Ráðunautur Leslistans: Þóra Hjörleifsdóttir

Sverrir Norland: Kæra Þóra, komdu blessuð og sæl, hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans — og til hamingju með nýju skáldsöguna þína, Kviku, ég hlakka til að lesa hana.

Hefurðu alltaf lesið skáldsögur og ef svo er, hvaða skáldsögur hafa haft mest áhrif á þig, er til svar við þeirri spurningu?

Þóra Hjörleifsdóttir: Heill og sæll kæri Sverrir og gaman að vera ráðunautur!

Ég hef alltaf lesið mikið, er sílesandi. Mér finnst samt agalegt hvað ég er gleymin á bækur, þær einhvern veginn maukast saman í einn graut í undirmeðvitundinni eftir að ég klára þær. Auðvitað standa samt einhverjar upp úr… Argóarflísin eftir Sjón var bók sem ég byrjaði bara aftur á þegar ég kláraði hana. Mér fannst magnað hvernig Sjón færði frásagnir úr grísku goðafræðinni yfir til einhvers miðaldra Íslendings að býsnast yfir etikettu á skipi á leiðinni frá Íslandi til Danmerkur. (Reyndar var ég líka rosa hrifin af Rökkurbýsnum og Skugga-Baldri, minnir að ég hafi líka tvílesið þær á beit). Ég er rosalega mikil áhugakona um goðafræði og ævintýri, þessar hversdagslegu, stórbrotnu og grótesku sögur sem útskýra afhverju við erum eins og við erum, hvernig hlutirnir urðu til og hvað skal varast. Ein bók sem ég verð að nefna sem er reyndar ekki skáldsaga sem hafði mikil áhrif á mig er Women Who Run With The Wolfes eftir Clarissu Pinkola Estés. Sú bók er svona Villikellinga-handbók sem snýr á þekkt ævintýri og setur þau í nýtt samhengi, algjör veisla.

Úlfabókin hefur einmitt verið á listanum hjá mér lengi. Læt orð þín orka sem ábrýningu um að verða mér loks úti um eintak. Fleira?

Það var líka mjög erftirminnileg upplifun að lesa Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, ég var tvítug á bakpokaferðalagi. Hún og Afleggjarinn eftir Auði Övu mörkuðu báðar eitthvað aha-augnablik á ferli mínum sem skáldsagnalesari.

Síðast þegar ég fór að hágráta yfir skáldsögu var þegar ég las Sæluvímu eftir Lily King sem kom út hjá Angústúru í fyrra. Og síðast þegar ég var ekki húsum hæf eftir lestur á skáldsögu var þegar ég las Ungfrú Ísland eftir Auði Övu, ég vil ekki spoila en vá hvað endirinn var tragískur og mikil negla á sama tíma!

Já, flottur endir — og kom mér á óvart, sá hann ekki fyrir.

En hvernig mundirðu skilgreina skáldsöguna, já, hvað er skáldsaga eiginlega?

Nú er ég enginn bókmenntafræðingur, eiginlega bara algjör leikkona þegar kemur að svona skilgreiningum.

Hver er að tala um bókmenntafræði? Við blásum á svoleiðis.

Skáldsaga er náttúrulega bara frekar löng skálduð saga, allavega 100 blaðsíður! Kvika er 134.

Það er skemmtilega létt og einföld skilgreining.

Margar skáldsögur taka fyrir uppáhalds hugðar- og umræðuefnið mitt: Ástir og örlög, líka annað uppáhalds umræðuefnið mitt: Fjölskyldur; tengsl, disfúnskjónir og hrá samskipti í trausti þess að það þurfi ansi mikið til að fólki verði vísað á dyr.

Skáldsagan er yfirleitt með annan fótinn í sameiginlegum reynsluheimi okkar lesenda en hinn í skálduðum heimi. Ég held að góð skáldsaga geti látið okkur líða eins og við séum minna ein, hún getur opnað á perspektív og samtöl sem við vissum ekki hvernig við áttum að bera okkur að við að eiga og sett samskipti okkar við fólk og umheiminn í stærra samhengi. Skáldsagan er míkróheimur sem getur skekið þunglamalegan umheiminn og minnt okkur á að hann er fjarri því að vera óhagganlegur.

