Bækur, 16. nóvember 2018

Ég las loks King Kong Theory, eftir hina frönsku Virginie Despentes, sem gert hefur það gott að undanförnu með þríleiknum um Vernon Subutex. Despentes er magnaður höfundur, rödd hennar eins og elding. Í King Kong-kenningunni fjallar hún meðal annars um það þegar henni var nauðgað og skefur ekki utan af hlutunum. Mér finnst stimpillinn „skyldulesning“ oft kjánalegur, en set hann engu að síður á þessa bók. Eitt kraftmesta femínista-manífestó sem ég hef lesið. Fyrir þá sem ekki lesa frönsku: Bókin er til í vandaðri enskri þýðingu, sem gefin var út af The Feminist Press í New York, og hér má svo hlýða á Despentes í ágætu spjalli á alheimstungunni.

Dagur Hjartarson hefur gefið út nýja ljóðabók, Því miður. Þar snýr hann skemmtilega upp á kunnuglegar setningar sem iðulega óma í símsvörum fyrirtækja: Því miður eru allir þjónustufulltrúar okkar uppteknir… Höfundur hefur margt til síns máls um samskipti (eða samskiptaleysi) okkar í samtímanum, því miður.

Jón Ólafsson, tónlistarmaðurinn knái, hefur sent frá sér tvær sniðugar bækur, Sönglögin okkar og Vögguvísurnar okkar. Þar leynast laga- og vísnatextar, ásamt spilara með undirleik við lögin. Ég hef nýtt mér þennan spilara óspart og farið á kostum ásamt dóttur minni. Brjálað stuð, og stundum verið hringt á lögregluna í Queens. Bækurnar eru myndskreyttar á skemmtilega galgopalegan hátt af Úlfi Logason. Mæli mikið með þessum bókum fyrir söngelska foreldra sem vilja kenna börnunum sínum íslenska texta og halda uppi fjöri á síðkvöldum. (SN.)

Óskalisti Leslistans:

Hinn knái þýðandi, Sigurjón Björnsson, hefur sent frá sér aðra þýðingu á skáldsögu eftir franska meistarann Honoré de Balzak; Evgeníu Grandet. Ég las fyrri þýðingu Sigurjóns á annarri þekktri skáldsögu eftir Balzac, Föður Goríot, og einnig íslenskun hans á ævisögu Stefans Zweig um höfundinn franska. Báðar voru þær stórvel unnar, á ríku og auðugu máli. Hlakka til að næla mér í þessa. (SN.)

Ég hef séð mikið fjallað um nýja bók um Kaupþing eftir Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans. Bókin heitir Kaupthinking: Bankinn sem átti sjálfan sig og lofar ansi góðu miðað við það sem ég hef lesið og heyrt um hana. Hér er höfundurinn í viðtali í Silfrinu síðastliðna helgi.

Svo sá ég í Bókatíðindum minnst á þýðingu á bók eftir Arthur Koestler, Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki. Eftir smá gúggl sé ég reyndar að hún kom út í fyrra og skil ekki alveg hvernig sú útgáfa gat farið fram hjá mér. Koestler er einn af þessum höfundum sem maður hefur eins konar samviskubit yfir að hafa ánægju af, vegna þess hversu mikill hrotti hann var í daglegu lífi. Hann skrifaði tvær bækur sem eru á meðal bestu bóka sem ég hef lesið: Scum of the Earth og Darkness at Noon, sem er líklega hans þekktasta verk. (KF.)

Bækur, 9. nóvember 2018

„Viltu láta karlmann í bókinni þinni segja: Að vera faðir og eiginmaður mótaði mig og gaf lífi mínu tilgang og merkingu. Gerðu það fyrir mig, Hekla.“

Svo mælir Ísey, besta vinkona aðalpersónu Ungfrú Íslands, sem er nýjasta skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur. Ísey elur, rétt eins og Hekla, með sér skáldlega drauma en vegna barneigna og hversdagsanna gefst henni ekki færi á að þroska hæfileika sína. Hekla er á hinn bóginn staðráðin í að verða skáld, sama þótt samfélagið kæri sig ekki hætishót um gáfu hennar á því sviði. Hún flyst til Reykjavíkur í því skyni að verða rithöfundur – í rútunni bögglast hún við að lesa eitt samþykktasta meistaraverk tuttugustu aldar, Ulysses eftir einn samþykktasta karlsnilling 20. aldar, James Joyce, með stóra orðabók sér til handargagns – og síðar út í heim, til Danmerkur og loks suður á bóginn. Auður Ava hefur hér skrifað sitt Heimsljós. Hún snýr upp á dæmigerðar hugmyndir um kynin í bók sem er í senn léttleikandi og læsileg, en um leið full af áleitnum spurningum og hugmyndum.

