Bækur, 19. apríl 2019

Ég hef fylgst með og dáðst að því sem ævisagnarithöfundurinn Robert Caro hefur skrifað í langan tíma. Ég hef að vísu aðeins náð að klóra mig fram úr tæpum helmingi hinnar tröllauknu fyrstu bókar hans – The Power Broker – þar sem hann skrifar um ævi Robert Moses sem var líklega einn áhrifamesti maður í sögu New York borgar. Honum tókst að stýra og breyta nær öllu skipulagi borgarinnar án þess að hafa nokkurn tímann verið kjörinn í embætti. En bókin hans fjallar ekki bara um þennan mann, Robert Moses, heldur fjallar hún um völd – hvernig maður öðlast völd og hvernig valdamiklum mönnum tekst að stýra nær öllu í kringum þá. Caro er einnig þekktur fyrir ævisögu sína um Lyndon B. Johnson, bandaríkjaforseta. Fyrsta bindi þeirrar bókar kom út árið 1982 og nú er Caro að leggja lokahönd á fimmta og síðasta bindið, 83 ára gamall. Hann gaf svo út bók fyrir stuttu sem heitir einfaldlega Working og fjallar um hvernig hann hefur farið að því að skrifa þessa merku doðranta. Þetta er samansafn af ritgerðum eftir hann sem hafa margar hverjar verið birtar áður í merkum tímaritum en varpa í sameiningu áhugaverðu ljósi á agað vinnuferli hans, sem er í einu orði sagt aðdáunarvert. Dýptin í því sem hann skrifar er nefnilega engu öðru lík. Þó að talsvert sé liðið frá lestri mínum, get ég enn lokað augunum og séð fyrir mér lýsingar hans á því hvernig maður Robert Moses var á sínum yngri árum. Jafnvel aukapersónur í ævi hans koma stundum upp í huga minn eins og gamlir vinir eða ættingjar, slík er nákvæmnin í frásögninni!

Það sem vakti sérstakan áhuga minn í bókinni er hversu nákvæmlega Moses fer í að rannsaka hvern krók og kima af viðfangsefni sínu. Eitt dæmi sem hann nefnir er af Lyndon Johnson þegar hann starfaði sem þingmaður og átti þátt í því að tengja rafmagn í sinn gamla heimabæ – Hill Country í Texas. Það myndi duga flestum að minnast lauslega á að íbúar þar hefðu verið býsna ánægðir með þá breytingu en til að geta sagt almennilega frá því fluttist Caro þangað um tíma með konu sinni. Ekki nóg með heldur tók hann einnig viðtöl við aldurhnigna íbúa þessa svæðis sem mundu eftir því hvernig lífið var án rafmagns. Hann segir frá stritinu og öllum þeim erfiðleikum sem fólk glímdi við og hvernig rafmagnið breytti öllu í lífi þeirra. Hann segir frá þessu í ítrustu smáatriðum, ekki einungis til að lengja mál sitt heldur til að fá lesendur til að skilja hvernig ákvarðanir stjórnmálamanna hafa áhrif á venjulegt fólk. Hvað völd raunverulega þýða.

Mér fannst ein setning úr bókinni Working bregða mjög skýrri birtu á það hvers vegna hann sagði upp starfi sínu sem blaðamaður og ákvað að eyða restinni af lífi sínu í að skrifa bók um valdamikla embættismenn: „Underlying every one of my stories was the traditional belief that you’re in a democracy and the power in a democracy comes from being elected. Yet here was a man, Robert Moses, who had never been elected to anything, and he had enough power to turn around a whole state government in one day. And he’s had this power for more than forty years, and you, Bob Caro, who are supposed to be writing about political power and explaining it, you have no idea where he got this power. And, thinking about it later, I realized: and neither does anybody else.“ (KF.)

To Be a Machine eftir Mark O’Connell var lipurlega skrifuð – og ógnvekjandi. Þar tekur höfundur fyrir transhúmanisma, alþjóðlega hreyfingu fólks sem sterkust er í Kaliforníu, einkum Kísildalnum. Fylgjendur hennar vilja nota tæknina til að bæta og styrkja líkama sína (og okkar allra) og eins hugarstarfsemina og með tíð og tíma renna algjörlega saman við vélar. Þá er markmiðið að „lækna“ okkur af dauðanum. O’Connell er mjög skeftískur á allar þessar hugmyndir en skrifar engu að síður af hlýju og næmi um þá ótrúlega furðulega fíra (nær allt karlmenn) sem hér koma við sögu, og fléttar inn í frásögnina senum frá því að hann eignast sitt fyrsta barn og þær tæru og (spen)dýrslegu kenndir sem því fylgja. Er samræmanlegt að vera dýr og vél? Hafa kannski mörg okkar nú þegar breyst í sæborgir?

Fólk virðist hafa ansi skiptar skoðanir á Jonathan Franzen og ótrúlegt hversu margir nenna að hata hann opinskátt á internetinu. Mér finnst til marks um staðfestu hans sem rithöfundur hvað hann lætur það lítið bíta á sig – og kærkomin tilbreyting frá lækfíkninni. Nýjasta bók hans, The End of the End of the Earth, er ritgerðasafn og bara skrambi fínt. (Hann hefur áður sent frá sér tvö slík söfn, Farther Away og How to Be Alone, sem mér fundust einnig dáindisfín.) Í því nýjasta fléttar hann saman minningaskrifum, bókmenntapistlum og hugvekjum um loftslagið og tæknina – og tæpir þar einkum á þau áhrif sem hlýnun jarðar hefur á fuglalíf, en Franzen er fuglaskoðari af lífi og sál. „Það er erfitt að láta sér annt um dýr sem maður aldrei sér,“ ritar hann á einum stað og bendir á hversu margar tegundir týna nú tölu utan sjónar okkar. Og þegar fuglarnir deyja ekki óbeint af okkar völdum (vegna loftslagsbreytinga) eru þeir veiddir miskunnarlaust með önglum, blýkúlum og netum; í einni ritgerð fremja menn raunar svo gegndarlaus fjöldamorð á hinum fiðruðu frændum okkar að ég þurfti margoft að leggja bókina frá mér. Loks rekur Franzen í formála gildi og sögu „persónulegu esseyjunnar“ (ala Montaigne) og hnykkir á því hversu forheimskandi og slæm þróunin sé í hinum glóandi lófum okkar. Hressandi!

Loks las ég skáldsöguna Normal People eftir hina írsku Sally Rooney. Fyrri skáldsaga hennar, Conversation with Friends, hefur komið út á íslensku. Sú nýja lýsir því hvernig líf tveggja ungra manneskju úr sama írska smáþorpinu skarast yfir árabil (þar minnti sagan mig sumpart á One Day eftir David Nicholls). Rooney er ung að árum, fædd 1991, en tæknilega séð ógnarflinkur höfundur, og innsýn hennar í hugi persóna með eindæmum. Vel skrifuð bók – sem að vísu tórir ekkert svo sterkt í mér að lestri loknum, eflaust vegna þess að umfjöllunarefnin (haltu-mér-slepptu-mér ástarsamband, þroski ungs fólks við þröskuld fullorðinsára, líf á háskólakampusi, meint mikilvægi þess að vera vinsæll o.s.frv.) eru af svolítið kunnuglegum meiði. Mæli engu að síður með henni fyrir þá sem vilja sökkva sér í auðlæsilega og tilfinningaríka frásögn. (SN.)

