Af netinu, 15. febrúar 2019

Hér er forvitnileg grein um Andy Warhol.

Fann mjög skemmtilegt íslenskt fréttabréf þar sem birtar eru margvíslegar hugleiðingar um gögn og allt sem þeim tengist. Mæli með skráningu.

Hér er lærdómsrík frásögn frá manni sem reyndi að stofna fyrirtæki með milljarð dollara veltu að markmiði – og mistókst.

Robert Ryman er látinn. Algjör meistari og flottur myndlistarmaður – fullkomlega sjálflærður. Góð minningargrein um hann í NYT.

Áhugaverður leslisti um borgir og borgarskipulag, fyrir þá sem hafa áhuga á slíku.

Ég er hjartanlega sammála höfundi þessarar greinar – enda fjallar hún um mikilvægi góðs nætursvefns. Yngsta dóttir mín mætti gjarnan lesa hana líka.

Og fyrst börn ber á góma. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvers vegna gerðar eru reglulegar mælingar á lestrarhraða barna í stað t.d. mælinga á lesskilningi. Hér er fínt viðtal við Hermund Sigmundsson, sálfræðiprófessor, sem skrifaði fína grein um þetta mál í síðasta Sunnudagsmogga.

Og fyrst lestur ber á góma. Hér er ágætis grein um hvernig lestrarvenjur okkar breytast á internetöldinni. (KF.)

Ný íslensk bókmenntaverðlaun – fyrir erlenda höfunda.

Falleg hugleiðing í The New Yorker eftir Oliver Sacks. Texti sem hann ritaði skömmu fyrir andlát sitt. Fjallar yfirvofandi dauða hans (sem Sacks óttast ekki) og jafnframt (yfirvofandi?) dauða þeirrar menningar sem hann lifði og hrærðist í.

Sorgarfréttir: Tomi Ungerer, mikill uppáhalds-listamaður, barnabókahöfundur og teiknari, er látinn. Hann sendi frá sér meira en 150 bækur á ótrúlega frjórri ævi.

Góðar fréttir frá New York: Amazon-risinn hættir við að reisa nýjar höfuðstöðvar á Long Island – vegna þrýstings og mótmæla frá stjórnvöldum og staðarfólki. Peningafólk fær greinilega ekki alltaf sínu framgengt.

Og fleiri góðar fréttir frá New York. Nokkru áður en ég fluttist frá borginni tók ég að heyra slúður um að til stæði að loka eftirlætis-bókabúðinni minni þar, McNally Jackson í Soho. Þar er einnig kaffihús sem gleypt hefur stóra sneið af lífi mínu. Sem sagt: ég get ekki ímyndað mér New York án þessarar bókabúðar. Mér skildist að leigusamningurinn hjá þeim væri að renna út og eigendur húsnæðisins vildu (að sjálfsögðu) skrúfa upp leiguna, meira en tvöfalda hana, hrekja þannig burt bækurnar og fá til dæmis banka, skó eða gleraugu í staðinn. Hér kemur hins vegar fram að þau áform hafi breyst. Búðin verður áfram í Soho. Og tvær nýjar eru meira að segja í bígerð, ein á Manhattan, hin í Brooklyn (og nýlega spratt upp enn önnur í Brooklyn). Er þá enn von í heiminum?

Um Dansað í Odessa eftir Ilya Kandinsky, í þýðingu Sigurðar Pálssonar.

Ráðunautur Leslistans, Þórarinn Eldjárn, segir að íslenskan sé stórmál.

Tveir vinir mínir ferðuðust meðfram landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og ræddu við fólk sem varð á vegi þeirra. Birtu svo nýlega grein um þá reynslu sína í Time Magazine. (SN.)


Augu og eyru:

Mig langar að benda á frábæra heimildarmynd um hinn einstaka Tomi Ungerer, Far Out Isn’t Far Enough: The Tomi Ungerer Story. Ævi Ungerers er ekki síður áhugaverð en allar bækurnar hans. Til rökstuðnings: Á sjöunda áratuginum fluttist hann til New York borgar og sló þar í gegn sem barnabókahöfundur. Meðfram því hélt hann svo einhverju sinni sýningu á klámfengnum teikningum (eins og allir góðir barnabókahöfundar ættu reglulega að gera) – sýningin fór svo fyrir brjóstið á frómum siðferðispostulum útgáfubransans að Ungerer var bókstaflega hrakinn burt frá Bandaríkunum. Hann bjó um skeið í Kanada en varði síðustu áratugum ævi sinnar á Írlandi. Hugur hans var fjársjóðskista. (SN.)

Bækur, 15. febrúar 2019

Ég er nýkominn til Íslands og þar beið mín svo stór stafli af nýútkomnum íslenskum (jóla)bókum að ég veit ekki hvar ég að að byrja. Og hef því ekki byrjað enn!

Annars las ég í flugvélinni The Seven Storey Mountain eftir Thomas Merton, bók sem kom út árið 1948 og sló strax í gegn. Þetta er sjálfsævisaga höfundar, segir af eirðarlausum, hæfileikaríkum ungum manni sem ákveður, tuttugu og sex ára gamall, að ganga í kaþólskt klaustur. Vinsældir bókarinnar skýrast hugsanlega af útgáfutíma hennar. Hún kom út þremur árum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, fann fljótlega stóran lesendahóp í Bandaríkunum og síðar úti um allan heim; fólk var langþreytt eftir margra ára stríðsbrölt, í leit að lífstilgangi, andlegri næringu, von – og saga ungs og efnilegs manns, sem snýr baki við lífsgæðakapphlaupi og metorðum og sest að í klaustri, virðist hafa átt upp á pallborðið. Verkinu hefur stundum verið líkt við Játningar Ágústínusar kirkjuföður. Þetta er ágætis-inngangsreitur að verkum Merton, og rödd hans, svo yfirveguð og ljóðræn, er gott mótvægi við asa og at á gervihnattaöld. (SN.)


Orðsnilld vikunnar:

Um daginn rakst ég á nýyrði úr smiðju Hallgríms Helgasonar, flettiorka. Samanber enska orðið pageturner. Skömmu síðar rataði á fjörur mínar annað sambærilegt hugtak, jafnvel ennþá betra og er það Guðmundur Andri Thorsson sem ábyrgð á því: fletta. Það finnst mér alveg snilldarlegt orð og vil endilega að fólk taki það upp. „Það er góð flétta og því frábær fletta í þessari bók.“ (SN.)

Ráðunautur Leslistans: Þórarinn Eldjárn

Mynd: Þorsteinn Haraldsson. Tekin á túninu fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík 22. ágúst 2009 á sextugsafmæli skáldsins.

Þórarinn Eldjárn, rithöfund, þarf vart að kynna fyrir landsmönnum, hvað þá einstaklega vel upplýstu samfélagi Leslistans. Við Þórarinn skrifuðumst á og hér gefur að líta afraksturinn.

– Sverrir Norland

Hjartans þakkir fyrir að ganga í ráðuneyti Leslistans, kæri Þórarinn Eldjárn, okkur er mikill styrkur að því að fá þig til liðs við okkur. Vonandi væsir ekki um þig í gula skeljastólnum frá Eames. Þú getur valið um ískalda Appelsín í gleri, gerjað greipte af krana eða togarakaffi á brúsa — og svo er Kári með fínar brauðbollur, skreyttar sesamfræjum, inni í ofninum. Rabarbarasulta frá ömmu (eins og þú getur í þig látið!).

Fyrsta spurning er blátt áfram, einföld og hnitmiðuð: Ertu að lesa eitthvað gott og skemmtilegt í augnablikinu sem þig langar að gauka að hinu fróðleiksfúsa samfélagi Leslistans?

Ég hef nú síðast verið að lesa endurminningar sænska rithöfundarins Torgnys (Þórgnýs) Lindgren (ekkert skyldur Astrid, nafnið er mjög algengt). Hann var fæddur 1938 uppi í Vesturbotni, lést 2017. Bókin kom fyrst út 2010 og heitir ósköp einfaldlega Minnen, þeas. Minningar.

Bókin fer nokkuð sérkennilega af stað þar sem hún byrjar á lýsingum á því hvernig höfundur hefur um langa hríð reynt að færast undan kröfum forleggjara sinna hjá Norstedts um að skrifa endurminningar. Vísar ætíð til þess að hann muni ekki neitt. Svarar kvabbi forleggjaranna með því að hann hafi haft lifibrauð af ímyndunum sínum, en…. „Að taka nú til við að kalla þær minningar væri allpínlegt.“

Þórgnýr sló í gegn 1982, minnir mig, með skáldsögunni Ormens väg på hälleberget. Mergjuð stutt saga skrifuð á norrlenskri mállýsku, þýdd á íslensku af Hannesi Sigfússyni og kölluð Naðran á klöppinni. Eins komu út amk. tvö smásagnakver hans í Syrtluseríu Mom, einnig í þýðingu Hannesar. Frábærar bækur.

