Ráðunautur Leslistans: Guðrún Eva Mínervudóttir

Guðrún Eva Mínervudóttir ætti að vera lesendum að góðu kunn, hún hefur sent frá sér fjöldamargar bækur og á sér marga aðdáendur. Hún var vígð inn í ráðuneyti Leslistans undir skafheiðum, bláum himni nú í vikunni, og að því tilefni áttum við stutt og kjarnríkt spjall — um lestur, skrif og, síðast en ekki síst, sálina.

  • Sverrir Norland

Kæra Guðrún Eva, hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans. Mér datt í hug að við gætum stigið út á svalir og haft fyrir augunum útsýnið yfir hafið á meðan við röbbum saman, það örvar heilann að komast út í súrefnið. Og gjörsovel, heitur tebolli til að ylja sér á lófum og í kverkum.

Takk innilega, Sverrir.

Þú hófst rithöfundaferilinn með smásagnasafni, Á meðan hann horfir á þig ertu María Mey, og sendir nú á dögunum frá þér safn númer tvö,Ástin, Texas (frábær titill!). Hvernig finnst þér að skrifa smásögur í samanburði við skáldsögur, er mikill munur, ef nokkur, þar á? Hvernig mundirðu skilgreina smásöguformið (ef þú þá skilgreinir það yfirhöfuð)?

Smásögur eru svo spennandi, bæði aflestrar og að skrifa þær, vegna þess að í samanburði við skáldsöguna eru þær mikil ólíkindatól. Þú veist aldrei hvert þær ætla með þig. Það vandræðalega við skáldsagnaformið er að það er iðulega hægt að setja skáldsögu inn í formúluna: Aðalpersóna (stundum fleiri en ein) gengur í gegnum eitthvað dramatískt og lærir af því/breytist. Smásögur (í það minnsta af þeim toga sem ég kann helst að meta) snúast meira um það að höndla óræðan en samt raunverulegan sannleika í gegnum reynslu persónanna. Þær skilja þig eftir með þá tilfinningu að þú hafir upplifað eitthvað sem þú sem lesandi þarft sjálfur að leiða til lykta. Að loknum lestri verður smásaga hluti af manni með öðrum hætti en skáldsaga. Skáldsaga er meira eins og heill hlutur, aukalíffæri, kannski, sem þú lætur græða í þig. Smásaga getur verið eins og skinnágræðsla; aukaskinn sem bráðnar smám saman við það skinn sem fyrir er þar til mörkin mást út. Þetta á auðvitað aðeins við í þeim tilvikum sem skáldsaga eða smásaga hefur djúp áhrif á lesandann. Líkaminn á það til að hafna aukahlutum.

Þetta er frábærar, og virkilega áhugaverðar, skilgreiningar. Það höfðar til mín að hlutgera bókmenntaverk svona, skynja þau sem líffæri. Rímar líka við upplifun mína sem lesandi: mörg eftirlætisverk eru eins og framlengingar á heilanum í mér, geyma reynslusvið sem eru mér allt eins nærtæk og atburðir úr lífi mínu; þarna eru handleggir sem ég veifa, fótleggir sem ég dansa á, augu sem ég nota til að skoða veröldina…

Svo eru aðrir sem mundu fetta fingur út í skilgreininguna á skáldsögunni. Reka upp ramakvein og fullyrða að um einföldun sé að ræða. Vissulega sendir kunnugleg formúla aðalpersónuna í gegnum reynslu sem þroskar viðkomandi, breytir, eflir jafnvel; og ritstjórar og ritlistarkennarar hvetja sjálfsagt margir höfunda sína og nemendur sína til að sníða sögur á slíkan hátt. (Ég gerði það vísvitandi í annarri skáldsögunni minni, Fyrir allra augum, til að sanna fyrir mér að ég gæti það: sagan fylgir klassískri byggingu í þremur hlutum og persónan hefur tekið út lærdóm og þroskast undir lokin. Þetta gat ég!) Ég óttast samt stundum að þessi formúla beri vitsmunalegri leti og dvínandi hugarflugi okkar vitni; og að Hollywood-þroskasagan verði altæk, innprentuð svo freklega í vitund okkar að öðruvísi sögur orki ekki lengur á okkur.