Góður maður færði mér bók sem var utan seilingar minnar þegar hún kom út fyrir ári: Öfugsnáða eftir Braga Ólafsson. Ég las hana á flugvelli og svo aftur í flugvél. Þetta er ljóðabók, og ég var í skýjunum, bókstaflega, en einnig í óeiginlegri merkingu. Það er erfitt að umorða yrkisefni Braga – og kannski ekki hægt – en að vanda kemur þó Reykjavík fyrir og það hvernig við erum aldrei fyllilega ánægð með eigið hlutskipti. Ég tek sem dæmi ljóðið „Þögnina“. Þar hafa byggingarframkvæmdir aftrað ljóðmælanda (og fjölskyldu hans?) frá því að njóta útiveru í garðinum hjá sér sumarlangt, og svo þegar framkvæmdunum er loks lokið og hægt er að una sér að nýju í ró og næði úti í garði, er sumarið á enda. Sólin er ekki lengur eins hátt á lofti og tekið að glitta í haustið.

Önnur hrífandi ljóðabók: Nýlega komu út Reykjavíkurmyndir eftir Óskar Árna, safn ljóða hans og örsagna, og spannar þrjá áratugi. Ég hef lesið flestar bóka Óskars Árna sem dagsins litu ljós á 21. öldinni, en hreifst nú sérstaklega af fyrri hluta ferilsins, einkum og sér í lagi ljóðagerð hans frá níunda áratuginum. Í inngangsorðum að bókinni spyr Jón Kalman: „Ef Óskar væri tónlistarmaður … væri hann þá ekki munnhörpuleikari í blúshljómsveit, sem ætti það til að breytast í dreymna djasssveit?“

Og svo rúsínan í pylsuendanum. Nýlega barst mér í hendur jólagjöf sem lenti á vergangi – gríðarmikill doðrantur sem ég fékk að gjöf jólin 2016, en varð svo viðskila við á snotru kaffihúsi eða sóðalegum bar í miðbæ Reykjavíkur. Þetta er Jón lærði & náttúrurur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson, og hefur nú loks borist mér eftir miklum krókaleiðum; ég vafði hana strax úr gjafapappírnum, las hana í háloftunum – að vísu ekki alla; til þess hefði ég þurft að ferðast hringinn í kringum jörðina; bókin er um sjö hundruð síður – og ég finn að hún snertir einhvern streng í brjósti mér á hárréttum tíma. Verkið rekur ævi Jóns Guðmundssonar lærða (1574-1658), en höfundur heldur mörgum boltum á lofti og talar beint inn í samtíma okkar hvað snertir hugmyndir og samband okkar um og við náttúruna – og heimkynni okkar, jörðina. Dregin er upp mynd af hugmyndaheimi miðalda skömmu áður en heimssýn manna gjörbreytist:. „Leit að algildum lögmálum fyrir gangverk [náttúrunnar] varð til þess að vélræn hugsun náði yfirhöndinni. Hún bægði frá þeirri virðingu fyrir sköpunarverkinu sem fólst í lífrænni hugsun um náttúruna sem skynræna heild. Það gerðist samhliða upplýsingu, kapítalisma og iðnbyltingu. Náttúran varð smátt og smátt að hlutgerðu viðfangsefni, „auðlind“ sem mönnunum þótti óhætt að ráðskast með að vild.“ (25.) Í eftirspili segir Viðar svo: „Aldrei hefur velmegun manna verið meiri en nú, en sá árangur hefur náðst í krafti drottnunar á kostnað náttúrunnar. Hún slær til baka, vistkerfum hennra hefur verið raskað ótæpilega og loftslagsbreytingar, súrnun sjávar, mengun og ofnýting auðlinda ógna mannkyni.“ (661.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

Og bækurnar streyma í búðir; væntanlegar eru meðal annars þrjár frá Benedikt bókaútgáfu sem ég mun lesa; Ritgerð mín um sársaukann eftir Eirík Guðmundsson; Hið heilaga orð eftir Sigríði Hagalín; og svo eftir Ég hef séð svona áður eftir Friðgeir Einarsson, einn skemmtilegasta smásagnasmið landsins.

