollandi frétt um hvað einhver í útlöndum sagði um Holland. Venjulegir Íslendingar tala um ímynd landsins. Ég horfði um daginn á mjög góða vinkonu mína ljúga því upp í opið geðið á einhverjum Belga að: „Yes, I love elves, I talk to elves all the time.“ Hún var alveg einlæg.

Ég tala við álfa lon og don þegar ég er á Íslandi. Einu vitrænu íbúarnir þar og þó víðar væri leitað.

En nú er sólin að setjast. Himinninn er fjólublár. Öll Parísarborg er fjólublá! Fjólublá húsþök, er til nokkuð fallegra? Ég þurfti að gera hlé á skeytinu til þín til að stíga út á svalir og virða útsýnið fyrir mér í andakt. Heimurinn er ennþá magnaður. Og áðan, þegar ég sneri aftur heim í íbúð, heyrði ég í fuglum syngja svo glaðlega í portinu. Ég undra mig alltaf svo á því þegar ég heyri í dýrunum (öðrum dýrum en mannfólki) senda frá sér glaðleg og sterk hljóð. Ég held alltaf að þau séu öll horfin — útdauð. En nei, ekki enn! Ekki þetta fjólubláa fallega kvöld… Þau eru hér enn. Og ég elska þau.

Ég hef satt að segja verið svolítið þreyttur á list mannanna upp á síðkastið. Kannski bara séð of margar listasýningar, lesið of margar bækur, heyrt of mikið af tónlist. (Ég er svo gott sem hættur að hlusta á tónlist; þarfnast þagnarinnar.)

Býflugnabús-hugsunin: netið hefur frelsað marga en einnig helsað (sumar skoðanir eru bannaðar, fá ekki læk, fólk ritskoðar sig stöðugt o.s.frv. — ekki frjór jarðvegur fyrir list).

Sem sagt: Á vissan hátt lít ég svo á að við séum að ganga í gegnum vitsmunalega lægð á Vesturlöndum. Kannski er það bara bull. (Kannski er það bara ég sem er að ganga í gegnum vitsmunalega lægð.) Það er sannarlega nóg af gáfuðu, skapandi fólki úti um allt — en það er frekar umhverfið sem mér finnst ekki sérlega frjótt.

Hvað segir þú, hvaða höfundar vekja áhuga þinn þessa dagana, ef einhverjir eru? (Óháð miðli — bækur, leikhús, kvikmyndir, sjónvarp, útvarpsleikrit, tónlist, hvaðeina.) Lifum við fjörmikla tíma í vitsmunalífi og menningu? Langar þig að eggja hið fróðleiksþyrsta samfélags Leslistans til að kynna sér verk einhvers séní, sem gæti jafnvel vakið með okkur von, varpað birtu inn í framtíðina með hæfileikum sínum og innsæi?

Jú, margt flott í gangi í listum. Ég hef verið að lesa höfund sem heitir Vivian Gornick og er bandarískur bókmenntafræðingur og höfundur. Hún gefur rosalega mikið. Og ég var að klára syrpu þar sem ég las Jose Saramago, portúgalskan höfund, sem ég mæli með.

Síðan hef ég líka verið að lesa ritgerðir Gore Vidal, sem er nú reyndar dáinn. Hann segir um framúrstefnuleikhúsið: „Everything in the world is constantly changing, except the Avant Garde theater, which always remains exactly the same.“

Ég dýrka Rineke Dijkstra sem er hollenskur ljósmyndari, hún gefur svo mikið og sama má segja um aðra hollenska konu sem heitir Lily van der Stokker sem gerir myndlist sem hún kallar: „soft and cheesy“. Hér í Amsterdam er Ivo van Hove leikstjóri með sinn leikflokk Toneelgroep Amsterdam. Hann hefur unnið með sumum leikurum í yfir þrjátíu ár. Ég fylgist vel með þeim.

Þá eru nokkrir píanistar sem ég fylgist með og hljómsveitarstjórar sem ég reyni að heyra reglulega. Ég er hrifinn af þó nokkrum pólskum leikstjórum, þá kannski helst Krzysztof Warlikowski og fylgist með sviðsleikurum og -leikkonum ansi víða núorðið.

Ég bíð spenntur nýjustu bók Houellebecq og eftir að Ishiguro fékk Nóbelinn hef ég verið að lesa hann. Og svo mæli ég alltaf með leikritum Martin Crimp fyrir þá sem hann ekki þekkja.

Einu sinni, fyrir langa löngu, las ég viðtal við þig í einhverju dagblaði. Helvíti gott viðtal, minnir mig. Og þú sagðir svolítið sem hitti mig lóðbeint í höfuð- og hjartastað. Nefnilega um skrif — um hversu ómannlegt það væri að hjakka stöðugt í sama handritinu mánuðum ef ekki árum saman. „Spóla í eigin skít,“ ég man ekki hvernig þú orðaðir þetta, nákvæmlega. Bravó, hárrétt. Ritlistarkennarar og gáfnaljós í skrifbiblíum og á netinu predika ítrekað mikilvægi endurskrifa; fyrsta uppkast er aðeins grófur efniviður í næstu uppköst. Endurskrifa, endurskrifa. Ég vinn aldrei þannig og skil ekki hvað fólk á við. Maður sest niður og skrifar sögu. Voilá: hér er sagan komin. Þá segja leiðbeiningar: flott, nú áttu að endurskrifa. Hvernig þá? Ef ég byrja að endurskrifa söguna kemur bara út einhver önnur saga. Ég þoli ekki, og skil ekki, endurskrif. Mottóið hjá Cesar Aira, einum helsta andans bróður mínum (hef reyndar aldrei hitt hann) er flugið beint áfram (á spænsku, fuga hacia adelante): halda áfram að skrifa, ekki hjakka endalaust í sama textanum. Ég sæki mér styrk í hans aðferð (en skrifa reyndar sögur, ekki leikrit eins og þú). Hefurðu eitthvað að segja um þetta, hvernig er að skrifa leikrit, texta sem aðrir svo gæða lífi á sviði? Finnst þér gaman að endurskoða díalóg í tiltekinni senu þúsund sinnum, eða vinnurðu kannski alls ekki þannig?

