Bækur, 29. mars 2019

Fyrsta ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur, Hnattflug, er afar skemmtileg. Þar ferðast skáldið vítt og breitt um heiminn, um borgir, götur, fjöll, höf og aðra raunverulega staði, í myndrænum og hugmyndaríkum ljóðum. Upphafsorðin hljóða svo: „Systir mín átti upplýstan hnött rafmagnaðan grip og það er trúlega honum að kenna að ég hugsa mér stundum fimmþúsund vatta peru inni í jarðkúlunni þá verður hafið gegnsætt fjallgarðar logandi og örnefni vandlega letruð i litaðan svörðinn.“ Fyrri hlutinn er að mestu helgaður Íslandi en í þeim seinni rötum við út fyrir landsteinanna. Um helgina flýg ég til Bologna á Ítalíu, til að sækja þar barnabókaráðstefnu, og þá rifjast einmitt upp fyrir mér að þarna leynist ljóð helgað Bologna, litað skemmtilegum hryllihúmor: Himinninn yfir Bologna / er klofinn / af einum og hálfum turni / þann heila / hef ég klifið / í hitabylgju / og hugsað um / allar sjálfsvígstilraunir / veraldar / sá stutti / er aftur skakkur / meiðslin / taka mið af því / hvorum megin er stokkið. Takk fyrir það, Sigurbjörg – ég hlakka til að virða fyrir mér þessa merkilegu turna.

Amy Hempel, bandarískur smásagnahöfundur, skrifar um kollegu sína, Joy Williams, annar flinkan smásagnahöfund – sem er raunar einnig ágætur ritgerðasmiður, líkt og Hempel bendir á í greininni. Til umfjöllunar er esseyjusafnið Ill Nature: Rants and Reflections on Humanity and Other Animals. Þar bendir Williams til að mynda á hvernig við erum öll, beint eða óbeint, meðsek í útrýmingu dýralífsins (sem velmegunarværir neytendur), og nefnir til skýringar að stöðugt sé verið að reisa nýja símastaura í þúsundavís og að þeir verði milljónum söngfugla, sem fljúga í ógáti inn í línurnar, að aldurtila; þar með er hvert og eitt okkar samsekt í dauða þeirra, jafnvel þó að við séum ákafir dýravinir og sitjum kannski einmitt heima í stofu við að horfa á hugvekjandi heimildarmynd um ágæti og fegurð fugla og hversu illa mennirnir fari með þá. Báðar hafa þær stöllur, Hempel og Williams, gefið út vinsælar bækur með úrvali sagna sinna: Hempel The Collected Stories fyrir allmörgum árum (þá fann ég einu sinni í kiljubroti á stigaþrepi í Brooklyn og heillaðist ekkert sérstaklega af innihaldinu) og Williams hina frábæru en svolítið þungu The Visiting Privilegue, við afar góðan róm, árið 2015.

Í Þjáningarfrelsinu: Óreiðu hugsjóna og hagsjóna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur lýsa höfundarnir fjölmiðlaumhverfi samtímans á Íslandi og tæpa einnig á stöðunni á heimssviðinu. Ýmsir spekingar eru teknir tali, til að mynda fjöldamargir vísir karlar af miðjum aldri eða jafnvel visnir af elli, og mér finnst hálfgerður ljóður hversu mikið púður þeir setja í að rekja gamlar frægðarsögur af sjálfum sér; það áhugaverðasta við bókina er nefnilega að hún kafar aðeins, en þó aldrei af alveg fullnægjandi dýpt, í þann vitsmunalega öldudal sem íslensk samfélagsumræða og fjölmiðlar hírast í um þessar mundir, meðal vegna peningaskorts og (skiljanlegum) flótta úr blaðamannastéttinni, þar sem gnægð af yfirborðskenndu efni er framleidd í snarhasti, en ekkert tóm gefst lengur til ígrundaðri úrvinnslu og túlkunar. (Þá er menningarblaðamennska nær útdautt fyrirbæri, líkt og hinn frábæri menningarblaðamaður, Kristján Guðjónsson, bendir á í greinarstúf í bókinni.) Þetta er hið ágætasta yfirlitsrit um íslenskan fjölmiðlaheim á 20. öldinni og hvernig sá heimur hefur hrunið og þurrkast út á síðustu árum, sem bitnar tilfinnanlega á vitsmunalegri umræðu í samræðunni og gæðum ritaðs máls á íslensku. Því miður hillir ekki undir bjartari framtíð og því er þetta nokkuð deprímerandi lesning, svo maður segi það bara hreint út. RÚV er gegnumgangandi ljós í myrkrinu.

