Bækur, 1. mars 2019

Las Keisaramörgæsir eftir Þórdísi Helgadóttur. Frábær, og ekki beint hægt að segja að þetta smásagnasafn beri þess merki að hér sé um fyrsta verk höfundar að ræða. Hér er spjall við Þórdísi sem gekk á sínum tíma í ráðuneyti Leslistans.

Las einnig Þorpið, nýjustu spennusögu eftir Ragnar Jónasson, annan ráðunautLeslistans. Þar leikur höfundur sér með ýmis þekkt minni: lítið afskekkt þorp þar sem búa kynlegir kvistir, drykkfellda aðalpersónu sem getur ekki stólað á minni sitt, dáin börn sem sækja á þá sem eftir lifa. Snaggaraleg og spennandi saga, skemmtilega skrítin á köflum – hæfilega ógnvekjandi, hæfilega kósý.

Og fyrst við erum komin inn á myrkar lendur glæpasögunnar: The London Times útnefndi Patriciu Highsmith einhvern tímann besta glæpasagnahöfund allra tíma. Ég er ekki frá því að ég sé að verða sammála því vali. (Er reyndar ekki sérlega víðlesinn í glæpabókmenntum, viðurkenni það.) Brenndi í gegnum The Two Faces of January. Frábær inngangsreitur fyrir þá sem ekkert hafa lesið eftir Highsmith. Hún er svo nösk í að láta venjulegt fólk rata í hræðilegar aðstæður – og svo versnar ástandið og versnar eftir því sem söguhetjurnar reyna að bæta fyrir mistök sín.

Að síðustu hef ég svo verið að rifja upp kynnin við Reading Like a Writer eftir Francine Prose, bók sem ég las í ritlistarnámi á sínum tíma. Þá fannst mér Prose einblína óhóflega á orðaval og strangtæknileg atriði, en nú, eftir margra ára ströggl við að setja sjálfur saman sögur, finnast mér innsæi hennar og þekking æðisleg, og eins lag hennar á að miðla fáránlega djúptkafandi pælingum um, tja, efnisgreinina sem listrænt verkfæri. (Nokkuð sem ég hef sjálfur pælt mikið í.) Frábær lesning fyrir þá sem skrifa en einnig hvern þann sem hefur áhuga á texta, frásagnarlist, lestri. Óhjákvæmilegt að hripa hjá sér ýmsar góðar ráðleggingar, til að mynda þessa beinu tilvitnun um hvers vegna maður ætti alltaf að hafa handritsdrög sín yfir upphátt, innlifaðri röddu (bls. 56):
„A poet once told me that he was reading a draft of a new poem aloud to himself when a thief broke into his Manhattan loft. Instantly surmising that he had entered the dwelling of a madman, the thief turned and ran without taking anything, and without harming the poet. So it may be that reading your work aloud will not only improve its quality but save your life in the process.“ (SN.)


Óskalistinn:

Út er komin ný ensk þýðing á bók eftir uppáhaldshöfundinn minn, Cesar Aira: Birthday. Lestu hana – og allt annað eftir Aira.

Þá er hin mexíkanska Valeria Luiselli að senda frá sér nýja skáldsögu, Lost Children Archive. Hún er mjög klár og áhugaverður höfundur. Hefur í síðustu tveimur verkum sínum tekið fyrir innflytjendastraum frá Mexíkó til Bandaríkjanna, og einkum beint sjónum sínum að hlut barna.

Þá finnst mér Nervous States: Democracy and the Decline of Reason virka spennandi. Sú hlaut lof í The New York Times. Ég vitna í höfundinn: „As we become more attuned to ‘real time’ events and media, we inevitably end up placing more trust in sensation and emotion than in evidence. Knowledge becomes more valued for its speed and impact than for its cold objectivity, and emotive falsehood often travels faster than fact.” 

Ný íslensk bókaútgáfa, Una útgáfuhús, stendur fyrir endurútgáfu á Undir fána lýðveldisins eftir Hallgrím Hallgrímsson. Opnunar- og útgáfuhóf í Mengi sjötta mars næstkomandi. Ég ætla að mæta þangað ef einhver vill finna mig í fjöru. (SN.)

Hef lengi lesið bloggið Marginal Revolution sem bandaríski hagfræðingurinn Tyler Cowen heldur uppi ásamt kollega sínum Alex Tabarok. Hef nokkrum sinnum vísað á greinar eftir þá tvo og minnst á bækur eftir Cowen. Ég var því mjög glaður að sjá að það er væntanleg ný bók eftir Cowen sem er lofsöngur til kapítalismans. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s