Þá hlakka ég til að lesa Hasim – götustrákur í Kalkútta og Reykjavík eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, sem vikið var að hér að ofan. Auglýsi eftir eyðieyju og nokkurra mánaða frítíma. (SN.)

Bækur, 2. nóvember 2018

Ég sá alveg frábæra sýningu um Bangsímon, merkilegt nokk, í The Museum of Fine Arts í Boston síðustu helgi. Þar var fjallað af næmi um dýpt um sköpunarstarf bæði rithöfundarins A.A. Milne og teiknarans E.H. Shephard – og einkum samstarf þeirra. Gömlu myndirnar eru einstakar (útþynnt útgáfa Disney fölnar í samanburði við upprunalegu teikningarnar) og í kjölfarið minntist ég hinna fínu þýðinga Guðmundar Andra Thorssonar á sögunum um Bangsímon. Þær komu út á afar vandaðri bók, með upprunalegu teikningunum, fyrir ekki svo ýkja löngu. Frábært lesefni fyrir þá sem vilja t.d. hafa gaman af því að lesa fyrir börnin sín.

Skömmu áður en ég yfirgaf Boston og hélt til Íslands, fékk ég bók að gjöf – frá höfundi verksins. Það er alltaf hættulegt að lesa bók eftir höfund sem maður hefur nú þegar í hávegum sem manneskju. Ég komst þó að raun um að slíkar áhyggjur voru óþarfar strax og ég opnaði The Animal Girl, eftir fjölskylduvin minn, John Fulton. Að gleyma sér í bók á meðan ferðast er um háloftin er alltaf yndislegt, og sögurnar í þessu safni eru skrifaðar af næmni, dýpt og tilfinningu, og sögupersónurnar sátu ljóslifandi við hliðina á mér í flugvélinni.

Þegar komið var til Reykjavíkur þyrsti mig auðvitað í að lesa nýjar bækur á íslensku. Ég varð mér úti um tvær splunkunýjar frá Partus Press. Sú fyrri, Krossfiskar, er önnur skáldsaga Jónas Reynis. Þar magnar höfundur upp afar sérstaka og svolítið drungalega stemningu, og ég leit ekki upp úr bókinni fyrr en tveimur klukkustundum síðar – hún er fljótlesin en sterk, og situr enn í mér.

Næst seildist ég í Kláða eftir Fríðu Ísberg. Það er smásagnasafn eftir höfund sem hefur afar mótaða og flotta rödd, og jafnframt einstakt lag á því að smjúga milli hugsanaheima ólíkra persóna. Það úir og grúir á svona Einmitt!-augnablikum í Kláða. Fríða fangar svo oft í orðanet einhverja stemningu eða einkenni á tíðarandandum sem maður kannast vel við en hefur kannski aldrei fært í orð sjálfur (eða að minnsta kosti ekki jafn vel). Þá hefur hún einstakt lag á að bregða upp eftirminnilegu myndmáli:

Esjan stóð hvít og róleg hinum megin við flóann. Með ljósbrúna flekki hér og þar. Eins og trygg og góð kýr. Einn stór vöðvi. Þung, sliguð belja. Þreytt til augnanna. Gott að faðma hana, leggja allan sinn þunga á hana. Láta hana bera sig hægt yfir gult engi. (137.)

Og ekki þarf að fletta lengi í bókinni til að finna aðra skemmtilega lýsingu:

Ég lá í sófanum og vandaði mig við að hugsa ekki um hluti sem létu mér líða illa. Það var svolítið eins og að halda kúlu inni á keilubraut. Ég var ekki góð í því. Þurfti alltaf hjálparvegg(138.)

Ekki get ég hins vegar mælt jafn mikið með Killing Commendatore, nýjustu skáldsögu Harukis Murakami. Mér hafa ekki fundist síðustu fjórar, fimm bækur hans skrifaðar af jafn miklum sjálfsaga og gömlu meistaraverkin – þessi er til dæmis alltof löng. Þrjátíu og sex ára listmálari, sem sérhæfir sig í portrettmyndum, flosnar upp úr hjónabandi sínu og lokar sig af í fjallasal á heimili frægs listamanns, Tomohiko Amada. Þar uppgötvar hann óþekkt málverk eftir Amada og hleypir af stað dularfullri atburðarás. Efniviðurinn er nokkuð skemmtilegur, en úrvinnslan hálf-kæruleysisleg. Til að mynda úir og grúir af endurtekningum. Hverri einustu kvenpersónu sem stígur til leiks er lýst samkvæmt sömu kunnuglegu Murakami-formúlunni: Flestir hefðu hikað við að lýsa henni sem beinlínis fallegri, andlitsdrættir hennar drógu alls ekki að sér athygli. Bókin byrjar skemmtilega, en um miðbikið verður frásögnin hálf-kjánaleg og svo heldur hún áfram út í hið óendanlega – rúmar sjö hundruð blaðsíður af endurunnum Murakami. Mér finnst svo sem alltaf gaman að lesa þennan frægasta samtímahöfund Japans, en gagnvart nýgræðingum mæli ég heldur með gömlu verkunum – nú, eða þessum fínu, nýju íslensku skáldsögum sem ég nefndi hér að ofan. (SN.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