Hlekkir, 19. apríl 2019

Um daginn hafði ég til umfjöllunar nýja bók um vísindaheimspekinginn fræga, Thomas Kuhn, eftir kvikmyndargerðarmanninn Errol Morris. Í bókinni er ekki beint farið fögrum orðum um þennan annars ágæta speking. Þessi grein kemur Kuhn til varnar.

Góður leslisti hér um fjölmiðla.

Fannst þessi grein ansi góð og forvitnileg. Í henni er fjallað um hvernig maður á að bera sig að við skrif á internetinu og áhrifamátt slíkra skrifa.

Hér er farið yfir sögu dýrasta listaverks heims – Salvator Mundi „eftir“ Leonardo da Vinci. Stórfurðuleg saga.

Hér er fín grein um Notre Dame brunann – sorglegustu frétt vikunnar.

Hver er galdurinn við að læra e-ð nýtt? Svarið er víst að finna hér.

Flott grein um fólk sem þú gætir kannast við. Stal henni úr þessu skemmtilega íslenska fréttabréfi sem ég hef áður mælt með á þessum vettvangi.

Hvað felst í raunverulegu ríkidæmi? Hér er góð grein sem fer í saumana á því. (KF.)

Á áttunda áratugnum upplifði blaðakona ein ástarævintýri með fjöldamorðingja – lifði til að segja söguna á bók en fékk eiginlega aldrei uppreist æru sjálf í kjölfarið. Grípandi frásögn.

Í Fallegasta kynslóðin er alltaf sú sem kemur næst er stuttur kafli þar sem við sögu kemur AirBNB-leigusali í Reykjavík sem komið hefur upp leynilegum myndavélum í leiguíbúðum sínum og liggur svo á njósnum um túristana. Ég rakst á þessa grein í vikunni og sá að slík hegðun er ekki aðeins vandamál í skáldsögum.

Eiríkur Örn Norðdahl skrifar um Great Apes eftir Will Self.

Víkingar voru víðförlari en margir halda, og aðlöguðust ólíkri menningu vítt og breitt um hnöttinn. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Í vikunni sá ég fyrir tilviljun tvö myndskeið á netinu, eitt af öðru, og af einhverjum ástæðum hafa þau marað í vitund minni síðan, hlið við hlið, sem kannski er ósanngjarnt enda um alls kostar óskylt efni að ræða. En hvað um það, nú er svo komið að ég get ekki hugsað um þau nema í beinum samanburði hvort við hitt.

Fyrra myndbandið var brot úr einhverjum íslenskum sjónvarpsþætti sem mér skilst að snúist um að sýna landsmönnum heimili fólks „fyrir og eftir breytingar“. (Ekki spyrja mig hvers vegna þetta myndskeið skaut upp kollinum í stafrænni hliðartilvist minni). Vel stætt par, MS og HBS, er að gera upp stærðarinnar sumarbústað við Þingvallarvatn. Um er að ræða feykistórt sumarhús, sem sjálfsagt er rúmbetra og vistlegra en aðalheimkynni 99% mannkyns, og ljóst strax frá upphafi að hér verður ekkert til sparað. Maður tekur ósjálfrátt, sem innlifaður sjónvarpsáhorfandi, að hugsa sér gott til glóðarinnar og hlakka til að sjá hvernig útkoman verður „eftir breytingar“. Svo er klippt á hárréttri stundu: Liðið hefur langur tími (fimm ár!) og stjórnandi þáttarins, sympatískur og hress orkubolti, leiðir okkur skrefléttur og brosandi á vit sannleikans. Framleiðendur þáttarins, reynsluboltar í faginu, læða undir tilfinningaþrunginni stemningstónlist til að tryggja að við, sem sitjum heima í stofu, séum rétt innstillt andlega. MS stendur hnakkakerrtur inni í stofu, sigursæll hershöfðingi að lokinni vel lukkaðri orrustu, og patar fjálglega með höndunum staddur á einhvers konar óskilgreindu svæði mitt á milli eldhúss og stofu. Takk! segir hann þegar þáttastjórnandinn óskar honum til hamingju með afraksturinn. Í framhaldinu spara þeir félagar ekki lýsingarorðin: fljótlega verður okkur ljóst að lyft hefur verið grettistaki í því skyni að gera sumarbústaðinn sem glæsilegastan. Nema hvað, örstuttu síðar renna á sjónvarpsaðdáandann tvær grímur. Myndavélin hnusar vítt og breitt af innviðum sumarhússins og bráðlega verður deginum ljósara að ósamræmi ríkir á milli hinnar andaktugu mælsku stjórnandans vaska og MS annars vegar og raunverulegs útlits bústaðarins hins vegar. Sannleikurinn hæfir okkur í andlitið eins og blaut tuska: Sumarhúsið er ekki fallegt. Það lítur út eins og svekkjandi og ópersónulegt hótel. Eins konar karakterlaust hylki utan um ekkert nema einn lúinn hund og nokkur óeftirtektarverð húsögn í gráum tónum. Áhorfendur heima í stofu, vítt og breitt um landið, gnísta tönnum af vonbrigðum. Þarna eru engar bækur. Hvorki málverk né borðleikir. Engin hljóðfæri – raunar engar nauðþurftir vitsmunavera. Þarna er í rauninni ekkert nema einhvers konar gylltur sjónauki sem starir út í tómið. Maður hálfpartinn óskar þess að þarna stæði frekar bara svolítið skóglendi, kannski fuglshreiður á grein? Og hversu mikið kostaði þessi stílhreini tómleiki? spyr áhorfandinn sig í andnauð. Þetta er fyrra myndbandið sem ég sá, og það hefur, af einhverjum ástæðum, sótt talsvert á huga minn.

