Bækur, 7. desember 2018

Í síðasta Leslista nefndi ég að ég væri flytjast í nýtt húsnæði og þess vegna að taka upp úr bókakössum þessa dagana. Það minnti mig á grein sem fjallar einmitt um tilfinningarnar og minningarnar sem vakna við að taka upp úr gömlum bókakössum. Ég gerði hins vegar þau mistök að ég fór rangt með nafn höfundar þessarar ritgerðar. Ég sagði að hún væri eftir Stefan Zweig, þegar hið rétta er að hún er eftir Walter Benjamin. Enginn annar en ofannefndur Gyrðir Elíasson sendi okkur línu og leiðrétti misskilninginn og þakka ég honum kærlega fyrir ábendinguna. Svo fatta ég það þegar ég er búinn að taka megnið af bókunum mínum upp úr kössunum að þessi ritgerð er til í góðri íslenskri þýðingu Jóns Bjarna Atlasonar í bókinni Fagurfræði og miðlun þar sem safnað hefur verið saman úrvali greina eftir Benjamin undir ritstjórn Benedikts Hjartarsonar. Ég hef átt þessa bók í mörg ár og skil ekki af hverju ég gleymdi henni – og enn síður af hverju ég ruglaði þessum ágætu rithöfundum saman. Það er engum mönnum hollt að vera aðskilinn bókasafninu sínu í langan tíma. Nú finn ég loks að ég get andað léttar, lesið og lifað betur. Hér er ágæt lína úr þessari góðu grein Benjamin sem ég er nokkuð sammála:
„Til fallegustu minninga safnarans telst hins vegar það augnablik þegar hann kom bók til bjargar – sem hann hafði jafnvel aldrei hugsað um og hvað þá dreymt um að eignast – vegna þess að hún lá svo umkomulaus og yfirgefin á opnum markaði, og keypti hana til að veita henni frelsi, líkt og í ævintýrinu í Þúsund og einni nótt þegar prinsinn kemur fallegu ambáttinni til bjargar. Fyrir bókasafnarann er nefnilega hið sanna frelsi allra bóka einhver staðar á hillum hans.“ (KF.)

Ég er á ferðalagi um Mexíkó og seildist því eftir bókmenntum sem þaðan eru upprunnar – þannig lágu leiðir okkar Guadalupe Nettel saman. Það er alltaf jafn gaman að uppgötva nýjan höfund sem höfðar til manns. Skáldsaga Nettel, sem í enskri þýðingu nefnist After the Winter, fannst mér afar bitastæð. Ekki spillir að sögusviðið er einkum tvær borgir sem ég þekki vel: New York og París. Galdur Nettel er hversu rólyndislega hún vefur sögu sína, og það af fádæma öryggi og hlýju, og hversu flink hún er að lýsa sögusviði, magna upp stemningu og búa til persónur. Mikill happafundur.

Um leið og ég lauk við After the Winter kannaði ég hvort góðir menn hefðu ekki unnið það þjóðþrifaverk að þýða fleiri verk eftir Nettel yfir á ensku – og jú, ég hafði heppnina með mér. Smásagnasafnið Natural Histories stendur fyrrnefndri skáldsögu kannski ekki alveg á sporði, en er þó stórfínt. Sögurnar hverfast einkum um sambönd manna og dýra, og draga á lúmskan hátt fram líkindin á milli okkar og dýranna. Einkum finnst mér eftirminnileg önnur sagan, sem fjallar um glímu fjölskyldu einnar við kakkalakka sem gera innrás á heimilið. Næst hlakka ég til að lesa þriðju ensku þýðinguna á bók eftir Nettel, The Body Where I Was Born. Þangað til ég kemst yfir hana er ég (loksins) að lesa hina klassísku The House on Mango Street eftir hina mexíkósku/bandarísku Söndru Cisneros, bók sem fór víða á sínum tíma og er skrifuð í stuttum, ljóðrænum köflum.


 

Óskalisti Leslistans:

 

Ég sá auglýsta nýja bók um myndhöggvarann Einar Jónsson sem vekur áhuga minn. Hann er einn af mínum uppáhalds íslensku listamönnum og saga hans er alveg hreint ótrúleg. Ég mæli líka með sjálfsævisögu hans, Minningar/Skoðanir, sem er alveg hreint stórskemmtileg.

Bandaríski rithöfundurinn Cal Newport gefur á næstunni út bók sem nefnist Digital Minimalism og fjallar um það hvernig hægt er að lifa eðlilegu og uppbyggilegu lífi án þess að láta samfélagsmiðla og önnur stafræn tól stjórna manni. Eflaust holl lesning fyrir marga – mig með talinn. (KF.)

Í skemmtilegu litlu bókasafni í Mexíkóborg, Aeromotto, rak ég augun í verk sem ég verð að eignast – Wildwood Wisdom eftir Ellsworth Jaeger. Bókin kom fyrst út árið 1945 og geymir meðal annars leiðsögn í því hvernig best sé að tendra bálköst, sigla kanó, nota exi og hníf, og búa til skjólshús úr því sem hendi er næst hverju sinni. Ef ég fæ þessa í jólagjöf verð ég glaður og sæll. (SN.)

 

Af netinu, 7. desember 2018

Tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna voru tilkynntar í vikunni. Tilnefningar í flokki fagurbókmennta voru vægast sagt … fyrirsjáanlegar. Mætti ekki hætta sér út úr hinum lygna meginstraumi á næsta ári?

Talandi um íslenskar bókmenntir: Svikaskáldin góðu fjalla á skemmtilegan hátt um nýjar íslenskar bækur á Facebook-síðu sinni.

„22 September 1962: Ted [Hughes] beat me up physically a couple of days before my miscarriage: the baby I lost was due to be born on his birthday.“
Út er komið safn með bréfaskrifum Silviu Plath. Hér er fjallað um útgáfuna í The Times Literary Supplement. (SN.)