Ég hlakka mikið til að lesa safnbók með úrvali úr bókum Óskars Árna, sem ber þann lýsandi titil Reykjavíkurmyndir.

David Zwirner galleríið gefur út litla bók eftir eftirlætishöfund minn, hinn argentíska Cesar Aira – sú fjallar um nútímalist.

Hægara pælt en kýlt eftir Magneu J. Matthíasdóttur er fjörutíu ára gömul skáldsaga sem ég hef aldrei lesið – og bók vikunnar á Rás 1 um þessar mundir. (SN.)

Ég sá að það er komin út ný þýðing á Víti eftir Dante, sem er myndskreytt af Ragnari Kjartanssyni. Virðist vera jólagjöfin í ár.

Fannst þessi umfjöllun hér um nýja bók um ris nýfrjálshyggjunnar býsna áhugaverð.

Svo rambaði ég á þessa nýju bók um trúarlegt ofstæki sem lítur út fyrir að vera djúpstæð lesning. (KF.)

Bækur, 26. október 2018

Mér barst í pósti Kambsmálið; engu gleymt, ekkert fyrirgefið eftir Jón Hjartarson, örstutt verk og fljótlesið, um hundrað síður. Efniviðurinn er dramatískur. Þann 4. Júní 1953 kemur hreppstjóri Árneshreps að bænum Kambi til að bjóða upp dánarbú föðurins, sem látist hafði fyrr á árinu. Húsmóðirin var þá á berklahælinu á Vífilsstöðum en heima fyrir aðeins börnin átta sem þar bjuggu, sjö til átján ára gömul. Framganga yfirvalda er kuldaleg. Hæstbjóðendum er selt allt sem nýtilegt þykir af búsmunum, og svo á að ráðstafa barnaskaranum á heimili í sveitinni eftir fornum reglum um sveitarómaga. Nema hvað, elsta barnið, átján ára heimasæta, stillir sér upp í útidyrunum og fyrirbýður að nokkurt systkina hennar verði tekið burt af heimilinu. Loks hunskast yfirvöld burt af bænum. Þau skilja börnin eftir í reiðileysi, bláfátæk og bjargarlaus. Höfundur hefur hér ratað á gott söguefni. Hann vísar í ýmsar heimildir og ræðir við eftirlifandi systkini til að grafa upp sannleikann að baki kaldlyndi fólksins í hreppnum gagnvart þessari ólánsömu fjölskyldu. Bókin er ágætlega rituð. Ljóður er þó hversu illa hún er prófarkalesin. Sumar villurnar eru afar einkennilegar; á blaðsíðum 25 og 26 kemur orðasambandið „að bjóða einhverjum birginn“ fyrir í tvígang – sem er, stíllega séð, kannski ekki til fyrirmyndar – og í fyrra skiptið er ritað „birginn“, en í það seinna „byrginn“. Svona mætti áfram telja. Þá er greinamerkjasetning í dálitlum ólestri. Mér finnst synd og skömm að ekki sé hægt að ganga betur frá jafn stuttri bók, ritstýra henni betur og prófarkalesa – það er lágmarksvirðing við lesandann – því að efniviðurinn er ágætur og ég þykist viss um að sagan hreyfi við mörgum. (SN.)

Ég fann á tilboði um daginn safn Italo Calvino af Ítölskum þjóðsögum í enskri þýðingu fyrir Kindilinn minn. Það er búið að vera frábært að grípa í þessar sögur við og við í símanum í stað þess að hanga á Twitter síðustu daga. Inngangur Calvino, sem fjallar að mörgu leyti almennt um þjóðsögur sem listform, er frábær. Hér er ein góð klausa úr honum sem ég staldraði við: “[F]olktales are real. Taken all together, they offer, in their oft-repeated and constantly varying examinations of human vicissitudes, a general explanation of life preserved in the slow ripening of rustic consciences; these folk stories are the catalog of the potential destinies of men and women, especially for that stage in life when destiny is formed, i.e., youth, beginning with birth, which itself often foreshadows the future; then the departure from home, and, finally, through the trials of growing up, the attainment of maturity and the proof of one’s humanity.”