Stórgóðar lýsingar — takk. Einmitt þessa stundina slær bókasafnið mitt reyndar ekki á þá tilfinningu að margt í umheiminum sé óhagganlegt: stór hluti þess dúsir, eftir siglingu yfir Atlantshafið, í pappakössum sem fylla upp í heilt herbergi. Að stórum hluta skáldsögur — og ég hagga þeim ekki, kemst varla inn í herbergið. Frústrerandi!

En þá leitar hugurinn annað: Hvernig stendur á því að svo fáar góðar skáldsögur hafa verið ritaðar um loftslagsbreytingarnar? Getur verið að í hugum nútímafólks einblíni góðar sögur á hið smáa og einkalega; nánar tilgreint það sem við, lesendur, getum auðveldlega endurspeglað okkur í (samanber fína upptalningu hjá þér að ofan — um fjölskyldur, ástir, disfúnksjónir) en megni síður að takast á við hið stóra sem smættar einstaklinginn niður í varla neitt, svo sem hnignun lífheildarinnar á jörðinni?

Og annað, slæði því með: finnst þér að rithöfundum beri skylda til að endurhugsa hvernig við lifum á jörðinni og reyna að miðla því í verkum sínum? Eða er hætt við að slíkur klyfjar bugi herðarnar og eyðileggi sögurnar?

Ég held að fólk sæki gjarnan í að lesa bækur sem það hefur einhvern tengiflöt við. Okkar kynslóð og þau sem á undan okkur komu gerum okkur engan veginn grein fyrir umfangi og afleiðingum loftslagsbreytinga. Ég er hrædd um að þeir fáu rithöfundar sem spreyta sig á að fjalla um þann vanda tali að einhverju leyti fyrir daufum eyrum en eru líka í hættu að blanda skáldsögunni við áróðurstexta. Ég lít ekki á hlutverk höfundarins að vera kennari eða samfélagslæknir en það er frábær bónus ef nýjar hugmyndir vakna hjá lesanda og óvæntar tengingar myndast. Um leið og höfundur er þeirrar trúar að hann muni leysa eða létta á loftslagsvandanum (eða einhverjum öðrum vanda) með skrifum sínum er ég hrædd um að útkoman sé alltaf dæmd til að vera léleg. Ég sem lesandi skáldsagna vil ekki láta mata mig eða mennta mig. Einnig held ég að loftslagsvandinn sé krísa sem einstaklingar og listamenn fái lítið ráðið við, það er ekki fyrr en iðnaður og ríkisstjórnir girði sig í brók og hætti að hugsa í þenslu að eitthvað lagist. Ég held áfram að draga úr vistspori mínu, endurvinna, nota taupoka og koma fram við náttúruna af virðingu en þegar dagur er að kveldi kominn þá er hin vestræna trú á hagvöxt og ósvífni stórfyrirtækja alltaf að fara að núlla út viðleitni mína, eins og staðan er í dag.

Er þá engin von fyrir loftlagsbókmenntir?

Jú jú, en ég held að áhugaverðustu skáldverkin hafi ekki afmarkaða og skýra verkun, heldur fjalli um hugðarefni skáldsins, sem tekur einhverja hugmynd eða tilfinningu, þreifar á henni og fer eins langt með hana og það getur. Það er alveg hægt að gera það í loftslagsmálum alveg eins og málefnum hjartans. En skáldið þarf bara að passa að sitja ekki í predikunarstól á meðan það skrifar.

Það er rétt — samt fíla ég reyndar þá sem þora að að setjast stundum í predikunarstólinn og ég held að góðar höfundar hafi öðru hverju efni á því (Dostojevskí fléttaði heilu ritgerðirnar inn í stóru skáldsögurnar sínar; James Baldwin predikar á sinn snilldarlega hátt um stöðu blökkumanna í Bandaríkjunum í sínum skáldsögum; þetta kemur upp í hugann einn, tveir og bingó; og sama gildir um nýlegan skáldsöguþríleik eftir Virginie Despentes, þar sem hún fjallar á ítarlegan hátt um auðhyggjuna sem allt gegnsýrir í dag — það er raunar einn helsti styrkur og galli verksins, hvernig hún fílósóferar um andlegt gjaldþrot Vesturlanda, enda vandmeðfarið viðfangsefni.)