New York Times hefur tekið saman lista yfir 10 bestu bækur ársins.

Og bókavefurinn Millions hefur tekið saman árið 2018 í bókalestri.

Svo er hérna annar góður listi. Það er listi frá Literary Hub yfir mest seldu bækur síðastliðinna 100 ára. Alveg sérstaklega eftirtektarvert hvað margir metsöluhöfundar fyrri ára hafa fallið í gleymskunnar dá.

Blaðamaðurinn Jason Zweig tekur hér saman ráðleggingar um skrif í þremur góðum og gagnlegum greinum. Fróðleg og skemmtileg yfirferð.

Heimspekingurinn John Gray spjallar við Rowan Williams um trú og trúleysi. Stórskemmtileg lesning frá upphafi til enda. Hnaut um eftirfarandi setningu sem rammar skemmtilega inn hugmyndir Gray um trúleysi:
„Most of the central traditions of atheism have been a continuation of monotheism by other means. Certain beliefs are rejected but the way of thinking that monotheism embodies can still go on in other ways. For example, pretty well all contemporary atheists subscribe to a view of the world in which humankind has some of the functions of the deity that they’ve got rid of, because they imagine that there’s something you could call humanity or humankind that acts as a sort of collective moral agent.“

Áfram um trúmál. Við höfum nokkrum sinnum hlekkjað í pistla vinar okkar, Halldórs Armand, á þessum vettvangi. Nýjasti pistillinn fjallar með beinum og óbeinum hætti um hið ríka erindi sem kristin hugmyndafræði á við okkar samtíma, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Mæli með þessum pistli – og öllum öðrum pistlum eftir hann. (KF.)

Hér eru skemmtilegar vangaveltur um eina af mínum uppáhalds bókabúðum – Strand í New York.

Svo eru hérna mjög gagnlegar ráðleggingar um hvernig maður á að vinna í skapandi verkefnum samhliða fullu starfi. (KF.)

Skordýrin eru að hverfa. Hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur hin?

Einhvers staðar las ég að 95% mannkyns andi dagsdaglega að sér lofti sem sé heilsuspillandi. Hér segir að loftmengun stytti líf okkar meira en nokkur annar áhrifavaldur.

Skemmtileg grein um hinn frábæra höfund og myndlistarmann Edward Gorey í The New Yorker. Tilefnið er ný ævisaga um Gorey, raunar sú fyrsta sem rituð er um hann – og alls ekki hnökralaus ef marka má yfirferð greinarhöfundar. (SN.)


Til að hlusta á:

Ég rakst á nýtt hlaðvarp, Library Talks, sem haldið er úti af The New York Public Library. Mjög skemmtilegt. Ekki spillir að í þættinum, sem ég hlustaði á, var rabbað við hinn ágæta John McPhee. Nýlega kom út bók með safni fyrri skrifa hans, The Patch, sem hlotið hefur góðar viðtökur. McPhee er allt að því goðsagnakenndur penni innan herbúða The New Yorker og af mörgum talinn einn mesti nonfikstjón-höfundur Bandaríkjanna á síðustu öld. Ég mæli með Draft nr. 4 fyrir þá sem hafa áhuga á hvers kyns ritstörfum.

Ráðunautur Leslistans: Þórdís Helgadóttir

svikaskald_5

Þórdís Helgadóttir sendi á dögunum frá sér smásagnasafniðKeisaramörgæsir. Hún hefur áður birt smásögur, örsögur og aðra texta í ýmsum tímaritum, og gaf árið 2016 út litla og fallega bók, Út á milli rimlanna. Leikverk Þórdísar Þensla verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu í janúar 2019. Einnig er hún hluti af skáldahópnum Svikaskáld. Ég lagði nokkrar orðasnörur fyrir Þórdísi og útkoman fylgir hér að neðan. — Sverrir Norland

Stígðu hjartanlega velkomin hingað til okkar inn í ráðuneyti Leslistans, kæra Þórdís, það gleður okkur að fá þig til liðs við okkur. Gráupplagt að sitja á gólfinu í lótusstellingu eða þá þú getur lagt undir þig brúna sófann, þar er góð lesbirta og snarpheitt te innan seilingar. Gulrótarkakan er svo inni í ofninum, þetta er ný uppskrift sem ég er að prófa, nóg af engifer.

Fyrst langar mig að vita hvort þú sért að lesa eitthvað eftirminnilegt þessa dagana, bók eða annan texta sem þig langar að deila með fróðleiksfúsum áhangendum Leslistans?

Takk fyrir boðið! Kakan ilmar dásamlega!

Það minnir mig á það þegar ég var á Ítalíu fyrir stuttu og borðaði pistasíuís og ætiþistla og las einmitt svo stórkostlega bók: Ritgerðasafnið Litlu dyggðirnar — The Little Virtues / Le piccole virtú — eftir Nataliu Ginzburg. Ginzburg var virtur ítalskur höfundur, aktívisti og seinna þingmaður. Hún er hérna að skrifa um eigið líf, rithöfundarstarfið, móðurhlutverkið, barnauppeldi og hvernig manneskjur breytast við það lifa af stríð, en hún bjó ásamt eiginmanni sínum um tíma í útlegð áður en hann var pyntaður til dauða fyrir að taka þátt í andspyrnu gegn fasismanum. Titillinn vísar í það hvað við ættum að vera að kenna börnunum okkar, ekki litlu dyggðirnar heldur hinar stóru: Veglyndi fram yfir hagsýni, hugrekki fram yfir varkárni, mannkærleik fram yfir kurteisi. Þessi bók er bara algjör negla, atmósferísk en heiðskír, tímabær og tímalaus, hjartnæm, beitt og djúp. Á hverri blaðsíðu er eitthvað sem talar til mín og á einhvern undraverðan hátt er eins og textinn sé skrifaður í gær en ekki fyrir hálfri öld.