Ég átti afmæli í síðustu viku og er svo heppinn að vera svo vel giftur að ég fékk þrjár bækur í afmælisgjöf frá eiginkonu minni. Ein þeirra heitir The Man who Created the Middle East  eftir Christopher Simon Sykes. Í henni fjallar Sykes um afa sinn, Sir Mark Sykes, sem undirritaði Sykes-Picot samkomulagið svokallaða sem margir telja sem upphafið að öllum vandræðum Mið-Austurlanda. Samkomulagið var á milli Breta og Frakka í kjölfar falls Ottóman-veldisins og snerist í stuttu máli um að skipta upp landssvæðum í Mið-Austurlöndum að því er virðist af hendingu og án aðkomu heimamanna. Í bókinni er dregin fram töluvert dýpri mynd af Sykes en flestir þekkja og persónu hans gerð mjög góð skil. Hann var mikill ævintýramaður og heimshornaflakkari sem hafði mikla þekkingu á og ástríðu fyrir Mið-Austurlöndum, þótt samkomulagið sem ber nafn hans gefi aðra mynd. Bókin er að mestu unnin upp úr bréfasafni Sykes og sýnir m.a. hvað hann var liðtækur teiknari, en bókin er skemmtilega myndskreytt. (KF.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

Kristín Svava Tómasdóttir, ljóðskáld og sagnfræðingur, sendir frá sér Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingar. Leslistinn hlakkar til að halla sér aftur í sófanum með þessa.

Eitt mesta núlifandi skáld okkar Íslendinga, Hannes Pétursson, sendir frá sér nýja ljóðabók, Haustsaugu. Það heyrir aldeilis til tíðinda. Síðasta útgefna ljóðabók Hannesar, Fyrir kvölddyrum, kom út árið 2006 og er að mínu viti á meðal betri verka skáldsins.

Haukur Ingvarsson hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár fyrir ljóðabókina Vistarverur. Í Bókaskápi Ástu birtist sýnishorn úr bókinni og ef marka má það er aldeilis um fínt verk hér að ræða. Og umfjöllunarefnið tímabært.

Hvert öndvegisskáldið á fætur öðru sendir frá sér ljóðabók um þessar mundir: Frá Sigurbjörgu Þrastardóttur er væntanleg ein sem nefnist Hryggdýr. (SN.)

Ég tók eftir því á Facebook að það er væntanleg útgáfa á ritsafni Dags Sigurðarsonar, ljóðskálds. Ég hef í sjálfu sér engar frekari upplýsingar um útgáfuna, en þekki vel til hans verka og er því spenntur fyrir henni. (KF.)

Bækur, 19. október 2018

Hvernig skrifar maður um hamfarir sem eru svo yfirþyrmandi að þær smætta einstaklinginn niður í ekki neitt? Það er merkilegt hversu fáar (vel heppnaðar) skáldsögur hafa verið samdar um stærsta málefni samtímans, loftslagsbreytingarnar. Besta bókin, sem reynir með einhverjum hætti að glíma við þessi mál og ratað hefur á mínar fjörur, er The Overstory eftir Richard Powers. Hún fjallar fyrst og síðast um tré. Um menn og tré; samband manna við tré; og hvernig trén hafa verið hér miklu lengur en við og hafa vitsmuna- og tilfinningalíf sem okkur er framandi, en er eflaust ekki síður margslungið og flókið. Þetta er doðrantur, og ég er einungis hálfnaður, en það er nokkuð síðan skáldsaga hefur heillað mig jafn rækilega. Strigi höfundarins er svo svimandi stór, og nóturnar sem hann slær spanna svo vítt tónsvið, að leitun er að öðru eins samtímaverki. Haldinn barnslegri tilhlökkun get ég ekki beðið eftir að hverfa aftur inn í hana og ég hugsa að ég láti það eftir mér … Það er komið miðnætti og ég sit hér við kertaljós … Hér skrifar Barbara Kingsolver um The Overstory í The New York Times. (SN.)

