Bækur, 22. mars 2019

Ég treysti ekki heiminum, ég þurfti sífellt að búa hann tilskrifar Elísabet Kristín Jökulsdóttir í Heilræðum lásasmiðsins (JPV: 2007). Það er stórmerkileg og sterk bók. Minnti mig á mörg bókmenntaverk sem hlotið hafa lof og hylli á síðari árum í útlandinu: Chris Kraus (I Love Dick, Aliens & Anorexia), Maggie Nelson (The Red Parts, The Argonauts); og einnig frönsk átófiksjón skrif á borð við bækur Hervé Guibert (Le mausolée des amants, À l’ami qui ne m’a pas sauvé la vie). Íslenskar bókmenntir eru um margt frábærar, en einnig svolítið innræktaðar og einhæfar, og ég fór heljarstökk af gleði við að uppgötva bók í þessum anda: skáldaða sannsögu, sannsögulega skáldsögu, sem er – spennið beltin – vitsmunaleg og ögrandi á hátt sem er nær fáheyrður í íslenskri útgáfusögu síðustu áratuga. (Má segja svona? Æ, ég læt það bara gossa.) Mér varð hugsað til annars verks sem skautar á mörkum veruleika og skáldskapar hvað fagurfræði snertir: Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson, sem oft hefur borið á góma hér.
Hafið þið lesið Heilræði lásasmiðsins, kæru áskrifendur? Ef, ekki, ættuð þið að bæta úr því.
Svo er bókinni lýst á heimasíðu Forlagsins:
Elísabet og Algea kynntust þegar hún var á ferðalagi í New York. Hann bandarískur, hún íslensk; hann svartur, hún hvít; hann hattagerðarmaður og trommuleikari, hún skáld; hann stórborgarbúi, hún náttúrubarn. Þau eru ástfangin og eiga saman unaðsstundir; hann fylgir henni til Íslands og þau reyna að búa saman en bæði eiga erfitt með að skilja á milli ímyndunar og veruleika og það er margt sem truflar.“

Friðgeir Einarsson sýnir nú hinn bráðskemmtilega einleik Club Romantica í Borgarleikhúsinu. Friðgeir hefur einnig gefið út snarpar og hressilegar bækur á síðustu árum, smásagnasafnið Takk fyrir að láta mig vita og skáldsöguna Formaður húsfélagsins. Fyrir jól kom svo út þriðja bókin, annað smásagnasafn sem nefnist Ég hef séð svona áður, falleg bók með pálmatré á kápunni. Friðgeir hefur léttan og þjálan stíl, er lunkinn við að fiska út úr hversdeginum skemmtileg sjónarhorn og observasjónir og koma þeim með einföldum og hnitmiðuðum hætti á pappír. Sögurnar í safninu eru miseftirminnilegar, en maður les þær samt allar af góðri lyst því nærvera höfundarins er svo ljúf og ánægjuleg. Persónurnar standa oft í einhverju tilgangslausi brasi, eru ýmist túristar í bókstaflegri merkingu eða hálfgerðir ferðamenn í eigin lífi, og sumpartinn minnir estetík Friðgeirs mig á annan fyrirmyndar-höfund íslenskan; nefnilega Braga Ólafsson.


Óskalistinn:

This Is not Just a Painting, er titill nýrrar bókar sem ég sá auglýsta á einhverri bókmenntasíðu um daginn og vakti áhuga minn. Bókin snýst í kringum málverk eftir Poussin sem á endanum selst fyrir margar milljónir. Saga málverksins er rakin á meðan velt er vöngum yfir virði og verðmæti myndlistar. Veit ekki meira en þetta er nóg til að kveikja áhuga minn.

Skipulagsfræðingurinn bandaríski Charles Mahron heldur úti áhugaverðu verkefni sem kallast Strong Towns og snýst um að byggja upp kröftugt borgarskipulag sem er samfélögum til heilla – ekki bílastæðum. Ég tók einhvern tímann viðtal við hann fyrir Viðskiptablaðið og síðan þá höfum við verið tengdir á Linkedin. Gladdi mig að sjá að hann tilkynnti á dögunum nýja bók þar sem hann fer yfir speki Strong Towns verkefnisins. (KF.)

Haukur Már Helgason sendir frá sér í apríl næstkomandi bók með áhugaverðu heiti: Um þegnrétt tegundanna í íslenskri náttúru. Hlakka til að lesa hana.

Á svipuðum nótum: Fremdardýra- og hátternisfræðingurinn Frans de Waal var að senda frá sér nýja bók: Mama’s Last Hug. Áður sendi hann til að mynda frá sér hina fínu Are We Smart Enough to Know How Smart Animals Are? – og það er reyndar svoldið góð spurning. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s