Ráðunautur Leslistans: Þórarinn Eldjárn

Mynd: Þorsteinn Haraldsson. Tekin á túninu fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík 22. ágúst 2009 á sextugsafmæli skáldsins.

Þórarinn Eldjárn, rithöfund, þarf vart að kynna fyrir landsmönnum, hvað þá einstaklega vel upplýstu samfélagi Leslistans. Við Þórarinn skrifuðumst á og hér gefur að líta afraksturinn.

– Sverrir Norland

Hjartans þakkir fyrir að ganga í ráðuneyti Leslistans, kæri Þórarinn Eldjárn, okkur er mikill styrkur að því að fá þig til liðs við okkur. Vonandi væsir ekki um þig í gula skeljastólnum frá Eames. Þú getur valið um ískalda Appelsín í gleri, gerjað greipte af krana eða togarakaffi á brúsa — og svo er Kári með fínar brauðbollur, skreyttar sesamfræjum, inni í ofninum. Rabarbarasulta frá ömmu (eins og þú getur í þig látið!).

Fyrsta spurning er blátt áfram, einföld og hnitmiðuð: Ertu að lesa eitthvað gott og skemmtilegt í augnablikinu sem þig langar að gauka að hinu fróðleiksfúsa samfélagi Leslistans?

Ég hef nú síðast verið að lesa endurminningar sænska rithöfundarins Torgnys (Þórgnýs) Lindgren (ekkert skyldur Astrid, nafnið er mjög algengt). Hann var fæddur 1938 uppi í Vesturbotni, lést 2017. Bókin kom fyrst út 2010 og heitir ósköp einfaldlega Minnen, þeas. Minningar.

Bókin fer nokkuð sérkennilega af stað þar sem hún byrjar á lýsingum á því hvernig höfundur hefur um langa hríð reynt að færast undan kröfum forleggjara sinna hjá Norstedts um að skrifa endurminningar. Vísar ætíð til þess að hann muni ekki neitt. Svarar kvabbi forleggjaranna með því að hann hafi haft lifibrauð af ímyndunum sínum, en…. „Að taka nú til við að kalla þær minningar væri allpínlegt.“

Þórgnýr sló í gegn 1982, minnir mig, með skáldsögunni Ormens väg på hälleberget. Mergjuð stutt saga skrifuð á norrlenskri mállýsku, þýdd á íslensku af Hannesi Sigfússyni og kölluð Naðran á klöppinni. Eins komu út amk. tvö smásagnakver hans í Syrtluseríu Mom, einnig í þýðingu Hannesar. Frábærar bækur.

Minningabókin líður áfram með stanslausum pælingum um eðli minnisins og minninganna kringum ýmis atvik og tímabil og lesningu í ævi höfundar, engan veginn í línulegri röð. Eins og fleiri Norrlendingar á hann sér rætur í sértrúarsöfnuðum og kynntist berklahælum ungur. Náði heilsu og varð kennari, lagði stund á heimspeki, einkum Schopenhauer og Nietzsche. Gætir þess og einnig kristinna pælinga mjög í verkum hans.

Áhugaverð fyrir Íslendinga er frásögn hans af því þegar hann er hér staddur og fær að hitta Halldór Laxness. Hefur áður sent honum bréf og farið mjög fögrum orðum um Kristnihaldið.

Hann er líka staddur hérlendis þegar fregnir berast af því að Olof Palme hafi verið myrtur (TL var eindreginn sósíaldemókrati). Þannig vill til að sænski sendiherrann hringir í hann þar sem hann er nýsofnaður á hótelherbergi. Sendiherrann hefur mörg orð um að hann þurfi að búa sig undir hræðilegar fréttir, spyr hvort hann sitji standi eða liggi, þannig að TL fer að halda að eitthvað hræðilegt hafi komið fyrir í fjölskyldunni. Þegar svo loks sendiherrann lætur hryllingsfréttina vaða: Olof Palme hefur verið myrtur svarar kratinn Þórgnýr spontant því svari sem hann segist gera ráð fyrir að varðveitt sé einhversstaðar í skjalasafni sænska utanríkisráðuneytisins: Gud ske lov att det bara var en sådan bagatell.

Þannig er að nokkrar línur úr nýjustu bók Péturs Gunnarssonar,Skriftum, hafa suðað í kollinum á mér síðan ég las bókina skömmu eftir að hún kom út um jólin 2016. Ég er ekki með hana við höndina, en ég man þetta ágætlega. Á 168. — 169. síðu er Pétur með tvo heimsþekkta Frakka í brennidepli, Jean-Paul Sartre og Michel Focault, áhrifaríka rithöfunda og svona „public intellectuals“ af þeirri tegund sem við Íslendingar höfum aldrei átt. (Eigum við bara gárunga?)