Ég forpantaði og fékk afhenda í vikunni bókina Stubborn Attachements eftir hagfræðinginn Tyler Cowen sem ég vék að í óskalistanum um daginn. Mér fannst alveg sérstaklega ánægjulegt að komast að því að Cowen skilar öllum ágóða af bókinni til manns sem hann hitti í Eþíópíu og dreymir um að stofna eigið ferðaþjónustufyrirtæki. Í örstuttu máli er bókin eins konar óður til hagvaxtar og í henni færir hann mjög sterk rök fyrir því að hagvöxtur sé driffjöður allra framfara heimsins og að við ættum að gera allt sem við getum til að efla og viðhalda honum. Bókin er töluvert dýpri en þú heldur – þetta er ekki bakþanki í Fréttablaðinu eftir einhvern SUS-ara – þetta er úthugsuð og virkilega vönduð bók sem fær mann til að hugsa. Ég er ekki búinn að klára hana, en hún er strax á fyrstu metrunum farin að sitja mikið eftir sig. Hér er höfundurinn í mjög löngu viðtali um bókina. (KF.)

 

Óskalisti Leslistans:

Þessa vikuna langar mig einungis í ljóðabækur.

Væntanleg er Að ljóði munt þú verða eftir Steinunni Sigurðardóttur. Síðasta ljóðabók hennar, Af ljóði ertu komin, var frábær og þetta eru því aldeilis fín tíðindi.

Dagur Hjartarson gefur út ljóðabókina Því miður. Hana má panta eins og pítsu. Síðasta bók dags, Heilaskurðaðgerðin, er í miklu uppáhaldi hjá Leslistanum.

Arngunnur Árnadóttur gefur út Ský til að gleyma, bók sem ég mun lesa.

Loks gefur Ragnar Axelsson út ljósmyndabókina Jökull, „ljóðabók í myndum,“ eins og höfundur lýsir henni sjálfur.

Fjórar ljóðabækur sem ég hlakka til að fá í hendurnar. (SN.)

Ég er búinn að heyra mikið um bókina Listamannalaun eftir Ólaf Gunnarsson sem fjallar um vini hans, listamennina Alfreð Flóka, Dag Sigurðarson og Steinar Sigurjónsson. Þetta eru allt listamenn sem ég hef haft áhuga á og vil lesa meira um og því er ég nokkuð viss um að ég útvegi mér þessari bók með einum eða öðrum hætti. (KF.)

Bækur, 12. október 2018

Heimsveldi rísa og hníga og nú virðist sem Bandaríkin séu að liðast í sundur. Sú er í hið minnsta tilfinning mín – hefur aukist mikið eftir að Trump komst til valda – og ég veit að ekki er ég einn um það. Í America: The Farewell Tour færir Chris Hedges rök fyrir því að Bandaríkin beri nú öll helstu einkenni deyjandi heimsveldis. Idíótarnir taka við stjórnartaumunum á lokadögum deyjandi siðmenningar, ritar hann. Fólk flýi í síauknum mæli inn í ímyndaða heima til að forðast að horfast í augu við veruleikann – símaskjái, kvalalosta, stríðsbrölt, haturskölt, vímuefni, klám. Höfundur skiptir bók sinni upp í sjö kafla: Hnignun, Heróín, Vinna, Sadismi, Hatur, Fjárhættuspil og Frelsi. Í þeim fyrsta vitnar hann í ýmsa góða menn, meðal annars Karl Marx, sem kannski hefur fengið uppreist æru á síðustu árum og reynst sannspár, eftir allt saman. Kapítalisminn er eldur: einn daginn hefur allt breyst í ösku. (Bókstaflega: Það er 11. október og ég hef aldrei upplifað jafn heitt haust í New York.) Kaflarnir, sem fjalla um vímuefnafaraldurinn, sem nú rænir hundruð Bandaríkjamanna lífinu daglega, og sadismann, meðal annars klámiðnaðinn, eru vægast sagt lýjandi lesning, og ég þurfti margsinnis að líta upp úr bókinni og taka mér hvíld. Undangengin sex þúsund ár hafa siðmenntuð samfélög í fyllingu tímans varpað velmegun sinni á glæ með geypilegri heimsku og drambi, ritar Hedges. Trump er aðeins andlit þess sem er að gerast: viðeigandi leiðtogi þessa fyrrum heimsveldis.