Því þetta gildir engan veginn um allar skáldsögur, eða hvað? Margar þeirra bestu eru alveg sín eigin verk, fylgja engri formúlu, eru kannski frekar eins og ljóð (eða opnar smásögur). Jafnvel meistaraverkin: Anna Karenína, þar fremur titilpersónan sjálfsmorð og síðasti hluti verksins fylgir eftir afdrifum hálfgerðrar aukapersónu í verkinu. Þroskast einhver? Það er ógerningur að súmmera upp efni þeirra skáldsögu sem er sú besta sem ég hef lesið á þessari öld: 2666 eftir Roberto Bolano. Sama gildir um Infinite Jest eftir David Wallace (er það skáldsaga?) og stuttu skáldsögurnar hans Cesar Aira. Sjálfur leita ég alltaf að nýstárnlegum félagsskap þegar ég les bækur og laðast að skáldsögum sem kannski eru varla skáldsögur: Richard Brautigan, Hervé Guibert, José Saramago, Marguerite Duras, Chris Kraus …

Milan Kundera — þú afsakar allt þetta nafnatog, úff! — mundi ábyggilega skilgreina skáldsöguna, sérstaklega stórar skáldsögur frá 19. öld og byrjun þeirra 20., sem eins konar dótakassa þar sem allt er leyfilegt. (Skáldsögurnar hans eru líka dæmi um vinsæl verk, sem brjóta formúluna, og daðra við að vera ritgerðir.) Maður án eiginda eftir Robert Musil væri annað gott dæmi; hér má allt. Og svo önnur, nýlegri, sem fer í flokk með þeim bestu sem komið hafa út á síðustu áratugum: The Last Samurai eftir Helen DeWitt (það má þó kannski segja að þar þroskist persónurnar, ég veit það ekki). Íslenskt dæmi: Kristnihald undir jökli?

Getur verið að við séum vönkuð, að vitsmunaleg fimi okkar sé að dala? Að við séum latir lesendur sem vilja láta mata sig á því kunnuglega og að þessi vegna hafi smásagan, sem virðist vera í svolítilli sókn, svona hressandi áhrif á okkur? Að þar megi endurstokka reglurnar með hætti sem ekki leyfist lengur í skáldsögum? Útgefendur spyrja þegar höfundur kemur með handrit inn á forlag: Fyrir hvern er þetta? Það er hættulegt fyrir listgrein ef hún þarf að mata stirðnaðan neytendahóp með fyrirframgefnar kröfur. Því ég held nebbla að virkilega góð skáldsaga sé ekki fyrir neinn þegar hún kemur út — hún gerir eitthvað alveg nýtt og segir við lesendur:

Hér er ég, þú vissir ekki að þú þarfnaðist mín fyrr en ég kom óvænt inn í líf þitt …

Ó, já, takk innilega fyrir þessa fínstillingu. Vissulega hafa verið skrifaðar fjölmargar skáldsögur sem falla ekki nákvæmlega í formið. Og aðrar sem falla í formið en gera það svo vel að maður tekur ekki eftir því. Þegar ég gaf út mínar fyrstu bækur, á tíunda áratug síðustu aldar, var mikið rætt um póstmódernisma og það þótti sjálfsagt að skrifa óhefðbundnar skáldsögur. Það er helst á síðustu tuttugu árum eða svo sem mér finnst að góðar og gegnar vangaveltur um strúktúr hafi verið teknar full bókstaflega. Hér áður fyrr spáði fólk mikið í stíl en svo fór orðið plott að heyrast æ oftar í tengslum við fagurbókmenntir. Þetta hélst í hendur við vinsældir glæpasögunnar. Eins og fagurbókmenntir fengju allt í einu minnimáttarkennd gagnvart glæpasögunni. Sumir eru jafnvel viðkvæmir fyrir því að aðgreina með þessum hætti, en mér finnst sjálfsagt að greina á milli glæpasagna og fagurbókmennta því þar með er ekki verið að segja að eitt sé betra en annað. Við sækjumst eftir ólíkum hlutum í þessum ólíku tegundum skáldskapar.

Þessi krafa um hefðbundið plott er hvorki höfunda- né lesendavæn. Hún er mögulega markaðssetningavæn. En fyrst og fremst, held ég, byggð á þeim misskilningi að lesandinn sé svo Disney-væddur að hann þoli ekkert annað en formúlu af einhverjum toga. Það er ekki rétt. Lesendur eru stórkostlega vanmetnir og eiga betra skilið. Fyrst og fremst eiga þeir skilið fjölbreytni.

Sem höfundur tek ég ekkert af þessu nærri mér. Ég á í einföldu sambandi við skáldskapargyðjuna. Hún segir mér hvað hún vill, án þess þó að vera með dólg. Ég reyni að hlusta almennilega og hlýði síðan með bros á vör. En sem lesandi verð ég stundum fyrir vonbrigðum. Það gerist æ oftar að ég fæ í hendur það heitasta utan úr heimi, eitthvað sem ég hef áður lesið um og litist vel á. Við lesturinn breytist forvitni í hrifningu: Þvílíkur sagnaheimur! Þvílíkir hæfileikar! En svo kannski um eða eftir miðja bók fer einhver svona klunnaleg plott-vél í gang og þar með rofna töfrarnir. Þá segi ég við sjálfa mig til huggunar að þessi tiltekni höfundur hljóti að vera fæddur til að auðga heiminn með opnum smásögum eða óhefðbundnari skáldsögum en sé bara ekki almennilega búinn að gefa sér leyfi til þess ennþá.