Seinna myndskeiðið lýsti einnig heimkynnum en þó ekki sterkefnaðs mannfólks heldur rostunga. Vegna loftslagsbreytinga, sem hljótast af því hversu miklum koltvísýringi við mennirnir dælum út í andrúmsloftið til að standa straum af ósjálfbærum lífsstíl okkar, eru náttúruleg heimkynni rostunga í Kyrrahafinu við Rússlandsstrendur nú að hverfa. Hafísinn, fyrra búsvæði þeirra, bráðnar og kemur ekki aftur. Af þeim sökum flykkjast rostungarnir nú upp á strendur árlega og hírast þar í lygilegri mergð (sjón er sögu ríkari). Myndband þetta er upprunnið í þáttaröðinni One Planet og þarna ber fyrir augu okkar tuttugu kílómetra flæmi af rostungum, sem vísindamenn áætla að sé um ¾ af öllum Kyrrahafsstofni tegundarinnar. Vegna rýmisskorts á ströndinni klaufast margir rostunganna sífellt hærra upp á land, þeir feta sig stirðir um þverhnípta hamra – áhorfandinn heima í stofu sýpur hveljur. Meðalrostungurinn er um tonn að þyngd, klaufaleg vera, ekki náskyldur ættingi fjallageitarinnar. Þegar hungrið sverfur aftur að og rostungarnir hyggjast halda aftur niður að hafi í fæðuleit, hrapa margir þeirra fyrir björg og týna lífi. Sú sena er með þeim átakanlegri sem ég hef séð lengi. Einn af öðrum hrapa þessi stóru, fallegu dýr tugi metra niður í fjöruna og skella á grjóti og hnullungum. Rostungarnir eru algjörlega varnarlausir gagnvart þeim breytingum sem eru að ganga yfir jörðina og hafa glatað heimkynnum sínum.

Það var mjög skrítin reynsla að sjá þessi tvö myndbönd svona í röð – fyrst vel stæða parið sem var að gera upp sumarbústaðinn sinn; síðan rostungana sem tapað hafa heimkynnum sínum – en kannski er þetta einn af slembikröftum Internetsins: stundum tekst því að ljá hlutum, sem við fyrstu sýn virka algjörlega óskyldir, samhengi og skyldleika. (SN.)

Mér fannst þetta viðtal við bandaríska myndlistarmanninn George Condostórkostlegt. Ekki oft sem ég sé svona ótrúlega góð viðtöl við myndlistarmenn þar sem þeir kafa djúpt ofan í hvað býr að baki verka þeirra. Fékk alveg nýja sýn á hans verk sem mér þóttu andskoti góð fyrir.

Þorvaldur Helgason, góðvinur Leslistans, var í viðtali í hlaðvarpi Læknablaðsins þar sem hann fer yfir mjög svo persónulegan og forvitnilegan innblástur fyrir nýtútkominni ljóðabók sinni – Gangverki.

Hér langt og djúpt viðtal við breska rithöfundinn Ian McEwan á gáfumannamiðlinum Edge.

Michael Lewis (sem er stórkostlegur rithöfundur að mínu mati) var að byrja með nýtt hlaðvarp. Fyrstu þættirnir lofa góðu. (KF.)

Bækur, 12. apríl 2019

Milan Kundera, sá ágæti og eitursnjalli höfundur, varð níræður um daginn. Ég get lesið ritgerðarsöfnin hans aftur og aftur, það eru fjársjóðskistur, eldsneyti fyrir frjóar hugleiðingar í allar áttir, og við Íslendingar njótum þeirrar gæfu að Friðrik Rafnsson hefur þýtt nær allar bækurnar hans. Í einu ritgerðasafninu – og nú man ég skyndilega ekki hverju þeirra, afsakið það; ég hef bækurnar ekki við höndina – lýsir Kundera innreið bílsins í evrópskar borgir í upphafi 20. aldarinnar. „Fólk mun aldrei sætta sig við hávaðann sem bílarnir valda!“ á einhver að hafa sagt. Mér varð hugsað til þessara orða þegar ég var staddur í Bologna nýlega, ítalskri borg sem í núverandi mynd er margra hundruð ára gömul: bílarnir pössuðu einhvern veginn ekki inn í aldið borgarlandslagið, göturnar eru þröngar og víða hvelfigöng fyrir gangandi vegfarendur sem eins og magna upp óhljóð bensínknúinna farartækja þegar þau hjóta hjá eftir akstursstrætunum. Og auðvitað lýjandi mengun yfir öllu. Ég átti, röskum hundrað árum eftir áðurtilgreinda athugasemd, satt að segja erfitt með að sætta mig við hávaðann.

Nú, í upphafi 21. aldarinnar, sækir á okkur önnur ágeng spurning og tengist öðruvísi en þó skyldum hávaða af andlegum toga, sem einnig hlýst af „tækniframförum“ (les: iðnvæðingu og kapítalisma): nefnilega stafrænu látunum sem við streymum, sjálfviljug, inn í hausinn á okkur frá morgni til kvölds. Við hugsum: einstaklingurinn sættir sig aldrei við þetta áreiti snjallsímanna til lengdar, fólk gerir uppreisn. En er það? Hvað um börnin sem fæðast inn í heim þar sem normið er að stroka út eigin dagdrauma, skapandi gauf og hugleiðingar, með efni sem kemur og hverfur, kemur og hverfur, sérhvert andartak, eftir farvegi stórfyrirtækis sem er óseðjandi sólgið í hug okkar og athygli? Til frekari áhnykkingar: ef við fæðumst inn í heim þar sem flestir hafa þegar breyst í sæborgir (samruna manns og vélar) og fáir harma eða mótmæla markvisst þeirri þróun, er auðvitað sennilegast að maðurinn, sem er félags- og hjarðvera, líti svo á að slíkt sé eðlilegt fyrirkomuleg og felli hegðun sína mótþróalaust þar undir.

Sherry Turkle, bandarískur höfundur, skrifar um eina afleiðingu slíkrar þróunar, sem er hnignun samtalsins, og þar með hluttekningarinnar og jafnvel vináttunnar, í bók sinni Reclaiming Conversation: The Power of Talk in a Digital Age. Samræður byggjast á því að þátttakendurnir, tveir eða fleiri, verji fyrst drjúgum tíma í einrúmi, hljóðri íhugun, svo þeir hafi eitthvað bitastætt fram að færa þegar samtalið hefst. En vanrækjum við þetta kannski í auknum mæli? Í tilraun nokkurri, sem Turkle lýsir í bókinni, voru þátttakendur látnir sitja einir og yfirgefnir við autt borð, án síma, bókar eða annarrar afþreyingar, með ekkert fyrir stafni nema möguleikann á að veita sér vægt rafstuð ef þeim fór að leiðast. Margir hófu að misbjóða líkama sínum (einkum karlmenn) eftir einungis sex mínútur! Turkle óttast að börn bíði seint bætur af sívaxandi vangetu okkar til að vera ein með sjálfum okkur eða jafnvel annarri manneskju án milligöngu raftækis: í skóla einum í New York hegði tólf ára krakkar sér til að mynda í auknum mæli eins og átta ára börn á leikvelli; þau skilji skólafélaga sína blákalt útundan og hafi ekki lengur þroska og/eða hæfieika til að setja sig í spor annars fólks. Ástæðan? Þau verji svo miklum tíma í sýndarveröld þar sem ekki þurfi að horfa í augun á öðru fólki, taka tillit til annarra í rauntíma. Ég veit ekki hvort ég deili þessari sýn, en ég skil áhyggjurnar.