Hvað er ljóðlist? Því er vandsvarað, en ég ber kennsl á hana þegar hún ratar til mín. What Is Poetry? (Just Kidding, I Know You Know): Interviews from the Poetry Project Newsletter (1983-2009) er bók sem ég hef verið að lesa í smáskömmtum undanfarið árið. The Poetry Project hefur verið starfrækt í hálfa öld í St. Mark’s-kirkju á The Bowery, í New York, og tórir enn í miðri tortímingunni á Manhattan, starfsemi sem gægist eins og agnarlítið blóm upp úr sprengjurústunum. Í bókinni, sem gefin er út af hinu fína forlagi Wave Books, eru tekin saman viðtöl við fjöldamörg skáld sem viðriðin hafa verið The Poetry Project, meðal annars þekktustu nöfn New York-skólans svokallaða, svo sem Allen Ginsberg og Kenneth Koch, og einnig við yngri höfunda, svo sem Maggie Nelson og Eileen Myles. Góð bók til að grípa í yfir morgunkaffinu, á klósettinu eða í Greyhound-rútu sem stefnir inn í sólarlagið.

Las svo einnig Sorgarmarsinn eftir Gyrði Elíasson. Mjög fín. (Mun birta ritdóm um hana á Starafugli – meira síðar.) Höfundurinn ræddi um verk sitt í nýjustu Kiljunni. (SN.)
 

Óskalisti Leslistans:

Sá nýlega að Háskólaútgáfan var að að gefa út bók um hönnun Gísa B. Björnssonar sem er þekktur fyrir að hafa hannað mörg af flottustu lógó-um Íslands. Gaman að þetta sé til. (KF.)

Sögurnar berast enn heimshorna á milli, og nú er komið út safn með nokkrum vel völdum frá Asíu og Eyjaálfu.

Ég er mjög spenntur fyrir Dansað í Odessa eftir rússnesk-bandaríska skáldið Ilya Kaminsky. Sigurður heitinn Pálsson hóf þýðingarstarfið, og Sölvi Björn Sigurðsson lauk verkinu.

Rebecca Traister gefur út Good and Bad: The Revolutionary Power of Women’s Anger. Fjallar að stóru leyti um #MeToo-hreyfinguna. (SN.)

Bækur, 5. október 2018

Í ofannefndri bók Jill Lepore, These Truths, er að finna ýmislegt sem lesandinn staldrar við. Bókin, sem fjallar um sögu Bandaríkjanna, leyfir röddum, sem sjaldan fengu að heyrast í sagnfræðiritum fyrri tíma, að óma; undirokuðum hópum, svo sem innfæddum, Afríkubúum sem píndir voru í þrældóm, konum. Lýsingarnar eru átakanlegar; einkum þegar fjallað er um fólk sem slitið er upp frá heimkynnum sínum, læst niðri í skipslest og flutt þvert yfir hafið til annarrar heimsálfu. Margir misstu vitið, létust á leiðinni. Framarlega í bókinni ritar Lepore að á milli 1500-1800 hafi rúmlega tvær og hálf milljón Evrópubúa flust til Ameríku; landnemarnir fluttu með sér tólf milljón Afríkubúa í ánauð. Á sama tímabili dóu um það bil fimmtíu milljónir innfæddra (Native Americans), mest af völdum sjúkdóma sem innflytjendurnir fluttu með sér. Maður á erfitt með að ná utan um aðrar eins tölur.

Ljóðabækur vikunnar hjá mér eru því miður á ensku (ég hlakka til að komast yfir allar íslensku bækurnar sem eru að koma út): The Latest Winter og Something BrightThen Holes eftir Maggie Nelson. Ég hef áður fjallað um bók eftir hana, sannsöguna The Last Parts, en hafði ekki lesið ljóðin hennar fyrr. Hún hefur sterka og grípandi rödd og maður veit aldrei hvert förinni er heitið næst. Hér fjallar Hilton Als um höfundarverk hennar í The New Yorker.

Hakaði við klausu úr ritgerðasafninu Attention eftir Joshua Cohen (sem ég nefndi í síðustu viku): “If one of the barest necessities of fiction is keeping two characters apart for enough time for a misunderstanding to ensue–a misunderstanding that can be resolved only by the protagonists individually moving toward each other, and toward the book’s conclusion–cellphones, now “smartphones,” have become the chief antagonists of fiction.” Þetta rifjaði upp fyrir mér nokkuð sem Bret Easton Ellis lét hafa eftir sér í viðtali við The Paris Review; að ef fyrsta skáldsagan hans, Less Than Zero, hefði verið rituð eftir að allir eignuðust farsíma, hefði sagan varla slefað upp í tuttugu blaðsíður. “There’s a long stretch in the book where Clay is driving around looking for Julian, stopping off at friends’ houses to use their phones. He even stops in at a McDonald’s to use a pay phone. But people can find each other very easily now. A single text—‘Dude, where the f–k are you? I want my money’—would take care of three-fourths of the action in the book.”