En viltu deila með okkur, kæra Þóra, hvaða hugmynd sem þú varst að handleika þegar þú skrifaðir Kviku?

Í Samdrykkjunni eftir Plató var lýsing á ástarsamböndum áður en mannkynið fór að stunda kynlíf, mér mikill stökkpallur við skrif Kviku. Þessi lýsing er snemma í upprunaskýringu hans á ástinni, þegar Seifur var nýbúinn að kljúfa ferfættu og ferhentu mannverurnar í tvennt í refsingarskyni fyrir að ofmetnast og halda að þær gætu storkað guðunum. Þessar nýklofnu mannverur fóru þá hver að þrá hinn helminginn sinn, tengdar mannverur sem fundust héldu dauðahaldi um helftina sína og þorðu ekki að sleppa. Smám saman fór fólkið að veslast upp og deyja úr hungri og framtaksleysi. Seifur lét þá kynfæri framan á þær svo þær gætu fundið fyrir tímabundinni einingu og fullnægju svo þær gætu gengið til starfa sinna og haldið áfram að rækta akurinn og færa guðunum fórnir.

Þessi misheppnaða ástarprótótýpa, var ein tilfinning sem ég reyndi meðal annars að ná utan um í Kviku: Þegar þú telur þig hafa fundið manneskjuna sem er týndi helmingurinn þinn og vilt ekki sleppa af henni takinu. Þó samband ykkar sé kannski ekki beint frábært, þó allt gangi á afturfótunum og þó að þú sért eiginlega bara að leysast upp þá herðir þú bara takið og ferðast í spíral niður á við í átt að botninum.

Lestu á fleiri tungumálum en íslensku? Og hvað þá helst?

Já, ég les líka á ensku en eftir að ég fór að skrifa sæki ég helst í að lesa á íslensku og elska að lesa vel þýddar bækur, eins og t.d. Veröld sem var eftir Stefan Zweig í þýðingu Halldórs J. Jónssonar og Ingólfs Pálmasonar, sú bók er öll útkrotuð hjá mér. Og svo elska ég líka Ódysseifskviðu í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar. Fátt kemur mér meira til en góður orðaforði!

Já, þú hefur góðan smekk. (Mér finnst reyndar einmitt gott að lesa á öðrum tungumálum þegar ég er að skrifa, og þá helst tungumálum sem ég skil varla.)

En nóg um það, lestu líka ljóð?

Ég les mikið af ljóðum og þá jafnhendis á ensku og íslensku. Undanfarið hef ég marinerað mig í ljóðum Mary Oliver, en svo hef ég líka lesið og endurlesið Fræ sem frjóvga myrkrið eftir Evu Rún Snorradóttur, frábær bók. Einnig eru Sigurður Pálsson, Kristín Ómarsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir og Nína Björk Árnadóttir með fastráðningu á ljóðahringsóli mínu.

Hver er uppáhaldsskáldsagnapersónan þín?

Lína langsokkur er náttúrulega bara best. Það er ekki klisja af því hún er best.

Ég heyrði í útvarpinu um daginn að hún væri í raun og veru ofurmennið sem Nietzsche lét sig dreyma um. Hún er óttalaus, hlær að kreddum og staðnaðri hugsun, sterkasta stelpa í heimi sem getur allt. Enginn toppar hana. Ég held líka mikið upp á Ódysseif, hann er klár og sniðugur en á sama tíma algjör vitleysingur. Hann er frumgerðin að frábærri skáldsagnapersónu að mínu mati: Ódysseifur leysir og skapar vandamál á víxl á meðan hann flækist með vinum sínum um hættulega og heillandi heima.

Mynd af Þóru: Sara Sig.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s