Stefan Durand, franskur höfundur, skrifar hugleiðingu annars efnis, en horfir af skyldum sjónarhóli, í nýlegri bók sem nefnist 20.000 ans, ou la grandes histoire de la nature, verki sem fjallar um náttúrusögu Frakklands síðustu 20.000 árin. „Ekki er svo ýkja langt síðan,“ ritar Durand (hér í frjálslegri þýðingu minni), „að við ókum á hlýjum sumarnóttum inn í skordýraregn sem flattist út á framljósunum. Oft ókum við í gegnum heilt haf af fiðrildum. Lesendur í eldri kantinum fyllast angurværð þegar þeir rifja þetta upp; hinir yngstu yppta öxlum. Þeir eiga bágt með að ímynda sér slíka tíma. Hér tæpum við á því sem kalla hefur verið vistfræðigleymska (fr. l’amnésie écologique), sem er sérstakt hugtak yfir tilhneigingu sem þrykkt er djúpt inn í eðli okkar: við lítum ævinlega svo á að sá heimur, sem við fæðumst inn í, sé hinn upprunalegi og rétti, og endurspegli hlutlaust ástand veraldarinnar. Í augum hinna yngstu er heimurinn án skordýra, en í augum hinna eldri er hann uppfullur af skordýrum. Þannig höfum við, í rás kynslóðanna, gleymt ríkidæmi og gnótt hins villta lífs sem var allsráðandi í Frakklandi fyrir ekki svo löngu. […] Við erum komin langleiðina með að breyta landinu okkar í eyðimörk.“

Ekki þarf raunar að ferðast mikið um jörðina til að sjá hvernig lífrænt ríkidæmi hennar hefur verið máð út. Og kannski er ekki heldur ósennilegt að við gleymum smátt og smátt ríkidæmi og hugmyndagnótt fyrra menningarlífs – bókmenntirnar eru hér gott dæmi – og tökum að líta svo á að samræmd hegðun flestra manna, með atbeina raftækis sem fletur út fjölbreytni og staðlar óhjákvæmilega upplýsingamiðlun og samskipti, sé hinn rétti og upprunalegi heimur, hið hlutlausa ástand veraldarinnar.

Sjálfur hef ég, nær alla mína tíð, alið manninn í borgum. Á síðustu árum er þær þó teknar að þreyta mig í auknum mæli; ég sé því miður æ sjaldnar fegurðina nema í (kærkomnum) undantekningartilvikum, sem eru iðulega augnablik þar sem náttúra eða dýralíf nær, að því er virðist fyrir kraftaverk, að þrífast mitt í tortímingunni. (Um þetta skrifaði ég til dæmis í smásögunni „Hinir sönnu leyndardómar Parísarborgar“, smásögu úr Heimafólki, einni bókanna í bókaknippinu mínu.) Áður laðaði þéttbýlið mig að sér með loforði sínu um frjóa menningu, ríkulegt samneyti hugmynda; það segulmagn fjarar hins vegar út eftir því sem tæknin lempar í auknum mæli staðbundinn kúltúr og sjálfstæða, skapandi hugsun. Alþjóðahyggjan, og Internetið, er óhjákvæmilega illsamræmanlegt því sem við höfum fram til þessa kallað kúltúr: þessi öfl hampa hinu steríla og ýta undir einsleitni. Tyler Cowen viðrar hugleiðingar um þennan ósamræmanleika milli Internetsins og menningar í nýlegri grein: „Hraðsendingar Amazon, eða kaffihús sem líta eins út sama hvar þú ert niður kominn, eiga að stórum þræði rætur sínar í Internetinu,“ skrifar hann. „Ráðleggingar snjalls starfsmanns í hverfisbókabúðinni, eða sikileysk uppskrift sem engum tekst að leika eftir annars staðar, eru dæmi um kúltur.“

Kannski er engin flóttaleið undan hinu einhæfa og einfaldaða? Æ fleiri okkar eiga núorðið í fjarrænu túristasambandi við umhverfi sitt – og túrismi er kannski hin hreina andhverfa lókal menningar – og við látum eins og við getum flúið eitthvað annað þegar heimkynni okkar verða endanlega ónýt. Ég hef áður vísað í orð bandaríska skáldsins W.S. Merwins, sem lést nýlega, um endurtekna martröð hans úr æsku: mannkynið breytir smám saman allri jörðinni í borg, malbikar hvern einasta blett, og hvergi fyrirfinnst lengur skóglendi. Svona líður mér oft – og ekki nóg með að jörðin sé malbikuð heldur einnig heilarnir í okkur. Borgirnar taka á sig ásýnd antínáttúru, gegndarlauss ofbeldis gagnvart fegurðinni, og manneskjur breytast í antímanneskjur: notendur tækja, neytendur. Öll tjáning okkar er einfölduð niður í hnitmiðuð skilaboð markaðshyggju. Með öðrum orðum: allt verður eyðimörk.

Þetta er ógnvekjandi tilhugsun. Ég hef einnig áður imprað á grein sem Bill McKibben birti í The New Yorker í nóvember 2018, undir fyrirsögninni „Hvernig öfgar í veðurfari eru að smækka plánetuna“. Í grein sinni færði McKibben á hnitmiðaðan hátt í orð áhyggjur sem lengi höfðu sótt á mig – manns sem lifir vissulega svolítið fyrir ímyndunaraflið (þ.e. óendanleikann) – um hvernig jörðin er að verða einsleitari, litlausari, og kannski brátt ekki nema skugginn af sjálfri sér. Lífríkið er að skreppa saman. Hverjar verða afleiðingarnar af þeim aldauða sem við, mannkynið, erum að valda, bæði ytra og innra með okkur? Eða tökum við kannski ekki eftir neinu fyrir hávaða? (SN.)


Óskalistinn:

Bjartur hefur gefið út Íslenskar þjóðsögur – úrval, á fallegri bók. (SN.)

Sá að þýskur blaðamaður var að gefa út bók um íslenska myndlist. Hún lítur út fyrir að vera virkilega áhugaverð. (KF.)

 

Af netinu, 12. apríl 2019

Hér er fjallað um nýjan mælikvarða á þjóðarframleiðslu sem tekur tillit til stafrænna gæða.

Grein um söfnun bóka og „ógnina“ sem stafar af tiltektarmeistaranum Marie Kondo.

Eru bækur orðnar vinsæll „fylgihlutur“? Veit ekki hvað mér finnst um þessa þróun.

Hér er gömul en sígild tölfræðileg greining á frægð og frama Justin Timberlake.

Þegar Ray Dalio, stofnandi eins stærsta vogunarsjóðs heims, skrifar langa greinum að það þurfi að bylta kapítalismanum þá er vert að skoða það.

John Gray, góðvinur Leslistans, mælir hér með fimm bókum um trúleysi.

Þorgeir Þorgeirsson setur niður hugleiðingar sínar um August Strindberg, sænska höfundinn.