Að lokum – heimspeki. Það liggur í hlutarins eðli að bók sem þessi á sér enga von, ritar Eugene Thacker í inngangsorðum að Infinite Resignation(Takmarkalaus undirgefni), bók sem fjallar um pessímisma sem heimspekistefnu. Thacker virðist finna vissa hugsvölun í því að gefa sig bölsýninni algjörlega á vald – hann hefur einnig sent frá sér bækur um loftslagsbreytingar, útrýmingu dýra, hryllingssögur (sem sagt eldhress gaur) – og reyna, eða reyna ekki, að klæða bölsýnina í búning heilsteyptrar heimspekistefnu. En svartsýnn maður veit að það verkefni að rita bók um svartsýni er dauðadæmt frá fyrstu stundu. Bókin er skrifuð í stuttum brotum, sumar hugleiðinganna aðeins ein setning, og fyrir vikið hefur bókin yfir sér svipbragð dagbókar. Mér þykir afar vænt um að þessi bók sé til, og gríp reglulega niður í hana. Thacker vitnar í þekkta heimspekinga (Nietsche, Kierkegaard, Pascal) en notar einnig brot úr eigin hversdagslífi. Til að slá tóninn: Í einni dagbókarfærslunni situr hann á kaffihúsi með espressó og minnisbók. Loksins, loksins, friður til að hugsa! Nema hvað, um leið og rósemdarstundin mikla er runnin upp (sem hann hefur hlakkað til alla vikuna), tekur hann að harma að nú sé hún brátt á enda. Kaffið, svo sjóðheitt og hressandi, er strax tekið að kólna. Hann skrifar nokkrar línur í minnisbókina sína … og hvað svo? Þarf hann nú að skrifa fleiri línur? Og svo ennþá fleiri línur? Til hvers? Að lokum getur hann ekki hætt að hugsa um allt hitt sem hann þarf að gera – kaupa í matinn, svara tölvupóstum, sækja föt í hreinsun – og stundin dýrmæta er ónýt. Kaffið er orðið kalt, og í minnisbókinni bara eitthvert illa skrifað krot. Allt er vonlaust. Ef þér hugnast að lesa bók um svartsýni – og finnst slíkt jafnvel uppörvandi og skemmtilegt – þá mæli ég eindregið með þessari. (SN.)

 

Óskalisti Leslistans:

Michael Lewis, höfundur Moneyball, Big Short, Liars Poker og fleiri góðra bóka var að gefa út nýja bók í vikunni. Mér hafa fundist allar bækur sem ég hef lesið eftir hann skemmtilegar þannig að ég geri ráð fyrir að þessi verði góð. Í henni fjallar hann um stjórnarskiptin frá Obama til Trump og ýjar greinilega að því að ýmislegt hefði mátt betur fara. Hér er nýlegt viðtal við hann þar sem hann ræðir bókina.

Stjörnufjárfestirinn Howard Marks var að senda frá sér nýja bók á dögunum þar sem hann ræðir leyndardóminn á bak við fjárfestingarspeki sína. Bókin heitirMastering the Market Cycles og lofar góðu. Ég hef lengi fylgst með minnispunktum sem hann sendir reglulega út þar sem hann fjallar um viðskipti og fjárfestingar á mannamáli. Allir sem hafa áhuga á slíku ættu að gerast áskrifendur að fréttabréfinu hans.

Mér finnst ný bók Guðrúnar Nordal, Skiptidagar, virka mjög spennandi og er vís til að lesa hana. Hér er brot úr kynningartexta: „Skiptidagar er persónulegt ferðalag höfundar um sögu Íslands og bókmenntir allt frá landnámi til okkar daga. Þar er spurt hvaða lærdóm við getum dregið af frásögnum aldanna um okkur sjálf og hvernig við getum miðlað þeim á nýrri öld. Höfundur leggur áherslu á sögur kvenna á öllum tímum og sækir alltaf samanburð til nútímans til að sýna að sagan er ein og allt tengist.“

Robert Greene, höfundur 48 Laws of Power var að klára nýja bók sem er væntanleg í verslanir hvað úr hverju. Hún lítur út fyrir að vera mjög forvitnileg. (KF.)