Og spurningin hjá Pétri er: Hvert er gildi bókmennta?

Koma þær, þegar öllu er á botninn hvolft, nokkru til leiðar? Undir lok ævi sinnar voru bæði Sartre og Focault nokkuð bölsýnir. Mennirnir komast af án bókmennta, slík var í raun niðurstaða þeirra. Allt hverfur og „allt fer“, svo ég vitni í nýlegan titil íslensks höfundar. Allt vort blekstrit er sjálfsagt aðeins ryk og hégómi, hugarleikfimi, snobb. Og ef ég skil Pétur rétt dregur hann af lestri verka þeirra Sartre og Focault þá niðurstöðu að þeir telji að bókmenntir (bæði þeirra og annarra) komi litlu til leiðar og að það — plús yfirvofandi dauða þeirra sjálfra — marki í raun eins konar heimsslit, endalok alls. Þeir deyja — og öllu lýkur. Bókmenntirnar fjara út. Allt fer.

Pétur er ekki endilega á sama máli, og segir:

Svona tala náttúrlega bara barnlausir menn […].

Þessi lína! Hún situr föst í kollinum á mér. Og ómar jafnvel stundum þegar ég les bók eftir barnlaust karlkyns séní (Já, svona tala náttúrlega bara barnlausir menn …).

Síðustu tvö árin hef ég varið meiri tíma í að ýta barnavagni um stræti en penna um pappír. Stundum sest ég niður, örþreyttur eftir að hafa eldað fyrir lítið barn, leikið við það, lesið fyrir það, skammað það, huggað það, skipt um bleyju á því, svæft það — og finnst eins og ég hafi ekkert að segja. Ég legg fingurna á lyklaborðið en hrekk skyndilega í kút við barnagrát — sem ómar einungis í kollinum á mér. Og mér finnst ég ekki hafa sama sjálfsálitið og ég hafði áður — þegar ég var barnlaus maður. Þetta er klisja, en um leið hljóta barnseignir að gjörbreyta lífssýn þeirra sem hafa að starfi að hugsa um veröldina og færa undur hennar og veruleika í orð.

Eitthvað hefur allavega breyst innra með mér. Stundum finnst mér næsta ómögulegt að taka öll hin barnlausu karlkyns séní alvarlega (sem er auðvitað fáránlegt!).

Og þá kem ég loks að spurningunni: Telurðu að barnlausir karlmenn geti skrifað sannar og merkilegar bókmenntir?

Jú, ætli það hljóti ekki að vera. Ekkert síður en barnlausar konur. En áreiðanlega vex samt blessun með barni hverju. Að nútímaáliti fékk ég sjálfur ekki langa reynslu af barnleysi, aðeins tæp 23 ár. Það þótti reyndar ekkert sérlega ungt á þeirri tíð (1972). Allir mínir föðurbetrungar hafa ekki gert neitt annað en að bæta mig og bæta gegnum tíðina, jafnt sem mann og höfund. (Þó vissulega sé ekki endilega samasemmerki milli þess að vera góður maður og góður höfundur.)

Ég er reyndar alveg viss um að margir góðir eldri karlhöfundar (þeas. miklu eldri en ég sem er ekki nema 69 ára), þó feður séu, sem aldrei hafa skipt á barni, sett í þvottavél eða eldað mat hefðu jafnvel orðið enn betri ef þeir hefðu ekki misst af þessari góðu reynslu.

Nú hefur þú sent frá þér fjöldamargar góðar barnabækur, sum klassísk verk í íslenskum bókmenntum. Telurðu að þú hefðir ort og skrifað fyrir börn í slíkum mæli ef þú værir barnlaus?

Nei það hefði ég áreiðanlega ekki gert. Hefði líklega þótt slíkt of barnalegt og allnokkur skömm minnar meintu hátimbruðu listamennsku.

Áttu þér eftirlætis-smásögu eða -smásagnahöfund?

Eftirlætin eru mörg. Spanna næstum allan Tsékov/Maupassant-skalann. Má ég svo nefna William Saroyan, John Cheever, Alice Munro, Janet Frame? Áðurnefndur Þórgnýr Lindgren kemur sterkur inn. Situr óþyrmilega í mér t.d. titilsagan í Fimmfingramöndlunni (eins og kverið heitir í þýðingu Hannesar Sigfússonar).