Hvernig nýtist stærðfræðin við varðveislu listaverka? Betur en ég hefði búist við.

Sá að Sjón, annar góðvinur Leslistans, tvítaði þessari áhugaverðu grein frá Guardian. Í henni er nokkuð hávært shout out á okkar eigin Árna Magnússon.

Flott grein í The New Yorker um mikilvægi „hægrar“ blaðamennsku.

Hvers konar list eru tölvuleikir? Eru tölvuleikir list? Hér er kafað í málið.

Besta ráðið til að auka framleiðni og ná árangri? Að gera ekkert. (KF.)

Bækur, 5. apríl 2019

Kristín Ómarsdóttir er höfundur sem kann að byrja bækur: 

„Í heimi náttúrunnar greina menn sig frá trjám og blómum sem vaxa og dafna í hljóði og falla í þögn. En ef grannt er skoðað er vegur alls sem lifir kannski bara einn.“

Svo hefst Elskan mín ég dey. Og Hamingjan hjálpi mér I og II hefst á þessum línum:

Ég bý sjaldan um rúm. Ég vil ekki fersk sængurver. Í rúminu vil ég finna fyrir dögunum á undan. Fyrir tímanum. Ég vil ekki sterílíseruð rúm þar sem sængin og koddinn eru hrist á morgnana. Ég lifi ekki í ónotuðum heimi.

Aðalpersóna nýjustu bókar Kristínar, Flækingsins, sem hlaut afar góðar viðtökur þegar hún kom út árið 2015, lifir svo sannarlega ekki heldur í ónotuðum heimi; það er mállaus piltur sem á hvergi heima og hírist á jaðri samfélagsins. Ég var að hefja lesturinn og bókin grípur mann strax; ég hlakka til að halda áfram með hana á ferðalagi sem ég á fyrir höndum.

En hvernig endar maður bækur? Jú, í brjáluðu óveðri, eða að minnsta kosti í þykku þokumistri. Þannig skilur lesandinn við Kristmann Guðmundsson, söguhetju Sigurjóns Magnússonar í Borgum og eyðimerkum: skáldsöguum Kristmann Guðmundsson (Bjartur, 2003). Raunveruleg saga Kristmanns Guðmundssonar hefur mér löngum fundist heillandi og dularfull. Hann gat sér ungur skáldfrægð í Noregi, var dáður bæði af lesendum og gagnrýnendum, og þýddur á fjölda tungumála. En hvers vegna sneri hann aftur til fósturjarðarinnar? Og hvers vegna var svo mörgum áberandi Íslendingum þessa tíma svo mjög í nöp við Kristmann?

Það var ekkert nýtt að dylgjað væri um þann orðstír sem [Kristmann] hafði getið sér í útlöndum og honum borið á brýn að frægð hans þar væri tilbúningur einn – enda hefði hann að öðrum kosti aldrei snúið aftur. […] Já, hann furðaði sig satt að segja á því að sér skyldi stundum hafa orðið það á að svara getsökum ókunnugra um feril sinn í Noregi og brugðist allt að því kurteislega við ef hann var spurður hvað hann væri að vilja til Íslands í stað þess að vera þar um kyrrt. Skýringin sem hann gaf þá iðulega var sú að hann hefði aldrei átt annars staðar heima en á Íslandi, og það voru engin ósannindi því öllu flóknara var þetta ekki í huga hans.“ (Bls. 38.)

Saga Kristmanns er í senn glæsileg og sorgleg, hetjuleg og harmræn, og gerir Sigurjón henni góð skil í skáldsögunni. Til að mynda náði Kristmann aldrei sama flugi í skáldskapnum eftir að hann settist aftur að á Íslandi, og hlaust það hugsanlega af því að fjarlægðin við fósturjörðina hafði áður verið honum andlegt eldsneyti: 

Í Noregi var hann sá rithöfundur sem öðrum betur kunni að lýsa kjörum æskunnar og þar naut hann sinnar eigin æsku. Og eins var með heimþrána sem á vissan hátt hafði verið kveikjan að flestum skáldsögum hans meðan hann bjó þar – hann dreymdi á þeim tíma nær stöðugt um eylandið sitt fagra norður í höfum og það hafði hreint ekki verið svo lítils virði fyrir rithöfund að eiga sér slíkan yndisdraum. Nú þegar draumurinn var hins vegar orðinn að bláköldum veruleika virtist honum sem sér væru endanlega allar bjargir bannaðar. (Bls. 62.)

Þungamiðja Borga og eyðimarka eru ritdeilur og málaferli sem Kristmann stóð í gegn Thor Vilhjálmssyni, frænda mínum. Thor hafði ritað heita og innblásna grein í Þjóðviljann í kjölfar þess að Kristmanni hlotnuðust hæstu skáldalaun landsins, og kveðið slíka skáldlaunaveitingu jafngilda því að hrækja í andlitið á hverjum einasta raunverulegum listamanni Íslands og spræna yfir alla þjóðina. Menn kunnu að orða hlutina í þá daga! Getið þið ímyndað ykkur aðrar eins ritdeilur á okkar réttsýnu tímum?

En hvað um bækur Kristmanns sjálfs? Einna þekktust er auðvitað Livets morgen (1929), sem á íslensku nefnist Morgunn lífsins. Sú eina sem ég hef lesið er þó ekki eins þekkt. Árið 2012 stóð hið ágæta bókaforlag Lesstofan – sem maður vonar að láti brátt aftur til sín taka? – fyrir endurútgáfu á sérstæðu verki eftir Kristmann, Ferðinni til stjarnanna, sem upprunalega kom út árið 1959 undir höfundarnafninu Ingi Vítalín og nefnd hefur verið fyrsta íslenska vísindaskáldsagan. Í stórfínum formála að endurútgáfunni lýsir Ármann Jakobsson framvindu hennar svo: „Í Ferðinni til stjarnanna segir frá framhaldsskólakennaranum Inga Vítalín sem finnur hjá sér óstjórnlega þörf til að ganga á Esjuna. Hún reynist vera viðkomustaður lífvera á hærra vitundarstigi, frá jarðstjörnunni Laí. Ingi ferðast síðan með Laímönnum um geiminn, sækir heim ýmsa hnetti og samfélög og fréttir að samfélagi alheimsins stafi ógn af Jarðarbúum sem með grimmd sinni og vanþroska myrði og éti aðrar lífverur og fikti við kjarnorkuvopn og vígbúnað.“ Ég viðurkenni að mér fannst þetta allsérstæð bók – hún heillaði mig ekkert upp úr skónum – en ég hlakka hins vegar til að lesa einn daginn sjálfsævisögu Kristmanns, sem hann ritaði á Íslandi og kom út í fjórum bindum frá 1959-1962 (Ísold hin svarta, Dægrin blá, Loginn hvíti og Ísold hinn gullna), samtals rúmar 1.330 blaðsíður, takk fyrir.