Minningabókin líður áfram með stanslausum pælingum um eðli minnisins og minninganna kringum ýmis atvik og tímabil og lesningu í ævi höfundar, engan veginn í línulegri röð. Eins og fleiri Norrlendingar á hann sér rætur í sértrúarsöfnuðum og kynntist berklahælum ungur. Náði heilsu og varð kennari, lagði stund á heimspeki, einkum Schopenhauer og Nietzsche. Gætir þess og einnig kristinna pælinga mjög í verkum hans.

Áhugaverð fyrir Íslendinga er frásögn hans af því þegar hann er hér staddur og fær að hitta Halldór Laxness. Hefur áður sent honum bréf og farið mjög fögrum orðum um Kristnihaldið.

Hann er líka staddur hérlendis þegar fregnir berast af því að Olof Palme hafi verið myrtur (TL var eindreginn sósíaldemókrati). Þannig vill til að sænski sendiherrann hringir í hann þar sem hann er nýsofnaður á hótelherbergi. Sendiherrann hefur mörg orð um að hann þurfi að búa sig undir hræðilegar fréttir, spyr hvort hann sitji standi eða liggi, þannig að TL fer að halda að eitthvað hræðilegt hafi komið fyrir í fjölskyldunni. Þegar svo loks sendiherrann lætur hryllingsfréttina vaða: Olof Palme hefur verið myrtur svarar kratinn Þórgnýr spontant því svari sem hann segist gera ráð fyrir að varðveitt sé einhversstaðar í skjalasafni sænska utanríkisráðuneytisins: Gud ske lov att det bara var en sådan bagatell.

Þannig er að nokkrar línur úr nýjustu bók Péturs Gunnarssonar,Skriftum, hafa suðað í kollinum á mér síðan ég las bókina skömmu eftir að hún kom út um jólin 2016. Ég er ekki með hana við höndina, en ég man þetta ágætlega. Á 168. — 169. síðu er Pétur með tvo heimsþekkta Frakka í brennidepli, Jean-Paul Sartre og Michel Focault, áhrifaríka rithöfunda og svona „public intellectuals“ af þeirri tegund sem við Íslendingar höfum aldrei átt. (Eigum við bara gárunga?)

Og spurningin hjá Pétri er: Hvert er gildi bókmennta?

Koma þær, þegar öllu er á botninn hvolft, nokkru til leiðar? Undir lok ævi sinnar voru bæði Sartre og Focault nokkuð bölsýnir. Mennirnir komast af án bókmennta, slík var í raun niðurstaða þeirra. Allt hverfur og „allt fer“, svo ég vitni í nýlegan titil íslensks höfundar. Allt vort blekstrit er sjálfsagt aðeins ryk og hégómi, hugarleikfimi, snobb. Og ef ég skil Pétur rétt dregur hann af lestri verka þeirra Sartre og Focault þá niðurstöðu að þeir telji að bókmenntir (bæði þeirra og annarra) komi litlu til leiðar og að það — plús yfirvofandi dauða þeirra sjálfra — marki í raun eins konar heimsslit, endalok alls. Þeir deyja — og öllu lýkur. Bókmenntirnar fjara út. Allt fer.

Pétur er ekki endilega á sama máli, og segir:

Svona tala náttúrlega bara barnlausir menn […].

Þessi lína! Hún situr föst í kollinum á mér. Og ómar jafnvel stundum þegar ég les bók eftir barnlaust karlkyns séní (Já, svona tala náttúrlega bara barnlausir menn …).

Síðustu tvö árin hef ég varið meiri tíma í að ýta barnavagni um stræti en penna um pappír. Stundum sest ég niður, örþreyttur eftir að hafa eldað fyrir lítið barn, leikið við það, lesið fyrir það, skammað það, huggað það, skipt um bleyju á því, svæft það — og finnst eins og ég hafi ekkert að segja. Ég legg fingurna á lyklaborðið en hrekk skyndilega í kút við barnagrát — sem ómar einungis í kollinum á mér. Og mér finnst ég ekki hafa sama sjálfsálitið og ég hafði áður — þegar ég var barnlaus maður. Þetta er klisja, en um leið hljóta barnseignir að gjörbreyta lífssýn þeirra sem hafa að starfi að hugsa um veröldina og færa undur hennar og veruleika í orð.

Eitthvað hefur allavega breyst innra með mér. Stundum finnst mér næsta ómögulegt að taka öll hin barnlausu karlkyns séní alvarlega (sem er auðvitað fáránlegt!).

Og þá kem ég loks að spurningunni: Telurðu að barnlausir karlmenn geti skrifað sannar og merkilegar bókmenntir?

Jú, ætli það hljóti ekki að vera. Ekkert síður en barnlausar konur. En áreiðanlega vex samt blessun með barni hverju. Að nútímaáliti fékk ég sjálfur ekki langa reynslu af barnleysi, aðeins tæp 23 ár. Það þótti reyndar ekkert sérlega ungt á þeirri tíð (1972). Allir mínir föðurbetrungar hafa ekki gert neitt annað en að bæta mig og bæta gegnum tíðina, jafnt sem mann og höfund. (Þó vissulega sé ekki endilega samasemmerki milli þess að vera góður maður og góður höfundur.)

Ég er reyndar alveg viss um að margir góðir eldri karlhöfundar (þeas. miklu eldri en ég sem er ekki nema 69 ára), þó feður séu, sem aldrei hafa skipt á barni, sett í þvottavél eða eldað mat hefðu jafnvel orðið enn betri ef þeir hefðu ekki misst af þessari góðu reynslu.

Nú hefur þú sent frá þér fjöldamargar góðar barnabækur, sum klassísk verk í íslenskum bókmenntum. Telurðu að þú hefðir ort og skrifað fyrir börn í slíkum mæli ef þú værir barnlaus?

Nei það hefði ég áreiðanlega ekki gert. Hefði líklega þótt slíkt of barnalegt og allnokkur skömm minnar meintu hátimbruðu listamennsku.

Áttu þér eftirlætis-smásögu eða -smásagnahöfund?

Eftirlætin eru mörg. Spanna næstum allan Tsékov/Maupassant-skalann. Má ég svo nefna William Saroyan, John Cheever, Alice Munro, Janet Frame? Áðurnefndur Þórgnýr Lindgren kemur sterkur inn. Situr óþyrmilega í mér t.d. titilsagan í Fimmfingramöndlunni (eins og kverið heitir í þýðingu Hannesar Sigfússonar).

Ég las einu sinni smásögu eftir þig, endur fyrir löngu, en man ekki hvað hún heitir. Sagan (sem er alveg frábær) fjallar um par sem er í fríi (helgarferð?) til Parísar. Þar verður á vegi þeirra götulistamaður, teiknari sem hefur lifibrauð sitt af því að snara andlitum fólks á pappír gegn vægu gjaldi. Þau hjónakornin (kærustuparið?) slá til, og reka upp stór augu þegar afraksturinn blasir við þeim. Þau líta eitthvað svo kjánalega út. Er þetta virkilega sannferðug túlkun á þeim? Eða er listamaðurinn svona lélegur? Þau greiða honum í hálfgerðu fússi og hraða sér burt. Taka teikninguna með sér upp á hótelherbergi og eru nú, ef ég man rétt, byrjuð að hnakkrífast. Þau eru hlægilegt fólk; listamaðurinn sá beint í gegnum þau. Segjum að þau leggi teikninguna á skrifborðiðið við gluggann og láti hana vísa niður svo að þau þurfi ekki að hafa hana fyrir augunum (horfast í augu við sjálf sig). Eiginmaðurinn (kærastinn?) hrekkur svo upp af svefni um nóttina, kófsveittur. Vondar draumfarir. Í hálfgerðu óráði stjáklar hann fram úr rúminu, dregur fram teikninguna — og sér nú … að skopmyndin er fullkomin eftirmynd þeirra! Hann starir á unnustu sína (eiginkonu) í rúminu og sér að hún lítur alveg eins út í raunveruleikanum og á teikningunni. Afar raunsæ túlkun. Og ekki skánar ástandið þegar hann lítur í baðherbergisspegilinn. Svona líta þau út. Þau eru svona skopleg!

Ég man ekki hvenær ég las þessa sögu — fyrir mörgum árum — en ég hef síðan reynt að finna hana, án árangurs. Fletti upp í sagnaúrvalinu þínu einhvern tímann, einnig gömlum sagnakverum. Finn hana hvergi! Og því spyr ég blátt áfram: Varst það ekki örugglega þú sem skrifaðir þessa góðu sögu? Því ef svarið er nei hlýtur það að þýða að í raun og sannleika var það ég sem fitjaði upp á henni. Þá ætla ég að skrifa hana og gefa út. Gengstu við því að hafa skrifað hana?

