Af netinu, 29. mars 2019

Einu sinni skrifaði ég óútgefið, óagað og óklárað skáldsöguuppkast sem gerðist í framtíðinni og var að mestu leyti sviðsett í „Nýju-Nýju Jórvík“; Manhattan-eyja var svo til sokkin í sæ og efstu stigar þjóðfélagsins höfðust við, bókstaflega, í efstu lögum borgarinnar, í svifhúsum sem sveimuðu yfir skýjakljúfunum. Hinir lægra settu og fátæku sigldu svo um neðstu lögin í göndólum og kajökum, og drukknuðu reglulega. Hér sé ég að Kim Stanley Robinson hefur skrifað skáldsögu, New York 2140, sem gerist í afar svipuðum heimi. Í nefndri grein er jafnframt tekið fram að vísindamenn ættu að hlusta í auknum mæli á listamenn – kannski verður hugarflugið okkar eina von í harðneskjulegri framtíð?


„Við megum aldrei gleyma því að mark­að­ur­inn er góður leið­bein­andi en afleitur hús­bónd­i,“skrifar Þröstur Ólafsson, hagfræðingur, og bendir á skort á samkennd og ábyrgð, sem áður hélt samfélögum saman, í nútímanum. „Nú er komið rof í þetta sam­fé­lags­lega lím, bæði innan þjóð­fé­laga sem og alþjóð­lega. Ofur áhersla hefur of lengi verið lögð á fram­gang ein­stak­lings­ins, for­gang hans og afkomu sem og rúm­gott sam­fé­lags­legt oln­boga­rými. Það er orðið lofs­yrði að skara eld að eigin köku.“
 

Gervigreindar-„listamaðurinn“ (listavélin? listfengi algóritminn?) AICAN hélt í samstarfi við Dr. Ahmed Elgammal sólósýningu í HG Contemporary-safninu í Chelsea nú nýlega, Faceless Portraits Transcending Time. Sumar myndirnar eru ansi flottar.Hér er svo án vafa áhugaverðasta greininn sem ég las í vikunni um samband myglusvepps og rafgeislunar.

Grein sem potar aðeins í nokkuð sem ég hef stundum velt fyrir mér: Hvernig stendur á því að næringarséní, hugsjóna-hipsterar og auglýsingastofur hafa gert aðfinnslur við nánast allt í ísskápnum okkar og forðabúrinu – fitu, sykur, kjöt, brauð, glúten, gos, vín, ost, jógúrt – en alltaf heldur kaffi áfram að skipa heiðurssess í lífi okkar?

Áhugavert um ellikerlingu: sífellt koma út fleiri og fleiri bækur um ellina og þau hryðjuverk sem hún vinnur á líkama og sál okkar. Er jákvætt að flest okkar séu að lifa lengur og lengur? Eða er einungis verið að draga dauðann á langinn? (SN.)

Hér er stórgott viðtal við myndlistarmanninn Luc Tuymans sem virðist vera nokkuð svartsýnn á stöðu heimsmála.

Svo er hér að finna ítarlega lýsingu á því hvernig dýr listaverk eru flutt á milli landa.

Heyrði fregnir af því að von væri á nýju safni tileinkað Dieter Roth á Seyðisfirði. Fagna því mjög mikið.

Teiknarinn Lóa Hjálmtýsdóttir var að birta mjög skemmtilega seríu um Reykjavík frá augum túrista í Guardian. Mæli með.

Það má segja ansi margt slæmt um Trump en svo virðist sem það sé orðum aukið að hann sé á einhvern hátt hliðhollur nýnasistum. Hér er farið yfir ummæli sem voru höfð eftir honum í kjölfar Charlottsville mótmælanna árið 2017 sem voru greinilega röng.

Sálfræðingurinn Jonathan Haidt er hér í löngu og góðu viðtali um aumingjavæðingu ungu kynslóðarinnar. Virkilega forvitnilegt.

Internetið hefur fjölgað starfsmöguleikum svo um munar – flestir vita bara ekki af því. Hér er rætt um það.

Um dauða, skatta og nokkra aðra hluti. Frábær greining Morgan Housel sem tekst einhvern veginn alltaf að láta texta um fjármál og fjárfestingar hljóma eins og ódauðlega lífsspeki.

Hvað eiga þorskar og menn sameiginlegt? Mun meira en ég bjóst við. (KF.)

 

Augu og eyru:

Kári fór í útvarpið og rabbaði um engin smáræðis tíðindi úr listheiminum: Met-safnið í New York mun frumsýna nýtt verk eftir Ragnar Kjartansson í sumar!

Einhvern tímann velti ég því fyrir mér hvernig segja mætti „brain drain“ á íslensku. Svo fékk ég svarið: Spekileki nefnist útvarpsþáttur í umsjón Höllu Þórlaugar Óskarsdóttur. Þar er spurt hvort spekileki ógni íslenska heilbrigðiskerfinu.

Góður maður benti mér á hlaðvarp sem ku vera skemmtilegt: The Rewatchables. Þar fara kvikmyndafróðir menn ofan í saumana á vinsælum bíómyndum frá Hollywood, mestmegnis hágæða poppmenningu frá níunda og tíunda áratuginum. (SN.)

Fyrir þá sem hafa áhuga á lífi hins vinnandi manns þá mæli ég með hlaðvarpinu Work Life með sálfræðingnum Adam Grant sem ég hef áður vísað í á þessum vettvangi. Í nýjasta þættinum fjallar hann um hversu slæm hugmynd það er að fylgja ástríðu sinni þegar kemur að því að velja starfsvettvang til framtíðar. 

Pókerspilarinn frægi Annie Duke fjallar hér í skemmtilegu viðtali um skilvirka ákvarðanatöku. Spjallið er svolítið miðað að fólki í fjárfestingabransanum en það á klárlega við um alla sem vilja taka skynsamlegri ákvarðanir. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s