Öllu knappari eru ljóðin í Brjálsemislækjum á fjöllum (Uppheimar: 2015), yndislegu safni ljóða eftir kínverska skáldið Po Chü-i (772-846) sem Vésteinn Lúðvíksson þýddi og tók saman. „Þjóðsagan segir að kínverska skáldið Po Chü-i hafi aldrei lokið svo ljóði – og var hann þó síyrkjandi alla sína daga – að hann læsi það ekki fyrir gamla vinnukonu og helst fleiri en eina. Ef í því reyndist eitthvað sem þær áttuðu sig ekki á, breytti hann því þar til þær voru með á nótunum.“ Það er lóðið: Einfalda, einfalda. Orðin eru tekin úr formála þýðandans að safninu, sem er ákaflega góður ferðafélagi og glæðir ýmis hugartundur: hefur þann eiginleika að fá þann sem les – að minnsta kosti ef það er ég sem les – til að byrja sjálfur að yrkja ljóð.

Síðasta ljóðið – sem nefnist einmitt „Síðasta ljóðið“ og var kannski hinsta ljóð skáldsins? – lýkur svo: Svo þegar þessu daglega gaufi er lokið / leggst ég á koddann og sofna með fésið í suður.

Loks hef ég lesið fyrir dóttur mína ógrynni af barnabókum. Konan mín sækir barnabókamessu í Bologna og við feðgin berumst um aldin stræti með fangið fullt af myndskreyttum gersemum sem hin iðna kona færir okkur. Meðal nýrra meistaraverka sem ég las í vikunni eru Clown eftir snillingin Quintin Blake (sem er, ásamt Joann Sfar og Tove Jansson, einn uppáhaldsteiknarinn minn) og La visite, frönsk þýðing á bók eftir japanska séníið Junko Nakamuro, sem er hreinn galdur. (SN.)

Ég hef verið að lesa Veislu í farangrinum eftir Ernest Hemingway í þýðingu Halldórs Laxness síðustu vikur og ég held að ég sé við það að detta á Hemingway vagninn eftir að hafa verið hálfgerður hater megnið af ævi minni. Ég er nokkuð viss um að ég hafi byrjað á þessum mótþróa þegar ég fékk úthlutaða Farewell to Arms (vinir mínir hafa stungið upp á þýðingunni Bless, bless handleggir sem mér finnst töluvert betri en Vopnin kvödd) í menntaskóla og tekið ákvörðun um að þola hann ekki sem rithöfund – líklega bara til að vera á móti frægum og þekktum rithöfundi sem flestir fíla. Bókin er falleg, forvitnileg og skemmtileg og það sama á eflaust við öll hans höfundarverk. Vildi að ég gæti slegið sautján ára sjálfan mig utanundir. (KF.)


Óskalistinn:

Kristinn Árnason gefur út ljóðabókina Regntímabilið, sem forpanta má hér. Útgáfuhóf miðvikudaginn 10. apríl kl. 20.30 í Mengi. Útgefendur lýsa bókinni svo: „Ljóðabókin er eins konar ljóðræn skýrsla um sérstakt tímabil í lífi manns. Bókin verður til úr ferðalagi höfundar gegnum ár sem einkenndust af óljósum sál-líkamlegum veikindum og innri umbrotum. Bókin er í senn ferðasaga, veikinda- og batasaga, eins konar umbrotasaga meðvitundar, í ljóðrænu formi. Andardráttur tímabils.“ (SN.)

Ég hef oft vísað á bloggið Farnam Street og hlaðvarpið The Knowledge Projectsem kanadíski viskubrunnurinn Shane Parrish heldur úti. Fannst mjög gaman að sjá að það væri væntanleg bók eftir hann í október um það sem hann kallar mental models, þ.e. hugræn líkön við ákvarðanatöku. Vildi að ég gæti þýtt þetta hugtak betur yfir á íslensku en kannski tekst mér það eftir að ég klára þessa bók.

Ég hef bæði mikinn áhuga á tölfræði og list og þess vegna vakti það áhuga minn að sjá að út væri komin bók sem ber titilinn The Art of Statistics. Bókin fjallar reyndar ekkert um list sýnist mér, en hún er engu að síður virkilega forvitnileg. (KF.)

Af netinu, 5. apríl 2019

Eftir að ég lauk námi í New York fyrir um sjö árum síðan starfaði ég stuttlega á fjármáladeild hjá Mary Boone Gallery sem var stýrt af miklum reynslubolta í listbransanum. Mary reyndist á endanum ansi erfiður yfirmaður og ég fann mig knúinn til að hætta störfum hjá henni eftir stutta dvöl. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar hún kenndi mér að forðast „red flags“ hjá skattayfirvöldum, hvernig hún blandaði saman persónulegu fjármálum sínum við bókhald fyrirtækisins og eins allar sögurnar af gamla rafvirkjanum hennar, honum Jean-Michel Basquiat. Svo frétti ég af því nýlega að hún hefði verið dæmd í fangelsi fyrir stórfelld skattsvik. Af því tilefni var skrifaður um hana ítarlegur prófíll í New York Times, sem ég verð að viðurkenna að er ekki alveg samkvæmt sannleikanum (svolítið fegruð mynd af frúnni) en sumt í honum er ansi nærri lagi. Eins og t.d. þessi lína hér: “Her eyes are dark and intense. When she is happy, the gaze is kind enough to reach across an avenue. When she is angry or afraid, it can be hard to meet.

Hér er forvitnileg grein í Guardian um konu sem greinarhöfundur kveður vera raunverulega listamanninn á bak við þvagskálina frægu sem franski listamaðurinn Marcel Duchamp er hvað þekktastur fyrir.

Bubbi Morthens, góðvinur Leslistans, skrifaði lesendabréf í Fréttablaðið í gær sem er alveg virkilega gott og ég vona að sem flestir lesi það. Í því fjallar hann um mótlæti og hvernig hann náði árangri í lífinu þrátt fyrir að gert hafi verið lítið úr honum vegna skrifblindu. Í greininni hvetur hann ungt fólk til dáða eins og honum einum er lagið: “Ungt fólk í tónlistarbransanum hefur sagt við mig í gegnum árin að það vilji frekar nota ensku en íslensku því það vilji ekki láta niðurlægja sig fyrir að nota ekki málið rétt. Þetta er svo sorglegt því íslenskan þolir allskonar bragðtegundir. Hvernig eiga stelpa eða strákur sem ætla að syngja á sínu máli að taka því þegar það er sagt við þau: þú getur ekki skrifað dægurlagatexta eða rappað nema stuðlar og höfuðstafir séu yfir og allt um kring? Ég hvet alla, hvort sem þeir eru skriftblindir eða hafa ekki hlotið menntun og telja sig ekki geta skrifað, til að gefa dauðann og djöfulinn í það. Skrifið eins og enginn sé morgundagurinn. Skrifið á vegginn ykkar á fésinu, á tvitter eða instagram, stígið útúr kassanum, þorið, elskið málið ykkar, skriftina ykkar. Það eina sem skiptir máli er að fólk skilji ykkur.