Þetta mun vera saga sem nefnist „Í svip“. Hún birtist fyrst í smásagnasafninu Sérðu það sem ég sé (1998) og var endurprentuð í Sagnabelg (1999). (Hefur líka komið út á frönsku undir nafninu „Simples malentendus“). Í aðalatriðum er söguþráðurinn svona eins og þú lýsir honum nema hvað teikningarnar eru í alvöru vondar (að mati fyrirmyndanna amk.) og rándýrar að auki og tilkomnar af hálfgerðri nauðung. Þetta er það sem veldur ósætti hjónanna en þó tekst þeim að ákveða í sameiningu að rífa myndirnar í tætlur og sturta þeim niður um klósettið og ímynda sér í staðinn að þau hafi verið rænd. Maðurinn hrekkur svo upp af svefni um nóttina og sér ekki betur en konan hans sé orðin alveg eins og myndin í framan. Hann staulast skelfingu lostinn fram á klósett og þorir ekki að líta í spegilinn og lýkur þar sögunni … Þannig var nú það. Annars er ég ekki frá því að þín versjón sé betri en mín.

Í beinu framhaldi: Ég hef stundum heyrt mikil gáfnabúnt lýsa því yfir að smásagan sé fullkomasta bókmenntaformið og erfiðara að skrifa góðar smásögur en skáldsögur. Og einnig yfirlýsinguna: „Ég skrifaði langa bók í þetta skiptið því ég hafði ekki tíma til að skrifa stutta bók.“ Nú hænist þú svolítið að knöppum formum. Ertu sammála ofanfarandi fullyrðingum? Er eitthvað erfiðara að skrifa smásögu en skáldsögu?

Leiðslurnar í mér eru nú svo einfaldar að mér finnst miklu erfiðara að skrifa skáldsögu en smásögu. Af þeirri nauðaeinföldu ástæðu að skáldsögur eru lengri en smásögur.

Það þykir mér velt mælt — og tek undir. Og viðeigandi þar með að hafa þetta ekki lengra.

Velkominn í ráðuneytið!

Ráðunautur Leslistans: Þóra Hjörleifsdóttir

Sverrir Norland: Kæra Þóra, komdu blessuð og sæl, hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans — og til hamingju með nýju skáldsöguna þína, Kviku, ég hlakka til að lesa hana.

Hefurðu alltaf lesið skáldsögur og ef svo er, hvaða skáldsögur hafa haft mest áhrif á þig, er til svar við þeirri spurningu?

Þóra Hjörleifsdóttir: Heill og sæll kæri Sverrir og gaman að vera ráðunautur!

Ég hef alltaf lesið mikið, er sílesandi. Mér finnst samt agalegt hvað ég er gleymin á bækur, þær einhvern veginn maukast saman í einn graut í undirmeðvitundinni eftir að ég klára þær. Auðvitað standa samt einhverjar upp úr… Argóarflísin eftir Sjón var bók sem ég byrjaði bara aftur á þegar ég kláraði hana. Mér fannst magnað hvernig Sjón færði frásagnir úr grísku goðafræðinni yfir til einhvers miðaldra Íslendings að býsnast yfir etikettu á skipi á leiðinni frá Íslandi til Danmerkur. (Reyndar var ég líka rosa hrifin af Rökkurbýsnum og Skugga-Baldri, minnir að ég hafi líka tvílesið þær á beit). Ég er rosalega mikil áhugakona um goðafræði og ævintýri, þessar hversdagslegu, stórbrotnu og grótesku sögur sem útskýra afhverju við erum eins og við erum, hvernig hlutirnir urðu til og hvað skal varast. Ein bók sem ég verð að nefna sem er reyndar ekki skáldsaga sem hafði mikil áhrif á mig er Women Who Run With The Wolfes eftir Clarissu Pinkola Estés. Sú bók er svona Villikellinga-handbók sem snýr á þekkt ævintýri og setur þau í nýtt samhengi, algjör veisla.

Úlfabókin hefur einmitt verið á listanum hjá mér lengi. Læt orð þín orka sem ábrýningu um að verða mér loks úti um eintak. Fleira?

Það var líka mjög erftirminnileg upplifun að lesa Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, ég var tvítug á bakpokaferðalagi. Hún og Afleggjarinn eftir Auði Övu mörkuðu báðar eitthvað aha-augnablik á ferli mínum sem skáldsagnalesari.

Síðast þegar ég fór að hágráta yfir skáldsögu var þegar ég las Sæluvímu eftir Lily King sem kom út hjá Angústúru í fyrra. Og síðast þegar ég var ekki húsum hæf eftir lestur á skáldsögu var þegar ég las Ungfrú Ísland eftir Auði Övu, ég vil ekki spoila en vá hvað endirinn var tragískur og mikil negla á sama tíma!

Já, flottur endir — og kom mér á óvart, sá hann ekki fyrir.

En hvernig mundirðu skilgreina skáldsöguna, já, hvað er skáldsaga eiginlega?

Nú er ég enginn bókmenntafræðingur, eiginlega bara algjör leikkona þegar kemur að svona skilgreiningum.

Hver er að tala um bókmenntafræði? Við blásum á svoleiðis.

Skáldsaga er náttúrulega bara frekar löng skálduð saga, allavega 100 blaðsíður! Kvika er 134.

Það er skemmtilega létt og einföld skilgreining.

Margar skáldsögur taka fyrir uppáhalds hugðar- og umræðuefnið mitt: Ástir og örlög, líka annað uppáhalds umræðuefnið mitt: Fjölskyldur; tengsl, disfúnskjónir og hrá samskipti í trausti þess að það þurfi ansi mikið til að fólki verði vísað á dyr.

Skáldsagan er yfirleitt með annan fótinn í sameiginlegum reynsluheimi okkar lesenda en hinn í skálduðum heimi. Ég held að góð skáldsaga geti látið okkur líða eins og við séum minna ein, hún getur opnað á perspektív og samtöl sem við vissum ekki hvernig við áttum að bera okkur að við að eiga og sett samskipti okkar við fólk og umheiminn í stærra samhengi. Skáldsagan er míkróheimur sem getur skekið þunglamalegan umheiminn og minnt okkur á að hann er fjarri því að vera óhagganlegur.

Stórgóðar lýsingar — takk. Einmitt þessa stundina slær bókasafnið mitt reyndar ekki á þá tilfinningu að margt í umheiminum sé óhagganlegt: stór hluti þess dúsir, eftir siglingu yfir Atlantshafið, í pappakössum sem fylla upp í heilt herbergi. Að stórum hluta skáldsögur — og ég hagga þeim ekki, kemst varla inn í herbergið. Frústrerandi!

En þá leitar hugurinn annað: Hvernig stendur á því að svo fáar góðar skáldsögur hafa verið ritaðar um loftslagsbreytingarnar? Getur verið að í hugum nútímafólks einblíni góðar sögur á hið smáa og einkalega; nánar tilgreint það sem við, lesendur, getum auðveldlega endurspeglað okkur í (samanber fína upptalningu hjá þér að ofan — um fjölskyldur, ástir, disfúnksjónir) en megni síður að takast á við hið stóra sem smættar einstaklinginn niður í varla neitt, svo sem hnignun lífheildarinnar á jörðinni?

Og annað, slæði því með: finnst þér að rithöfundum beri skylda til að endurhugsa hvernig við lifum á jörðinni og reyna að miðla því í verkum sínum? Eða er hætt við að slíkur klyfjar bugi herðarnar og eyðileggi sögurnar?

Ég held að fólk sæki gjarnan í að lesa bækur sem það hefur einhvern tengiflöt við. Okkar kynslóð og þau sem á undan okkur komu gerum okkur engan veginn grein fyrir umfangi og afleiðingum loftslagsbreytinga. Ég er hrædd um að þeir fáu rithöfundar sem spreyta sig á að fjalla um þann vanda tali að einhverju leyti fyrir daufum eyrum en eru líka í hættu að blanda skáldsögunni við áróðurstexta. Ég lít ekki á hlutverk höfundarins að vera kennari eða samfélagslæknir en það er frábær bónus ef nýjar hugmyndir vakna hjá lesanda og óvæntar tengingar myndast. Um leið og höfundur er þeirrar trúar að hann muni leysa eða létta á loftslagsvandanum (eða einhverjum öðrum vanda) með skrifum sínum er ég hrædd um að útkoman sé alltaf dæmd til að vera léleg. Ég sem lesandi skáldsagna vil ekki láta mata mig eða mennta mig. Einnig held ég að loftslagsvandinn sé krísa sem einstaklingar og listamenn fái lítið ráðið við, það er ekki fyrr en iðnaður og ríkisstjórnir girði sig í brók og hætti að hugsa í þenslu að eitthvað lagist. Ég held áfram að draga úr vistspori mínu, endurvinna, nota taupoka og koma fram við náttúruna af virðingu en þegar dagur er að kveldi kominn þá er hin vestræna trú á hagvöxt og ósvífni stórfyrirtækja alltaf að fara að núlla út viðleitni mína, eins og staðan er í dag.

Er þá engin von fyrir loftlagsbókmenntir?

Jú jú, en ég held að áhugaverðustu skáldverkin hafi ekki afmarkaða og skýra verkun, heldur fjalli um hugðarefni skáldsins, sem tekur einhverja hugmynd eða tilfinningu, þreifar á henni og fer eins langt með hana og það getur. Það er alveg hægt að gera það í loftslagsmálum alveg eins og málefnum hjartans. En skáldið þarf bara að passa að sitja ekki í predikunarstól á meðan það skrifar.

