Af netinu, 5. apríl 2019

Eftir að ég lauk námi í New York fyrir um sjö árum síðan starfaði ég stuttlega á fjármáladeild hjá Mary Boone Gallery sem var stýrt af miklum reynslubolta í listbransanum. Mary reyndist á endanum ansi erfiður yfirmaður og ég fann mig knúinn til að hætta störfum hjá henni eftir stutta dvöl. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar hún kenndi mér að forðast „red flags“ hjá skattayfirvöldum, hvernig hún blandaði saman persónulegu fjármálum sínum við bókhald fyrirtækisins og eins allar sögurnar af gamla rafvirkjanum hennar, honum Jean-Michel Basquiat. Svo frétti ég af því nýlega að hún hefði verið dæmd í fangelsi fyrir stórfelld skattsvik. Af því tilefni var skrifaður um hana ítarlegur prófíll í New York Times, sem ég verð að viðurkenna að er ekki alveg samkvæmt sannleikanum (svolítið fegruð mynd af frúnni) en sumt í honum er ansi nærri lagi. Eins og t.d. þessi lína hér: “Her eyes are dark and intense. When she is happy, the gaze is kind enough to reach across an avenue. When she is angry or afraid, it can be hard to meet.

Hér er forvitnileg grein í Guardian um konu sem greinarhöfundur kveður vera raunverulega listamanninn á bak við þvagskálina frægu sem franski listamaðurinn Marcel Duchamp er hvað þekktastur fyrir.

Bubbi Morthens, góðvinur Leslistans, skrifaði lesendabréf í Fréttablaðið í gær sem er alveg virkilega gott og ég vona að sem flestir lesi það. Í því fjallar hann um mótlæti og hvernig hann náði árangri í lífinu þrátt fyrir að gert hafi verið lítið úr honum vegna skrifblindu. Í greininni hvetur hann ungt fólk til dáða eins og honum einum er lagið: “Ungt fólk í tónlistarbransanum hefur sagt við mig í gegnum árin að það vilji frekar nota ensku en íslensku því það vilji ekki láta niðurlægja sig fyrir að nota ekki málið rétt. Þetta er svo sorglegt því íslenskan þolir allskonar bragðtegundir. Hvernig eiga stelpa eða strákur sem ætla að syngja á sínu máli að taka því þegar það er sagt við þau: þú getur ekki skrifað dægurlagatexta eða rappað nema stuðlar og höfuðstafir séu yfir og allt um kring? Ég hvet alla, hvort sem þeir eru skriftblindir eða hafa ekki hlotið menntun og telja sig ekki geta skrifað, til að gefa dauðann og djöfulinn í það. Skrifið eins og enginn sé morgundagurinn. Skrifið á vegginn ykkar á fésinu, á tvitter eða instagram, stígið útúr kassanum, þorið, elskið málið ykkar, skriftina ykkar. Það eina sem skiptir máli er að fólk skilji ykkur.

Svo virðist sem  ungir Bandaríkjamenn séu farnir að stunda töluvert minna kynlíf en jafnaldrar þeirra gerðu hér áður fyrr. Farið er yfir þessa geigvænlegu þróun í fínni grein í Washington Post. Hvernig ætli staðan sé á Íslandi?

Ritstjóri NYRB var látinn fara fyrir ekki svo löngu fyrir að hafa birt grein eftir Kanadískan útvarpsmann sem var sakaður um kynferðislega áreitni. Hér fjallar hann um málið í mjög forvitnilegri grein. Hvað sem manni finnst um kauða og það sem hann gerði sem ritstjóri þá er ég býsna sammála eftirfarandi línu úr greininni: „Silencing people we don’t like will make it easier for others to silence the people we do.

Hvernig skapar maður verðmæti? Ég rambaði á gamla grein eftir tæknifjárfestinn fræga Paul Graham sem svarar þeirri spurningu býsna ítarlega: „Someone graduating from college thinks, and is told, that he needs to get a job, as if the important thing were becoming a member of an institution. A more direct way to put it would be: you need to start doing something people want. You don’t need to join a company to do that. All a company is is a group of people working together to do something people want. It’s doing something people want that matters, not joining the group.

Ég hef verið mikill aðdáandi Michael Jackson alveg frá því að ég man eftir mér. Þess vegna hefur mér fundist býsna erfitt að heyra umræðu síðustu daga eftir að ný heimildarmynd leiðir í ljós að hann hafi að öllum líkindum verið barnaníðingur. Halldór Armand skrifaði á dögunum góðan pistil um málið.

Hvað verður um menningu á internetinu? Eru þetta andstæðar fylkingar? Tyler Cowen, góðvinur Leslistans, veltir þessu fyrir sér í ansi djúpri grein. (KF.)

Óskar Arnórsson sendir Leslistanum góða ábendingu frá New York, um ágætis spjall í héraðssneplinum The New York Times við góðvin Leslistans, ævisagnahöfundinn merka Robert Caro. Tilefnið er útgáfa nýrrar bókar eftir Caro, Working, þar sem hann lýsir aðferðum sínum við skrif og heimildaöflun. Óskar segir meðal annars um viðtalið: „Eitthvað svo undarlegt að sjá einhvern tileinka líf sitt því að skrifa um tvo menn. Lyndon B. Johnson var forseti í fjögur ár, en Caro er búinn að vera 40 ár að skrifa um hann. Uppáhaldssetningin mín? It’s probably the understatement of all time, but I have not rushed these books.“ (SN.)


Augu og eyru:

Hér er mjög gott og virkilega djúpstætt viðtal við rithöfundinn Neil Gaiman um starf rithöfundarins. Það verður reyndar aðeins of ítarlegt þegar hann heldur langa ræðu um hvernig penna og hvernig skrifblokk hann notar við skriftir, en það er reyndar alveg fyndið eftir á að hyggja. Hugsa að þetta sé sérstaklega gaman fyrir aðdáendur hans. Undir lokin fjallar hann um góðvin sinn heitinn, Terry Pratchett, og samstarf þeirra. Mæli með þessu.

Svo hlustaði ég líka á nokkuð sem ég held að hljóti að enda sem eitt allra dýpsta og áhugaverðasta hlaðvarpsviðtal sem rekur á mínar fjörur þetta árið. Í því ræðir hagfræðingurinn Russ Roberts við heimspekinginn Jacob Stegenga um bók hins síðarnefnda, Medical Nihilism. Í bókinni lítur hann gagnrýnum augum á læknisfræðilegar rannsóknir og telur hann að inngrip lækna séu alltof tíð. Ég er harðákveðinn í að lesa bókina eftir að ég hlustaði á þetta viðtal. (KF.)

Mér var bent á Guðmundarkviðu: sögu þjóðar, hlaðvarp þar sem Guðmundur Ingi Þorvaldsson, leikari, leikstjóri og tónlistarmaður lítur sér nær og rannsakar ættarsögu sína sjö kynslóðir aftur til að reyna að komast að því hvort, og þá hvað, af sorgum og áföllum forfeðra hans og og formæðra gætu setið í honum, líkt og segir í lýsingu Ríkisútvarpsins. Við erfum hæfileika, útlit og húmor en getum við erft sorgir og áföll? Ég hlustaði á fyrsta þátt og þetta fer vel af stað. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s