Svo virðist sem  ungir Bandaríkjamenn séu farnir að stunda töluvert minna kynlíf en jafnaldrar þeirra gerðu hér áður fyrr. Farið er yfir þessa geigvænlegu þróun í fínni grein í Washington Post. Hvernig ætli staðan sé á Íslandi?

Ritstjóri NYRB var látinn fara fyrir ekki svo löngu fyrir að hafa birt grein eftir Kanadískan útvarpsmann sem var sakaður um kynferðislega áreitni. Hér fjallar hann um málið í mjög forvitnilegri grein. Hvað sem manni finnst um kauða og það sem hann gerði sem ritstjóri þá er ég býsna sammála eftirfarandi línu úr greininni: „Silencing people we don’t like will make it easier for others to silence the people we do.

Hvernig skapar maður verðmæti? Ég rambaði á gamla grein eftir tæknifjárfestinn fræga Paul Graham sem svarar þeirri spurningu býsna ítarlega: „Someone graduating from college thinks, and is told, that he needs to get a job, as if the important thing were becoming a member of an institution. A more direct way to put it would be: you need to start doing something people want. You don’t need to join a company to do that. All a company is is a group of people working together to do something people want. It’s doing something people want that matters, not joining the group.

Ég hef verið mikill aðdáandi Michael Jackson alveg frá því að ég man eftir mér. Þess vegna hefur mér fundist býsna erfitt að heyra umræðu síðustu daga eftir að ný heimildarmynd leiðir í ljós að hann hafi að öllum líkindum verið barnaníðingur. Halldór Armand skrifaði á dögunum góðan pistil um málið.

Hvað verður um menningu á internetinu? Eru þetta andstæðar fylkingar? Tyler Cowen, góðvinur Leslistans, veltir þessu fyrir sér í ansi djúpri grein. (KF.)

Óskar Arnórsson sendir Leslistanum góða ábendingu frá New York, um ágætis spjall í héraðssneplinum The New York Times við góðvin Leslistans, ævisagnahöfundinn merka Robert Caro. Tilefnið er útgáfa nýrrar bókar eftir Caro, Working, þar sem hann lýsir aðferðum sínum við skrif og heimildaöflun. Óskar segir meðal annars um viðtalið: „Eitthvað svo undarlegt að sjá einhvern tileinka líf sitt því að skrifa um tvo menn. Lyndon B. Johnson var forseti í fjögur ár, en Caro er búinn að vera 40 ár að skrifa um hann. Uppáhaldssetningin mín? It’s probably the understatement of all time, but I have not rushed these books.“ (SN.)


Augu og eyru:

Hér er mjög gott og virkilega djúpstætt viðtal við rithöfundinn Neil Gaiman um starf rithöfundarins. Það verður reyndar aðeins of ítarlegt þegar hann heldur langa ræðu um hvernig penna og hvernig skrifblokk hann notar við skriftir, en það er reyndar alveg fyndið eftir á að hyggja. Hugsa að þetta sé sérstaklega gaman fyrir aðdáendur hans. Undir lokin fjallar hann um góðvin sinn heitinn, Terry Pratchett, og samstarf þeirra. Mæli með þessu.

Svo hlustaði ég líka á nokkuð sem ég held að hljóti að enda sem eitt allra dýpsta og áhugaverðasta hlaðvarpsviðtal sem rekur á mínar fjörur þetta árið. Í því ræðir hagfræðingurinn Russ Roberts við heimspekinginn Jacob Stegenga um bók hins síðarnefnda, Medical Nihilism. Í bókinni lítur hann gagnrýnum augum á læknisfræðilegar rannsóknir og telur hann að inngrip lækna séu alltof tíð. Ég er harðákveðinn í að lesa bókina eftir að ég hlustaði á þetta viðtal. (KF.)

Mér var bent á Guðmundarkviðu: sögu þjóðar, hlaðvarp þar sem Guðmundur Ingi Þorvaldsson, leikari, leikstjóri og tónlistarmaður lítur sér nær og rannsakar ættarsögu sína sjö kynslóðir aftur til að reyna að komast að því hvort, og þá hvað, af sorgum og áföllum forfeðra hans og og formæðra gætu setið í honum, líkt og segir í lýsingu Ríkisútvarpsins. Við erfum hæfileika, útlit og húmor en getum við erft sorgir og áföll? Ég hlustaði á fyrsta þátt og þetta fer vel af stað. (SN.)

Bækur, 29. mars 2019

Fyrsta ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur, Hnattflug, er afar skemmtileg. Þar ferðast skáldið vítt og breitt um heiminn, um borgir, götur, fjöll, höf og aðra raunverulega staði, í myndrænum og hugmyndaríkum ljóðum. Upphafsorðin hljóða svo: „Systir mín átti upplýstan hnött rafmagnaðan grip og það er trúlega honum að kenna að ég hugsa mér stundum fimmþúsund vatta peru inni í jarðkúlunni þá verður hafið gegnsætt fjallgarðar logandi og örnefni vandlega letruð i litaðan svörðinn.“ Fyrri hlutinn er að mestu helgaður Íslandi en í þeim seinni rötum við út fyrir landsteinanna. Um helgina flýg ég til Bologna á Ítalíu, til að sækja þar barnabókaráðstefnu, og þá rifjast einmitt upp fyrir mér að þarna leynist ljóð helgað Bologna, litað skemmtilegum hryllihúmor: Himinninn yfir Bologna / er klofinn / af einum og hálfum turni / þann heila / hef ég klifið / í hitabylgju / og hugsað um / allar sjálfsvígstilraunir / veraldar / sá stutti / er aftur skakkur / meiðslin / taka mið af því / hvorum megin er stokkið. Takk fyrir það, Sigurbjörg – ég hlakka til að virða fyrir mér þessa merkilegu turna.

Amy Hempel, bandarískur smásagnahöfundur, skrifar um kollegu sína, Joy Williams, annar flinkan smásagnahöfund – sem er raunar einnig ágætur ritgerðasmiður, líkt og Hempel bendir á í greininni. Til umfjöllunar er esseyjusafnið Ill Nature: Rants and Reflections on Humanity and Other Animals. Þar bendir Williams til að mynda á hvernig við erum öll, beint eða óbeint, meðsek í útrýmingu dýralífsins (sem velmegunarværir neytendur), og nefnir til skýringar að stöðugt sé verið að reisa nýja símastaura í þúsundavís og að þeir verði milljónum söngfugla, sem fljúga í ógáti inn í línurnar, að aldurtila; þar með er hvert og eitt okkar samsekt í dauða þeirra, jafnvel þó að við séum ákafir dýravinir og sitjum kannski einmitt heima í stofu við að horfa á hugvekjandi heimildarmynd um ágæti og fegurð fugla og hversu illa mennirnir fari með þá. Báðar hafa þær stöllur, Hempel og Williams, gefið út vinsælar bækur með úrvali sagna sinna: Hempel The Collected Stories fyrir allmörgum árum (þá fann ég einu sinni í kiljubroti á stigaþrepi í Brooklyn og heillaðist ekkert sérstaklega af innihaldinu) og Williams hina frábæru en svolítið þungu The Visiting Privilegue, við afar góðan róm, árið 2015.