Þar er ég þér sammála, ég las þessa bók einmitt fyrir ekki svo ýkja löngu. Kápan er skemmtilega appelsínugul, ef ég man rétt. Og hvað fleira?

Uppgötvun ársins er kannski The Water Cure eftir Sophie Mackintosh, ungan höfund sem flaug beint inn á Man Booker longlistann með frumraunina. Óvenjuleg og einstök dystópía sem magnar upp stemningu sem lifði með mér vikum og mánuðum saman eftir lesturinn. Eiginlega langaði mig til að borða þessa bók, eins og drengurinn sem fékk bréf frá Maurice Sendak og var svo ánægður með það að hann át það.

Svo hef ég verið að lesa ógrynni af leikritum undanfarna mánuði og hef eignast mörg ný uppáhaldsleikskáld. Duncan Macmillan og Caryl Churchill standa upp úr.

Ég verð líka að fá að nefna eina ljóðabók en Calling a Wolf a Wolf eftir Kaveh Akhbar hafði djúp áhrif á mig þegar ég las hana í sumar. Stórfengleg bók. Lesið bara Orchids are sprouting from the Floorboards.

Þú varst að gefa út bók með smásögum, og þar sem ég er mikill aðdáandi og stuðningsmaður þess góða forms langar mig svolítið að vita hvort þú eigir þér einhverja eftirlætis-smásagnahöfunda og/eða -bækur?

Já! George Saunders!

Svo ég bakki um einn þá hef ég smám saman orðið hrifnari af knöppum formum. Kannski tengist það því að ég á tvö lítil börn svo tíminn er dálítið tvístraður núna, en svo er það líka bara glíman við hömlurnar sem getur oft orðið svo frjó. Góð smásaga (eða góð stuttmynd ef út í það er farið) er svona eins og vel heppnað popplag. Eða vel heppnuð máltíð. Frekar en heilt ferðalag. Fullkomin lítil heild með sína eigin laglínu og stemningu, heill heimur teiknaður upp með nokkrum strikum.

Ég les smásögur skelfilega ómarkvisst. Skemmtilegast finnst mér að fá tímarit inn um lúguna og lesa sögurnar án þess að vita einu sinni deili á höfundunum. Reyndar vil ég yfirleitt vita sem minnst og les t.d. aldrei aftan á bækur. Smásagnahöfundar sem ég er skotin í eru til dæmis Julio Cortázar, áðurnefnd Sophie Mackintosh, Joyce Carol Oates, Roxane Gay og James Salter. En mest er ég samt skotin í George Saunders. Lesið þið bara Sea Oak og reynið að skemmta ykkur ekki! Kannski er ég bara svona barnalegur lesandi en ég heimta að mér sé skemmt. Og Saunders, ofan á það að vera frumlegur, fyndinn, skarpur og með risastórt hjarta, er bara svo fáránlega skemmtilegur höfundur.

Akkúrat núna er ég svo einmitt með þrjú girnileg smásagnasöfn úr jólabókaflóðinu á náttborðinu: Ástin Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Ég hef séð svona áður eftir Friðgeir Einarsson og Kláði eftir Fríðu Ísberg.

Aldeilis fínt. Og ekkert að því að láta skemmta sér, mér finnst George Saunders líka mjög skemmtilegur, en þó eru sögurnar hans oft svolítið ógnvekjandi líka, eða finnst þér það ekki? Einkum til að mynda fyrsta bókin hans, CivilWarLand in Bad Decline? Það er alltaf broddur í sögunum hjá honum, mér finnst hann ná að sameina ádeilu, jafnvel heimsósóma-predikanir, og skemmtun, grín — og svo áminningu um að við séum ennþá (og verðum alltaf) manneskjur, að við þörfnumst nándar og innileika í heimi sem verður sífellt tæknivæddari og eftir því stundum kaldranalegri, ópersónulegri. Er það ekki svolítið galdurinn hjá honum?

Jú! Ekki spurning. Hann er flugbeittur satíristi og stórkostlegur húmanisti. Fólk er gjarnt á að líkja honum við Vonnegut, sem mér finnst að mörgu leyti vel til fundið.

Já, eflaust nokkuð til í því, þó mér finnist Saunders reyndar talsvert fjölhæfari höfundur en Vonnegut (að honum ólöstuðum), fleiri litir í pallettunni…

Sjálfum finnst mér smásagnaformið — eða jafnvel „skáldsögur í hæfilegri lengd,“ eins og ég hef aðeins verið að skrifa upp á síðkastið — tilvalið form handa tættum foreldrum, og raunar almennt séð handa slæptu nútímafólki. Getur verið að smásagan (og nóvellan) sé í sókn á Íslandi? Fullt af smásgnasöfnum að koma út …

Já, klárlega. Og kominn tími til. Smásögur eru kúl! Eins og bæði Suður-Ameríka og Norður-Ameríka hafa til dæmis vitað lengi. Nóvellur líka. Eiginlega finnst mér bara frekar skrýtið að skáldsagan sé eins ráðandi form og raun ber vitni. Ég elska skáldsögur en þær eru svo langt frá því að vera endilega aðgengilegasta eða skemmtilegasta formið fyrir lesendur, að mínu mati. En jú, það er gróska í íslenskum smásögum og það er gaman. Þegar ég var að byrja að skrifa fyrstu sögurnar í Keisaramörgæsum bauðst mér að birta sögur annars vegar í ritröðinni Meðgöngumál frá Partus Press og hins vegar í vefritinu Skíðblaðni á vegum Tunglsins (þar sem þú komst sjálfur við sögu sem ritstjóri og höfundur!) — hvorttveggja verkefni með þann yfirlýsta tilgang að rækta og lyfta smásögunni. Það var bæði hvetjandi og inspírerandi.