Það er rétt — samt fíla ég reyndar þá sem þora að að setjast stundum í predikunarstólinn og ég held að góðar höfundar hafi öðru hverju efni á því (Dostojevskí fléttaði heilu ritgerðirnar inn í stóru skáldsögurnar sínar; James Baldwin predikar á sinn snilldarlega hátt um stöðu blökkumanna í Bandaríkjunum í sínum skáldsögum; þetta kemur upp í hugann einn, tveir og bingó; og sama gildir um nýlegan skáldsöguþríleik eftir Virginie Despentes, þar sem hún fjallar á ítarlegan hátt um auðhyggjuna sem allt gegnsýrir í dag — það er raunar einn helsti styrkur og galli verksins, hvernig hún fílósóferar um andlegt gjaldþrot Vesturlanda, enda vandmeðfarið viðfangsefni.)

En viltu deila með okkur, kæra Þóra, hvaða hugmynd sem þú varst að handleika þegar þú skrifaðir Kviku?

Í Samdrykkjunni eftir Plató var lýsing á ástarsamböndum áður en mannkynið fór að stunda kynlíf, mér mikill stökkpallur við skrif Kviku. Þessi lýsing er snemma í upprunaskýringu hans á ástinni, þegar Seifur var nýbúinn að kljúfa ferfættu og ferhentu mannverurnar í tvennt í refsingarskyni fyrir að ofmetnast og halda að þær gætu storkað guðunum. Þessar nýklofnu mannverur fóru þá hver að þrá hinn helminginn sinn, tengdar mannverur sem fundust héldu dauðahaldi um helftina sína og þorðu ekki að sleppa. Smám saman fór fólkið að veslast upp og deyja úr hungri og framtaksleysi. Seifur lét þá kynfæri framan á þær svo þær gætu fundið fyrir tímabundinni einingu og fullnægju svo þær gætu gengið til starfa sinna og haldið áfram að rækta akurinn og færa guðunum fórnir.

Þessi misheppnaða ástarprótótýpa, var ein tilfinning sem ég reyndi meðal annars að ná utan um í Kviku: Þegar þú telur þig hafa fundið manneskjuna sem er týndi helmingurinn þinn og vilt ekki sleppa af henni takinu. Þó samband ykkar sé kannski ekki beint frábært, þó allt gangi á afturfótunum og þó að þú sért eiginlega bara að leysast upp þá herðir þú bara takið og ferðast í spíral niður á við í átt að botninum.

Lestu á fleiri tungumálum en íslensku? Og hvað þá helst?

Já, ég les líka á ensku en eftir að ég fór að skrifa sæki ég helst í að lesa á íslensku og elska að lesa vel þýddar bækur, eins og t.d. Veröld sem var eftir Stefan Zweig í þýðingu Halldórs J. Jónssonar og Ingólfs Pálmasonar, sú bók er öll útkrotuð hjá mér. Og svo elska ég líka Ódysseifskviðu í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar. Fátt kemur mér meira til en góður orðaforði!

Já, þú hefur góðan smekk. (Mér finnst reyndar einmitt gott að lesa á öðrum tungumálum þegar ég er að skrifa, og þá helst tungumálum sem ég skil varla.)

En nóg um það, lestu líka ljóð?

Ég les mikið af ljóðum og þá jafnhendis á ensku og íslensku. Undanfarið hef ég marinerað mig í ljóðum Mary Oliver, en svo hef ég líka lesið og endurlesið Fræ sem frjóvga myrkrið eftir Evu Rún Snorradóttur, frábær bók. Einnig eru Sigurður Pálsson, Kristín Ómarsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir og Nína Björk Árnadóttir með fastráðningu á ljóðahringsóli mínu.

Hver er uppáhaldsskáldsagnapersónan þín?

Lína langsokkur er náttúrulega bara best. Það er ekki klisja af því hún er best.

Ég heyrði í útvarpinu um daginn að hún væri í raun og veru ofurmennið sem Nietzsche lét sig dreyma um. Hún er óttalaus, hlær að kreddum og staðnaðri hugsun, sterkasta stelpa í heimi sem getur allt. Enginn toppar hana. Ég held líka mikið upp á Ódysseif, hann er klár og sniðugur en á sama tíma algjör vitleysingur. Hann er frumgerðin að frábærri skáldsagnapersónu að mínu mati: Ódysseifur leysir og skapar vandamál á víxl á meðan hann flækist með vinum sínum um hættulega og heillandi heima.

Mynd af Þóru: Sara Sig.

Af netinu, 8. febrúar 2019

Gengur þú með bók í maganum? Hér er góð grein um af hverju þú ættir ekki að skrifa bók.

Vissuð þið að það er til sérstakur iðnaður í kringum svefnbókmenntir, þ.e. bækur sem eru beinlínis skrifaðar í því skyni að svæfa lesendur? Galdurinn, að mati reynslubolta í faginu, er að hafa bækurnar ekki of spennandi – en að sama skapi ekki of leiðinlegar.

Við Sverrir höfum rætt ansi oft um bókina Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson á þessum vettvangi og erum báðir mjög ánægðir með hana. Þetta umfjöllunarefni virðist vera vinsælt út fyrir landsteinana. Blaðamaður Financial Times skrifar hér ansi fína grein um það þegar hann þurfti að róta í bókasafni föður síns að honum látnum.

Hér er býsna forvitnilegt viðtal við manninn sem stýrir norska olíusjóðnum. Skemmtilegt að lesa að hann er menntaður í heimspeki, lögfræði, stjórnmálum, hagfræði og viðskiptum. Virðist býsna klár og áhugaverður af þessu viðtali að dæma.

Nú hef ég bæði mjög gaman af myndlist og bókmenntum, en finnst ekki margar bækur um myndlist neitt sérlega góðar. Þótti þess vegna gaman að lesa þetta viðtal við listgagnrýnandann Andrew Graham Dixon þar sem hann mælir með fimm bókum um myndlist – allt verkum sem ég hafði aldrei heyrt um áður.

Sverrir talaði um bókina The Age of Surveillance Capitalism eftir Shoshönu Zuboff í síðasta Leslista og vakti áhuga minn á henni. Svo sá ég að tveir hugsuðir og rithöfundar, sem ég hef miklar mætur á, birtu gagnrýni um bókina í vikunni; annars vegar breski heimspekingurinn John Gray og hins vegar hvítrússneski rithöfundurinn Evgeny Morozov.  

Ég hef oft átt í miklum rökræðum við sjálfan mig um hvort ég fíli bandaríska myndlistarmanninn Jeff Koons eða hvort ég þoli hann ekki. Þetta frábæra viðtalvið hann fékk mig ekki endilega til að komast til botns í þeim vangaveltum, en það var helvíti áhugavert.

Annað þessu tengt. Hver kannast ekki við það þegar krakkarnir sletta kornflexi á 100 milljón dollara Basqiat málverkið sitt um borð í fjölskyldusnekkjunni? Þið getið vælt eins og þið viljið um flóttafólk og loftslagsbreytingar en hugur minn er hjá auðmönnum sem slysast til að skemma verðmætu listaverkin sín. Hér er skemmtileg grein í Guardian um þetta aðkallandi vandamál.

Friedrich Nietzche hefur af einhverjum ástæðum oft verið álitinn ofstækismaður, ruddi og brjálæðingur. Ný ævisaga um hann færir hins vegar rök fyrir því að hann hafi víst verið algjört ljúfmenni. (KF.)

Ég strengdi þess áramótaheit, af siðferðisástæðum, að byrja aftur að borða kjöt – eða öllur heldur: geta borðað hvað sem er, gerast alæta. (Það hefur reyndar ekki gengið vel.) Hér skrifar íslenskur karlmaður aftur á móti um veganisma – og karlmennsku.

Statistík fyrir áhugafólk um listamannalaunin. Birtist á Starafugli.

Því er ekki tekið út með sældinni að vera offitusjúklingur.

Magnús Guðmundsson skoðar ljóðabækur sem skolaði upp á strendur okkar í síðasta jólabókaflóði.

Nú ætlar fjölskylda J.D. Salingers loks að byrja að tutla út bókunum sem hann dundaði sér við að skrifa í einrúmi í hálfa öld. Sonur Salingers segir að verkin muni koma út næsta áratuginn. Ég fyllist, af einhverjum ástæðum, kvíða. (SN.)


Til að hlusta á:

Sá ágæti sjónvarpsmaður, Jón Ársæll, tekur viðtöl við öðruvísi, og þar með áhugavert, fólk í þáttaröðinni Paradísarheimt. Í þriðja og fjórða þætti spjallar hann meðal annars við ljóðskáldið unga, Soffíu Láru. Mjög gott. (SN.)