Í Þjáningarfrelsinu: Óreiðu hugsjóna og hagsjóna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur lýsa höfundarnir fjölmiðlaumhverfi samtímans á Íslandi og tæpa einnig á stöðunni á heimssviðinu. Ýmsir spekingar eru teknir tali, til að mynda fjöldamargir vísir karlar af miðjum aldri eða jafnvel visnir af elli, og mér finnst hálfgerður ljóður hversu mikið púður þeir setja í að rekja gamlar frægðarsögur af sjálfum sér; það áhugaverðasta við bókina er nefnilega að hún kafar aðeins, en þó aldrei af alveg fullnægjandi dýpt, í þann vitsmunalega öldudal sem íslensk samfélagsumræða og fjölmiðlar hírast í um þessar mundir, meðal vegna peningaskorts og (skiljanlegum) flótta úr blaðamannastéttinni, þar sem gnægð af yfirborðskenndu efni er framleidd í snarhasti, en ekkert tóm gefst lengur til ígrundaðri úrvinnslu og túlkunar. (Þá er menningarblaðamennska nær útdautt fyrirbæri, líkt og hinn frábæri menningarblaðamaður, Kristján Guðjónsson, bendir á í greinarstúf í bókinni.) Þetta er hið ágætasta yfirlitsrit um íslenskan fjölmiðlaheim á 20. öldinni og hvernig sá heimur hefur hrunið og þurrkast út á síðustu árum, sem bitnar tilfinnanlega á vitsmunalegri umræðu í samræðunni og gæðum ritaðs máls á íslensku. Því miður hillir ekki undir bjartari framtíð og því er þetta nokkuð deprímerandi lesning, svo maður segi það bara hreint út. RÚV er gegnumgangandi ljós í myrkrinu.

Ekki gerist það oft að maður lesi hvert einasta útgefna blaðsnifsi eftir höfund; í mínu tilviki gildir það þó um verk Davids Foster Wallace. Hann er í senn óþolandi og yndislegur höfundur, og saga hans bæði heillandi og tragísk. Á kjagstrúti í líkamsræktarstöð brenndi ég í nokkrum skorpum gegnum Conversations with David Foster Wallace – fyrirtak alveg hreint að lesa viðtalsbækur kófsveittur á ýmist kjagstrúti eða hlaupabretti – og hafði auðvitað gaman af því. Það hefur verið í tísku síðustu árin að gera grín að aðdáendum Davids Foster Wallace, einkum ungum karlmönnum sem rogast út um allar koppagrundir með hina tæplega 1.200 blaðsíðna Infinite Jest, og komast aldrei nema hundrað blaðsíður inn í verkið, en hampa henni frekar sem eins konar tískugrip, nota hana sem ábendingu til umheimsins um að þeir séu djúpar verur. En svo eru aðrir sem hafa einfaldlega lesið bækur Wallace og heillast af þeim. Í viðtölunum, sem líða, sameinuð á bókarformi, að einhverju leyti fyrir endurtekningar, er farið í saumana á lífi og hugðarefnum Wallace; uppeldi á heimili með bókhneigðum og brillíant foreldrum, heimspeki og stærðfræði, þunglyndi og grasreykingum, tennis, ofurnámsmannskomplexum, skyndilegri frægð sem hlotnaðist Wallace ungum eftir að annað tveggja lokaverkefna hans í Amherst College, skáldsagan The Broom of the System, var gefin út og vakti bæði athygli og góða dóma, drykkju og dvöl á geðspítala, peningaströggl, ritlistarkennslu, auglýsinga- og markaðsumhverfið sem dempar okkur hugsanlega svolítið tilfinningalega og gerir lítið úr mannlegri reisn, sjónvarpsglápi, internetinu – og svo framvegis. Mæli með þessu viðtalasafni fyrir djúpt sokkna aðdáendur. Þeir sem ekkert hafa lesið eftir Wallace ættu að byrja á bókinni A Supposedly Fun Thing I’ll Never Do Again: Essays and Argument, og helst vaða beint í titilritgerðina, sem er í miklu uppáhaldi (reyndar nokkur ár síðan ég las hana).

Og fyrst viðtalsbækur ber á góma: á fjörur mínar rataði Stríð og söngur: Sex skáld segja frá, ansi læsileg og fín bók sem Matthías Viðar Sæmundsson sendi frá sér árið 1985. Þar hafa orðið Guðrún Helgadóttir, Indriði G. Þorsteinsson, Matthías Johannessen, Álfrún Gunnlaugsdóttir, Thor Vilhjálmsson og Þorsteinn frá Hamri. „Tilgangur viðtals- eða samtalsbókar er að draga upp mynd af manneskju með sitt einstæða líf, sköpun, einmanaleika og samneyti,“þannig fylgir Mattías Viðar lesandanum úr hlaði, og gott ef honum ferst þetta ekki ágætlega úr hendi sjálfum. Ég hafði sérstaklega gaman af því að lesa kaflann um Thor Vilhjálms frænda minn, en ekki síður hlutann um Indriða G. Þorsteinsson, sem skrifaði t.d. 79 af stöðinni (sú kom nýverið út á ensku sem Cab 79, með formála eftir son skáldsins, Arnald Indriðason). Mig langar að leyfa Indriða að eiga hér lokaorðin (bls. 39): „Ég trúi lítt á manneskjuna. Eins gæti ég trúað á hest. Eða kind. Engu að síður er mér annt um náungann af því hann er maður eins og ég. […] Fánýtiskennd hefur ekki þjakað mig af því ég hef aldrei ímyndað mér að maðurinn væri annað en það sem hann er. Þróað rándýr sem étur frændur sína af stofni spendýra. Hann spáir í nágrenni sitt og þykist mikill af. En hann veit ekki neitt og er ekki guðdómlegur þótt hann telji sér trú um að svo sé. Allt líf mitt hefur mótast af þessu viðhorfi.“ (SN.)


Óskalistinn:

Það þykir ansi vinsælt að rakka niður kvikmyndagerðarmanninn Michael Bay sem er þekktur fyrir Transformers myndaflokkinn, Armageddon, The Rock og fleiri stórvirki. Sá að út væri komin bók sem lofsamar höfundaverk hans, sem mér fannst ansi hressandi að sjá.

Svo fannst mér frábært að sjá að einn af mínum uppáhalds hagfræðingum, Branko Milanovic, er að fara að gefa út nýja bók sem nefnist Capitalism, Alone. Af efnisyfirlitinu að dæma verður þetta mjög forvitnileg lesning. (KF.)