Já, sællar minningar — gaman að heyra það.

Hvenær vaknaði hjá þér áhugi á að skrifa? Manstu eftir að hafa uppgötvað einhvern söguheim, eða annan höfund, sem kveikti á slíkri löngun?

Ég skrifaði alltaf frá unga aldri, eða ölllu heldur var ég alltaf að byrja á sögum sem ég kláraði svo aldrei. Einhvers staðar á ég í stílabókum hálfkláraða en afar metnaðarfulla glæpasögu í anda Agöthu Christie, sem var uppáhaldshöfundurinn minn þegar ég var 11 ára. Fljótlega upp úr því kynntist ég Stephen King og gleypti hann í mig. Á einhverjum tímapunkti uppgötvaði ég svo töfraraunsæi, valdi Hús andanna úr bókasafnshillu út af kápunni og skildi reyndar lítið í bókinni en hún kveikti samt á einhverju í kollinum á mér. Fyrst bækur gátu verið svona þá fannst mér að þær ættu klárlega að vera svona. Og fann að svona langaði mig að búa til.

Síðan kláraði ég ekki að skrifa heila sögu fyrr en einhvern tíma um eða eftir þrítugt. En það er önnur saga.

Hvaða bók hefurðu oftast gefið öðrum?

Tiny Beautiful Things eftir Cheryl Strayed. Áður en hún meikaði það með sannsögunni Villt var þessi dásamlegi höfundur með vandamáladálk sem hét Dear Sugar. Í þessari bók er bestu bréfunum safnað saman og Cheryl leysir öll vandamál heimsins. Hún er svo vitur og heiðarleg að ég grét margsinnis í strætó og keypti síðan lager af bókinni til að gefa.

Ég hef líka stundum gefið Department of Speculation eftir Jenny Offill: „Ég ætlaði aldrei að giftast. Ég vildi frekar verða listaskrímsli. Konur verða næstum aldrei listaskrímsli vegna þess að listaskrímsli sinna engu nema listinni, aldrei hversdagslegum hlutum. Nabokov gekk ekki einu sinni frá sinni eigin regnhlíf. Vera sleikti fyrir hann frímerkin.“

Ég þekki ekki þá Tiny Beautiful Things — mun bæta úr því — enDepartment of Speculation er frábær og þessi tilvitnun hjá þér … einmitt! Ég á meira að segja ókláruð drög að skáldsögu þar sem þessi orð eru „inngangsmottó“. Og mig langaði alltaf svo að þýða hana … nema kannski þú verðir fyrri til?

En gaman! Ég er líka alveg til í að gera það í samstarfi, þá verðum við helmingi fljótari!

Áttu þér uppáhaldsskáldsögu?

Jesús! Uppáhalds getur merkt svo margt ólíkt, veistu hvað ég meina? Í einhverjum skilningi er það Meistarinn og Margaríta, í einhverjum skilningi Söngvar SatansCloud Atlas eftir David Mitchell eða The White Hotel eftir D.M. Thomas. Það koma samt ótalmargar aðrar til greina, sumar bækur eru kannski greinilega meingallaðar en standa hjarta manns á einhvern hátt nærri. Það er gaman að spá í þetta.

Einmitt — ég held að mér hafi aldrei líkað bók nema hún sé meingölluð.Hlustarðu líka á hljóðbækur?

Nei, ég á óskaplega erfitt með að halda þræði í gegnum heila hljóðbók. Ég þarf helst að hafa prentgrip í höndunum til að horfa á, eða í versta falli raftæki. Aftur á móti nýt ég þess að hlusta á útvarpsþætti og podköst. Ég held t.d. mikið upp á Í ljósi sögunnarS-town og The New Yorker Fiction Podcast, sem er frábært prógramm helgað smásögum.

Já, ég hlustaði afturábak á allt New Yorker-hlaðvarpið nokkrum árum, þegar ég bjó í París og eigraði þar angistarfullur um göturnar, drakk tólf espressóa á dag og borðaði ekkert nema dísætar eplamuðlur — upprennandi smásagnahöfundar gætu sjálfsagt gert margt vitlausara (þ.e. en að hlusta á hlaðvarpið; ég mæli frekar með öðru mataræði).

Tólf! Ég var mest í svona 7–8 espressóum þegar ég bjó í Bologna og var ung með sterkan maga. En ekki lengur.

En í hvers konar umhverfi finnst þér best að lesa, Þórdís? Í strætó, í sundlaug, uppi í sófa, við stýrið á rauðu ljósi?

Strætó fyrir allan peninginn!

Bækur, 30. nóvember 2018

Fullorðinsbækur:

Nú var ég loksins að flytjast í húsið mitt eftir að hafa dvalið hjá tengdaforeldrum mínum í átta mánuði. Ég mun verja helginni í að taka upp úr bókakössunum mínum sem ég hef saknað ógurlega síðustu mánuði. Mér var þá hugsað til þessarar fallegu greinar eftir Stefan Zweig sem fjallar einmitt um þetta, tilfinningarnar og minningarnar sem flæða um mann þegar maður tekur upp úr rykföllnum bókakössum. Þessa grein er að finna í enskri þýðingu í ritgerðarsafninu Illuminations sem ég mæli mikið með.

Ég rambaði í vikunni á fáránlega áhugaverða síðu á vegum CIA þar sem njósnadeildin bandaríska birtir ýmis upplýsingarit um njósnir og skilvirka upplýsingaöflun. Það sem mér fannst einna áhugaverðast að finna þar var bók um „njósnasálfræði“ eða Psychology of Intelligence Analysis. Ég hef aðeins blaðað í henni (enda leiðinlegt að lesa langan texta af síma eða tölvuskjá) en finnst hún bæði áhugaverð og gagnleg þrátt fyrir að ég starfi ekki sem njósnari (ennþá). Ég staldraði sérstaklega við fyrsta kaflann sem ber titilinn Thinking About Thinking og fjallar einmitt um hvernig maður á að fara af því að þroska og betrumbæta það hvernig maður hugsar.