Mér fannst þetta viðtal við blaðamannin Celeste Headlee í Knowlegde Project hlaðvarpinu býsna gott. Hún ræðir um samræðulistina og hvað maður þarf að gera til að læra að hlusta betur á annað fólk. Ég heyrði ansi margar hollar áminningar í þessu viðtali og mig grunar að það geri öðrum gott. Hér er líka TED fyrirlestur frá henni (þoli oftast ekki TED fyrirlestra, en sumir eru ágætir, þar á meðal þessi). (KF.)

 

Bækur, 8. febrúar 2019

Fyrirfram hefði ég talið að Vernon Subutex, eftir Virginie Despentes, væri ansi ólíkleg metsölubók. Titilpersónan er 46 ára gamall náungi sem áður rak vinsæla plötubúð skammt frá Bastillunni í Parísarborg. Nú er plötubúðin (vitaskuld) löngu farin á hausinn og okkar maður búinn að selja allt frá sér til að eiga í sig og á, plötusafnið, myndasögur, plaköt, boli, hljóðfæri, íbúðin hans er tóm. Gamall vinur hans, rokkstjarnan Alex Breach, kemur Vernon til bjargar þegar plötusalinn heillum horfni getur ekki lengur staðið straum af húsaleigunni. En svo deyr Alex sviplega – og þar með hefur Vernon ekki lengur aðgang að digrum sjóðum rokkstjörnunnar. Brátt knýja harðsvíraðir innheimtumenn dyra og henda Vernon öfugum út af heimili sínu, og í kjölfarið flakkar hann á milli sófa hjá gömlum vinum (deilir meðal annars rúmi með nokkrum skrautlegum konum) en endar svo á götunni. Heimilislaus í París. Sá kvittur kemst á kreik að hann hafi undir höndum verðmæta þriggja klukkustunda upptöku sem Alex gerði eitt sinn heima hjá honum, uppskrúfaður á heróini, og ýmsir útsendarar eru því gerðir út af örkinni til að hafa hendur í hári Vernons. Persónugalleríið í bókunum (þetta er þríleikur) er ansi skrautlegt: háværar klámstjörnur, forhertir kvikmyndaframleiðendur, útbrunnir rokkararar, ofbeldisfullir eiginmenn, móðursjúkir áhættufjárfestar. Þá skjóta persónur úr fyrri verkum Despentes upp kollinum, svo sem Hýenan, sem áður starfaði sem einkaspæjari en er nú „internet-böðull“, þ.e. mannorðsmorðingi sem ráða má til að sverta stafræna ímynd óvina sinna á netinu. Despentes tekur á ýmsum brýnum samtímaþemum – „stingur á kaunum“ – og notar rokktónlistarþemað meðal annars til að benda á hversu kaldrifjaður og hugsjónalaus helvítis samtíminn er. Rokkið var hugsjón, leið til að gefa skít í stofnanir og staðlaða samfélagsgerð – en nú eru ekki til neinir rokkarar lengur. Allt er ímynd, dauðhreinsað útlit undir stjórn geldra aumingja í jakkafötum. Þá veitir hún merkilega naska innsýn i líf og huga heimilisleysingja og dregur fram í dagsljósið hversu fáir staðir finnast núorðið í stórborg á borð við París þar sem auralaust fólk má halda til án þess að neyðast til að kaupa eitthvað. Ég gæti skrifað langa ritgerð um þessar bækur en þarf núna að steikja pönnukökur handa eiginkonu minni og dóttur. Ég er ekki heimilislaus, hvað þá rokkstjarna – ég er það sem á frönsku kallast „un bobo“, þ.e. bourgeois-bohème, bóhem af burgeisastétt sem syplar vandað kaffi og borðar pönnukökur með lífrænni sultu. Tvær fyrstu bækurnar eru komnar út á ensku fyrir þá sem ekki lesa frönsku. Þessu ætti að snara yfir á íslensku, heyrið þið það, útgefendur? Gott dót. Mæli með. (SN.)

Sverrir sendi mér skeyti fyrir nokkrum dögum síðan þar sem hann sagði mér frá því að hann væri byrjaður að lesa bókina Straw Dogs eftir John Gray, uppáhalds hugsuðinn minn. Ég er ekki frá því að þetta sé ein besta bók sem ég hef lesið. Ég las hana fyrst, rétt rúmlega tvítugur, og minnist þess að hafa fengið nístandi höfuðverk þegar ég kláraði hana. Hún gjörsamlega umbylti heimsmynd minni og fékk mig til að hugsa margt, sem ég tók áður sem sjálfsögðum hlut, algjörlega upp á nýtt. Ég ákvað þess vegna að byrja að lesa hana aftur í vikunni, líklega í sjötta skiptið, og þótt áhrifin séu ekki alveg jafn sterk og í fyrsta skiptið kann ég að meta hana með öðruvísi hætti í dag. Ég var kominn nokkra kafla inn í bókina þegar ég sá hann vitna í taóisma, en þá sérstaklega í eitt af þremur höfuðpaurum þeirrar heimspekistefnu, Chuang Tzu. Þá mundi ég allt í einu að ég hafði keypt Bók Chuang Tzu, fyrir slysni, þegar ég ætlaði mér að kaupa enska útgáfu af Bókinni um veginn, sem er þekktasta rit taóismans. Ég varð eiginlega hálf svekktur þegar hún barst síðan til mín og ég lét hana safna ryki á bókahillunni minni þar til núna. Skil satt að segja ekki hvernig ég gat látið þetta meistaraverk í friði í öll þessi ár! Hún er djúp, skemmtileg, fyndin, alvarleg og einhvern veginn ótrúleg á sama tíma. Þetta er samansafn frásagna þessa skemmtilega manns og lærisveina hans um allt milli himins og jarðar. Enda þótt hann hafi verið uppi nokkur hundruð árum fyrir Krist eru hugmyndir hans merkilega viðeigandi í nútímalífi. Gott dæmi er t.d. þessi dæmisaga úr bókinni (sem er ensk þýðing á frumtextanum):
„Someone offered Chuang Tzu a court post. Chuang Tzu answered the messenger. ‘Sir, have you ever seen a sacrificial ox? It is decked in fine garments and fed on fresh grass and beans. However, when it is led into the Great Temple, even though it most earnestly might wish to be a simple calf again, it’s now impossible´.” Gott að hafa þetta viskukorn hugfast næst þegar manni er boðin stöðuhækkun.


Óskalistinn:

Komin er út á ensku ný bók eftir Roberto Bolaño – ég rak fyrir tilviljun augun í hana í bókabúð og undraðist mjög: The Spirit of Science Fiction. Bolaño ku hafa skrifað hana 31 árs gamall (hún er fyrst gefin út núna) og er þarna um að ræða eins konar prótótýpu Villingslegu spæjaranna, einnar þekktustu bókar Bolaño. Hér er gömul grein sem ég skrifaði á sínum tíma um Bolaño í tilefni þess að Ófeigur Sigurðsson gerði okkur þann greiða að þýða Amulet, aðra stutta skáldsögu eftir hann.

Þóra Hjörleifsddótir sendir frá sér sína fyrstu skáldsögu, Kviku. Kemur út 13. Feb. Hlakka til að lesa hana.

Þá sendir fyrrum ráðunautur Leslistans, Þorvaldur Sigurbjörn Helgason, frá sér fyrstu ljóðabók sína, Gangverk. Sú kemur (held ég) í búðir 14. feb. (SN.)

Ráðunautur Leslistans: Tyrfingur Tyrfingsson

Tyrfingur.SH

Tyrfingur er eitt þekktasta leikskáld þjóðarinnar, hefur meðal annars skrifað leikritin Bláskjár og Auglýsing ársins, og nú nýlega Kartöfluæturnar. Hann er búsettur í Amsterdam. Við skrifuðumst á yfir tveggja vikna skeið, ég sendi honum fyrst skeyti frá Mexíkó, síðar frá Parísarborg, og þó að við værum staddir fjarri fósturjörðinni bar hana oft á góma. Svör Tyrfings brugðust ekki væntingum. — Sverrir Norland

Kæri Tyrfingur, hjartans þakkir fyrir að ganga í ráðuneyti Leslistans. Eins og þú sérð þá er hér vítt til veggja, hátt til lofts, góður hljómur. Við skulum setjast hér á mitt sviðið, þú krækir hljóðnemanum í hálsmálið. Það þarf engum að koma á óvart að áskrifendur Leslistans fylla upp í sérhvert áhorfendasæti, en við hunsum græðgisleg augnatillit þeirra, einbeitum okkur að fyrirliggjandi verkefni dagsins — vígslunni í ráðuneytið.

Manstu eftir sterkri reynslu af skáldverki — í hvaða formi sem er — sem fékk þig til að skilja lífið, og skynja, á einhvern alveg nýjan hátt, helst þegar þú varst ennþá ungur og óharðnaður, blautur á bak við eyrun? Eða ertu 100% sjálfsprottinn höfundur?