Ekki gerist það oft að maður lesi hvert einasta útgefna blaðsnifsi eftir höfund; í mínu tilviki gildir það þó um verk Davids Foster Wallace. Hann er í senn óþolandi og yndislegur höfundur, og saga hans bæði heillandi og tragísk. Á kjagstrúti í líkamsræktarstöð brenndi ég í nokkrum skorpum gegnum Conversations with David Foster Wallace – fyrirtak alveg hreint að lesa viðtalsbækur kófsveittur á ýmist kjagstrúti eða hlaupabretti – og hafði auðvitað gaman af því. Það hefur verið í tísku síðustu árin að gera grín að aðdáendum Davids Foster Wallace, einkum ungum karlmönnum sem rogast út um allar koppagrundir með hina tæplega 1.200 blaðsíðna Infinite Jest, og komast aldrei nema hundrað blaðsíður inn í verkið, en hampa henni frekar sem eins konar tískugrip, nota hana sem ábendingu til umheimsins um að þeir séu djúpar verur. En svo eru aðrir sem hafa einfaldlega lesið bækur Wallace og heillast af þeim. Í viðtölunum, sem líða, sameinuð á bókarformi, að einhverju leyti fyrir endurtekningar, er farið í saumana á lífi og hugðarefnum Wallace; uppeldi á heimili með bókhneigðum og brillíant foreldrum, heimspeki og stærðfræði, þunglyndi og grasreykingum, tennis, ofurnámsmannskomplexum, skyndilegri frægð sem hlotnaðist Wallace ungum eftir að annað tveggja lokaverkefna hans í Amherst College, skáldsagan The Broom of the System, var gefin út og vakti bæði athygli og góða dóma, drykkju og dvöl á geðspítala, peningaströggl, ritlistarkennslu, auglýsinga- og markaðsumhverfið sem dempar okkur hugsanlega svolítið tilfinningalega og gerir lítið úr mannlegri reisn, sjónvarpsglápi, internetinu – og svo framvegis. Mæli með þessu viðtalasafni fyrir djúpt sokkna aðdáendur. Þeir sem ekkert hafa lesið eftir Wallace ættu að byrja á bókinni A Supposedly Fun Thing I’ll Never Do Again: Essays and Argument, og helst vaða beint í titilritgerðina, sem er í miklu uppáhaldi (reyndar nokkur ár síðan ég las hana).

Og fyrst viðtalsbækur ber á góma: á fjörur mínar rataði Stríð og söngur: Sex skáld segja frá, ansi læsileg og fín bók sem Matthías Viðar Sæmundsson sendi frá sér árið 1985. Þar hafa orðið Guðrún Helgadóttir, Indriði G. Þorsteinsson, Matthías Johannessen, Álfrún Gunnlaugsdóttir, Thor Vilhjálmsson og Þorsteinn frá Hamri. „Tilgangur viðtals- eða samtalsbókar er að draga upp mynd af manneskju með sitt einstæða líf, sköpun, einmanaleika og samneyti,“þannig fylgir Mattías Viðar lesandanum úr hlaði, og gott ef honum ferst þetta ekki ágætlega úr hendi sjálfum. Ég hafði sérstaklega gaman af því að lesa kaflann um Thor Vilhjálms frænda minn, en ekki síður hlutann um Indriða G. Þorsteinsson, sem skrifaði t.d. 79 af stöðinni (sú kom nýverið út á ensku sem Cab 79, með formála eftir son skáldsins, Arnald Indriðason). Mig langar að leyfa Indriða að eiga hér lokaorðin (bls. 39): „Ég trúi lítt á manneskjuna. Eins gæti ég trúað á hest. Eða kind. Engu að síður er mér annt um náungann af því hann er maður eins og ég. […] Fánýtiskennd hefur ekki þjakað mig af því ég hef aldrei ímyndað mér að maðurinn væri annað en það sem hann er. Þróað rándýr sem étur frændur sína af stofni spendýra. Hann spáir í nágrenni sitt og þykist mikill af. En hann veit ekki neitt og er ekki guðdómlegur þótt hann telji sér trú um að svo sé. Allt líf mitt hefur mótast af þessu viðhorfi.“ (SN.)


Óskalistinn:

Það þykir ansi vinsælt að rakka niður kvikmyndagerðarmanninn Michael Bay sem er þekktur fyrir Transformers myndaflokkinn, Armageddon, The Rock og fleiri stórvirki. Sá að út væri komin bók sem lofsamar höfundaverk hans, sem mér fannst ansi hressandi að sjá.

Svo fannst mér frábært að sjá að einn af mínum uppáhalds hagfræðingum, Branko Milanovic, er að fara að gefa út nýja bók sem nefnist Capitalism, Alone. Af efnisyfirlitinu að dæma verður þetta mjög forvitnileg lesning. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s