Ég vil helst ekki dæma bækur áður en ég klára þær í heild sinni (fyrir utan að lýsa yfir áhuga mínum) en ég má til með að segja nokkur orð um bókina Factfulness eftir Hans Rosling sem ég byrjaði á fyrir nokkrum dögum. Hún hefur verið lofuð í hástert síðan hún kom út fyrr á árinu – áðurnefndur Bill Gates talaði t.d. um að hún væri ein besta bók sem hann hefði lesið. Markmið bókarinnar er fyrst og fremst að benda á nokkrar staðreyndir um stöðu heimsins sem sýna fram á að hann sé að þróast til betri vegar. Bókin er virkilega vönduð og vel skrifuð (byrjar þannig allavega) og fær mann svo sannarlega til að horfa bjartari augum á stöðu mála á heimsvísu. Mér finnst t.d. alveg sláandi að sjá hvað það hefur dregið mikið úr fátækt í heiminum á síðustu áratugum. Eftir sem áður er ég ekki sannfærður um að heimurinn sem slíkur sé að þróast í átt til betri vegar. Ég trúi því að maðurinn geti stuðlað að framförum á sviði tækni og vísinda en ég held að mannlegt eðli sé mjög torbreytanlegt – þ.e. að mannskepnan verði jafn grimm og jafn góð eftir 100 ár og hún var fyrir 100 árum síðan. Þannig eru allar framfarir í eðli sínu afturkræfar og ekki hægt að gera ráð fyrir að þær endist – en það er vissulega enn betri ástæða til að berjast fyrir þeim. Ég ætla að klára bókina áður en ég felli lokadóm um hana. Held því líka til haga að það er öllum mönnum hollt að lesa efni sem maður er ósammála. Mig grunar að ég komi klárari úr þessum lestri í hið minnsta. (KF.)

Út er komin snotur, lítil bók, eftir eftirlætishöfundinn minn, hinn argentíska Cesar Aira, og nefnist í enskri þýðingu On Contemporary Art, gefin út af David Zwirner Books. Aira lýsir dálæti sínu á list og liststefnum, og einkum listtímaritum, og veltir vöngum yfir stöðu listarinnar í samtímanum – á sinn einstaka hátt. (SN.)

 

 

Barnabækur:

Door eftir eftir suður-kóreska teiknarann og höfundinn Jihyeon Lee rataði á fjörur mínar í vikunni – og er algjörlega stórfengleg. Teiknistíllinn er mjög sérstakur, í senn aðlaðandi og framandi – og sagan, sem sögð er án (skiljanlegra) orða, heillandi. Bók í sérflokki.

Þá keypti ég aðra barnabók, sem ég hafði fyrst tekið á bókasafninu en vildi eignast: Extra Yarn eftir Mac Barnett, með teikningum eftir Jon Klassen. Þeir félagar hafa unnið að nokkrum bókum í samstarfi og hlotið fyrir lófatak og viðurkenningar. Í Extra Yarn finnur Annabelle litla öskju með lopa í öllum regnbogans litum og tekur að sauma peysur á alla í þorpinu sínu – og síðan einnig á dýrin þar, húsin, trén. Lopinn virðist aldrei þrjóta. Þetta er afar falleg og eftirminnileg bók, með fléttu sem gengur upp á órökrænan hátt, eins og svo margt í góðum skáldskap. (SN.)

 

 

Óskalisti Leslistans:

 

Ég hef haft gaman af því að lesa það sem stærðfræðingurinn Steven Strogatz hefur frá að segja. Þess vegna fannst mér gaman að sjá að það er væntanleg bók eftir hann sem nefnist Infinite Powers og fjallar um undraheima stærðfræðinnar.

Ég minntist á tvær greinar eftir vísindamanninn Laslo Barabasi í síðasta lista. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig ég fór að því að uppgötva þennan áhugaverða mann. Upp úr þurru byrjaði hann að elta mig á Twitter fyrir nokkrum mánuðum síðan og ég hef í kjölfarið farið að lesa mér til um ýmislegt sem hann hefur gert. M.a. tók ég eftir því að hann gaf nýlega út bók sem nefnist Formula – Universal Laws of Success sem lítur út fyrir að vera helvíti áhugaverð.

Talandi um flókin kerfi, stærðfræði og tölur. Miðað við Amazon körfuna mína þessa dagana virðist það vera það eina sem mér er hugleikið. Ég hnaut t.d. um þessa bók hér sem er nýútkomin og er kennslurit um „flókin kerfi“ (e. complex systems). Ég er alveg viss um að ég muni ekki skilja neitt í henni ef ég fæ hana í hendurnar – en mér finnst hún samt fjári áhugaverð. (KF.)

Titillinn á The New Dark Age: Technology and the End of the Future, nýrri bók eftir James Bridle, höfðar afar sterkt til mín. Eitthvað handa öllum þeim sem óttast að tæknin muni hugsanlega með tímanum gera – eða hafi jafnvel nú þegar gert – okkur að einsleitari og glámskyggnari dýrategund. Úr lýsingu frá Verso-útgáfunni: „As the world around us increases in technological complexity, our understanding of it diminishes. Underlying this trend is a single idea: the belief that our existence is understandable through computation, and more data is enough to help us build a better world.“ Í myndböndunum, sem fylgja hlekknum hér fyrir ofan, ræðir Bridle meðal annars á afar næman hátt um hvernig tölvukerfi og forrit eru ekki hlutlaus heldur oft t.d. afar rasísk – enda byggist ákvarðanir þeirra alfarið á því sem þau hafa úr að moða, þ.e. gögnum um sögu/skoðanir/kreddur okkar, mannkynsins. Ef við ætlum að treysta tölvum til að hugsa fyrir okkur, á hvaða upplýsingum mötum við þá tölvukerfin? Eins lýsir hann því hvernig infrastrúktúr internetsins mótast af heimsvaldastefnu fyrri tíma, og minnir okkur á að internetið er ekki einhver svífandi og óefnislegur undraheimur í skýi fyrir ofan kollinn á okkur, heldur knúinn áfram í risastórum byggingum við útjaðar borga og í sæstrengjum, mannvirkjum sem senda frá sér mikinn hita og krefjast gríðarlegs rafmagns. (SN.)