Ég man að ég var í flugvél á leið til Flórída þegar mamma gaf mér Músina sem læðist eftir Guðberg Bergsson og að ég fór fyrst undir teppi og síðan inn á bað því að mér leið eins og ég væri orðinn glær og fólk sæi inn í mig og í gegnum mig. Eins og einhver hefði sest niður og skrifað bók um það hvernig ég hugsaði. Bókin læknaði mig af tegund af einmanakennd sem hefur aldrei komið aftur síðan. Og þegar ég kláraði bókina þá kom bara til mín: „Bíddu, má þetta?“ Og síðan þá hef ég alltaf heillast af listaverkum sem veita mér þá tilfinningu, svona smita mig af hugrekki sínu.

Svo eru það ekki síst sýningar sem kveiktu í mér. Koddamaðurinn eftir Martin McDonagh og Rambó 7 eftir Jón Atla í Þjóðleikhúsinu. Kvetch sem Stefán Jónsson setti up var alveg svona „bíddu, má þetta?“ sýning og síðan stuttu síðar byrja ég að lesa verk Söruh Kane. Bókin Edlhús eftir Banana Yoshimoto breytti líka öllu en ég veit samt aldrei hverju hún breytti. Ég var bara svona 18 eða 19 ára þegar ég sá fyrstu Thomas Ostermeier sýninguna mína í Schaubühne en þar er hann leikstjóri og leikhússtjóri. Og Vigdís Gríms var líka alltaf að lækna eitthvað í mér. En kóngurinn er og verður Jean Genet. Hann setur mann svona í „bíddu, má þetta“ gírinn en undir loks verksins er það eiginlega orðið að „nei, þetta ekki bara má, þetta verður af því að annars verður þú aldrei frjáls“.

Ég var í Manchester klúbbnum í Kópavogi þegar ég var átta ára. Klúbburinn var undir súð fyrir ofan bakarí einhvers staðar hjá Smiðjuvegi í Kópavogi og ég elskaði hann. Ég hafði engan áhuga á fótbolta en dýrkaði þessa glæsilegu iðnarmenn alla og sígó-ið og Thule dósirnar og hvernig þeir töluðu. Þeir nefnilega töluðu eiginlega ekki heldur bara hrópuðu eða muldruðu. Stæll á þeim. Ég hafði svipaðan áhuga á keilu í Mjódd, var oft þar með vinum mínum. Það var annar svona hliðarheimur. Maður þurfti að leigja keiluskó og var eitthvað að hnusa af þeim og svo voru þarna spilakassar og alltaf einhver keilumót. Þetta fannst mér æðislegt og hafði góð áhrif á mig.

Ég heyri höfundum oft hrósað fyrir einlægni. Einkum eru ungir höfundar bendlaðir við þetta hugtak. Stundum er einlægni jafnað saman við það þegar fólk er opinskátt um persónulega hagi sína, svo sem kynlífsvenjur, kvíðaköst eða eiturlyfjanotkun, fjármál eða félagslega hegðun, sjálfsefa, áhyggjur af framtíðinni og svo framvegis. Sem sagt: Einlægni er samofin, og jafnvel órjúfanleg, hinu einkalega — persónulega.

Annað dæmi: Kannski hlýst það af áralangri búsetu minni í Bandaríkjunum en það alsíðasta sem mig langar að heyra, þegar ég sný heim til Íslands, er einhver daufur endurómur af Atlanta-rappi sem krakkar í úthverfum Reykjavíkur hafa smyglað til landsins og baula yfir takta. Eins finnst mér ógnvænlegt þegar sömu krakkar — sem oftast eru á barnsaldri — hnoða saman byrjendalegum textum um djammið og uppskera samstundis hrós fyrir að „nota íslenskuna“ (eins og það eitt sér sé lofsvert). Auðvitað finnast undantekningar en mestanpartinn finnst mér þetta leiðinleg lágmenning. Börn að tala um óáhugaverða hluti á klaufalegan hátt. Einkum fer gauramenningin í taugarnar á mér. Karlrappari er einlægur með því að tala opinskátt um hvað hann sé mikill skíthæll. Og allur þessi kveðskapur um djammið (kannski eru fá yrkisefni ungum Reykvíkingum jafn nærtæk). En sem sagt: Orðið einlægni ber oft á góma í tengslum við þennan rappkveðskap íslenska ungmenna, og eins heyri ég börnin lýsa því yfir að þau séu einlæg (þegar þau rappa um líferni sitt sem t.d. menntskælingar).

En er þetta einlægni? Um daginn rakst ég á betri skilgreiningu á orðinu. Einlægni er fjarvera sjálfsins (e. absence of self-consciousness). Það finnst mér einmitt vera kjarni málsins. Það er fyrst þegar maður nær að ýta eigin áhyggjum og þráhyggjum út úr kollinum að maður nær að segja eitthvað satt — eitthvað einlægt. Alvöru. Unglingar og ungt fólk geta það að sjálfsögðu sjaldan — þau eru enn að finna út hver þau eru, og það er erfitt að slökkva á sjálfum sér ef maður veit ekki einu sinni hver maður er — og svo bætist við hið daglega skjáumhverfi okkar, allir einlægt skráðir inn undir nafni sem notendur í forritum. Það ýtir ekki beint undir fjarveru sjálfsins og sjálfhverfunnar. Hvað þá einlægni (að þurfa að safna lækum og hjörtum fyrir sínar einlægu yfirlýsingar).

Hvað finnst þér um þetta, hvað er einlægni? Þrífst hún í íslenskum samtímaskáldskap, á síðum bóka, á fjölum leikhúsanna, í íslenskri rapptónlist? Skiljum við hvað orðið þýðir? Dettur þér í hug einlægt bókmenntaverk? (Kannski Músin sem læðist — besta verk höfundar sem orkar sjaldan á mig sem einlægur í seinni tíð.)

Ég held að fólk rugli saman einlægni og væmni. Og gagnrýni og dómhörku (en það er annað mál). Einlægni er bara aðferð. Hún er kannski það að tjá sig án ásetnings, það er, án þess að ætla að ná einhverju fram. Það er ekki gott að hafa einlægni að markmiði.

Stundum er talað um einlægni og kaldhæðni sem andstæður en það er bull, þetta tvennt fer ákaflega vel saman, sérstaklega í leikhúsinu. Tjékov er einlægur og kaldhæðinn á sama tíma og fyrir vikið margræður. Þannig að maður þarf ekki að vera einlægur og svo þarf maður ekki að vera samkvæmur sjálfum sér í skáldskap eða eins og Walt Whitman lýsir í ljóðinu „Song of Myself“:

Do I contradict myself?
Very well then I contradict myself
(I am large, I contain multitudes).

Einlægur og kaldhæðinn á sama tíma.

En að baki allri einlægni og kaldhæðni og illsku og grimmd þarf að vera botnlaus ást. Ekki kærleikur heldur ást. Hrein ást án orða og tilfinningasemi. Og hún er auðvitað í öllum, svona að baki rembingi eða hvað sem maður kallar það. Hins vegar er það hlutverk áhorfandans eða lesandans að sjá ástina. Það er ekki höfundarins að sýna ástina, hann ætti frekar að reyna að fela hana ef eitthvað er. Að horfa í gegnum hrylling og sjá ástina honum að baki — það er ultimate kvíðalyfið.

Ég sé að margir heteró karlar og sumir hommar reyna að vera einlægir, setja upp svona einlægan svip og tala í einlægum tón og verða klígjulegir fyrir vikið. En ástæðan er samt sem áður skiljanleg. Þeir vilja líta út fyrir að vera hættulausir. Sumsé ekki hættulegir, það megi treysta þeim, ekki vondir heldur góðir vegna þess að þeir eru hræddir margir við myrkrið í sér. En það er auðvitað fátt óhuggulegra en dúllulegur strákur. Agalegt. En þeir eru að reyna að sannfæra sjálfan sig um að þeir séu ekki svona hrikalegir. Og þeir eru ekkert hrikalegir. Þeim bara líður þannig. Það er mikil sektarkennd í strákum. Sumir hafa kannski eitthvað potað í pjölluna á frænku sinni þegar þeir voru tíu ára og eru innst inni í rusli yfir því.

En ef ég ætti að nefna góðan íslenskan texta sem er einlægur þá myndi ég nefna höfundaverk Mikaels Torfasonar. Kannski af því að hann ætlar sér að vera heiðarlegur og þarf til þess að nota einlægni. Einlægni er því ekki markmið hjá Mikael heldur svona aukaafurð (e. byproduct).

Varðandi rappið. Ég veit ekkert um rapp en mér skilst að íslenskt rapp sé af frekar miklum gæðum. Mér finnst þeir einmitt ná því að vera einlægir og kaldhæðnir á sama tíma. En leikhúslistafólk hefur líka mikið umburðarlyndi gagnvart „vondum“ texta. Að baki mörgum af bestu sýningum sem ég hef séð liggja agalegir textar. Textar í mörgum ítölskum óperum eru skelfilegir (Tosca til dæmis). Librettóið af Tristan & Isolde á köflum mjög fallegt en aðallega heimskulegt. Ég finn yfirleitt fallegustu textana í 20. aldar óperum eins og (Ödipus eftir Enescu, Wozzeck eftir Alban Berg, Salóme eftir Strauss o.fl.)