Ég las einu sinni smásögu eftir þig, endur fyrir löngu, en man ekki hvað hún heitir. Sagan (sem er alveg frábær) fjallar um par sem er í fríi (helgarferð?) til Parísar. Þar verður á vegi þeirra götulistamaður, teiknari sem hefur lifibrauð sitt af því að snara andlitum fólks á pappír gegn vægu gjaldi. Þau hjónakornin (kærustuparið?) slá til, og reka upp stór augu þegar afraksturinn blasir við þeim. Þau líta eitthvað svo kjánalega út. Er þetta virkilega sannferðug túlkun á þeim? Eða er listamaðurinn svona lélegur? Þau greiða honum í hálfgerðu fússi og hraða sér burt. Taka teikninguna með sér upp á hótelherbergi og eru nú, ef ég man rétt, byrjuð að hnakkrífast. Þau eru hlægilegt fólk; listamaðurinn sá beint í gegnum þau. Segjum að þau leggi teikninguna á skrifborðiðið við gluggann og láti hana vísa niður svo að þau þurfi ekki að hafa hana fyrir augunum (horfast í augu við sjálf sig). Eiginmaðurinn (kærastinn?) hrekkur svo upp af svefni um nóttina, kófsveittur. Vondar draumfarir. Í hálfgerðu óráði stjáklar hann fram úr rúminu, dregur fram teikninguna — og sér nú … að skopmyndin er fullkomin eftirmynd þeirra! Hann starir á unnustu sína (eiginkonu) í rúminu og sér að hún lítur alveg eins út í raunveruleikanum og á teikningunni. Afar raunsæ túlkun. Og ekki skánar ástandið þegar hann lítur í baðherbergisspegilinn. Svona líta þau út. Þau eru svona skopleg!

Ég man ekki hvenær ég las þessa sögu — fyrir mörgum árum — en ég hef síðan reynt að finna hana, án árangurs. Fletti upp í sagnaúrvalinu þínu einhvern tímann, einnig gömlum sagnakverum. Finn hana hvergi! Og því spyr ég blátt áfram: Varst það ekki örugglega þú sem skrifaðir þessa góðu sögu? Því ef svarið er nei hlýtur það að þýða að í raun og sannleika var það ég sem fitjaði upp á henni. Þá ætla ég að skrifa hana og gefa út. Gengstu við því að hafa skrifað hana?

Þetta mun vera saga sem nefnist „Í svip“. Hún birtist fyrst í smásagnasafninu Sérðu það sem ég sé (1998) og var endurprentuð í Sagnabelg (1999). (Hefur líka komið út á frönsku undir nafninu „Simples malentendus“). Í aðalatriðum er söguþráðurinn svona eins og þú lýsir honum nema hvað teikningarnar eru í alvöru vondar (að mati fyrirmyndanna amk.) og rándýrar að auki og tilkomnar af hálfgerðri nauðung. Þetta er það sem veldur ósætti hjónanna en þó tekst þeim að ákveða í sameiningu að rífa myndirnar í tætlur og sturta þeim niður um klósettið og ímynda sér í staðinn að þau hafi verið rænd. Maðurinn hrekkur svo upp af svefni um nóttina og sér ekki betur en konan hans sé orðin alveg eins og myndin í framan. Hann staulast skelfingu lostinn fram á klósett og þorir ekki að líta í spegilinn og lýkur þar sögunni … Þannig var nú það. Annars er ég ekki frá því að þín versjón sé betri en mín.

Í beinu framhaldi: Ég hef stundum heyrt mikil gáfnabúnt lýsa því yfir að smásagan sé fullkomasta bókmenntaformið og erfiðara að skrifa góðar smásögur en skáldsögur. Og einnig yfirlýsinguna: „Ég skrifaði langa bók í þetta skiptið því ég hafði ekki tíma til að skrifa stutta bók.“ Nú hænist þú svolítið að knöppum formum. Ertu sammála ofanfarandi fullyrðingum? Er eitthvað erfiðara að skrifa smásögu en skáldsögu?

Leiðslurnar í mér eru nú svo einfaldar að mér finnst miklu erfiðara að skrifa skáldsögu en smásögu. Af þeirri nauðaeinföldu ástæðu að skáldsögur eru lengri en smásögur.

Það þykir mér velt mælt — og tek undir. Og viðeigandi þar með að hafa þetta ekki lengra.

Velkominn í ráðuneytið!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s