Allt þetta sem ég er að segja er auðvitað ekki annað en mínar upplifanir og alls enginn algildur sannleikur. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af stöðu skáldskaparins sem listgrein í nútímanum. Það er stöðugt verið að framleiða hugvíkkandi, vekjandi og dýpkandi skáldskap. Töfra sem rofna ekki. Þá er ekki endilega (en þó einnig!) að finna meðal þess sem mest er haldið að manni. Og á síðustu árum hef ég helst fundið þessa töfra í vissri tegund af smásögum en einnig í svokölluðum sannsögum (já, Karl Ove Knausgard) og hugrenningabókum á borð við þær sem Patti Smith er að skrifa (Just Kids, M-Train).

Einmitt, og þríleikurinn hennar Rachel Cusk, hann er frábær og skyldur verkum Knausgaards.

En hlustaðu nú: Ég heyrði þig einu sinni tala á höfundarkvöldi í Gunnarshúsi, að mig minnir, og þar nefndirðu að alltaf hefði legið vel fyrir þér að skrifa góðan stíl, en síður, í hið minnsta til að byrja með, að setja saman plott — skýran og samhangandi söguþráð. Þú skrifaðir fallegan texta sem átti til, ef þú passaðir þig ekki, að enda út í móa. Af þessum sökum hefðirðu tekið þig til og virkilega kafað í sagnagerð, strúktur, og snúið svo aftur að sagnagerðinni tvíefld, þá búin að læra tökin á því að byggja upp skáldsögur, eins og sannast á bókunum þínum. Er ég að búa þetta til, eða er þetta á sannleika byggt, ljóstraðirðu þessu upp þetta dimma vetrarkvöld í Gunnarshúsi, meðan snjóiðurnar þyrluðust um ljóskeilur götustauranna? Og hvað gerðirðu, nákvæmlega, þegar þú stúderaðir sögubygginguna, tókstu í sundur sígild meistaraverk bókmenntanna, kafla fyrir kafla, klipptir jafnvel í sundur bækur og hengdir upp á þvottasnúru til að fá heildaryfirlit, eða lastu leiðbeinandi verk um ritstörf, eða æsktir ráða hjá vitru fólki? Og hvað nú, plottarðu bækurnar þínar, skref fyrir skref, áður en þú skrifar þær? Ertu til í að veita Leslistanum örlitla innsýn í sköpunarstarfið hvað þetta snertir, eða er ég of nærgöngull, alltof nærgöngull?

Það er rétt að hér áður fyrr eltist ég fyrst og fremst við fegurð augnabliksins með fiðrildaháfinn á lofti og skrif mín báru þess merki. Fyrstu skáldsöguna skrifaði ég átján og nítján ára og hún var eiginlega 200 síðna prósaljóð. Hún kom aldrei út en var mér góður skóli og höfundarröddin tók að mótast. Það var ekki fyrr en tíu árum síðar, eða með Yosoy sem kom út 2005, að ég áttaði mig á að efnið sem ég var að vinna með hrópaði á strúktúr. Þar voru margar fyrirferðarmiklar persónur og hver og ein þeirra þurfti sinn söguboga. Allt þurfti síðan að falla saman saumlaust. Ég átti maraþonsamtöl við gáfaða vini, flest við Val Antonsson, Nýhíl ljóðskáld og heimspeking sem var lengi vel óformlegur ritstjóri minn. Ég las bækur um kvikmyndahandrit, vegna þess að þær voru svo skírar og skorinorðar að það var ekki nokkur leið að taka þær alveg hátíðlega (á blaðsíðu 50 skal vera vendipunktur númer eitt, hahaha). Frá og með Yosoy hafa skáldsögur mínar staðið undir nafni og haft grjótharðan strúktúr sem samt fellur þannig inn í landslagið að lesandinn á ekki að verða var við hann sem slíkan. Þær eru Skaparinn, Allt með kossi vekur, Englaryk og Skegg Raspútíns.

En ég myndi aldrei plotta bækurnar fyrirfram. Starf mitt felst fyrst og fremst í að þvælast sem minnst fyrir undirvitundinni. Eins og Stephen King (sem fyrirfram-plottar heldur ekki sínar bækur) lýsti því þá má líkja skáldsagnaskrifum við það að grafa upp risaeðlubeinagrind. Það væri fljótlegast að nota stórvirkar vinnuvélar, en þær leggja allt í rúst. Þess vegna er maður að potast þetta með teskeið og mjúkan bursta og láta heildina smám saman koma í ljós. Þá er samt betra að vita eitthvað um anatómíu forndýra og að sama skapi að hafa kynnt sér hvernig plott virkar.