Út er komin bók um hvernig nýta má gagnavísindin til góðs sem heitir Model Thinker: What you Need to Know to Make Data Work for You. Þar sem ég lifi og hrærist í þessum heimi í starfi mínu er ég nokkuð öruggur með að ég kaupi þessa bók. (KF.)

Af netinu, 30. nóvember 2018

„Í nýútgefinni skýrslu alþjóðlegu dýraverndarsamtakanna WWF eru tölurnar sláandi, 60% af dýralífi jarðar hafa horfið á síðustu 45 árum.“
Snorri Sigurðsson skrifar um neyðarkall náttúrunnar. (SN.)

Brynhildur Bolladóttir benti mér nýlega á virkilega vandaðan prófíl um Lenu Dunham, höfund sjónvarpsþáttanna vinsælu Girls. Mér er alltaf minnistætt þegar hún sagði í fyrsta þætti þeirrar þáttaraðar: „Ég held að ég sé rödd minnar kynslóðar … eða rödd einhverrar kynslóðar“. Hvort sem manni líkar það vel eða illa þá held ég samt að hún sé að mörgu leyti holdgervingur minnar kynslóðar (eða einhverrar kynslóðar ef út í það er farið). Þetta er með betri prófílum sem ég hef lesið. Greinarhöfundur virðist mála mjög sanna mynd af Dunham.

Áfram um vinsæla sjónvarpsþætti. Ég hef horft á nokkra þætti af Silicon Valleyog haft gaman af. Hér lofar Bill Gates sjónvarpsþættina á bloggsíðu sinni. Gaman af þessu.

Fannst skemmtilegt að sjá umfjöllun Atlas Obscura um þrjár bækur sem eiga það allar sameiginlegt að fjalla um bókasöfn.

Tyler Cowen, uppáhalds bloggarinn minn, birtir árlega lista yfir bestu bækur ársins. Hér er topplistinn hans yfir skáldverk og hér er topplistinn yfir óskálduð verk (e. non-fiction). Ýmsar bækur á þessum listum hafa verið til umfjöllunar á þessum vettvangi.

Nú er tími árslista og við Leslistamenn fögnum því. Hér velja gagnrýnendur Financial Times bestu bækur ársins

Hér er svo listi yfir fimm bestu hagfræðibækur ársins. Hafði ekkert heyrt um þessar bækur fyrr en ég sá þennan lista, en þær lofa ansi góðu.

Ein besta leiðin til að skerpa hugann er að leggja það í vana sinn að lesa daglega og að skrifa daglega. Morgan Housel, fjármálapenni sem ég mæli oft með, tekur í sama streng í góðri grein.

Ég hef mjög litla þekkingu á málefnum trans-fólks (veit t.d. ekki hvort ég sé að nota rétt hugtak núna) en mér fannst alveg hreint svakalegt að lesa þessa frásögn í New York Times þar sem transmanneskja skrifar ítarlega um umbreytingarferlið. (KF.)

„Einn af síðri fylgifiskum þess sem er kallað ídentítetspólitík er ákveðin tilhneiging til þess að líta fyrst til þess hver segir eitthvað og láta það síðan vega furðu þungt þegar lagt er mat á það sem viðkomandi segir. Við stillum tortryggninemana og viðkvæmni þeirra eftir þessu. Þetta er slæm pólitík af ótal ástæðum.“
Eiríkur Örn Norðdahl í viðtali við Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur, tilefnið nýútkomin skáldsaga Eiríks, Hans Blær. Úr nýjasta tölublaði Tímarits Máls & menningar.

Langar þig að sjá bókaskáp Gyrðis Elíassonar?

Í nýjasta tölublaði New Yorker rifjar ritstjórn þess upp gömul, klassísk skrif – hér er til dæmis mögnuð grein frá einum kraftmesta höfundi Bandaríkjana á 20. öld, James Baldwin.

Skýr myndræn útlistun á því hvernig loftslagið á jörðinni mun þróast eftir því hversu stóra skammta af koltvísýringi við losum út í andrúmsloftið á næstu áratugum.

Soffía Auður Birgisdóttir skrifar um Ungfrú Ísland, nýjustu skáldsögu Auðar Övu.

„[…] heimurinn horfist nú í augu við takmörk sín, öll ytri umsvif eiga fyrir höndum að skreppa saman, sá lífs- og neyslumáti sem enn viðgengst á eftir að þykja fáránlegur, glæpsamlegur jafnvel. Að sama skapi mun hið innra vaxa, innlöndin, sköpunin, upplifunin, tjáningin – vistsporið á eftir að grynnka, listsporið að dýpka.“
Frábær hugleiðing eftir Pétur Gunnarsson, um starfslaun listamanna.

Bókmenntaborgin heldur úti vef, fyrir þá sem vilja fylgjast með umfjöllun um ný íslensk skáldverk. (SN.)

Til að hlusta á:

Ég þaut í gegnum Schulz and Peanuts eftir David Michaelis á hljóðbók. Mér fannst gaman að kynnast Charles Schulz betur, eða Sparky, eins og hann var jafnan kallaður, höfundi einnar þekktustu (og virtustu) myndasögusyrpu allra tíma. Sparky krafðist þess alla tíð að hann væri bara sáravenjulegur náungi, alls engin intellektúal, en það var augsýnilega ekki rétt. Og ekki var hann beint mjög hamingjusamur. Ævisagan rekur sögu hans og fjölskyldu allt frá fyrstu stigum til þeirra síðustu – og lygilegu príli teiknihöfundarins upp á tind frægðar og stjarnfræðilegra auðæva. Hér er umfjöllun um bókina í The New York Times. (SN.)