Mér finnst íslenskt rapp kannski svolítið camp. Camp og þá meina ég skilgreininguna að camp sé þegar einhverjum mistekst að vera alvarlegur (e. failed seriousness). Og þau hafa hellings húmor fyrir sér. En textarnir hjá t.d. Rottweiler hundum voru mjög flottir og allt það gigg alveg til fyrirmyndar.

Ég, ólíkt þér, elska gauramenningu. Hún er erótísk og á hreyfingu. Síðustu ár hef ég fundið breytingu þar sem verið er að fella menningu homma inn í karlmennskuna — karlmenn eru að koma aftur saman með bromance og samtali um vináttu karla og bræðralag (mér finnst fólk ekki tala um annað). Síðan hefur verið góssentíð hjá mörgum hommum eftir Metoo þar sem heteró karlmenn hafa látið sig gossa í aðra herramenn í einhverri paranoju gagnvart kvenfólki. Þetta hefur verið veisla, sérstaklega fyrir kvenlegu strákana sem er oft strítt í hommaheimum. Og mínum gagnkynhneigðu karkyns vinum fjölgar og mér finnst karlmennskan vera að breytast og mildast.

En guð forði okkur frá væmninni!

Heyr, heyr. Ég strengdi þess áramótaheit að byrja aftur að borða kjöt. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að ég er orðinn svo þreyttur á þessari vegan-möndlumjólkur-ég-er-viðkvæmur-ungur-listamaður-í-stórborg-menningu sem virðist elta mig á röndum hvert sem ég er fer (New York, Reykjavík, París). Ofverndað hugsjónafólk breytir heiminum á kaffihúsum, með fartölvur, syplar haframjólkur-kaffi og maular kínóa. Ég held það sé vistvænna og áhugaverðara að borða það sem meikar sens á hverjum stað hverju sinni — og langa stundum í blóð. Hefurðu skoðun á því? Eiga allir listamenn að vera góðhjartaðar grænmetisætur? Eða ætti þá stundum að þyrsta í blóð?

Ég borða kjöt á hverjum einasta degi, stundum oft á dag. Það eykur serotóninframleiðslu og minnir mig á það að ég er, sama hvernig mér líður, efstur í fæðukeðjunni. Ofar hundum. Ofar dolphins.

Það er algengt að fólk rugli saman einstaklingsábyrgð og samfélagslegri ábyrgð. Samfélagið leysir stór vandamál. Ég leysi kannski eitthvað vandamál með teppið á stigaganginum. Ég sá einhvers staðar að nú er hægt að rækta steikina — það þarf sumsé ekki að drepa naut til þess að borða naut lengur. Svona nokkuð á háskólasamfélagið að græja með því að dæla peningum í vísindi sem minnka kjötframleiðslu. Og ég ætlast til þess. Því ég er bara einstaklingur, ekki heilt samfélag. Það er eiginlega botninn á einstaklingshyggjunni að gera sjálfan sig ábyrgan fyrir stöðu heimsins. „Það er svo mikil mengun að ég verð að flokka rusl og borða vegan“. Fólk fróar sér oft á því að taka ábyrgð á hlutum sem það ber enga ábyrgð á. Það beinir athyglinni frá þeim sjálfum og að öðrum.

Eitthvað hefur þetta líka að gera með forréttindi. Fólk er að reyna að minnka forréttindi sín, taka meira tillt til annarra. Dr. Cornel West, guðfræðingur sem lýsir sjálfur sér sem tjekóvskum, kristnum uppreisnarmanni, fékk ansi góða spurningu á fyrirlestri um daginn. Hvítur sláni spurði West hvernig maður gæti komist undan forréttindunum, hvernig maður skerðir eigin forréttindi? West var fljótur til svars. Maður gerir það ekki. Maður notar forréttindi sín til þess að beina hlutum áfram, í átt að hinu réttmæta. West marseraði við hlið Martin Luther King svo hann veit um hvað hann syngur. Ég tók þetta til mín.

En vegan fólkinu til varnar. Þarna hefur skapast samfélag sem vill heiminum gott og gagnrýnir ríkjandi kerfi. Eftir einhver árhundruð mun það þykja barbarískt að hafa borðað kjöt af lifandi skepnum. Hins vegar þurfa Íslendingar eins og annað lútherskt fólk alltaf að fara varlega. Trúarbrögðin sem samfélagið okkar byggir á sér eina aðalsögu. Hún er sú að Lúther neglir þarna á kaþólsku dyrnar einhverju plaggi og lýsir frati yfir kaþólska trú. Hann segir: „Þið haldið að þið séuð trúuð og góð, en þið eruð spillt og ógeðsleg, þið eruð bara svo siðlaus að þið sjáið það ekki“. Þetta er narratíva sem bergmálar gjarnan á íslandi: Þú heldur að þú sért góður gæi, en kemur í ljós að þú ert bara algjört ógeð. Og núna er fólk byrjað að beina þessari sögu inn á við: „Ég held að ég sé góður mömmustrákur, en innst inni er ég vondur“.

Ég tek stundum viðtöl við fólk þegar ég er að skrifa og mér brá rosalega í fyrra. Ég er að vinna verk núna, Helgi Þór rofnar, eftir að hafa talað við unga stráka. Og þeir lýsa þessu allir. Óttanum um að það komi í ljós að þeir séu ógeðsleg svín og allir fatti það. Og allir hræddir um að hafa óvart nauðgað.

Ég finn svo mikinn mun því ég hef búið í sex ár með kaþólikka. Og honum finnst allt svona bara uppnám og móðursýki. Hugsunin í kaþólskunni er stærri og hverfist um það að fólk geti fyrirgefið öðrum og sér. Eitt finnst mér segja svo mikið um þau trúarbrögð: Francis Bacon málaði stórkostlegar myndir af kardinálum sem líta út eins og djöfullinn. Málverkin eru óhugguleg og manni líður eins og kardinálinn á myndinni sé í raun og veru anti-kristur. Og maður spyr sig, hvers konar safn vogar að sýna mynd sem lætur kardinála líta út eins og andskotinn? Jú, listasafnið í Vatikaninu.

Í lútherskunni safnar maður upp synd og skömm — svona í einfölduðu máli. Hér í Amsterdam býr fólk við Kalvinisma sem er líka mótmælendatrú (hugsa sér að trúa á það að mótmæla öðrum trúarbrögðum). En hér hafa menn gert upp Kalvinismann betur og skynja hann í sér, sjá dómhörkuna sem bergmál af gömlum trúarbrögðum. Auðvitað er ég að einfalda og ég er hlynntur þjóðkirkjunni á Íslandi. Starfið er merkilegt og það veit allt fólk sem hefur gengið í gegnum sorg og leitað til kirkjunnar. Yngstu prestarnir gera held ég best. Og guðfræðin á Íslandi er ekki eins kreddufull og margt annað því að hún þarf alltaf að lifa með syndum kirkjunnar. Og það er kannski lykillinn hérna (margir hafa áður bent á þetta). Íslendingar elska sakleysi því Ísland er saklaus þjóð. Við kunnum ekki eins og t.d. Þjóðverjar að lifa með synd. Af því hlýst þessi botnlausa dómharka og hneykslunargirni. Það er alltaf verið að vernda sakleysið, hreinleikann eða sveindóminn/meydóminn.

Fólk skynjar líka landið núna alltaf utan frá. Ég hef aldrei séð í fréttum í Hollandi frétt um hvað einhver í útlöndum sagði um Holland. Venjulegir Íslendingar tala um ímynd landsins. Ég horfði um daginn á mjög góða vinkonu mína ljúga því upp í opið geðið á einhverjum Belga að: „Yes, I love elves, I talk to elves all the time.“ Hún var alveg einlæg.

Ég tala við álfa lon og don þegar ég er á Íslandi. Einu vitrænu íbúarnir þar og þó víðar væri leitað.

En nú er sólin að setjast. Himinninn er fjólublár. Öll Parísarborg er fjólublá! Fjólublá húsþök, er til nokkuð fallegra? Ég þurfti að gera hlé á skeytinu til þín til að stíga út á svalir og virða útsýnið fyrir mér í andakt. Heimurinn er ennþá magnaður. Og áðan, þegar ég sneri aftur heim í íbúð, heyrði ég í fuglum syngja svo glaðlega í portinu. Ég undra mig alltaf svo á því þegar ég heyri í dýrunum (öðrum dýrum en mannfólki) senda frá sér glaðleg og sterk hljóð. Ég held alltaf að þau séu öll horfin — útdauð. En nei, ekki enn! Ekki þetta fjólubláa fallega kvöld… Þau eru hér enn. Og ég elska þau.

Ég hef satt að segja verið svolítið þreyttur á list mannanna upp á síðkastið. Kannski bara séð of margar listasýningar, lesið of margar bækur, heyrt of mikið af tónlist. (Ég er svo gott sem hættur að hlusta á tónlist; þarfnast þagnarinnar.)

Býflugnabús-hugsunin: netið hefur frelsað marga en einnig helsað (sumar skoðanir eru bannaðar, fá ekki læk, fólk ritskoðar sig stöðugt o.s.frv. — ekki frjór jarðvegur fyrir list).

