Bækur, 19. apríl 2019

Ég hef fylgst með og dáðst að því sem ævisagnarithöfundurinn Robert Caro hefur skrifað í langan tíma. Ég hef að vísu aðeins náð að klóra mig fram úr tæpum helmingi hinnar tröllauknu fyrstu bókar hans – The Power Broker – þar sem hann skrifar um ævi Robert Moses sem var líklega einn áhrifamesti maður í sögu New York borgar. Honum tókst að stýra og breyta nær öllu skipulagi borgarinnar án þess að hafa nokkurn tímann verið kjörinn í embætti. En bókin hans fjallar ekki bara um þennan mann, Robert Moses, heldur fjallar hún um völd – hvernig maður öðlast völd og hvernig valdamiklum mönnum tekst að stýra nær öllu í kringum þá. Caro er einnig þekktur fyrir ævisögu sína um Lyndon B. Johnson, bandaríkjaforseta. Fyrsta bindi þeirrar bókar kom út árið 1982 og nú er Caro að leggja lokahönd á fimmta og síðasta bindið, 83 ára gamall. Hann gaf svo út bók fyrir stuttu sem heitir einfaldlega Working og fjallar um hvernig hann hefur farið að því að skrifa þessa merku doðranta. Þetta er samansafn af ritgerðum eftir hann sem hafa margar hverjar verið birtar áður í merkum tímaritum en varpa í sameiningu áhugaverðu ljósi á agað vinnuferli hans, sem er í einu orði sagt aðdáunarvert. Dýptin í því sem hann skrifar er nefnilega engu öðru lík. Þó að talsvert sé liðið frá lestri mínum, get ég enn lokað augunum og séð fyrir mér lýsingar hans á því hvernig maður Robert Moses var á sínum yngri árum. Jafnvel aukapersónur í ævi hans koma stundum upp í huga minn eins og gamlir vinir eða ættingjar, slík er nákvæmnin í frásögninni!

Það sem vakti sérstakan áhuga minn í bókinni er hversu nákvæmlega Moses fer í að rannsaka hvern krók og kima af viðfangsefni sínu. Eitt dæmi sem hann nefnir er af Lyndon Johnson þegar hann starfaði sem þingmaður og átti þátt í því að tengja rafmagn í sinn gamla heimabæ – Hill Country í Texas. Það myndi duga flestum að minnast lauslega á að íbúar þar hefðu verið býsna ánægðir með þá breytingu en til að geta sagt almennilega frá því fluttist Caro þangað um tíma með konu sinni. Ekki nóg með heldur tók hann einnig viðtöl við aldurhnigna íbúa þessa svæðis sem mundu eftir því hvernig lífið var án rafmagns. Hann segir frá stritinu og öllum þeim erfiðleikum sem fólk glímdi við og hvernig rafmagnið breytti öllu í lífi þeirra. Hann segir frá þessu í ítrustu smáatriðum, ekki einungis til að lengja mál sitt heldur til að fá lesendur til að skilja hvernig ákvarðanir stjórnmálamanna hafa áhrif á venjulegt fólk. Hvað völd raunverulega þýða.

Mér fannst ein setning úr bókinni Working bregða mjög skýrri birtu á það hvers vegna hann sagði upp starfi sínu sem blaðamaður og ákvað að eyða restinni af lífi sínu í að skrifa bók um valdamikla embættismenn: „Underlying every one of my stories was the traditional belief that you’re in a democracy and the power in a democracy comes from being elected. Yet here was a man, Robert Moses, who had never been elected to anything, and he had enough power to turn around a whole state government in one day. And he’s had this power for more than forty years, and you, Bob Caro, who are supposed to be writing about political power and explaining it, you have no idea where he got this power. And, thinking about it later, I realized: and neither does anybody else.“ (KF.)

To Be a Machine eftir Mark O’Connell var lipurlega skrifuð – og ógnvekjandi. Þar tekur höfundur fyrir transhúmanisma, alþjóðlega hreyfingu fólks sem sterkust er í Kaliforníu, einkum Kísildalnum. Fylgjendur hennar vilja nota tæknina til að bæta og styrkja líkama sína (og okkar allra) og eins hugarstarfsemina og með tíð og tíma renna algjörlega saman við vélar. Þá er markmiðið að „lækna“ okkur af dauðanum. O’Connell er mjög skeftískur á allar þessar hugmyndir en skrifar engu að síður af hlýju og næmi um þá ótrúlega furðulega fíra (nær allt karlmenn) sem hér koma við sögu, og fléttar inn í frásögnina senum frá því að hann eignast sitt fyrsta barn og þær tæru og (spen)dýrslegu kenndir sem því fylgja. Er samræmanlegt að vera dýr og vél? Hafa kannski mörg okkar nú þegar breyst í sæborgir?

Fólk virðist hafa ansi skiptar skoðanir á Jonathan Franzen og ótrúlegt hversu margir nenna að hata hann opinskátt á internetinu. Mér finnst til marks um staðfestu hans sem rithöfundur hvað hann lætur það lítið bíta á sig – og kærkomin tilbreyting frá lækfíkninni. Nýjasta bók hans, The End of the End of the Earth, er ritgerðasafn og bara skrambi fínt. (Hann hefur áður sent frá sér tvö slík söfn, Farther Away og How to Be Alone, sem mér fundust einnig dáindisfín.) Í því nýjasta fléttar hann saman minningaskrifum, bókmenntapistlum og hugvekjum um loftslagið og tæknina – og tæpir þar einkum á þau áhrif sem hlýnun jarðar hefur á fuglalíf, en Franzen er fuglaskoðari af lífi og sál. „Það er erfitt að láta sér annt um dýr sem maður aldrei sér,“ ritar hann á einum stað og bendir á hversu margar tegundir týna nú tölu utan sjónar okkar. Og þegar fuglarnir deyja ekki óbeint af okkar völdum (vegna loftslagsbreytinga) eru þeir veiddir miskunnarlaust með önglum, blýkúlum og netum; í einni ritgerð fremja menn raunar svo gegndarlaus fjöldamorð á hinum fiðruðu frændum okkar að ég þurfti margoft að leggja bókina frá mér. Loks rekur Franzen í formála gildi og sögu „persónulegu esseyjunnar“ (ala Montaigne) og hnykkir á því hversu forheimskandi og slæm þróunin sé í hinum glóandi lófum okkar. Hressandi!

Loks las ég skáldsöguna Normal People eftir hina írsku Sally Rooney. Fyrri skáldsaga hennar, Conversation with Friends, hefur komið út á íslensku. Sú nýja lýsir því hvernig líf tveggja ungra manneskju úr sama írska smáþorpinu skarast yfir árabil (þar minnti sagan mig sumpart á One Day eftir David Nicholls). Rooney er ung að árum, fædd 1991, en tæknilega séð ógnarflinkur höfundur, og innsýn hennar í hugi persóna með eindæmum. Vel skrifuð bók – sem að vísu tórir ekkert svo sterkt í mér að lestri loknum, eflaust vegna þess að umfjöllunarefnin (haltu-mér-slepptu-mér ástarsamband, þroski ungs fólks við þröskuld fullorðinsára, líf á háskólakampusi, meint mikilvægi þess að vera vinsæll o.s.frv.) eru af svolítið kunnuglegum meiði. Mæli engu að síður með henni fyrir þá sem vilja sökkva sér í auðlæsilega og tilfinningaríka frásögn. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s