 

Ráðunautur Leslistans: Ævar Þór Benediktsson

Aevar_kynningarmynd.jpg

Ævar Þór Benediktsson hefur sent frá sér fjöldamargar vinsælar barnabækur á síðustu árum og skipað sér sess sem einn helsti baráttumaður þjóðarinnar fyrir auknum lestri barna og unglinga. Hann hefur haldið úti lestrarátaki Ævars og var árið 2017 tilnefndur til ALMA-verðlaunanna (Astrid Lindgren Memorial Award), sem ,,promoter of reading”, eða ,,lestrarhvetjari”. Og er þá fátt eitt talið.

Heill og sæll, kæri Ævar, og hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans. Þú mátt annaðhvort hlamma þér þarna á grjónasekkinn — alveg óþarfi að fara úr skónum — eða þá þú mátt leka dæsandi niður í þennan flosmjúka, forláta hægindastól hér við gluggann. Heitt á könnunni og kleinur eins og þú getur í þig látið.

En við erum ekki hingað komnir til að ræða bakkelsi. Ertu að lesa eitthvað gott þessa dagana?

Ég er að reyna að lesa sem mest af nýjum íslenskum barnabókum til þess að sjá hvað kollegarnir eru að skrifa. Ég er til dæmis nýbúinn að klára Nærbuxnaverksmiðjuna eftir Arndísi Þórarinsdóttur og sem unnandi orðagríns (og auðvitað nærbróka) hafði ég mjög gaman af. Ég er reglulegur gestur í Nexus, sem þýðir að teiknimyndasögur er eitthvað sem ég les líka mikið af. Í síðustu viku var ég til dæmis að lesa fyrstu tvö safnritin af Sweet Tooth, einstaklega grimmri og um leið fallegri distópíu sem er eins og blanda af Mad Max og Bamba. Þá var ég sömuleiðis að endurlesa Wytches eftir Scott Snyder sem er ein besta hrollvekja sem ég hef nokkurn tímann lesið. Þá var ég líka að fá einstaklega fallegt bókaknippi í póstinum eftir Sverri nokkurn Norland og bíð kátur eftir að ráðast á það.

Já, líst vel á nærbuxurnar og knippið. Lestu einnig tímarit eða vefsíður?

Ég er mikill áhugamaður um kvikmyndir og glugga reglulega í Empire-tímaritið. Það er nýkomið út aukablað frá þeim sem fókustar bara á sögu Alien-myndanna og ég er að lesa það þessa dagana. Annars les ég mest greinar í gegnum netið, oftar en ekki tengdar kvikmyndum eða viðtöl við höfunda, leikstjóra eða leikara. Hér er síða sem ég kíki reglulega á.

Notarðu jafnvel einhverjar vefsíður til að leita uppi áhugaverðar bókatillögur, annað þess háttar?

Ég nota goodreads til að fá hugmyndir að bókum og höfundum og kíki oft á amazon og skoða hvað er nýtt á ferðinni. Ég er einnig að „elta“ fjölmarga útgefendur og höfunda á twitter og þeir eru duglegir að mæla með bókum, sem ég bæti svo á “Want to read” listann á goodreads og hef þá næst bak við eyrað þegar ég kíki í bókabúð.

Einu sinni, endur fyrir löngu — eða reyndar kannski ekki fyrir svo ýkja löngu — varstu ungur drengur, og þá velti ég fyrir mér hvort þú hafir átt þér einhverja uppáhaldshöfunda? Eða varstu forfallinn tölvuleikjaspilari eins og ég? Varstu jafnvel bæði tölvuleikja- og bókaunnandi? Eða eyddirðu æskunni úti í sveit á hestbaki? Það sem ég er að reyna að fiska eftir: Hvaða rullu spiluðu bækur í uppvexti þínum?

Ég drakk í mig Stephen King þegar ég var yngri, ásamt Roald Dahl og Don Rosa. Ég var aðeins í tölvuleikjum, en litli bróðir minn, barnabókahöfundurinn Guðni Líndal, var alltaf mun betri í þeim heldur en ég, þannig að ég gaf honum oftast tölvutímann minn svo við kæmumst lengra í leiknum — enda ekki alltaf hægt að vista hvert maður var kominn í þá daga. Bækur spiluðu stóra rullu og það var farið oft í mánuði á bókasafnið til að skila og fá fleiri bækur. Ég held að þá hafi líkað kviknað árátta mín til að safna bókum, sem er eitthvað sem ég mun þurfa að lifa með alla ævi. Lúxusvandamál samt, svona ef við erum alveg hreinskilnir.

Áttu þér einhvern eftirlætishöfund, sem hefur verið þér leiðarstjarna, fyrirmynd, sem opnaði fyrir þér leiðir til að skrifa eða semja?

Kurt Vonnegut og Lemony Snicket kenndu mér að leika mér með texta, bæði í orðum og uppsetningu. Þeir kenndu mér líka að endurtekningar geta verið óvæntar og skemmtilegar, að orðagrín getur tekið margar blaðsíður og að endurtekningar geta verið óvæntar og skemmtilegar.

Í hvaða stellingu finnst þér best að lesa og í hvers kyns umhverfi? Viltu hafa einhvers konar snarl innan seilingar og þá hvernig (salt? sætt? beiskt?) eða jafnvel drykkjarföng (heitt? kalt? kolsýrt?).

Ég skrifa allar mínar bækur á kaffihúsum. Ég set risastór heyrnartól á höfuðið, hlusta á kvikmyndatónlist eða söngleiki, sötra kaffi og maula ristað brauð. Mér finnst erillinn þægilegur.