Líkingin hans Stephen King um risaeðlur finnst mér sniðug og „spot on“. Nærtækari líking fyrir mig sem er af annarri kynslóð er samt niðurhal. Maður þarf að leyfa þessu að hlaðast niður í rólegheitum og það gerist helst þegar líkaminn er í slökunarástandi. Stundum vakna ég um miðjar nætur og átta mig á að andardrátturinn er eitthvað þvingaður. Þá leyfi ég mér að ofanda í smástund og eftir það hefst niðurhalið. Þetta er allt í andardrættinum, eins og jógarnir segja. Ég er eiginlega hætt að rjúka á fætur um miðjar nætur til reyna að skrifa allt niður. Eftir að niðurhalið kemur er innihaldið aðgengilegt, bara þegar hentar. Það að reyna að plotta eða skrifa áður en niðurhalið kemur er ekki til neins annars en að tefja fyrir. Þess vegna bíð ég bara róleg eftir að undirvitundin skili af sér einni og einni kjúku og stundum lærlegg. Eins og ég er innilega óþolinmóð manneskja. Minn heittelskaði þarf til dæmis stöðugt að minna mig á að leyfa bílnum að nema staðar áður en ég stekk út.

Hvað finnst þér um skáldsöguna almennt þessa dagana, er hún að syngja sitt síðasta eða einungis rétt að hefja flugið? Sumum virðist mjög í mun að lýsa því reglulega yfir að hún sé á dánarbeðinum — en þó þykist ég nokkuð viss um að hún muni koma í útför okkar beggja, rjóð í vöngum og í góðu formi, enda ekki svo ýkja gömul, bara nokkurra hundrað ára (og það er enginn aldur). Hvað finnst þér?

Skáldsagan er ekki að syngja sitt síðasta, heldur rétt að hefja flugið, eins og þú segir. Eða eru ekki fuglar himinsins einmitt beinir afkomendur risaeðlanna?

Jú!

Og svo er það smásagan: Áttu þér einhverja eftirlætis-smásagnahöfunda, innlenda, erlenda? Ef svo er, hvernig koma galdrarnir fram hjá þeim?

Ég á mér mjög marga eftirlætis smásagnahöfunda og það sem þeir eiga sameiginlegt er nánd og hægð. Þeir eru nærgöngulir við persónur sínar og sýna breyskleika þeirra í nærmynd en hætta ekki fyrr en við höfum eignast einhvers konar samúð og skilning. Vegna þess að reynsla persónanna er núna reynsla okkar líka. Vegna þess að höfundurinn hefur með nákvæmni og þolinmæði sett okkur í þeirra spor. Galdurinn felst líka í því að hafa söguna opna í báða enda án þess þó að segja of mikið eða of lítið. Lesandanum á helst að finnast fullkomlega eðlilegt að sagan endi þar sem hún endar, en án þess þó að vita nákvæmlega hvers vegna sögunni lýkur á akkúrat þessum stað.

En á hvað trúirðu, Guðrún Eva, hver ertu? Og hvers vegna gerðistu rithöfundur?

Nú fyrst geristu nærgöngull. Það er gott hjá þér! (Mér er alveg sama þótt fólk viti hvernig ég vinn. Það er bara tæknilegt atriði.)

Fyrst seinni spurningin og þú mátt velja svarið úr eftirfarandi möguleikum: a) Ég gerðist rithöfundur vegna þess að fyrsta skáldsagan byrjaði að hlaðast niður. b) Ég þráði að tengjast heiminum gegnum lestur og skrif. c) Mig langaði að vekja á mér athygli? d) Níutíu og fimm ára feneysk kona aumkaði sig yfir mig átján ára bjálfa á interrail ferðalagi og forðaði mér frá því að eyða nótt á síkisbakka. e) Eftir barns- og unglingsævi sem einkennist af stanslausum lestri er náttúrulegt viðbragð að byrja að skrifa, næstum sjálfsögð kurteisi, líkt og að svara þegar á mann er yrt.

Síðan seinni spurningin: Áðan sagði ég að þetta væri allt í andardrættinum og nú geng ég enn lengra: Ég er andi. Ég er ekki líkami með sál heldur sál íklædd líkama. Ég finn fyrir smá hræðslu í hvert sinn sem ég viðurkenni þetta vegna þess að fullt af fólki sem ég met mikils hefur ofnæmi fyrir lífsskoðunum á borð við þessa. En maður verður víst að standa og falla með því sem maður er. Auðvitað gæti ég haft rangt fyrir mér — sem er í góðu lagi, það er hin sjálfgefna áhætta sem maður tekur í hvert sinn sem maður leyfir sér að hafa skoðun — ég veit ekkert fyrir víst frekar en aðrir. En á endanum er þetta minn daglegi veruleiki og mín fyrirferðarmesta sjálfsmynd: Ég er sál.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s