Sem sagt: Á vissan hátt lít ég svo á að við séum að ganga í gegnum vitsmunalega lægð á Vesturlöndum. Kannski er það bara bull. (Kannski er það bara ég sem er að ganga í gegnum vitsmunalega lægð.) Það er sannarlega nóg af gáfuðu, skapandi fólki úti um allt — en það er frekar umhverfið sem mér finnst ekki sérlega frjótt.

Hvað segir þú, hvaða höfundar vekja áhuga þinn þessa dagana, ef einhverjir eru? (Óháð miðli — bækur, leikhús, kvikmyndir, sjónvarp, útvarpsleikrit, tónlist, hvaðeina.) Lifum við fjörmikla tíma í vitsmunalífi og menningu? Langar þig að eggja hið fróðleiksþyrsta samfélags Leslistans til að kynna sér verk einhvers séní, sem gæti jafnvel vakið með okkur von, varpað birtu inn í framtíðina með hæfileikum sínum og innsæi?

Jú, margt flott í gangi í listum. Ég hef verið að lesa höfund sem heitir Vivian Gornick og er bandarískur bókmenntafræðingur og höfundur. Hún gefur rosalega mikið. Og ég var að klára syrpu þar sem ég las Jose Saramago, portúgalskan höfund, sem ég mæli með.

Síðan hef ég líka verið að lesa ritgerðir Gore Vidal, sem er nú reyndar dáinn. Hann segir um framúrstefnuleikhúsið: „Everything in the world is constantly changing, except the Avant Garde theater, which always remains exactly the same.“

Ég dýrka Rineke Dijkstra sem er hollenskur ljósmyndari, hún gefur svo mikið og sama má segja um aðra hollenska konu sem heitir Lily van der Stokker sem gerir myndlist sem hún kallar: „soft and cheesy“. Hér í Amsterdam er Ivo van Hove leikstjóri með sinn leikflokk Toneelgroep Amsterdam. Hann hefur unnið með sumum leikurum í yfir þrjátíu ár. Ég fylgist vel með þeim.

Þá eru nokkrir píanistar sem ég fylgist með og hljómsveitarstjórar sem ég reyni að heyra reglulega. Ég er hrifinn af þó nokkrum pólskum leikstjórum, þá kannski helst Krzysztof Warlikowski og fylgist með sviðsleikurum og -leikkonum ansi víða núorðið.

Ég bíð spenntur nýjustu bók Houellebecq og eftir að Ishiguro fékk Nóbelinn hef ég verið að lesa hann. Og svo mæli ég alltaf með leikritum Martin Crimp fyrir þá sem hann ekki þekkja.

Einu sinni, fyrir langa löngu, las ég viðtal við þig í einhverju dagblaði. Helvíti gott viðtal, minnir mig. Og þú sagðir svolítið sem hitti mig lóðbeint í höfuð- og hjartastað. Nefnilega um skrif — um hversu ómannlegt það væri að hjakka stöðugt í sama handritinu mánuðum ef ekki árum saman. „Spóla í eigin skít,“ ég man ekki hvernig þú orðaðir þetta, nákvæmlega. Bravó, hárrétt. Ritlistarkennarar og gáfnaljós í skrifbiblíum og á netinu predika ítrekað mikilvægi endurskrifa; fyrsta uppkast er aðeins grófur efniviður í næstu uppköst. Endurskrifa, endurskrifa. Ég vinn aldrei þannig og skil ekki hvað fólk á við. Maður sest niður og skrifar sögu. Voilá: hér er sagan komin. Þá segja leiðbeiningar: flott, nú áttu að endurskrifa. Hvernig þá? Ef ég byrja að endurskrifa söguna kemur bara út einhver önnur saga. Ég þoli ekki, og skil ekki, endurskrif. Mottóið hjá Cesar Aira, einum helsta andans bróður mínum (hef reyndar aldrei hitt hann) er flugið beint áfram (á spænsku, fuga hacia adelante): halda áfram að skrifa, ekki hjakka endalaust í sama textanum. Ég sæki mér styrk í hans aðferð (en skrifa reyndar sögur, ekki leikrit eins og þú). Hefurðu eitthvað að segja um þetta, hvernig er að skrifa leikrit, texta sem aðrir svo gæða lífi á sviði? Finnst þér gaman að endurskoða díalóg í tiltekinni senu þúsund sinnum, eða vinnurðu kannski alls ekki þannig?

Jú, það er ómannlegt að hjakka alltaf í sama handritinu en það neyðast leikskáld til að gera. En hins vegar má hjálpa sér með því að byrja ekkert að skrifa fyrr en maður er búinn að hugsa um verkið í marga mánuði eða ár. Þá er fyrsta uppkast mjög heillegt og ekki eins mikið hark og þegar maður vaknar einn góðan veðurdag og byrjar að skrifa upp úr þurru. Er einmitt í verkiinu Helgi Þór rofnar núna sem byrjaði bara sem skissa einn góðan veðurdag. Mikið helvíti. Henti því þrisvar. Mér finnst það samt það besta sem ég hef nokkurn tímann skrifað. Kannski af því að ég er búinn að velta hverjum einasta steini í heimi verksins. Og margir partar af mér komið að skriftunum. Það er klárað en ekki fullkomið (það eru andstæður). Og ég veit ekkert alveg hvað það þýðir en það fylgdi mér lengi og losaði mig við eitthvað. Ég vona að það eigi eftir að losa áhorfendur við eitthvað líka, ekki vitrænt heldur líkamlega. Þannig að ég skil við þetta verk í góðu.

Eitt finnst mér voðalega gaman sem höfundur og það er hvernig ég finn úthaldið aukast. Ég get setið lengur, farið oftar inn í verk, tekið meiri krítik frá dramatúrgum, leikstjórum og leikurum. Og ég er hættur að verða sár. Mikilvægt að muna að það er engin dygð að særast og móðgast.

Ég ákveð fyrirfram hvað gerist í leikriti, skrifa það í sundi. Og síðan hætti ég við allt saman og hvíli verkið og kem að því aftur seinna. Ég er samt aldrei að reyna að segja neitt með verkunum. Ég hef ekkert að segja. Giska svona eftir á: „Ég var kannski að meina þetta?“. Aðalatriðið er að ég gefi af mér í verkið eitthvað sem getur haft þýðingu fyrir annað fólk. Að textinn sé leið að merkingu, eða leið handan merkingar en ekki merkingin sjálf. Sjálfur fer ég svona úr einu í annað og finnst eitthvað en um leið og ég segi það upphátt verð ég ósammála því. Ég er til dæmis ósammála öllu sem ég hef sagt í þessu viðtali, og pínu svona þreyttur á mér og smá að vona að enginn lesi þetta.

Það lesa þetta mörg hundruð manns, kannski mörg þúsund. Því miður. En við erum ekki jafn þreytt á þér og þú (við þurfum ekki að vera þú).

Áhugavert samt: sjálfum finnst mér ég einmitt ekki vera ég þegar ég skrifa og tala — og skrifa og tala kannski einmitt til að fá hvíld frá sjálfum mér.

En afsakaðu þetta inngrip. Haltu áfram –

Svo safnar maður upp tækni. Það er til dæmis gott að taka rúnt á verkinu og taka út öll passíf svör. Orkan dvínar með passívri replikku.

Ég strögla líka svolítið við það að mér finnst ég búinn að koma öllu á blaðið en fólk skilur verkið ekki. Ég leyfi smá tíma að líða og sé að leikritið er fullt af hálfkláruðum hugsunum. Verkið er sumsé tilbúið í mér en er ekki komið yfir í Word-skjalið. Þá hef ég verið að skrifa í æsingi sem er bara flott. Þá þarf ég að fylla út í verkið en passa að tapa ekki æsingnum.

Og ég stútfylli verkin mín alltaf af einhverju klámi.

Hins vegar vinn ég ekki á hverjum degi. Ég tek rispur og langar pásur á milli þar sem ég tek bara nótur, fer í leikhús, bíó, óperu, á söfn og rífst við starfsfólkið í Vodafone um hulstur og annað. Tek inn til að geta gefið. Mér finnst þetta snúast um orkuflutning að það sé eitthvað á blaðinu sem leikari getur breytt í leiklist (núna er ég væminn). Og áhorfandi síðan þegið. Þannig á ég ekki í beinu sambandi við áhorfendur heldur við leikara.

Ég er ennþá svona að reyna að svara þessu sem ég sagði í þessu viðtali með að hjakka. Ég er bara ósammála mér. Ég lendi oft í þessu að fólk segir að ég hafi sagt eitthvað. Yfirleitt er það að ég sagði að einhver karlmaður liti út eins og lesbía en það er víst frávarp því ég er stundum svolítið lessulegur, sérstaklega þegar ég er nýkominn úr klippingu. Það er allt í lagi.

Ætli ég sé með þessu orðum ómeðvitað að reyna að sannfæra sjálfan mig um að verkið sé bara tilbúið, að ég megi slaka á. Slökum á.