Einmitt, sama hér — svona skapandi áreiti. Hvaða bók hefurðu oftast gefið öðrum?

Bókaþjófinn eftir Markus Zusak. Frábær bók sem ég þori ekki að lesa aftur vegna þess að mér fannst hún svo góð.

Þú getur þá kannski lesið nýju bókina sem Zusak var að gefa út í staðinn? Hvaða bók hefur haft mest áhrif á líf þitt til þessa? Áttu þér slíka bók, eða eru þær kannski fleiri en ein?

Nornirnar eftir Roald Dahl, vegna þess að þar lærði ég að stundum enda barnabækur illa og að bók getur bæði verið smásögur og ein stór saga í einu. I Am Legend eftir Richard Matheson hafði líka áhrif á mig, vegna þess að það er eina bókin sem ég hef lesið sem hefur náð að bregða mér. Afrek sem ég stefni að — en mun líklega aldrei ná.

Bækur, 23. nóvember 2018

Í síðustu viku nefndi ég hina kraftmiklu King Kong Theory eftir vitsmunanaglann Virginie Despentes. Þegar ég hafði lokið lestri á þeirri bók, sem er löng ritgerð, seildist ég eftir skáldsögu úr ranni sama höfundar, sú ber þann töffaralega titil Apocalypse Baby. Flott bók. Leit einkaspæjara – tveggja afar ólíkra kvenna – að týndri stúlku veitir höfundinum færi á að grannskoða og krítísera ýmsa anga vestræns nútímasamfélags. Despentes er hin pönkaða systir Michel Houllebecq, frænka Charles Bukowski, og yrði flott á barnum með Simone de Beauvoir. Eiturklár, flink í að ögra á snjallan hátt – stundum fellur hún þó í gildru pönksins, sem er að ganga aðeins of langt í því að ögra og þá fær lesandinn á tilfinninguna að hún sé að rembast. Slíkt heyrir þó til undantekninga. Haganlega fléttuð skáldsaga og jafnframt góður þverskurður af frönsku samfélagi, París og Barselónu. Gef þessari bók 3,645 stjörnur.

Á sínum tíma las ég útgáfu Philips Pullman á Grímmsævintýrunum, það var ágæt bók. Sú kom síðar út í yndislegri þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur (mæli með því að lesendur verði sér úti um hana ef hún prýðir ekki nú þegar hillu). Ævintýrum þeirra Grímsbræðra fylgdu hugleiðingar Pullman um þessa tegund frásagnarlistar, og mér fundust þær settar fram af miklum skýrleika og greind. Ég sperrti því eyru þegar ég fregnaði að væntanlegt væri safn með úrvali af ritgerðum hans og fyrirlestrum, Daemon Voices: Essays on Storytelling, og ég verð að segja það nú, þegar ég hef lesið bókina, að þarna leynast einhverjar snjöllustu hugleiðingar sem ég hef lesið um sagnagerð. Pullman notar þekktasta verk sitt, His Dark Materials (sem til er á íslensku og ég hef NB ekki lesið), til að varpa ljósi á aðferðir sínar og hugmyndir, og fjallar einnig rækilega um hvaðan hann sótti innblástur við skrif sögunnar; í Paradísarheimt Miltons, í goðsögnina um Adam og Evu og brottrekstur þeirra úr Paradís, um tiltekna ritgerð eftir Heinrich von Kleist. (Þegar ég var að skrifa þessa klausu rifjaðist upp fyrir mér að eitt sérrita hins yndislega bókmenntatímarits Bjarts & frú Emilíu, sem kom út á árunum 1990-2001, var helgað nóvellu Kleists, Jarðskjálftanum í Síle. Eða dreymdi mig það bara? Rannsóknarvinna leiddi í ljós að allir árgangur Bjarts & frú Emilíu eru aðgengilegir hér á timarit.is – auðvitað eru þeir það! þetta gladdi mig mikið – en ég náði hins vegar ekki að grafa upp í hvaða tölublaði áðurnefnd nóvella leynist, þar sem ég var orðinn of seinn Þakkargjörðarmáltíð og fjölskylda mín tekin að reka á eftir mér. „Leggðu nú frá þér tölvuna, Sverrir!“) Og já. Sem sagt. Hvert var ég nú aftur kominn? Heinrick von Kleist … og Philip Pullman! Ég var afar ánægður með þetta ritgerðasafn hans. Mæli sérstaklega með því gagnvart þeim sem hafa áhuga á sagnalist og því hvernig sögur er skrúfaðar saman. (SN.)

 

Óskalisti Leslistans:

Ég tók eftir því að út er komin bók sem fjallar um speki Tómasar frá Akvínó og hagfræði, og heitir Aquinas and the Market: Toward a Humane Economy. Ég hef held ég aldrei áður heyrt um rit sem fjallar til jafns um guð- og hagfræði og þess vegna vekur þessi bók áhuga minn.

Ég fjallaði eitt sinn á þessum vettvangi um frábæra bók sagnfræðingsins Peter Frankopan – Silk Roads sem segir sögu Mið-Austurlanda frá skemmtilegum sjónarhóli. Hann var að gefa út framhald af þeirri bók sem nefnist einfaldlega New Silk Roads og lofar góðu.

Sá að það var komin út ný bók um Isaiah Berlin sem nefnist In Search of Isaiah Berlin: A Literary Adventure. Bókin er skrifuð af samstarfsmanni hans til margra ára sem hefur helgað líf sitt því að skrásetja og gefa út það sem Berlin hefur skrifað og sagt. Held að þetta sé helvíti áhugaverð bók. (KF.)

Og síðast en ekki síst: Hans Blær, ný skáldsaga eftir Eirík Örn Norðdahl, er komin út. (SN.)