Jú, það er ómannlegt að hjakka alltaf í sama handritinu en það neyðast leikskáld til að gera. En hins vegar má hjálpa sér með því að byrja ekkert að skrifa fyrr en maður er búinn að hugsa um verkið í marga mánuði eða ár. Þá er fyrsta uppkast mjög heillegt og ekki eins mikið hark og þegar maður vaknar einn góðan veðurdag og byrjar að skrifa upp úr þurru. Er einmitt í verkiinu Helgi Þór rofnar núna sem byrjaði bara sem skissa einn góðan veðurdag. Mikið helvíti. Henti því þrisvar. Mér finnst það samt það besta sem ég hef nokkurn tímann skrifað. Kannski af því að ég er búinn að velta hverjum einasta steini í heimi verksins. Og margir partar af mér komið að skriftunum. Það er klárað en ekki fullkomið (það eru andstæður). Og ég veit ekkert alveg hvað það þýðir en það fylgdi mér lengi og losaði mig við eitthvað. Ég vona að það eigi eftir að losa áhorfendur við eitthvað líka, ekki vitrænt heldur líkamlega. Þannig að ég skil við þetta verk í góðu.

Eitt finnst mér voðalega gaman sem höfundur og það er hvernig ég finn úthaldið aukast. Ég get setið lengur, farið oftar inn í verk, tekið meiri krítik frá dramatúrgum, leikstjórum og leikurum. Og ég er hættur að verða sár. Mikilvægt að muna að það er engin dygð að særast og móðgast.

Ég ákveð fyrirfram hvað gerist í leikriti, skrifa það í sundi. Og síðan hætti ég við allt saman og hvíli verkið og kem að því aftur seinna. Ég er samt aldrei að reyna að segja neitt með verkunum. Ég hef ekkert að segja. Giska svona eftir á: „Ég var kannski að meina þetta?“. Aðalatriðið er að ég gefi af mér í verkið eitthvað sem getur haft þýðingu fyrir annað fólk. Að textinn sé leið að merkingu, eða leið handan merkingar en ekki merkingin sjálf. Sjálfur fer ég svona úr einu í annað og finnst eitthvað en um leið og ég segi það upphátt verð ég ósammála því. Ég er til dæmis ósammála öllu sem ég hef sagt í þessu viðtali, og pínu svona þreyttur á mér og smá að vona að enginn lesi þetta.

Það lesa þetta mörg hundruð manns, kannski mörg þúsund. Því miður. En við erum ekki jafn þreytt á þér og þú (við þurfum ekki að vera þú).

Áhugavert samt: sjálfum finnst mér ég einmitt ekki vera ég þegar ég skrifa og tala — og skrifa og tala kannski einmitt til að fá hvíld frá sjálfum mér.

En afsakaðu þetta inngrip. Haltu áfram –

Svo safnar maður upp tækni. Það er til dæmis gott að taka rúnt á verkinu og taka út öll passíf svör. Orkan dvínar með passívri replikku.

Ég strögla líka svolítið við það að mér finnst ég búinn að koma öllu á blaðið en fólk skilur verkið ekki. Ég leyfi smá tíma að líða og sé að leikritið er fullt af hálfkláruðum hugsunum. Verkið er sumsé tilbúið í mér en er ekki komið yfir í Word-skjalið. Þá hef ég verið að skrifa í æsingi sem er bara flott. Þá þarf ég að fylla út í verkið en passa að tapa ekki æsingnum.

Og ég stútfylli verkin mín alltaf af einhverju klámi.

Hins vegar vinn ég ekki á hverjum degi. Ég tek rispur og langar pásur á milli þar sem ég tek bara nótur, fer í leikhús, bíó, óperu, á söfn og rífst við starfsfólkið í Vodafone um hulstur og annað. Tek inn til að geta gefið. Mér finnst þetta snúast um orkuflutning að það sé eitthvað á blaðinu sem leikari getur breytt í leiklist (núna er ég væminn). Og áhorfandi síðan þegið. Þannig á ég ekki í beinu sambandi við áhorfendur heldur við leikara.

Ég er ennþá svona að reyna að svara þessu sem ég sagði í þessu viðtali með að hjakka. Ég er bara ósammála mér. Ég lendi oft í þessu að fólk segir að ég hafi sagt eitthvað. Yfirleitt er það að ég sagði að einhver karlmaður liti út eins og lesbía en það er víst frávarp því ég er stundum svolítið lessulegur, sérstaklega þegar ég er nýkominn úr klippingu. Það er allt í lagi.

Ætli ég sé með þessu orðum ómeðvitað að reyna að sannfæra sjálfan mig um að verkið sé bara tilbúið, að ég megi slaka á. Slökum á.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s