Bækur, 8. mars 2019

Las tvær stuttar skáldsögur í vikunni, eftir höfunda af ólíkum kynslóðum. Önnur var Millilending eftir Jónas Reyni Gunnarsson, höfund sem situr í öndvegissessi í ráðuneyti Leslistans. Þessi fyrsta skáldsaga hans hlaut mikið lof, og verðskuldað. (Mér finnst nýjasta skáldsaga hans, Krossfiskar, reyndar ennþá betri.) Hin bókin nefnist Sonnettan og er eftir Sigurjón Magnússon. Hugmyndin að baki þessari nóvellu er mjög svolítið áhugaverð og áleitin: Menntaskólakennarinn Tómas hrekst úr starfi í kjölfar þess að hafa álpast til að velja þekkta sonnettu eftir Snorra Hjartarson í kennsluhefti fyrir nemendur sína. Fljótlega heyrast raddir sem fullyrða að umræddur kveðskapur Snorra sé andstæður fjölmenningu á Íslandi („land, þjóð og tunga: þrenning sönn og ein“). Tómas situr fast við sinn keip, ljóðið sé sígilt í íslenskum bókmenntum 20. aldar og fásinna að skýla krökkum fyrir hugmyndaheimi fortíðarinnar, auk þess sem rasískir undirtónar kvæðisins spretti einungis af rangtúlkunum hjá hinni hroð- og hraðvirku siðgæðisvél samtímans. Sjálf sagan gerist svo á Spáni, þar sem Tómas og konan hans, Selma, eru í fríi. Það hriktir í hjónabandinu, og endir sögunnar er hádramatískur – allt að því móralskur í því hvernig sumar persónanna fá makleg málagjöld (og minnti mig þar frekar á rússneskar bókmenntir, segjum, Tolstoj eða Tsjekhóv, en flest önnur – og kaldhæðnari – samtímaverk). Þá staldrar maður við og spáir hvernig komið er fyrir íslenskunni þegar manni finnst það að vissu leyti ljóður á verki hversu vel það er ritað – það skapaði svolitla fjarlægð á persónur og söguefnið hversu tær og snurðulaus stíllinn er. En að öllu því sögðu, þá stökk ég til og varð mér þegar úti um fleiri bækur eftir Sigurjón Magnússon, og hlakka til að lesa þær. Þar á meðal leynist skáldsagan Borgir og eyðimerkur, sem segir frá Kristmanni Guðmundssyni, höfundinum sem gat sér ungur mikla skáldfrægð á Norðurlöndum en átti undir högg að sækja þegar hann sneri aftur heim til Íslands (stafaði það af öfund samlanda hans?). Vorið 1964 lenti hann svo, eins og frægt er, í málaferlum við ungan rithöfund, frænda minn Thor Vilhjámsson, sem veist hafði að honum í tímaritsgrein og úr spunnust miklar, og hatrammar, ritdeilur. Mér finnst Sigurjón heyja sér áhugaverð viðfangsefni og mun áreiðanlega rekast á sitthvað fleira bitastætt í verkum hans. (SN.)

Eftir að ég minntist á Michael Polanyi fyrir einhverjum Leslistum síðan fékk ég ágæta ábendingu frá Stefáni Snævarr sem tilkynnti mér að hann hefði skrifað um hann í bók sinni Kredda í kreppu. Það minnti mig á að hann sendi mér bók sína, Bókasafnið fyrir einhverju síðan og ég fór að lesa hana í vikunni. Þetta er forvitnileg blanda af fræðitextum og skáldskap sem er vel athygli verð fyrir áhugamenn um hvoru tveggja. Þakka Stefáni kærlega fyrir sendinguna.

Stefán benti mér einnig á að Hannes Hólmsteinn Gissurason hefði eitthvað skrifað um Polanyi og þegar ég gúgglaði mér til um það fann ég skemmtilegt viðtal sem HHG tók við heimspekinginn Karl Popper sem ég hef mikið dálæti á. Sama hvaða skoðanir maður kann að hafa á Hannesi þá er viðtalið býsna áhugavert. Vilji menn kynna sér verk Poppers og þora ekki alveg að kafa í hans þekktustu verk – doðrantana Logik der Forschung og Open Society and Its Enemies – þá mæli ég með ritgerðarsafninu Ský og klukkur sem Háskólaútgáfan gaf út fyrir tíu árum síðan. Það hefur að geyma valdar ritgerðir eftir Popper í þýðingu Gunnars Ragnarssonar, og eru þær ansi góðar.

Samstarfskona mín lánaði mér bókina Psychoanalyst Meets Marina Abramovic á dögunum. Eins og titillinn gefur til kynna snýst hún um viðtöl gjörningalistakonunnar frægu við sálfræðinginn Jeannette Fischer þar sem þær þræða sig í gegnum verk hennar líkt og um persónulegan fund hjá sálfræðingi væri að ræða. Hafi maður gaman af list Abromovic er þetta mjög fín bók. Ég er sjálfur á báðum áttum með hvort mér finnist hún vera frábær eða tilgerðarlegur listamaður og fannst þess vegna bókin vera einmitt þannig – frábær og tilgerðarleg á köflum. (KF.)


Óskalistinn:


Sigurlín Bjarney Gísladóttir gefur út nýja ljóðabók, Undrarýmið. Leslistinn fagnar því og hlakkar til að lesa.

Þá hefur Silja Aðalsteinsdóttir þýtt Áfram konur!, norska myndabók um kvenréttindabaráttu í aldanna rás, eftir rit­höf­und­inn Mörtu Breen og teikn­ar­ann Jenny Jor­dahl. Megi hún rata sem víðast. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s